Í lífinu eru margvísleg lögmál. Þyngdaraflið þekkjum við, efnið og orkan lúta ýmsum reglum, sem útlistaðar hafa verið af vísindamönnum og hugsuðum á ýmsum tímum. Þess vegna geta tæki og tól starfað með réttum hætti, hægt er að spá fyrir hreyfingar veðrakerfa og jafnvel um mannlega hegðun. Þessi veruleiki hefur löngum þótt til marks um það að yfir öllu ríki einhver vitund sem stýri stærstu einingum og allt niður í smæstu eindirnar. Það er merkilegt til þess að hugsa að lögmálin hafi verið farin að starfa áður en allt það varð til sem við höfum fyrir augunum, áður en tíminn byrjaði að tifa og efnisheimurinn þandist út úr engu – eins og okkur er kennt að hann hafi gert.
Lögmál lögmálanna
Ef einhver þessara lögmála hefðu verið örlítið frábrugðin því sem þau eru – ef einhverjir þeirra krafta sem ríkja í heiminum hefðu verið brotabroti minni, eða meiri, væri allt frábrugðið. Alheimurinn hefði ekki tekið á sig þá mynd sem við þekkjum. Jafnvel atómin hefðu aldrei myndast, hvað þá við – þessar svokölluðu vitsmunaverur sem brjótum í sífellu heilann um furður þessa heims og annars. Og verðum sífellt meira undrandi yfir því hversu gríðarlega mikið liggur á huldu um það sem við getum skilið og séð.
Stundum heyrum við og lesum um það að öll þessi lögmál séu lítils virði, allt sé í raun háð mati hvers og eins. Það er alltaf svolítið skrýtið að skilja hvað við er átt – en margir líta svo á að vilji okkar geti sveigt jafnvel reglurnar og beygt skipanina sem allt þarf að lúta. Sjálfsagt var það grein af meiði slíkrar hugsunar þegar menn töldu að lögmál efnahagslífsins mætti laga til að eigin hentugleika. Já, ekki bara lögmál peninganna heldur líka lögmál siðferðis og réttlætis. Afleiðingarnar þekkjum við því miður vel og þau svarthol sem urðu til í kjölfarið hafa sogað til sín óskapleg verðmæti. Nei, lögmálin leynast víðar og þau þurfa ekki öll að vera svo flókin. Það er þó alltaf jafn hættulegt að brjóta þau – hvort sem menn ætla að semja við þyngdarlögmálið eða telja sér trú um að hægt sé að búa til verðmæti úr engu.
Himnaríki
Af hverju þessar vangaveltur hér í Keflavíkurkirkju á dimmu febrúarkvöldi? Textarnir sem hér voru lesnir fjalla um einhvers konar skipan sem stendur ofar því sem mannlegu valdi stendur að breyta. Guðspjallið er eitt þessara mörgu sem segir frá himnaríki. Kristur er ekkert að leggja þetta allt skýrt á borðið fyrir framan okkur – frekar en er með aðrar þær ráðgátur sem við reynum að skilja. Það er alltaf þessi líking – „Líkt er um himnaríki og ...“ síðan rekur hann dæmi um einhvern feng, eitthvað mikið og stórkostlegt, eitthvað það sem gerir lífið betra og bjartara. Þetta eru hlutir sem kalla jafnvel fram myndir í huga okkar: fjársjóður, perslur, net full af litríkum fiskum.
Sannarlega eru þetta fallegar líkingar enda vart annað hægt þegar slík undur eru til umfjöllunar. En jafnvel hér virðist sem einhver lögmál búi að baki sem eru næsta óháð því hvað okkur kann að finnast og þykja. Kristur bendir á það að þegar kemur að hinum efstu dögum þá verða ákveðin skil á milli þess sem hreppir hnossið og hins sem ekki gerir það. Sagan af fjársjóðnum og perlunni ber þess líka merki að þarna eru einhver verðmæti sem ekki eru háð mati hvers og eins. Það er eitthvað sem er verðmætt í sjálfu sér. Maðurinn finnur þetta, hann uppgötvar það – hann ákveður ekki að þetta sé eitthvað verðmætt.
Og í niðurlaginu eru öll tvímæli tekin af:
Svo mun verða þegar veröld endar: Englarnir munu koma, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
Hvernig ráðum við í þessi lögmál?
Lögmál himnanna
Er við horfum í kringum okkur – hvernig getum við sagt hvar eru hinir góðu og hvar eru þeir sem ekki standast prófið? Er það kirkjan? Sú skýring er að sönnu nærtæk. Þeir sem skírðir eru til heilagrar trúar hafa fengið í vegarnesti fyrir lífið nokkuð sem ekki verður frá þeim tekið. En vart er það svo einfalt. Vart getum við einfaldlega slegið því sem föstu – við sem eigum að þekkja takmörk skynjunar okkar og skilnings. Nei, við erum ekki til þess fallin að fella þá dóma afdráttarlaust hverjir eru hólpnir og hverjir ekki. Sem betur fer, getum við sagt.
Við höfum hins vegar leiðarljós um það hvernig við eigum að rata eftir þeim flóknu ranghölum sem liggja á leið okkar til skilnings. Þessir textar sem við hlýddum á hér áðan gefa sannarlega tóninn að slíku:
Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur í landinu sem Drottinn hét að gefa feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi.
Hérna er það ákvörðunin að velja lífið. Já, sá sem velur lífið hefur tekið sér stöðu réttu megin við hina torræðu markalínu sem Kristur talar um. Hann vinnur að því sem byggir upp og treystir. Hann starfar í anda kærleikans og í þeirri ríku sannfæringu að hann sé hluti af einhverju sem er stærra en hann sjálfur.
Þessi afstaða kom fram hjá Eddu Heiðrúnu Backman, leikkonu sem talaði á Velferðarþinginu nú í hádeginu að lokinni fjölskylduguðsþjónustuna. Edda Heiðrún glímir við skelfilegan erfðasjúkdóm sem hefur rænt hana öllum mætti fyrir neðan háls. Frásögn hennar var mögnuð, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hún lýsti því hvernig hún hefur öðlast það æðruleysi að sætta sig við það sem orðið er – en um leið hefur hún beint huga sínum að því sem er jákvætt, því sem byggir upp, því sem eflir og styrkir. Ef draga ætti erindi hennar saman í eina málsgrein þá væri hún svona: Hún tók þá ákvörðun að velja lífið.
Það er ekki lítil ákvörðun. Því í henni felst að þegar kemur að því að velja á milli þess sem er hagur samfélagsins, heildarinnar, náungans – og þröngra hagsmuna okkar sjálfra – sem eru raunar aðeins skammtímahagur – þá veljum við hið fyrra. Páll postuli talar í þessu sambandi um það að vera stjórnað af andanum. Andanum sem er með okkur og beinir okkur inn á rétta braut:
En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum. Fyrst andinn hefur vakið okkur til lífs skulum við lifa í andanum. Verum ekki hégómagjörn svo að við áreitum og öfundum hvert annað.
Lögmál lífsins
Nei, þetta er einmitt ekki gegn því lögmáli sem yfir öllu ræður. Þar standa ákveðnir stólpar sem ekki verður haggað. Einn þeirra er kærleikurinn sem beinir okkur frá þeim brautum sem leiða til ófarnaðar, já skelfingar. Hann forðar okkur frá því að láta hégómann stýra okkur svo við snúumst hvert gegn öðru í stað þess að standa saman og byggja hvert annað upp.
Þegar Jesús talar um himnaríki – fer ekki á milli mála að þar ríkja ákveðin lögmál. Þar er ekkert af tilviljun. En hvar liggja mörkin? Hverjir eru þeir fiskar sem valdir eru úr og hverjum er hent í eldinn?
Þegar við lesum þessa texta sjáum við að við höfum þar mikið um málið að segja. Við getum opnað hjarta okkar fyrir Guði, látið stjórnast af andanum, tekið á móti boðskapnum í gleði og af auðmýkt. En við getum líka harðlæst fyrir Guði og náunganum. Við getum látið hégómann ráða yfir lífi okkar, snúið samskiptum við systkini okkar upp í samkeppni þar sem allt snýst um það að hafa betur, hrifsa til okkar allt það sem verðmætt er og skiptir máli.
Markalínan liggur þarna og það er okkar að koma auga á hana. Einn frómur maður sagði eitt sinn að þegar kæmi að Guðs ríki væri það tvennt sem skildi á milli. Annars vegar væru það þeir sem játast undir lögmál Guðs og kærleika hans. Þeir svara Guði með orðunum úr bæninni góðu: „Verði þinn vilji“. Hinir svara Guði engu. En Guð segir við þá hið sama – „Verði þinn vilji“.
Hvorum hópnum tilheyrum við?
Lögmálin eru allt í kringum okkur. Það er svo magnað þegar fólk telur sig geta brotið þau með óskhyggjunni einni að vopni. Víst færu fáir að láta reyna á blessað þyngdaraflið – það gæti reynst sársaukafullt. En fallið er þó ekki minna þegar menn þykjast geta stjórnað annarri þeirri skipan sem ríkir í lífi okkar. Þá fellur allt og hrynur.
Í þessum textum sem við hlýddum hér á er einmitt varað við þeirri hugsun. Auðmýkt mannsins fyrir því sem hann getur ekki breytt er lykillinn að velferð hans í þessu lífi sem öðru.
Flutt við kvöldguðsþjónustu í Keflavíkurkirkju