Undrun og efi

Undrun og efi

Hversu gaman er það að leyfa sér að fyllast undrun yfir þeirri staðreynd að hér er ljós, land og haf, stjörnur á himni og jörð undir fótum, fólk til að tala við og hugur sem brýtur hlekki tíma og rúms í endalausum hugsunum? Já, hversu gaman að gera furðað sig á því að eitthvað er til frekar en ekki neitt?

Af hverju er eitthvað frekar en ekki neitt?

Spurningarunur

Ég man þegar ég heyrði þessa spurningu í fyrsta skiptið. Það var í háskólanum, fljótlega eftir að ég komst í kynni við það skemmtilega fag heimspekina. Spurningin er víst dæmigerð fyrir þær sem heimspekingar spyrja og auðvitað erum við öll heimspekingar hvert á sinn hátt. Við brjótum heila og hug um heiminn sem við erum hluti af, og spyrjum stundum undarlegra spurninga. Frá því börnin byrja að geta talað og skynja heiminn í kringum sig fara það að stunda þessa iðju. Við prestarnir fáum oft frábærar spurningar og vangaveltur úr þeirri átt og skömmumst okkar ekkert þótt við höfum ekki alltaf svörin á reiðum höndum.

Já, hvernig getum við annars svarað þessari spurningu? Er það hægt? Mig minnir það hafi verið heimspekingurinn Heidegger, sérvitur og stórfróður Þjóðverji sem ígrundaði einmitt sjálfa tilvistina sem sagði það vera stærsta hneyksli heimspekinnar að hafa aldrei getað svarað þessari spurningu. Einn kollegi hans sagði það skandal að hún skyldi yfir höfuð hafa verið borin upp!

Víst er hægt að spyrja of margs svo niðurstöður fást aldrei. Hver hefur ekki staðið í samtali við barn sem spyr í sífellu „af hverju“? Í fyrstu er það skemmtilegt en svo þegar orðunum er skeytt framan við hvert svar þá kárnar gamanið. „Af hverju förum við í skóla?“ Til að læra – „af hverju þurfum við að læra?“ – til að vita meira, „Af hverju þurfum við að vita meira?“ Hættu að spyrja svona!

En þessi spurningaruna er engu að síður lýsandi fyrir leit mannsins að svörum og tilgangi. Ekki bara við hinum stærstu spurningum heldur öllum öðrum líka. Af hverju er þetta en ekki hitt? Af hverju er eitthvað frekar en ekki neitt? Hversu gaman er það að leyfa sér að fyllast undrun yfir þeirri staðreynd að hér er ljós, land og haf, stjörnur á himni og jörð undir fótum, fólk til að tala við og hugur sem brýtur hlekki tíma og rúms í endalausum hugsunum? Já, hversu gaman að gera furðað sig á því að eitthvað er til frekar en ekki neitt?

Undrun og efi

Um leið og við hættum að spyrja svona þá glötum við tveimur mikilvægum þáttum í eðli okkar, sem eru um leið forsenda fyrir því að við lærum meira og þroskumst. Hið fyrra er furðan og hið síðara er sjálfur efinn.

Þetta tvennt er mér hugleikið á þessum Drottins degi, Kristniboðsdeginum. Furðan og efinn eru náskyld og hafa ekki bara mikið að segja fyrir vöxt mannsanda og heimspeki, þau eru líka nátengd guðspjalli sjálfs Kristniboðsdagsins.

Guðspjallið sem hér var lesið er sjálf kristniboðsskipunin. Þetta eru niðurlagsorð Mattheusarguðspjalls og þar flytur Jesús kveðju til lærisveina sinna áður en hann yfirgefur þá. Orðin eru lesin þegar við skírum börn og þau hafa sannarlega mikið gildi því þar boðar Kristur okkur að skíra hvern einstakling til trúar. Við tölum gjarnan um þennan atburð í fermingarfræðslunni. Auðvitað er stórmerkilegt að Jesús skyldi hafa gefið lærisveinum sínum þennan valkost. Það sætir raunar furðu að hópur sá sem saman var kominn á fjallinu skyldi fá þetta ótrúlega og tröllaukna verkefni að kristna allar þjóðir.

Hugsið ykkur hversu makalaust það væri ef við værum með fótboltalið sem hefði ítrekað tapað og mórallinn í liðinu hefði á löngum tímum verið afar lítill – ef þessir ellefu leikmenn fengju það verkefni að kenna öllum heiminum fótbolta. Þeir voru ekki fleiri en ellefu lærisveinar Krists sem fengu þessi boð – að gera allar þjóðir að lærisveinum. Þeir voru þar að auki eins og fulltrúar okkar sem fyllum kristna kirkju, breyskir, mannlegir, oft hræddir og hikandi, stóðu því miður ekki alltaf við sín stóru orð og ítrekað misskildu þeir það sem meistari þeirra og frelsari sagði þeim og sýndi. ,,Af hverju okkur?" gætu þeir hafa spurt. ,,Höfum við ekki fallið á hverju prófinu á fætur öðru? Sváfum við ekki í grasagarðinum? Afneituðum við ekki Kristi? Flúðum við ekki af hólmi þegar svartnætti föstudagsins langa helltist yfir? Og þú felur okkur þetta hlutverk?"

Já, víst sætir það furðu.

Efinn á sér líka sinn stað í guðspjalli dagsins, því eins og til að undirstrika það að þetta knattspyrnulið kristninnar, þessir ellefu mistæku leikmenn, voru í sjálfu sér engan veginn búnir undir verkefnið – þá tekur guðspjallamaðurinn það skýrt og skorinort fram, að margir þeirra efuðust. Þeir efuðust enn, jafnvel þótt þeir hefðu séð atburðina eigin augum og jafnvel þótt heimurinn hefði birst þeim með gerólíkum hætti því sem áður hafði verið þegar lífið gekk sinn vanagang við fiskveiðar, tollheimtu og aðra þá iðju sem þeir stunduðu.

Boðandi efasemdamenn

Kristin trú á rætur að rekja til þessara furðu lostnu efasemdamanna sem fóru um hinn þekkta heim, fátækir og vopnlausir, á ilskónum sínum og með alla sína bresti og breyskleika – og sögðu frá. Já, þeir sögðu frá því sem hafði vakið þeim furðu og undrun. Þeir sögðu frá því hvernig Jesús læknaði og líknaði, hvernig hann braut niður múra kynþátta, kynja, ætternis, ríkidæmis, félagslegrar stöðu og jafnvel trúarbragða og sýndi fram á það með orðum sínum og verkum að við erum svo óendanlega dýrmæt í augum Guðs.

Hann sýndi fram á að ofar öllum flokkadráttum vakir hinn kærleiksríki Guð sem gaf sjálfan son sinn til þess að við öll mættum verða hólpin. Og þessi mikli máttur er ekki hafinn yfir það sem jarðneskt er. Hér á jörðinni mætir hann okkur í Jesú Kristi. Hann talar til okkar og gengur með okkur í gegnum lífið. Ber okkur á örmum sínum sem þegar gangan verður okkur um megn. Jafnvel þegar efasemdirnar sækja að okkur eins og þær gera á öllum stundum þá er hann okkur nærri. Það sýnir okkur traustið sem hann bar til lærisveina sinna og það ótrúlega kraftaverk sem þeir unnu, fylltir heilögum anda, þegar þeir raunverulega fóru bæ úr bæ, borg úr borg, og fluttu fólki tíðindin gleðilegu, sjálft fagnaðarerindið.

Já, af hverju er eitthvað frekar en ekki neitt? Því svarar kristnir menn með vísan til þess að heimurinn er sköpun Guðs og Guð elskar þennan heim og okkur sem í honum eru. Af hverju höfum við fengið tíðindin um þetta? Jú, vegna þess að hinir mistæku efasemdarmenn, lærisveinarnir fóru af stað með sjálft undrið í farteskinu að Jesús Kristur sé með okkur alla daga allt til enda veraldar - allt til þess þegar ekkert er lengur til.

Á meðan eitthvað er til þá er hann á meðal okkar og það er sá fjársjóður sem okkur er gefinn. Enn miðlum við þeirri undursamlegu fregn til allra þjóða svo að heimurinn allur megi njóta ávaxta fagnaðarerindisins.