Heimurinn skiptist í tvennt. Hvaða tveir hlutar það eru, er svo undir hverjum og einum komið. Lína er dregin í sandinn, öðrum megin erum við og hinum megin eru hinir. Eitt sinn hétu hóparnir austur og vestur. Þar á milli var járntjald og sitt hvoru megin vopn sem gátu eytt öllu lífi á jörðinni. Ekki léttvæg sú tvískipting. Undanfarið hefur umræðan mikið til snúist um þróuð lönd og vanþróuð, þar sem auðlindir hinna síðarnefndu verða bitbein þeirra sem sjá um framleiðslu og neyslu. Sú skipting verður þó æ óljósari eftir því sem gríðarlegar breytingar eiga sér stað á jarðarkringulunni.
Að græða eða auðga Skemmtilegasta skiptingin er líklega hóparnir tveir, Íslendingar og útlendingar. Útlendingar eru tekjulind, ýmist áhugasamir eða einfeldningar um landið okkar. Nýverið vöktu athygli harðir dómar útlendings um land og þjóð. Útlendingar geta verið skammsýnir eða þá hafa fyrir löngu uppgötvað eitthvað sem Íslendingar eru ekki enn farnir að skilja. Ekki ber á öðru en þetta sé sú tvískipting sem ber hæst í íslenskri umræðu. Hlutföllin þar, eru reynar ekki alveg jöfn. Mér reiknast til að þau séu 99,97% annars vegar og svo 0,03% hins vegar. Fámennari hlutinn stendur nær augum okkar sjálfra og því virðist hann eðlilega vera stærri. Því miður á þessi tvískipting sér líka myrkar hliðar og hún birtist meðal margar þjóða um þetta leyti, þar sem ótti og fjandskapur ríkir við þá sem eru af öðrum toga spunnir.
Nema hvað.
Ég fór að velta þessu fyrir mér, þegar ég hlýddi á ávarp rithöfundarins Jóns Kalmanns Stefánssonar til Vigdísar Finnbogadóttur, nú á dögunum. Hvort hann ætlaði að skipta heiminum í tvennt eða ekki, skal ósagt látið en þetta sagði hann:
Ég held að Vigdís hafi hvorki áhuga á að sigra heiminn né að fela sig fyrir honum. Hún vill auðga heiminn.
Í þessari lofræðu til hins ástsæla forseta má greina ákveðna tvískiptingu. Hún byggir ekki á búsetu, velsæld eða uppruna, heldur á hugarfari. Já, samkvæmt þessu má skipta fólki á milli þeirra sem vilja græða á heiminum og hinna sem vilja auðga hann. Er þetta ef til vill full einföld tvískipting á heiminum? Skoðum hana samt, því það er svo skemmtilegt að skipta heiminum í tvennt.
Hver er munurinn á að auðga heiminn og að græða á honum? Og af hverju verður þessi hlið á störfum Vigdísar mönnum hugleikin nú, svo löngu síðar? Voru þessi orð einhvern tíma notuð um störf hennar, á þjónustutíma hennar?
Er það ekki vegna þess að við stöndum frammi fyrir afleiðingum þess að alltof margir hafa viljað græða á heiminum í stað þess að auðga hann? Við þekkjum afleiðingar þess fyrir hagkerfi heimsins, græðgin tók völdin en græðgin var um leið afleit auglýsing fyrir gróðahyggjuna. Hvað dæmir hana fremur úr leik en sívaxandi þorstinn sem einkenndi vegferð auðmanna? Upphæðirnar urðu hærri og hærri og sjóðir blésu út á alla kanta, uns það sligaði hagkerfi heilla þjóða. Þá þarf ekki að rekja þá stöðu sem heimurinn okkar er í. Þar er sóunin alger og náttúran stynur undan gróðafíkn þeirra sem vilja græða á heiminum en ekki auðga hann. Veruleiki þessi er okkur enn hugstæðari nú en hann var á 9. og 10. áratugnum þegar Vigdís sat á forsetastóli. Því snerta orð skáldsins okkur svo sterkt.
Sannarlega er munur á því að vilja græða á heiminum og að auðga hann. Sá sem vill auðga hefur gerólíka afstöðu til heimsins heldur en sá sem vill græða.
Greinarmunurinn þarna á milli snýst um spurninguna, hvað það er sem drífur okkur áfram. Hvert er það markmið sem við eigum með lífi okkar og störfum? Erum við í þessu, til að sinna eingöngu eigin stundlegu þörfum sem eru þó á engan hátt okkar hagsmunir til langframa? Sækjumst við eftir gæðum lífsins vegna þess að þau auðga líf okkar, eða höfum við enga stjórn á þeirri löngun, ekki frekar en fólk sem haldið er fíkn? Erum við knúin áfram af þeirri þörf að gera heiminn betri, sinna þeim sem minna mega sín, viljum við efla þau sem standa höllum fæti? Er það þjónustan við það sem stendur ofar okkur, endist betur, varir lengur situr eftir þegar dagar okkar sjálfra eru að baki? Eða eru völdin andlag verka okkar og eru þau markmið í sjálfu sér?
Auðgum við heiminn eða reynum við bara að græða á honum?
Að eignast heiminn Í texta Guðspjallsins er af miklu að taka í samtali Krists við lærisveina sína. Þetta eru tímar uppgjörs. Fólkið sem hefur fylgt honum eftir hefur ýmsar skýringar á því hver hann er. Hvern segja menn mig vera? spyr hann. Svörin eru af ýmsum toga en Pétur lýsir Jesú, sem Kristi, syni hins lifanda Guðs. Viðbrögð Jesú reyndust afdrifarík. Þetta er undirstaðan sem kirkjan mun byggja á, svarar Kristur. Rómversk kaþólska kirkjan miðar vígsluröð biskupa við þessi orð og Pétur sjálfur er sagður hvíla undir kirkjunni sem við hann er kennd í sjálfu Vatikaninu í Róm. Í okkar kirkjudeild er fremur litið svo á að það sé játningin sem hvíli til grundvallar kirkjunni. Ekki einstaklingarnir, hvort sem þeir heita Pétur eða Páll. Í næstu setningu er tónninn í orðum Jesú hvass og það er eins og hann ávarpi freistarann sjálfan: ,,Vík frá mér Satan! þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Það er skammt stórra högga á milli. Viðleitni lærisveinsins til að forða vini sínum frá dauða, kallar fram þessi viðbrögð. Um leið lýsir Kristur hvernig hann hyggst auðga heiminn, á þann hátt sem aldrei hafði verið gert fyrr. Loks kemur setningin sem gæti í raun staðið sem niðurlag þeirra valkosta sem hér hafa verið til umfjöllunar: ,,Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni.”
Gætið að því að láta ekki fíknina ræna ykkur sjálfu lífinu, fíknina eftir völdum og auð, fíknina eftir því að græða á heiminum. Þá glatið þið um leið sálu ykkar, þá sviptið þið líf ykkar tilgangi sínum og innihaldi.
Völd og áhrif Þetta sjáum við í raun hvert sem við lítum. Hvergi birtist þetta eins vel og í því þegar fólk öðlast það sem það hefur stefnt að – nefnilega völd. Hversu oft hafa ekki háleitustu hugsuðir og metnaðarfyllstu leiðtogar hrapað af stalli sínum einmitt vegna þess að þeir kunnu sér ekki hóf? Völdin þurfa svo sem ekki að vera merkileg. Þau kunna að felast í því að gegna forystu í einhverjum hópi er starfar að þörfum verkum. Ef völdin taka völdin þá verður tilgangurinn ekki annar en sá að þjóna duttlungum þeirra sem völdin hafa. Uppbyggingin fer úr böndunum.
Sá sem auðgar heiminn leitast ekki við að hafa völd. Sjáfl orðaði Vigdís forseti það svo að hún vildi miklu fremur áhrif en völd. Því áhrifin byggja á samtali sem skapar traust. Til þess að geta gefið slíka gjöf þarf leiðtoginn að hlusta og læra – vita hver þörfin er. Hann skapar ekki sundrungu og valdabaráttu heldur samstöðu. Hann gefur öðrum fordæmi og skapar því fleiri leiðtoga í kringum sig sem skynja það hversu máttug þjónustan er til þess að breyta og bæta.
Heimurinn skiptist í tvennt en markalínan liggur ekki um landsvæði, efnahag, tungumál eða trúarbrögð. Hún liggur í gegnum hjarta okkar sjálfra. Þar drögum við línuna á milli þess hvort við hrifsum eða deilum. Hvort við græðum á heiminum eða auðgum hann. Þessu verður hver og einn að svara fyrir sig. Í öðru tilvikinu er sjónarhornið þröngt, hvatirnar eru eigingjarnar og þær eru frumstæðar. Ekkert gott liggur eftir þann sem eingöngu hugsar um eigin hag. Slíkt er í raun þverstæða því hann skaðar sína stærstu hagsmuni. Það sést vel þegar horft er yfir æviskeið þess sem vill auðga umhverfi sitt og allan heiminn. Í kringum hann er gróskan, uppvöxturinn og skapandi samfélag. Okkur hættir að meta leiðtoga út frá því hvernig þeim text að maka eigin krók, en í raun felst enginn leiðtogasýn í því háttarlagi. Þvert á móti er leiðtoginn sá sem vill starfa í krafti hugsjóna sinna, sér verkefnin sem þarf að ráðast í og úrlausnarefnin sem þarf að vinna að.
Ákvörðunin er okkar, kæru vinir, lína er dregin og sitt hvoru megin hennar eru tveir valkostir sem ráða að endingu mestu um velferð okkar og áhrif.