Ljótasta orðið

Ljótasta orðið

Þetta gæti verið eitt af þeim orðum sem okkur fellur síst í geð. En reyndar er hér ekki flagð undir fögru skinni. Nei „hræsnin“ kemur til dyranna eins og hún er klædd, getum við sagt – sem er þó auðvitað ekki í eðli þeirra sem eru með hana á vörum sínum.

Í tilefni af gærdegi íslenskrar tungu rifjaðist það upp fyrir mér þegar við völdum fegursta orð íslenskrar tungu. Fyrir valinu varð orðið „ljósmóðir“. Og það vakti einmitt athygli mína þegar við sungum verk Hallgríms Péturssonar í tilefni af 350. ártíð hans, hvernig hann grípur til þessa hugtaks. Ljósmóðir tekur á móti barni við fæðingu en skáldið orðar þá ósk sína að Jesús verði sem ljósmóðir þegar ævi hans er að baki: „Vertu sem ljósmóðir mín/mín önd fæðist í höndur þín“ yrkir hann.


Ljótasta orðið

 

Svo finnum við í textum Hallgríms dæmi um hugtök sem eru ekki jafn hljómfögur og skapa ekki sömu hughrif og þetta. Honum er tíðrætt um það orð sem oft er á vörum Jesú í guðspjöllunum og gæti vel komið til greina sem eitt hið ófegursta íslenskrar tungu, nefnilega orðið „hræsni“. Já, hljóðin geta komið upp um merkinguna og þarna er eins og manneskjan hreyti út úr sér óhljóðum þegar orðið ber á góma.

 

Við sungum það hér í upphafi:

 

„Beygðu holdsins og hjartans kné,

heit bæn þín ástarkveðja sé,

hræsnin mun síst þér sóma.“

 

Þetta gæti verið eitt af þeim orðum sem okkur fellur síst í geð. En reyndar er hér ekki flagð undir fögru skinni. Nei „hræsnin“ kemur til dyranna eins og hún er klædd, getum við sagt – sem er þó auðvitað ekki í eðli þeirra sem eru með hana á vörum sínum.


Helvíti

 

Þetta guðspjall er eitt þeirra mörgu þar sem finna má ádrepu Jesú í garð farísea. Og hér sem víðar vænir hann þá um hræsni sem er engum til sóma eins og Hallgrímur kveður. Í framhaldinu brýnir hann vini sína, hvetur þá til að vera heiðarlega, sanna og já hugrakka. Guð telur á okkur höfuðhárin og dómur Guðs skiptir okkur meira máli en álit þessa heims.

 

Hér erum við mögulega komin að kjarna málsins. Að baki hræsni og tvöfeldni býr ótti við þá dóma sem umhverfið fellur yfir okkur. Þá hættir fólki til að hagræða sannleikanum, sýnast betra en það er og draga fram aðra og fegurri mynd af því sem í hjartanu býr. Jesús gefur aftur á móti innsýn í það sem kalla má sanna trú og einlæga sannfæringu.

 

Hér er ekki talað í kringum hlutina. Þessi texti er einn sárafárra í Biblíunni þar sem sjálft helvítið er nefnt á nafn. Víst kæmi það og til greina sem ljótasta orðið! Myndir sem við eigum af þeim kvalastað eru oftar en ekki fengnar úr smiðju höfunda utan Biblíunnar. Vitaskuld þekkist slík umfjöllun úr öðrum trúarheimum. Einu gildir hvar niður er borið á jörðinni, hvert samfélagið var, forn-Egyptar, Babýlónumenn, Súmerar já frumbyggjar vesturálfu, hafa dregið upp myndir af því sem mætir manneskjunni eftir að ævin er að baki. Á veggjum og handritum má sjá myndir af prófraunum sem sálin þarf að ganga í gegnum, dómstólar sem vega og meta kosti manneskjunnar og galla.


Að baki býr sennilega sammannleg hugmynd, nefnilega sú að lífið okkar er dýrmæt gjöf og það hvernig við förum með hana er mikilvægasta ákvörðun okkar. Það er hreint helvíti að hjúpa það hulu táls og falskrar ímyndar.


Harðasta trúarádeilan

 

Hér er kveðið við sama tón. Ásökunin hér beinist þó ekki að því fólki sem kallað var bersyndugt eða af öðrum trúarbrögðum. Það vill jú gleymast að ein harðasta ádrepa á ríkjandi trú er að finna í sjálfri Biblíunni og einkum í boðskap Jesú Krists. Þar er ekki markalínan dregin á milli þeirra sem játa trúna og hinna sem láta slík ógert, heldur er Jesús óvæginn þegar kemur að öllum tvískinningi og hræsni þeirra sem miklast af sannfæringu sinni og líta niður á systkini sín. Kristin trú snýst um heilindi og sannleika, ekki sýndarmennsku og yfirborð. Lærisveinar Krists flytja boðskap sinn jafnt með vörum sínum sem höndum og af þeim leiðir blessun sem lifir áfram þótt dagar þeirra sjálfra séu að baki. Um það vottar sagan. Og þegar Jesús bendir okkur á að Guð telji hárin á höfði okkar, undirstrikar það enn frekar hversu verðmæt við erum og sú tilvera sem við lifum.

 

Já hér er talað um dóminn og sú umræða er víst ekki bundin við hið trúarlega samfélag. Við sjáum það nú í umræðu liðinnar viku hversu hætt fólki er að misstíga sig. Í kosningabaráttunni hafa verið dregin fram ummæli sem sögð hafa verið og ýmsar gjörðir. Það hefur satt að segja verið þjáningarfullt að fylgjast með viðleitni frambjóðenda til að verja sig þegar fokið virðist í flest skjól og deili ég með ykkur þeirri skoðun minni að sá er maður að meiri að hafa þar axlað sína ábyrgð. 


Lífsprófið

 

Biblían leggur jú próf fyrir okkur þegar kemur að hinum stærstu málum tilverunnar, já því hvernig við förum með gjöfina sem lífið er, ljósmóður tilveru okkar. Þar er talað um þau sem segjast hafa trú í hjartanu en hata náunga sinn. Þau fari með lygar og staðlausa stafi. Þetta er prófsteinninn. Tilgangurinn og kærleikurinn eru jú af sama meiði sprottnir. Hvort tveggja er leiðarljós sem vísar okkur veginn í gegnum lífið.

 

Þetta snýst ekki að endingu um trú eða trúleysi, litla trú eða mikla. Í þeirri snörpu trúarádeilu sem við kynnumst í Biblíunni, finnum við tón sem beinist að trúarhegðun fólks, bænalífi, siðferði og ýmsu því öðru sem við getum tengt átrúnaði. Spámennirnir ganga fram af hörku gegn alls kyns trúarathöfnum sem höfðu þann tilgang að færa auðmönnum enn meiri velsæld. Þar mætir okkur sú hugsun að þegar kemur að átrúnaði og siðum – þá er ekki sama umbúðir og innihald. Og hér er það Jesús sjálfur sem tekur sér í munn orð sem við mörg hver reynum að forðast að nota í daglegu tali, já vítið sjálft.

 

Að baki býr jú þessi hugsun, þessi áminning til okkar allra að fara vel með ævidaga okkar, lifa í sannleika og heiðarleika en ekki þeirri tvöfeldni sem íslenskan kallar hræsni. Svo þegar lífdagar okkar eru á enda þá mætir Jesús okkur sem ljósmóðir eins og Hallgrímur orti og færir okkur inn í náðarheim Guðs.