Jól án kvíða

Jól án kvíða

Að einbeita sér að einu í einu af því sem er mikilvægt, búta verkefnin niður og gefa sér frelsi gagnvart hinu, það má sleppa. Þetta snýst nefnilega svo mikið um kröfurnar sem við setjum á okkur sjálf. Minnkaðu innri kröfurnar á þig, gerðu fátt en vel, þá finnur þú til smá léttis og gleðin er handan við horn þess að sleppa vondu innri kröfunum frá sér.
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
13. desember 2017

Jólin hitta fólk misjafnlega fyrir. Sum okkar hlakkar mikið til og við njótum undirbúnings og amsturs aðventu, aðrir vilja ekki af þessum tíma vita og enn aðrir kvíða öllu tilstandinu. Það er vont að undirbúa jól með kvíða. Það er hægt að gera ýmislegt til að minnka kvíðann og langar mig að nefna nokkur atriði. Þú getur tekið vald yfir þinni aðventu og jólum með öðru hugarfari og nýrri nálgun.
Við kvíða er verst að gera ekki neitt því þá miklast verkefnin stöðugt fyrir manni og mús verður að fjalli. Byrjaðu að takast á við verkefnið en frestaðu því ekki. Skrifaðu niður það sem þarf að gera, skiptu því í þrennt: 1. Það sem er nauðsynlegt. 2. Það sem væri gaman að hafa. 3. Það sem má sleppa. Taktu síðan lista nr tvö og skerðu niður af honum eins og hægt er. Að því loknu skaltu einbeita þér að einu í einu af því sem er mikilvægt, búta verkefnin niður og gefðu þér frelsi gagnvart hinu, þú mátt sleppa. Þetta snýst nefnilega svo mikið um kröfurnar sem við setjum á okkur sjálf. Minnkaðu innri kröfurnar á þig þannig að þér líði skár með að gera það sem er nauðsynlegt. Þegar þú kemst af stað með það sem er mikilvægt þá finnur þú til smá léttis og gleðin er handan við horn þess að sleppa vondu innri kröfunum frá sér. Ef þú hefur alltaf bakað einfaldaðu það með því að kaupa tilbúið deig og gera eina sort. Ef ytri kröfurnar í auglýsingum trufla þig, slökktu á útvarpinu og netinu, settu á þína tónlist sem lyftir þér upp. Það er hægt að stjórna umhverfinu (fyrir utan það sem við erum tilneidd að vera í) með því að velja sjálf hvaða áreiti við fyllum veru okkar með í desember. Forðastu það sem þú finnur að dregur þig niður, veldu frekar að gera góða hluti fyrir þig nokkrum sinnum í viku. Gönguferðir í birtunni, sérstaklega í náttúrunni gera gagn, horfa á sólarupprás, fara með bæn, samvera með fjölskyldu eða vini, tónleikar og kirkjuferð, lestur góðra bóka, bíómynd o. fl. Veldu eitthvað gott fyrir þig eins og mola úr konfektöskju, eitt á dag.

Fyrir þau sem hafa misst ástvin á árinu eða hafa átt erfiða æsku eru jólin viðkvæmur tími. Hjá syrgjendum er gott að breyta ekki of miklu og lækka kröfurnar. Hafa afmarkaða stund í byrjun hátíðar fyrir framan mynd af ástvininum, kveikja á kerti, þakka og biðja. Ný dögun (nydogun.is) eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð, þar eru gagnlegar upplýsingar.
Fyrir þau sem eiga erfiðar minningar úr æsku sem lita jólin þá er mikilvægt að spyrja sig; get ég breitt yfir jólatímann með nýrri hugsun, get ég búið til jákvæðan sið sem nærir mig og mína? Það skilar aldrei fullnægjandi árangri nema eitthvert græðsluferli gagnvart fortíðinni hafi átt sér stað eða sé í ferli. Stóri plúsinn við jólin er að barnið í jötunni hefur upplifað allan sársauka í mannlífinu með veru sinni á jörð. Það var svo óvelkomið af heiminum að því var úthýst, varð að fæðast í fjárhúsi. Jesús upplifði margt andstreymi og var drepinn eins og hver annar glæpamaður. Samt höldum við hátíðina miklu um hann af því hann færði okkur Guð og tengdi okkur við almættið. Í sínu mótlæti, einelti og sársauka fékk hann kraft og endurnæringu í gegnum bæn til þess er allar bænir heyrir. Besta ráðið sem ég kann er að opna sig í bæn fyrir Jesú með alla hluti. Hann skilur, hann á anda elsku og uppörvunar og hann biður fyrir þér á himnum.

Góð saga eftir Watkins segir:
Það eru tveir úlfar að takast á innra með þér, sagði afi. Annar er Óttinn sem er reiður, bitur og tortrygginn. Hinn er trúin, vonin og kærleikurinn sem fela í sér mildi, hugrekki og örlæti. Hvor vinnur, sagði barnið? Sá sem þú fóðrar, svaraði afi. Fóðrum það góða með okkur í desember.