Blindingjar og Epalhommar

Blindingjar og Epalhommar

Ég held að það sé í eðli okkar að flokka fólk og að hafa fordóma. En það er líka í eðli okkar að tengjast öðru fólki og sýna því kærleika og umhyggju. Stundum þurfum við bara á einni manneskju að halda til að draga huluna frá augum okkar og sýna okkur mennsku þeirra sem við dæmum fyrirfram. Stundum þurfum við að vera sú manneskja.

Eins og oft áður logaði allt á internetinu í vikunni. Og eins og oft áður snerist umræðan um fordóma. Fyrst álpaðist Frosti Logason til þess að halda því fram að konur væru líffræðilega verr til þess fallnar að spila á trommur. Og það varð allt vitlaust. Og svo sakaði Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, Sindra Sindrason um fordómablindu í sjónvarpsviðtali. Og Sindri brást við með því að benda henni á að hann tilheyrði fleiri minnihlutahópun en hún. Og aftur varð allt vitlaust. Sumt fólk stóð með Töru og ásakaði Sinda um ofbeldi, kallaði hann illum nöfnum, t.d. Epalhomma, sem er auðvitað orðið alveg fleygt og frábær auglýsing fyrir Epal... Aðrir stóðu með Sindra, sögðu að Tara væri bara væluskjóða og athyglissjúk. Og þá steig Tara fram og sagðist ekki myndu láta þagga niður í sér. Sem mér fannst flott hjá henni.

Þessi umræða er alveg frábær vegna þess að hún sýnir okkur hversu flókin umræða um fordóma er. Og hún sýnir okkur að við erum öll haldin einhverjum fordómum. Og við verðum öll einhvern tíma fyrir fordómum.

Bartímeus blindi hafði örugglega upplifað sinn skerf af fordómum. Það var t.d. álitið á tímum Jesú að ef fólk var fatlað, þá væri það því sjálfu, eða foreldrum þeirra að kenna, út af einhverri synd í líf þeirra. Og samfélag sem kennir fötluðu fólki um eigin fötlun, það leggur ekki mikla áherslu á að hjálpa því. Og það var reynt að þagga niður í Bartímeusi. Því að fatlað fólk átti ekki að vera með vesen. Bartímeus átti ekkert með að hrópa svona og kalla á Jesú. En hann lét ekki þagga niður í sér. Hann kallaði á Jesú aftur og aftur. Og Jesús heyrði í honum. Og takið eftir því, að þegar Jesús heyrði í honum, og bað um að það yrði kallað á hann, þá allt í einu urðu þau hin sömu og höfðu reynt að þagga í honum, styðjandi og sögðu honum að vera hughraustur. Því að oft þarf bara eina manneskju í hópnum til að viðurkenna mennsku annarar manneskju. Þá er eins og hulan sé dregin frá augum okkar og við sjáum viðkomandi í nýju ljósi. Við sjáum hana/hann, sem manneskju, ekki bara fulltrúa einhvers hóps, sem við höfum leyfi til að ausa úr fordómaforinni yfir.

Hvað viltu að ég geri fyrir þig? Sagði Jesús. Jesús hefði getað mætt Bartímeusi fullur af fordómum. Hann hefði getað gefið sér það að fyrst Bartímeus væri blindur, hlyti hann að vilja fá sjónina. Eða að hann vildi kannski bara fá athygli. En Jesús sýndi Bartímeusi þá virðingu að hlusta á hann, spyrja hann um hans skoðun, hans óskir og hans þarfir. Kannski hefði Bartímeus viljað eitthvað allt annað en að fá sjónina aftur. Þannig mætum við fólki líka oft af miklum fordómum. Við gefum okkur að við vitum betur hvers fólk þarfnast, hvað er gott og hollt fyrir fólk og hvernig það á að lifa lífinu sínu. Í staðinn fyrir að spyrja einfaldlega, hvers þarfnastu? Hvað get ég gert fyrir þig?

Ég held að það sé í eðli okkar að flokka fólk og að hafa fordóma. En það er líka í eðli okkar að tengjast öðru fólki og sýna því kærleika og umhyggju. Stundum þurfum við bara á einni manneskju að halda til að draga huluna frá augum okkar og sýna okkur mennsku þeirra sem við dæmum fyrirfram. Stundum þurfum við að vera sú manneskja. Sú manneskja sem heyrir hróp þeirra sem þarfnast hjálpar og spyr: Hvað get ég gert fyrir þig? Og stundum erum við eins og Bartímeus, verðum fyrir fordómum og þöggun, og þá þurfum við að taka hann okkur til fyrirmyndar og láta ekki þagga niður í okkur. Og vita hvað það er sem við viljum.

Jesús segir: Hvað get ég gert fyrir þig? Við erum öll blind á einhvern hátt. Blind á aðrar manneskjur, blind á okkar eigin fordóma, blind á fordóma samfélagsins. Við þurfum að biðja Jesú að hjálpa okkur að opna augun, fá sjón þannig að við eigum auðveldara með að sjá hvert annað sem manneskjur, elskuð Guðs börn sem eiga fulla virðingu skilið, þrátt fyrir alla sína galla.

Dýrð sé Guði, sem hjálpar okkur að sjá...