Hver setti Jesú á krossinn?

Hver setti Jesú á krossinn?

„Pabbi, hver setti Jesú á krossinn?“ spurði barnið föður sinn. Fjölskyldan var stödd í sumarfríi erlendis og hafði þennan dag heimsótt klaustur. Þar var að finna mikið safn listaverka og ein myndanna sem varð á vegi þeirra var altaristafla frá miðöldum. Hún sýndi krossfestinguna.

[audio:http://tru.is/skraarsofn/postilla/2009/04/hver-setti-jesu-a-krossinn.mp3]

„Pabbi, hver setti Jesú á krossinn?“ spurði barnið föður sinn. Fjölskyldan var stödd í sumarfríi erlendis og hafði þennan dag heimsótt klaustur. Þar var að finna mikið safn listaverka og ein myndanna sem varð á vegi þeirra var altaristafla frá miðöldum. Hún sýndi krossfestinguna.

Þetta sá litla stúlkan og af forvitni og í einlægni spurði hún um krossfestingarmyndina:

Hver setti Jesú á krossinn?

Það er fyrsta spurning föstudagsins langa.

Orðaskipti í Jóhannesarguðspjalli gefa okkur eitt svar:

— „Sjáið þar konung ykkar!“ segir Pílatus. — „Burt með hann, burt með hann, krossfestu hann,“ svarar lýðurinn. — „Á ég að krossfesta konung ykkar?“ spyr Pílatus. — „Við höfum engan konung nema keisarann,“ svara æðstu prestarnir.

Hver setti Jesú á krossinn?

Rómverskir hermenn. Af því að Pílatus bauð þeim það. Eggjaður af Gyðingunum og lýðnum.

Þetta má líka orða með öðrum hætti:

Hver setti Jesú á krossinn?

Mennirnir.

* * *

Krossinn og krossatburðurinn hefur ætíð verið túlkaður inn í aðstæður á hverri tíð.

Hvers vegna?

Vegna þess að þótt mannkyn sé eitt eru aðstæður síbreytilegar eftir tíma og stað. Það er því ekki hægt að tala um eitthvert eitt mannlegt ástand – glímt er við nýjar áskoranir á hverjum tíma. Við getum séð samhljóm milli tímabila í sögunni, en sérhvert tímabil á og glímir við sinn vanda. Og hvert tímabil á sína mynd af Kristi. Sína mynd af krossinum.

Á fyrstu öldum kristninnar var meðalævin ekki löng. Þá glímdu menn við angistina yfir örlögum sínum og dauða. Og þá var svarið: Kristur sigrast á synd og dauða. Kristur er sigurvegarinn.

Á miðöldum var áherslan önnur. Glímt var við angist vegna sektarkenndar og fordæmingar. Þá var svarið: Vegna Krists er þér fyrirgefið. Hann tekur á sig sektinn. Kristur er málsvarinn.

Í samtímanum er glímt við angist vegna merkingarleysis og tóms, við skort á tilgangi, leiða, lífsflótta og depurð. Og þar með er grunnspurning samtímans ekki sú hvað gerist eftir dauðann heldur: Er eitthvað fyrir dauðann! Verkefnið er þar með að svara spurningunni um hið tilgangsríka líf. Um lífsfyllinguna og um gildismatið. Um það sem skiptir máli. Hér og nú.

Það má spyrja andspænis krossinum á öllum þessum tímum:

Hvað sjáum við þegar við horfum á Krist krossfestan? Fjarlægan mann eða nálægan frelsara?

Þegar þú horfir á hinn þjáða Krist á krossinum, hvað sérðu? Sérðu frelsara sem deilir kjörum þínum og angist þinni og spurningum þínum: Um hvað snýst þetta allt? Til hvers erum við hér?

Hvað sjáum við þegar við lítum á Krist á krossinum?

Það er önnur spurning föstudagsins langa.

* * *

Krossinn felur í sér höfnun. Á Pálmasunnudegi kvað við Hósíanna-hróp, en nú heyrist krafan um krossfestingu:

„Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!“ (Jh 19.15)

Trúarleiðtogarnir voru andsnúnir honum. Líka pólitísk yfirvöld. Jesú var hafnað af fólkinu og honum var hafnað af valdastofnunum samfélagsins. Hann var yfirgefinn af mönnum og hann upplifði sig yfirgefinn af Guði. Um það vitna orðin:

„Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? (Mk 15.34)

Er þetta daufur ómur úr fjarlægri fortíð? Eða heyrum við hrópið enn í dag? Og heyrum við hér enduróm af grátkór allra sem eru yfirgefnir og hrjáðir, settir til hliðar, kúgaðir í samtíð okkar? Jafnvel okkar eigin hróp?

„Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“

Hvar stöndum við gagnvart krossi Krists? Hvar stöndum við gagnvart þeim sem eru krossfest enn í dag? Gagnvart þeim sem eru hrjáð á líkama og sálu. Ein. Yfirgefin.

Erum við ein rödd í kórnum sem kallar: „Burt með þau! Krossfestið þau!“

Erum við aðstandendur? Stöndum við hjá krossinum eins og María móðir Jesú og lærisveinninn sem Jesús elskaði? Til staðar, en megnum ekki að gera meira en bara að vera? Erum við eins og Pílatus sem þvoði hendur sínar. „Mér er sama, þetta er ykkar mál. Það kemur mér ekki við.“

Eins og æðstu prestarnir sem lögðu á ráðin?

Erum við kannski á krossi sjálf? Með Kristi.

Erum við eitthvað eitt af þessu – eða kannski allt þetta?

Hvað getum við gert?

Hver erum við frammi fyrir krossinum og við krossinn og á krossinum?

Það er þriðja spurning föstudagsins langa.

* * *

Kæri söfnuður. Í krossinum felst áskorun, dómur og tilboð.

Áskorun um samstöðu með þeim hrjáðu í samtíma okkar. Hvatning til að vera virk í baráttunni gegn hvers konar ranglæti. Hvatning til að fylla lífið merkingu. Og vinna gegn tóminu og tómhyggjunni.

Dómur yfir þeim sem krossfesta, þeim sem sinna ekki, þeim sem hunsa og er alveg sama – eða yfir því í okkur sem þannig er. Dómur yfir þeim sem hafna Guði.

Tilboð sem er andstæða þessa dóms. Tilboð um handleiðslu og samstöðu og samfylgd sem Hallgrímur færir svo vel í orð í 44. Passíusálmi þegar hann biður:

Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.

Höndin þín, Drottinn, hlífi mér, þá heims ég aðstoð missi, en nær sem þú mig hirtir hér, hönd þína’ eg glaður kyssi.

Dauðans stríð af þín heilög hönd hjálpi mér vel að þreyja, meðtak þá, faðir mína önd, mun ég svo glaður deyja.

Tilboð krossins og von hins kristna manns er þá þetta: Í raunum er Guð með þér. Í angist er Guð með þér. Við þurfum ekki að vera – og við erum ekki ein og yfirgefin. Það er tilboð og það er fyrirheiti krossins.

Og meira en það: Krossinn birtir okkur að Guð er ekki fjarlægur Guð heldur Guð sem hefur reynt þjáninguna á eigin skinni. Reynt höfnunina og fjarlægðina. Veit hvernig þetta er.

Það er í þessari von sem Hallgrímur getur sagt og beðið – og við með honum:

Minn Jesú, andlátsorðið þitt í mínu hjarta’ eg geymi, sé það og líka síðast mitt, þá sofna’ eg burt úr heimi.

Amen.