Jörðin lætur laust

Jörðin lætur laust

Í næstum eitt og hálft ár hefur umræðan um efnahagshrunið tekið hug okkar allan. Við höfum upplifað langt tímabil, mjög langt, einskonar fimmhundruðfaldan föstudaginn langa. En þá gerist atburður sem breytir öllu. Jörðin opnast og eldur brýst fram, eldtungurnar lýsa upp himininn og fólk flykkist svo þúsundum skiptir til að virða fyrir sér undrið.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
02. apríl 2010
Flokkar

Prédikun páskadags sem hægt er að lesa hér fyrir neðan. Einnig er hægt að hlusta á ræðuna með því að smella á þennan tengil.

Í næstum eitt og hálft ár hefur umræðan um efnahagshrunið tekið hug okkar allan. Við höfum upplifað langt tímabil, mjög langt, einskonar fimmhundruðfaldan föstudaginn langa.

En þá gerist atburður sem breytir öllu. Jörðin opnast og eldur brýst fram, eldtungurnar lýsa upp himininn og fólk flykkist svo þúsundum skiptir til að virða fyrir sér undrið.

Gat einhver séð fyrir atburðarás sem tæki hug okkar frá hruninu í einu vetfangi? Varla. En svona geta aðstæður breyst eins og hendi sé veifað. Gosið, sem annars er dauðans alvara, færir okkur blessun, a.m.k. enn sem komið er á meðan það verður ekki meira en sjónarspil fyrir forvitna ferðalanga.

Forðum á föstudaginn langa var fólk sem stóð Jesú næst niðurbrotið og örvæntingarfullt. Allt var hrunið. Allt virtist hafa verið unnið fyrir gíg. Dagurinn var myrkur og dapurlegur. Veröldin var vond. Myrkrið réð ríkjum. Angist og kvöl setti svip sinn á þennan dag í Jerúsalem hjá þeim sem átt höfðu marga gleðilega daga með einstökum manni. Nú var runninn upp ömurlegur dagur, sem enginn hafði vænst, enginn vildi upplifa og allir vildu að væri bara vondur draumur og blekking – laaaaaangur föstudagur.

En svo gerðust tíðindi, stórtíðindi.

Þrjár konur á ferð í morgunsárið. Þær vissu ekki að jörðin hafði opnast. Jörðin hafði opnast á friðsælan hátt án bráðins bergs og eiturgufa og látið lausan látinn mann í fyrsta sinn í veraldarsögunni.

Þess vegna syngur kristin kirkja um veröld víða á þessum degi:

„Þetta er sá dagur sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum.“ (Sl 118.24)

Við fögnum hér í dag á degi allra daga. Þetta er dagur vonar, dagur nýrrar framtíðar, dagur lausnar og eilífrar gleði.

Þegar sólin reis upp yfir Jerúsalem þenna morgunn gat engan rennt í grun hvað í vændum var, jafnvel þótt Jesús hefði sagst rísa upp á þriðja degi. Hver gat trúað slíku? Var það ekki bara eins og hvert annað aprílgabb? Hann sagði svo margt sem vakti furðu fólks og erfitt reyndist að trúa á.

Konurnar gengu að gröfinni að morgni páskadags. Þetta var ósköp venjulegur vinnudagur, fyrsti dagur vikunnar, dagurinn í kjölfar hvíldardags Gyðinga, vinnudagur að lokinni hvíld. Konurnar höfðu ekkert annað í hyggju en að veita hinum látna meistara verðuga þjónustu og smyrja lík hans. Hann hafði verið lagður í gröf á föstudagskvöldi áður en hvíldardagurinn gekk í garð. Eftir að sólin hafði sest á föstudaginn langa, til sólseturs á laugardag, mátti ekkert aðhafast. En þegar hvíldardagurinn var liðinn, á laugardagskvöldi þegar verslanir höfðu verið opnaðar á ný, fóru þær væntanlega og keyptu ilmsmyrsl. Þær vissu hvað í vændum var. Dauðinn var daglegt brauð þá sem nú og konur vissu samkvæmt hefðinni hvað gera bar í hinsta sinn við látinn mann. Þær fóru af stað í rökkrinu fyrir dögun. Fyrstu sólargeislarnir lýstu upp himininn í austri þegar þær nálguðust gröfina sem Jósef frá Arímaþeu hafði keypt handa vini þeirra. Þetta var gröf ríks manns eins og sagt hafði verið fyrir um í fornum textum. Konurnar höfðu áhyggjur af steininum stóra sem velt hafði verið fyrir grafarmunnann. Skyldu þær geta velt honum frá? Kannski mundu þær hitta einhvern í garðinum sem gæti rétt þeim hjálparhönd? Algengt var að fyrir gröf væri steinn sem líktist hverfisteini, kringlóttur steinn sem hægt var að velta til hliðar. Þegar þær komu að gröfinni hafði steininum verið velt frá. Hvað hafði gerst? Hafði einhver fjarlægt líkið? Verðirnir voru farnir sem Pílatus hafði skaffað eftir að æðstu prestarnir og farísearnir höfðu sagt:

„Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“

En þarna voru engin svik í tafli. Þennan nýja morgunn kom í ljós að ekkert hafði getað stöðvað verk Skaparans þegar hann fullkomnaði verk sitt og lagði dauðann sjálfann að velli, engir verðir, enginn valdamaður, enginn steinn, ekkert gat stöðvað það undur sem Guð gerði fyrir sköpun sína.

Konurnar sáu þar ungan mann sem færði þeim fréttina miklu, gleðitíðindin stóru:

„Hann er upp risinn, hann er ekki hér.“

Þær urðu forviða og hlupu á brott, skunduðu til baka og leituðu uppi lærisveinana sem höfðu farið huldu höfði. Og þær fundu þá og fluttu fregnina mestu, en þeir trúðu ekki orðum þeirra. Hver gat trúað slíku? Það var of ótrúlegt til að geta verið satt. En það var satt! Hinir efagjörnu lærisveinar stóðu nú frammi fyrir nýrri, ófrávíkjanlegri, staðreynd:

„Drottinn er sannarlega upprisinn!“

Guð hafði gripið inn í atburðarás tilverunnar á undursamlegan hátt og yfirþyrmandi. Aldrei fyrr hafði nokkuð af þessu tagi átt sér stað á jörðu. Lífið allt, tilveran öll, hafði umbreyst í innsta grunni. Upp var runninn nýr tími, algjör skil í tilverunni höfðu átt sér stað. Nýr möguleiki stóð mannkyni nú til boða í fyrsta sinn í sögu heimsins. Nú hafði Guð afhjúpað leyndardóm krossins og aðdraganda krossdauða Jesú. Nú gát fylgjendur hans skilið allt og séð í réttu ljósi. Já, það var þetta sem hann átti við þegar hann var með okkur og við gátum ekki skilið hann eða trúð þeim furðulegu fullyrðingum sem hann flutti okkur. Nú skildu þeir hvað hann átti við í loftstofunni þegar hann umskapaði páskamáltíðina og sagði:

Þetta er líkami minn, þetta er blóð mitt.

Nú skildu þeir að héðan í frá myndu þeir minnast hans í helgri máltíð og finna kraftinn af brauði og víni, finna kraft Guðs snerta tungu sína og fara um líkama sinn með upprisumátt himinsins í sér fólginn. Nú skildu þeir orð sálmsins sem þeir höfðu sungið:

„Þetta er sá dagur sem Drottinn gerði.“

Við þökkum Guði fyrir að mega upplifa þennan gleðidag og fá að fagna upprisu Krists með bræðrum og systrum sem koma saman í dag um allan heim. Þetta er gleðidagur, dagur hans sem sagið:

„Ég lifi og þér munuð lifa.“

Já, við munum lifa og ástvinir okkar sem horfnir eru munu líka lifa í Honum sem reis upp á páskum. Þetta er gleðidagurinn mikli! Fögnum og verum glöð á honum.

Hver gat séð fyrir atburð sem breytti öllu, breytti myrkri hins langa frjádags í skæra páskabirtu? Enginn nema Guð. Hann veit að til er leið út úr öllu myrki og sorta, út úr hruninni veröld, aðstæðum sorgar og missis. Leiðin liggur í fótspor Jesú sem breytti þessari veröld til góðs.

Með hvaða hætti getum við breitt út þennan boðskap lífsins, þenna boðskap gleði og fagnaðar? Við getum það með því að biðja fyrir öðrum, með því að segja frá okkar eigin trú og trausti til Guðs, með því að kenna börnum okkar að tilbiðja Jesú, barnabörnum okkar og samferðafólki öllu. Við gerum það með því að flytja fréttina miklu frá kynslóð til kynslóðar.

Leið Íslands út úr hruninni tilveru er ekki hin gamla leið endurtekningar og sömu mistaka, heldur leið upprisunnar, sem er og verður, eins og forðum, leið þjáningar, leið krossins, sem ætíð mun liggja um kalda gröf og þaðan inn í yl páskasólar.

Kristin trú boðar leið út úr vítahring sífelldrar endurtekningar. Hún vísar veginn fram til betri tíma, nýrrar tilveru. Fyrir orð hinna fyrstu votta sem sáu Jesú upprisinn trúum við sem nú lifum. Þau sem heyrðu hann mæla, átu og drukku með honum, snertu líkama hans, fundu gleði himinsins geisla frá honum, sögðu frá undrinu og við sem trúum á 21. öld, hvar sem er í heiminum, byggjum trú okkar á vitnisburði þeirra. Og postulinn huggaði sína samtíð sem hafði misst og sagði:

„Ekki vil ég, systkin, láta ykkur vera ókunnugt um þau sem sofnuð eru, til þess að þið séuð ekki hrygg eins og hin sem ekki eiga von. Því að ef við trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þau sem sofnuð eru.“ (I Þess 4.13-14)

Við eigum mikið í vændum. Við eru fólk vonarinnar, fólk sem hefur fengið að heyra um leiðina einu sem fær er út úr gröf og dauðans ríki. Við erum gæfufólk. Og Guð er með okku í öllum aðstæðum. Við kunnum að þurfa að fara um dimman dal – jafnvel oft og mörgum sinnum – en Drottinn, hirðirinn góði, er og verður með okkur þar á sama hátt og hann er hér í gleði páskanna því ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs í Kristi (Rm 8.31nn).

Jörð opnast og eldur gýs. Mold rofnar og blóm vakna af dvala. Gröf veltir af sér grjóti og lætur lífið laust. Undur og stórmerki hafa gerst og við eigum öll nýja von um nýja tilvist, hér og nú og um eilífð alla.

Gleðilega páskahátíð!

Kristur er upprisinn!

Kristur er sannarlega upprisinn!

Amen.