Kraftaverk lífsins

Kraftaverk lífsins

Gott dæmi um hversdagslegt kraftaverk er fæðing barns en hver fæðing er kraftaverk. Nýr einstaklingur kemur í heiminn, einstaklingur sem enginn þekkir eða hefur séð, en margir hafa beðið eftir. Ekkert er eðlilegra en fæðing barns, öll fæðumst við jú einhverntíma, en samt er fæðingin kraftaverk.

Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: Viltu verða heill? Hinn sjúki svaraði honum: Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér. Jesús segir við hann: Statt upp, tak rekkju þína og gakk! Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur, og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna. Hann svaraði þeim: Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!' Þeir spurðu hann: Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk'? En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra. Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann. Jóh. 5.1-15.
- Það er hátíð og Jesús er á leið upp til Jerúsalem til þess að taka þátt í hátíðarhöldunum í musterinu. Og þar sem hann gengur inn um Sauðahliðið, eitt af borgarhliðunum inn í Jerúsalem, þá kemur hann að laug sem samtíðarfólk hans trúði að væri gædd læknandi mætti. Laugin hét Betesda en orðið þýðir líknarhús.

Við laugina mætir hann lömuðum manni sem er þangað kominn í von um lækningu. Jesús læknar manninn með orði sínu, því Guð hefur bundið mátt sinn í orð. Guðspjallið greinir því frá kraftaverki, og það sem meira er, það svarar spurningunni hvað kraftaverk er.

i

Oftast tengjum við kraftaverk einhverju ótrúlegu og yfirnáttúrulegu. Orðabók Menningarsjóðs skilgreinir orðið kraftaverk á eftirfarandi hátt: „Kraftaverk er verk, sem yfirnáttúrulegt afl þarf til að vinna, vegna þess að það brýtur í bága við náttúrulögmálin, - eða - kraftaverk er atvik sem mjög ótrúlegt er að gerist.” Samkvæmt þessari skilgreiningu vekur kraftaverk hvorki trú né traust til lífsins, heldur undrun og furðu.

En það má einnig leggja annan skilning í orðið kraftaverk. Því vissulega þekkjum við flest til atburða sem við köllum kraftaverk, atburða sem rista djúpt í tilveru okkar, vegna þess að þeir snerta okkar daglega líf með beinum hætti, hafa jafnvel breytt lífsstefnu okkar eða gefið lífi okkar nýtt innihald. Verk sem slíku valda geta til dæmis verið lækning af sjúkdómi, atburður sem kemur í veg fyrir slys, sú reynsla að verða ástfangin og finna að ástin er endurgoldin og að verða foreldri.

Allt eru þetta dæmi um hversdagsleg kraftaverk. Og það sem gefur þeim gildi er ekki atburðurinn í sjálfum sér, heldur það hvernig hann snertir líf okkar og sjálfskilning. Atburður er kraftaverk vegna þess að hann kemur inn í líf okkar og veldur breytingu til batnaðar. Það þarf því ekki brot á náttúrulögmálum til þess að atburður geti kallast kraftaverk. Kraftaverk er einfaldlega verk sem kraftur Guðs er í. Út frá þessum skilningi, þá eru kraftaverk einmitt svo stórkostleg, vegna þess að þau eru hluti af lífi okkar, þau eru eðlileg og skiljanleg og þau gefa okkur hugrekki og þrek til að takast á við lífið.

Gott dæmi um hversdagslegt kraftaverk er fæðing barns en hver fæðing er kraftaverk. Nýr einstaklingur kemur í heiminn, einstaklingur sem enginn þekkir eða hefur séð, en margir hafa beðið eftir. Ekkert er eðlilegra en fæðing barns, öll fæðumst við jú einhverntíma, en samt er fæðingin kraftaverk. Og þannig séð er kraftaverk ekki hið óvenjulega heldur lífið sjálft.

Og einmitt í þessum skilningi er það ekki sjálfsagt og sjálfgefið að við lifum, eigum foreldra, og systkini, höfum í okkur og á, höfum heilsu, eigum maka, börn og vini, njótum frelsis, réttinda og höfum atvinnu. Ekkert af þessu er sjálfsagt, heldur dásamlegt undur sem þrek og þor þarf til að láta verða að veruleika. Og einmitt þetta er skilningur ritningarinnar á því hvað kraftaverk er.

ii

Hér komum við að inntaki guðspjallsins en í því er sagt frá sjúkdómi manns og lækningu. Maðurinn sem guðspjallið greinir frá hefur lengi verið lamaður. Þegar Jesús mætir honum liggur hann í rekkju sinni og getur sig hvergi hreyft. Þrjátíu og átta ára sjúkralega mannsins hefur dregið úr honum kjarkinn og gert hann vonlítinn um bata. Við verðum að hafa það í huga að á dögum Jesú var álitið að sjúkdómar stöfuðu af synd viðkomandi einstaklings. Til þess að ná heilsu urðu menn að hreinsa sig af syndinni. Hreinsunin fólst í þvottum enda var vatnið tákn hreinsunar. Það er því engin tilviljun að maðurinn liggur við laugina.

Hegðun Jesú er athyglisverð. Hann gengur til mannsins óbeðinn, ekkert er sagt um trú eða beiðni hins sjúka, hann liggur þarna alfarið í þögn. Hann kemst ekki út í vatnið til að hreinsa sig og enginn vill bera hann þangað. Hann virðist því vera yfirgefinn af Guði og mönnum. Jesús skynjar stöðu mannsins, sér þjáningu hans og erfiðleika. Og hér eins og annars staðar kemur Jesús til þess að lækna og líkna, hugga og hjúkra.

Jesús gengur til mannsins og spyr: „Vilt þú verða heill?” Það gæti virst sem spurningin sé út í hött. Svarið virðist liggja í augum uppi, auðvitað vill maðurinn verða heill. Hver vill það ekki? En Jesús er ekki bara að spyrja manninn hvort hann vilji ná líkamlegri heilsu, heldur hvort hann vilji meðtaka fyrirgefningu Guðs og þannig öðlast sátt við Guð, sjálfan sig og lífið. En það skilur maðurinn ekki, hann skilur ekki að hann þarf að taka við fyrirgefningu Guðs svo hann geti orðið heill. Hann lítur svo á að það eitt geti komið sér til bjargar að komast út í vatnið, þangað sem hann getur hreinsast. Maðurinn gerir ekki ráð fyrir að náð Guðs geti gefið honum heilsuna. En Jesús er á öðru máli, veikindi mannsins stafa ekki af synd sem hægt er að þvo af með vatni. Og það sem mestu varðar, maðurinn getur ekki af eigin rammleik losnað undan valdi syndarinnar. Aðeins fyrir náð og miskunn Guðs getur maðurinn orðið heill, því Guð einn er fær um að fyrirgefa og skapa nýtt líf, Guð einn er uppspretta lífsins. Því segir Jesús og það er kraftur Guðs í orðum hans: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk.” Og það sem Jesús segir það verður. Maðurinn verður samstundis heill, tekur rekkju sína og heldur af stað út í lífið. En maðurinn, sem nú er orðinn heill á líkama sínum, skilur ekki hver Jesús er, og það sem meira er, hann skilur ekki það undur sem hann hefur orðið fyrir. Höfðu þau þrjátíu og átta ár sem maðurinn hafði verið veikur lamað hans innri mann? eða var hann einfaldlega vanþakklátur?

Þessi saga sýnir okkur að líkamleg heilsa er ekki allt. Og þegar Jesús spurði manninn hvort hann vildi verða heill, þá var hann ekki bara að meina hvort hann vildi verða líkamlega heill, Jesús var að bjóða honum líf í sátt og án ótta, líf í fullri gnægð. Þetta skildi maðurinn ekki. Hann tekur lækningunni sem sjálfsögðum hlut, nú er lífið eins og það á að vera, finnst honum. Kraftaverkið hverfur í skugga andlegs doða mannsins og vanþakklætis. Þegar maðurinn er svo ásakaður um að brjóta helgi hvíldardagsins, þar sem hann gengur um heilbrigður með dýnuna sína undir hendinni, þá kemur í ljós að hann hefur í raun og veru ekki skilið undrið sem hann hefur orðið aðnjótandi. Í stað þess að taka ábyrgð á hinu nýja lífi sem hann hefur öðlast þá leitar hann að sökudólgi og bendir á þann sem læknaði hann - Jesús er sá seki. Það er eins og maðurinn gleymi á einu augabragði þeim þrjátíu og átta árum sem hann þjáðist vegna heilsuleysis. Maðurinn er enn svo bundinn í viðjar lögmálsins að hann skilur ekki að kraftur Guðs í verkum Jesúm læknaði hann.

Maðurinn og Jesús mætast svo öðru sinni og aftur er það Jesús sem á frumkvæðið að samskiptum þeirra. Í þetta skipti áminnir hann manninn um að hið eiginlega heilbrigði fáist aðeins með því að taka á móti fyrirgefningu Guðs - hið eigilega heilbrigði fæst aðeins í lífi sem er lifað í trausti til Guðs. Jesús varar manninn við og segir: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo eigi hendi þig annað verra.” Með orðunum „annað verra” á Jesús við að ekkert sé verra en það að treysta ekki Guði í lífinu. Tökum eftir því að þrátt fyrir vanþakklæti mansins snýr Jesús ekki við honum baki, hann varar hann við, hefur áhyggjur af honum, og reynir að fá hann til þess að opna sig fyrir náð Guðs, reynir að fá hann til að verða barn Guðs, þannig að hann lifi í trausti til Guðs eins og barn lifir í trausti til foreldra sinna. En maðurinn skilur ekki Jesúm, eða þorir ekki að treysta orðum hans, í ótta sínum fer hann til andstæðinga Jesú og segir til hans, til þess eins að losa sjálfan sig frá ábyrgð og óþægindum. Líf þessa manns er því áfram litað af ótta, vantrú og öryggisleysi og það þrátt fyrir að hann hafi orðið fyrir kraftaverki.

iii

Í þessum manni mætir okkur í hnotskurn vandi mannlegs lífs. Við neitum að taka við lífi okkar sem kraftaverki og gjöf Guðs. Við viljum mun frekar taka lífið í eign hendur, og svo lengi sem allt gengur vel þá erum við ánægð, en um leið og á móti blæs þá reiðumst við og finnst við svikin og ásökum Guð. Hvers vegna skapaði Guð svona ófullkominn og vonlausan heim? Við erum fljót að missa sjónar af miskunn Guðs og munum of sjaldan eftir því að þakka Guði allt það góða sem hann gefur okkur.

Í grein í erlendu vísindatímariti var fyrir stuttu fullyrt að ekkert skilaði jafn mikilli hamingju inn í líf fólks eins og þakklæti. Samkvæmt greininni er ekkert sem opnar augu okkar betur fyrir því sem er þakkarvert en það að hjálpa öðrum. Við það að sinna náunga okkar í neyð hans þá sjáum við allt það sem við höfum að þakka fyrir. Til dæmis opnast augu okkar fyrir því hvað það er dásamlegt kraftaverk að vera heilbrigður þegar við önnumst um sjúka, þegar við gefum öðrum af matnum okkar þá sáum við hvað það er mikil blessun að eiga til hnífs og skeiðar. Við það að annast um aðra sjáum við að lífið er allt fullt af kraftaverkum og við fyllumst þakklæti. Í greininni var fólk hvatt til þess að sinna sjálfboðaliðastörfum, því þannig tryggði það best lífsgæði sín og lífshamingju.

Kjarninn í boðskap Jesú er að Guð er kærleikur og kirkjan - kirkja Jesú Krists - er kærleikssamfélag. Jesús Kristur sýnir með lífi sínu og starfi, dauða og upprisu, að Guð elskar okkur. Og vegna ástar Guðs þá getur líf okkar aldrei orðið merkingarlaust, jafnvel þótt erfiðleikar, sjúkdómar eða dauði herji á okkur. Sama hvernig allt er, þá hefur Jesús opinberað í eitt skipti fyrir öll að líf okkar er óendanlega dýrmætt í augum Guðs og það er kraftaverk sem er ótrúlegra en allt annað í heiminum.