Krossgötur

Krossgötur

Mætum við mótlætinu með þeim hætti að við látum það svipta okkur allri von? Leyfum við hríðinni að afmá sérkenni okkar og sérstöðu? Verður mótlætið til þess að við töpum áttum og glötum tilfinningu fyrir tíma og rúmi?

Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.

Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“

Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“

Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:

Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gerðu hermennirnir.

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín. Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“

Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. Jóh 16.19-30

Biðjum með orðum Hallgríms Péturssonar:
Hjálpa þú mér, svo hjartað mitt hugsi jafnan um dæmið þitt og haldist hér í heimi nú við hreina samvisku og rétta trú.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum gengum við hjónin yfir Fimmvörðuháls – leiðina sem liggur frá Skógarfossi og að Básum í Þórsmörk. Við lögðum af stað í blíðskaparveðri þarna um hásumar en eftir því sem ofar dró tók að kólna og þykkir skýjabakkar huldu himinn. Úr þeim helltist rigning og svo hríðarél þegar við vorum komin í námunda við jöklana tvö, Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Við vorum við öllu búin og stóðum af okkur hríðina. Þarna uppi eru þó minnisvarðar um ferðalanga sem ekki áttu því láni að fagna og urðu úti þegar brostið hafði á ofsaveður þegar minnst varði.

Veðrað skilti

Ferð þessi sótti á huga minn nú á dögunum þegar ég var að nostra við ljósmyndir úr safni fjölskyldunnar og rakst þar á myndir úr þessari gönguför. Þarna í óbyggðunum eru nokkrar krossgötur og skiptir þar miklu máli að réttur stígur sé farinn. Því hefur framtakssamt fólk reist vegvísa víða á þessum slóðum. Einn þeirra vakti sérstaka athygli mína. Þar eru tréspýtur sem mynda örvar er benda í norður og suður – Básar stendur á þeim fyrri en Skógar á þeim síðari.

Krossgötur á Fimmvörðuhálsi

En þar í miðið er plata sem á að sýna hvar ferðalangar eru staddir. Má greina þar óljóst áletrunina: Fimmvörðuháls. En ólíkt hinum skiltunum tveimur sem vel hafa þolað veður og vind er þessi nánast alveg ólæsileg. Hún vísar jú mót hásuðri en hin tvö horfa í vestur. Greinilega er sunnanáttin ríkjandi á þessum veðrasömu slóðum og hefur hún leikið skiltið svo grátt sem raun ber vitni.

Já, þessar vangaveltur leita á hugann núna. Í dag er föstudagurinn langi – þessi merkilegi dagur sem hefur svo ríka sérstöðu umfram aðra daga ársins. Þetta er dagurinn þegar við hugleiðum ágjöfina sem mætir okkur í lífinu. Við sem eldri erum eigum minningar frá þessum degi þegar öllu var í hóf stillt. Þá var Ísland samfélag kyrrstöðu, hefðar og festu og athafnafrelsið minna en síðar varð. Dagur þessi var eins og áminning um gildi þeirra þátta. Og enn hefur hann blessunarlega nokkra sérstöðu þótt mörgum leiðist það og vilji afmá sérstöðu hans og sérkenni. Dagurinn er helgaður minningunni um þjáningu og dauða Jesú Krists. Þetta er dagur dómsins og svikanna. Já, þetta er dagur þjáningarinnar og víst sóttu þær hugrenningar að ungum huga að dagurinn langi ætlaði aldrei að líða. Þetta er líka dagur krossins. Og krossinn er, eins og við vitum, með arma sem vísa til beggja átta, og svo einn sem bendir mót himni.

Kvölin á krossgötunum

Sá á kvölina sem á völina segjum við stundum og víst er dagur krossins, dagur þjáningarinnar á árinu. Og nú mætir hann okkur á tíma mikilla fórna í samfélagi okkar. Á okkur standa vindar og él. Enginn getur svarað því á þessari stundu hvenær styttir upp. Þetta eru dagar sem verða síðar í minnum hafðir – vonandi þegar útlitið verður bjartara en þó ekki síður ef illa tekst til og hríðin ágerist. Já, við stöndum á einkennilegum stað, kæru kirkjugestir. Við horfum í kringum okkur og útsýnið er ekki það sem við myndum kjósa. Við horfum aftur á bak og rýnum í fortíðina. Að sumra mati er það ekki rétti staðurinn til að líta á – en samt ef við viljum læra eitthvað hljótum við að rifja upp orð og verk liðinna ára. Við horfum fram á veginn inn í þoku hins ókomna og sjáum vart örla fyrir því sem framundan er. Þar eru margir stígar sem vísa í ólíkar áttir og við sjáum ekki hvar þeir enda. Við vitum að, rétt eins og uppi á gróðurvana auðninni í kringum jöklana, eru þetta háskalegar slóðir þar sem ekki er sjálfgefið að allir komist heilir til byggða.

Flest stöndum í þessum sporum. Þau skil sem eitt sinn voru á milli einstaklinga og stétta eru orðin óljósari. Völd, auður og virðing sem safnast höfðu á fárra hendur í svo ótæpilegum mæli lafa nú á bláþræði. Farsæld og orðstír okkar sem þjóðar gerir það einnig. Hvernig mætum við þessum aðstæðum? Í vissum skilningi er við séum föst á föstudeginum langa sem virtist eitt sinn svo endalaus í huga barnsins þar sem tíminn liðast áfram hægar en síðar átti eftir að verða.

Krossinn

Krossinn, þetta helga tákn kristinnar trúar, er magnað tákn. Hann var merki ógæfunnar og þess sem brýtur niður og eyðileggur. Hluti þjáningarinnar var háðið sem Kristur mátti þola. Gálgahúmorinn sem við köllum svo er ein hlið þessa dags. Þar er öllu snúið á hvolf. Lotningin er óekta, tilbeiðslan er fölsk svo að merkingin verður ekki aðeins veikari en ella væri. Hún verður öndverð. Sá sem beitir slíku háði dregur enn fremur fram veikleika þess sem það þolir. Rétt eins og sá sem biðst fyrirgefningar og meinar það ekki – hann er ekki bara að slá vindhögg. Nei, orð hans eru móðgun númer tvö.

Áletrunin á krossinum er í þessum anda. Þarna hékk sjálfur konungur Gyðinga og má þar greina skýr skilaboð, ekki bara til Krists heldur til þjóðarinnar allrar. Svona er konungur ykkar – hversu aumur er þá lýðurinn? Og síðustu ósk Krists um að fá vatn til að svala þorstanum þegar dreyrinn vall úr sárum hans var mætt með beisku edikinu. Eftir að hafa fengið þann ramma drykk gaf Kristur frá sér lokadóminn yfir þessum degi. Ekki ólíkt því sem við segjum gjarnan, einmitt með öndverðri merkingu, þegar okkur finnst fokið í öll skjól: „Það er fullkomnað“.

Snúum rétt

Í hans munni er þó enga kaldhæðni að finna. Nei, Kristur er „háðung [hlaut] að líða“ svaraði með þeim dómi að athöfnin hefði verið fullkomin. Orðin sem höfð eru á frummáli Jóhannesarguðspjalls geta einnig þýtt: „Því er lokið“ en fyrri þýðingin fangar betur þann djúpa boðskap sem krossin hefur. Boðskapurinn er sá að þjáningin, eins niðurbrjótandi og sár sem hún kann að vera – felur í sér ríkulega merkingu í lífi okkar. En þjáningin er eins og krossgöturnar. Það skiptir miklu máli hvaða veg við fetum okkur í gegnum þær. Það skiptir máli hvert við beinum sjónum okkar þegar stórviðrið geysar og hríðin bylur á. Víst er það ekki í okkar valdi að stjórna veðrum og himinstraumum. Við vitum það líka að sorgin er jafn eðlilegur hluti lífsins eins og skugginn er gagnvart ljósinu.

Skiltin sem ég tók mynd af þar sem við vorum í stórbrotnu landslaginu uppi á Fimmvörðuhálsi veita vísbendingu um það hversu mikilvægt það er að snúa rétt í lífinu. Þarna voru þrjár spýtur með útskorinni áletrun á. Þær höfðu staðið jafn lengi þarna uppi á heiðinni. Efniviðurinn var sá sami. Tvær þeirra voru vel farnar, gegndu hlutverki sínu enn ágætlega að vísa ferðalöngum veginn. Ein þeirra var máð og illlæsileg og nánast ónýt. Hver var munurinn? Jú, þær stefndu í ólíkar áttir og sú sem verst var farin stóð beint á sunnanáttina sem er svo ríkjandi á þessum slóðum. Hinar horfðu mót vestri þar sem vægari vindar blésu.

Okkar hlutskipti er það sama. Mætum við mótlætinu með þeim hætti að við látum það svipta okkur allri von? Leyfum við hríðinni að afmá sérkenni okkar og sérstöðu? Verður hún til þess að við töpum áttum og glötum tilfinningu fyrir tíma og rúmi? Slíkt gerist. Þeir sem gengið hafa í gegnum slíkar raunir með hópi fólks lýsa allir sömu viðbrögðum. Sumir hverfa tímabundið inn fyrir skel sjálfsblekkingarinnar en þegar napur veruleikinn birtist þeim fallast hendur og vonleysið hremmir þá af fullum þunga. Nei, þjáningin er veruleiki í lífinu. Og meira en það. Þjáningin er prófsteinninn stóri. Krossinn sem vísar í andstæðar áttir og hvetur okkur til afstöðu.

Okið létt

Það er ekki tilviljun að mótlætið reynist þeim auðveldara sem eiga sér trú í hjartanu. „Ok hans er auðvelt og byrði hans létt“ segir postulinn. Vegna þess að leiðsögnin er svo drjúg og ferðafélaginn svo góður. Kristnir menn eiga sér sanna fyrirmynd og leiðtoga sem sjálfur þoldi háðung og þyngstu raun. Og Kristur er ekki bara leiðsögn á lygnum dögum, þegar allt leikur í lyndi. Hann er huggarinn sanni sem segir okkur ekki bara hvernig við eigum að bera okkur að. Nei, hann mætir okkur í hjarta okkar því sjálfur hefur hann staðið í myrkrinu, sjálfur hefur þolað hvassa naglana, setið undir háðinu og sopið bitran safann: „Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi.“

Kristin trú kallar okkur til ábyrgðar í hverjum þeim sporum sem við erum í. Og þetta ákall er um leið leiðarvísirinn á krossgötum lífsins. Því ábyrgðin vísar til framtíðar. Fórnin og þjáningin kallar fram tilganginn í hjarta okkar. „Það er fullkomnað“ segir Kristur á þeim tímapunkti þegar myrkrið og andstyggðin virtist hafa náð hámarki sínu. Hvers vegna? Vegna þess að þjáningin hefur tilgang. Sá sem skilur það mætir henni með allt öðru hugarfari. Og hann stendur ekki bara óbifaður, hún verður honum dýrmætur skóli til dýpri þekkingar á lífinu og sjálfum sér. Eins og segir í lexíunni: „Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn og guðsþekking fremur en brennifórn.“

Líf okkar er á krossgötum. Það vitum við. Við eigum ekki annarra kosta völ en að mæta þeim veruleika. En það hvernig við mætum hríðinni, hvert við horfum, skiptir höfuðmáli um það hvernig okkur á eftir að farnast. Kristnir menn vita það að úthaldið, heiðarleikinn, hugrekkið, sanngirnin og miskunnsemin koma til með að leiða okkur áfram til betri vega. Þess vegna tökum við á móti föstudeginum langa, mætum boðskap hans með andlitið mót páskadeginum sem senn heilsar. Í allri raun beinist ásjóna okkar mót þeim sem vann sigurinn stóra á sigurhátíðinni.