Kross Krists og fórnin

Kross Krists og fórnin

Mönnum hættir til að eigna túlkun ritningarinnar á krossdauða Jesú, því sem hann er að hafna. Kross og dauði Jesú eru endir allra fórna. Því þar er það ekki maðurinn sem gefur eða fórnar heldur Guð sem gefur. En hvað er átt við með þessu?

Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann. Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu. Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: „Sæll þú, konungur Gyðinga,“ og slógu hann í andlitið.

Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við fólkið: „Nú leiði ég hann út til ykkar svo að þið skiljið að ég finn enga sök hjá honum.“ Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við fólkið: „Sjáið manninn!“

Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann æptu þeir: „Krossfestu, krossfestu!“

Pílatus sagði við þá: „Takið þið hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum.“

Þeir svöruðu: „Við höfum lögmál og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja því hann hefur gert sjálfan sig að Guðs syni.“

Þegar Pílatus heyrði þessi orð varð hann enn hræddari. Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: „Hvaðan ertu?“ En Jesús veitti honum ekkert svar. Pílatus segir þá við hann: „Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef vald til að krossfesta þig?“

Jesús svaraði: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök sem hefur selt mig þér í hendur.“

Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En fólkið æpti: „Ef þú lætur hann lausan ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gerir sjálfan sig að konungi rís á móti keisaranum.“

Þegar Pílatus heyrði þessi orð leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata. Þá var aðfangadagur páska, um hádegi. Hann sagði við fólkið: „Sjáið þar konung ykkar!“

Þá æptu menn: „Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!“

Pílatus segir við þá: „Á ég að krossfesta konung ykkar?“

Æðstu prestarnir svöruðu: „Við höfum engan konung nema keisarann.

Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.

Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“

Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“

Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:

Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gerðu hermennirnir.

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“

Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum.

Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

Jóh. 19:1-30

Það loga hvorki kerti á altarinu, eru þar blóm og presturinn klæðist bara svartri hempu. Allt er þetta gert til þess að minnast atburðanna á föstudaginn langa. Þá var Jesús hæddur, hýddur og krossfestur. Og loks eftir miklar þjáningar stundi hann upp, „Það er fullkomað.“ Hann hneigði höfuðið og gaf upp andann“. Jesús dó á krossinum í okkar stað, hann fórnarði sér vegna synda okkar svo við megum lifa. Margir setja spurningarmerki við einmitt þetta: Það virkar ekki einungis framandi heldur fráhrindandi að Guð fórni syni sínum. Á virkilega að túlka krossin á þennan máta? Er ekki nær að horfa framhjá honum til kærleiksboðskapar Jesú og láta hann ljúka upp merkingu hans? Dauði Jesú væri þá afleiðing kærleiksboðunarinnar, en ekki sláturfórn til fyrirgefningar syndanna.

Hugum nánar að þessari gagnrýni, en henni má skipta niður fimm áhersluþætti. (1) 1. Menn hafa bent á að túlkunin á krossdauða Jesú sem fórn sé afsprengi löngu liðins tíma og hugmyndarheims. Þegar kristindómurinn kom fram á sjónarsviðið þá kenndi hann einmitt að Kristur væri hin eina algilda fórn sem gerði alla aðra fórnarþjónustu óþarfa. Kross Krists losaði svo að segja átrúnaðinn úr viðjum fórnarhugsunarinnar. Afleiðingar þess eru að í hartnær 2000 hefur hún ekki verið viðfangsefnið. Allt tal um fórn sé fólki því framandi og óskiljanlegt. Það sé því ekki réttlætanlegt að nota orðfæri hennar í boðun kirkjunnar. (2)

2. Í annan stað finnst mönnum að blóðforninn sé þversögn, hvernig á að vera mögulegt að hreinsa burt blóðsekt með blóðsekt, eða eins og gríski heipspekingurinn Hereklítos (554–483 f.Kr) sagði þegar í fornöld. „Við hreinsum ekki skít með skít.“ Þessa hugsun yfirtekur Friedrich Nietzsche (1844–1900) öldum síðar þegar hann segir:

„Guð gaf son sinn til fyrirgefningar syndanna sem fórn. Hvernig gat það orðið að fagnaðarerindið endaði svona! Sektarfórn og það í sinni viðurstyggilegustu mynd og á villimannslegan hátt sem fórn saklauss manns fyrir synd hins seka! Hvers konar hryllingsheiðni er þetta!“ (3)

3. Nátengd þessari gagnrýni eru siðferðilegar aðfinnslur sem meðal annarra þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724–1804) setur fram varðandi fórnarhugsunina. Hann bendir réttilega á að þótt menn geti yfirtekið peningaskuld fyrir aðra þá eigi slíkt ekki við um siðferðilegabrot. Kant leggur sekt að jöfnu við synd og segir að hver og einn verði að bera sína sekt. Óþolandi að saklaus líði fyrir sekan. (4) Kant vísar til ritningarinnar máli sínu til stuðnings, þar sem bæði spámenn Gamla testamenntisins og Jesú höfnuðu því að hægt væri að gera samskipti Guðs og manns að viðskiptasambandi, sem mótaðist af debet og kredit. (5) Því er hafnað í ritningunni en þar segir Hósea: „Því að á miskunnsemi hef ég þóknun, en ekki sláturfórnum, og á guðsþekkingu, fremur en brennifórnum“ (Hós 6.6). Og Jesús segir: „Miskunsemi vil ég ekki fórnir. Ég er ekki kominn til að kalla rétttláta, heldur syndara“ (Matt 9.13). 4. Svipaða hugsun er þegar að finna í ritum Platons (427–347) sem talar um að það sé blekking að álíta að menn geti yfirfært samskipti manna yfir á samband guðs og manns. Það væri einkennilegur guð sem tæki við fórnum sem einhverskonar greiðslu sem kalla ætti fram hugarfarbreytingu, slíkri fórnarhugsun má líkja við mútugreiðslur. Hún er lúmkst bragð presta til að tryggja tekjur sínar – því eins og allir vita þá tóku þeir hluta af fórnargjöfunum til eigin nota. Prestum tekst þetta segir heimspekingurinn Arthur Schopenhauer (1788–1860) því menn treysta frekar „á framandi náð en eigin verk.“ (6) Hér er gagnrýnt að guði séu eignaðir mannlegir eiginleikar í stað þess að greina sundur eðli Guðs og manns.

5. Loks ber að nefna gagnrýni þeirra sem sjá í fórnarhugsuninni rót misnotkunar, þar sem gerðar eru í krafti hennar kröfur til manna um að fórna sér og sínum fyrir misskýrar hugmyndir, málstað, þjóðir eða aðra varhugaverða hagsmunagæslu. Síðastliðin 250 ár eru blóði drifin vegna slíkra krafna um fórnir. Í því sambandi má nefna kommúnismann, nasismann, kapítalismann, íslamismann eða aðra -isma. Það kemur því ekki á óvart að kvennaguðfræðngurinn Louisa Schotroff gagnrýni það að binda fórnarhugtakið við krossdauða Krists. Hún spyr hverskonar alræðis-sadismi það sé, að Guð heimti að sonurinn deyji svo að heiðri hans sé borgið. Slík blóðsdýrkum er andstæð öllu lífi, en einmitt ritningin og Jesús kenni að Guð sé Guð lífs og það eilífs lífs. Hún vill því frekar tengja blóðið við nýsköpun og fæðingu, en fórn, réttarfar og aftöku. (7)

* * *

Það er merkilegt að þegar betur er að gáð, að þessi gagnrýni ekkert annað en afsprengi íhugunnar manna á krossdauða Krists sem fórnardauða. Það sem fólk hafnar, gagnrýnir eða tengir við krossdauða Jesú sem fórn, er einmitt það sem krossinn hafnar. Mönnum hættir til að eigna túlkun ritningarinnar á krossdauða Jesú, því sem hann er að hafna. Kross og dauði Jesú eru endir allra fórna. Því þar er það ekki maðurinn sem gefur eða fórnar heldur Guð sem gefur.

En hvað er átt við með þessu?

Ein af grundvallarhugsunum í trúarbrögðum er sú að Guð – guðir – guðdómurinn gefi manninnum það sem honum er dýrmætast: Lífið sjálft. Og það sem við rekumst á í trúarbrögðum er að þessi hugsun er sett í samhengið kaup-kaups. Menn ætla sem sé að það sem hið guðlega færir, verði einhvernvegin að gefa til baka. Og hér kemur fórnin inn. Með henni álítur maðurinn að hann gefi, skili eða þakki fyrir það sem hann hefur þegið og geti öðlast það aftur. Engu er til sparað, heldur ekki því dýrmætasta sem maðurinn á sem er hans eigið líf. Fórnin eða það sem er fórnað á að tákn líf mannsins. Maðurinn skilar því og endurnýjar með og í fórnarathöfninni.

Hve róttækar þessar fórnir geta orðið hefur m.a. komið fram við rannsóknir á trúarsiðum í fornumríkjum Suður-Ameríku. Í trúarbrögðum þeirra voru. mannfórnir algengar. Það menn hafa komist að um þessa siði, er vægast sagt viðbjóðslegt. Þar voru ekki tugir manna á ári sem var slátrað heldur hundruð og jafnvel þúsundir. Fórnarkrafan var grimm eins og guðirnir. Allt annar veruleiki mætir okkur í ríkjunum fyrir botni Miðjarðarhafs í fornöld. Þar hafa fundist einstaka tilvitnanir um mannfórnir, og má með sanni segja að fórn dýra og ávaxta jarðarinnar hafa leyst slíkt algjörlega af hólmi. Algengasta fórnardýrið var lambið og fórninni tengdist ætíð máltíð. Flestallt kjöt sem menn neyttu til forna tengdist fórnum, má segja að musterin hafi verið sláturhús í fornöld. Nægir hér einungis að huga að páskahátíð gyðinga. Í samtíma Jesú komu gyðingar allstaðar af úr Rómaveldi til Jerúsalem til að halda páska. Þá var lambi slátrað í musterinu og þess síðar neytt um kvöldið með fjölskyldunni. Við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund það magn dýrablóðs sem þá vætti gólf musterins. En um magnið vitnar hið mikla holræsiskerfi sem er að finna undir musterinu Jesúsalem. Það þarf ekki að fara nánar út í þetta, blóð og fórn tengjast og þessi tengsl voru öllum meðvituð. Máltíð sem var í kjölfar fórnarinnar undirstrikaði sátt, nýtt líf og framtíð.

Á krossi Krists er þessu ferli fórnarinnar snúið við og hafnað. Fórnin er sett í annað samhengi. Guð þarfnast ekki fórnar okkar, hann þarfnast ekki lífs okkars eða greiðslu fyrir líf af okkar hendi. Við færum Guði ekki fórnir, það er hann sem gefur okkur. Það sem við þurfum er náð og fyrirgefning Guðs. Við þörfnumst þess lífs sem fyrirgefning Guðs gefur okkur til að lífa. Og það gefur okkur Guð í Kristi.

Fórnin er ekki það sem Guð þarfnast, heldur vill hann bara að við trúum og treystum honum. Þess vegna umbyltir Guð öllum fórnarskilningi manna þegar hann tekur á sig allt okkar í Kristi til að að gefa okkur þar allt sitt, þar með talið eilíft líf. Þetta er svo orðað í ritningunni:

„Á hádegi varð myrkur um allt land til nóns. Og á nóni kallaði Jesús hárri röddu: „Elóí, Elóí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Mk 15.34)

Kristnir menn hafa jafnan túlkað þessi orð í ljósi spádómsorða Jesaja:

„Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni sem menn byrgja augu sín fyrir, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. En vorar þjáningar voru það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði. Vér álitum honum refsað, hann sleginn og niðurlægðan af Guði. En hann var særður vegna vorra synda, kraminn vegna vorra misgjörða. Honum var refsað svo að vér fengjum frið og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir. Vér fórum allir villir vegar sem sauðir, héldum hver sína leið en Drottinn lét synd vor allra koma niður á honum.“ (Jes 53.3-6).

Í Hebreabréfinu er þessi hugsun útfærð nánar og lögð á það áhersla að Jesú Kristur fórni sér sem hinn sanni æðstiprestur:

„Þannig gerði hann það sem Guð vildi og þess vegna erum við helguð orðin að hann fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll. Sérhver prestur er hvern dag bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir. Þær geta þó aldrei afmáð syndir. En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs“ (Heb 10.10–11).

Inntakið er að í Jesú Kristi tekur Guð á sig algjöra einangrun og aðskilnað mannsins í dauðanum sem afleiðingu syndarinnar, til þess að maðurinn þurfi aldrei að líða hana. Þetta er inntak fórnarinnar. Kristinn fórnarskilningur hafanði því frá upphafi fórnarþjónustunni í musterinu og í keisaradýrkuninni.

Afleiðing þess er fyrir það fyrsta að í samskiptum mannsins við Guð fær fórnin allt aðra merkinu. Hún er ekki lengur merki um sviptingu lífs fyrir líf, heldur verður inntak hennar þakklætið sem kemur fram í lofgjörðinni og í trúnni sem maðurinn þiggur með náð og fyrirgefningu Guðs. Trúin sem er traust til kærleika Guðs sem er grundvöllur lífins og markmið alls. Samkipti Guðs og manns er að finna þessari í trú sem Krsitur vekur.

Fórnin er auk þess tengd við samband okkar við náungann, inntak hennar er nú þjónustan. Hún felst í því að hlúa að lífi hér í heimi. Fórnin er ekki lengur skilin sem það að svipta einhvern einhverju til að fá eitthvað, heldur eitthvað sem við leggjum sjálfviljug á okkur til að geta deilt lífi okkar með öðrum. Þannig fórnum við tíma, peningum, vinnu o.s.frv. til þess að geta deilt lífi með náunga okkar og þeim sem við elskum. Loks er það sem krossinn dregur fram er að engin hugmyndafræði getur gert þá kröfu til okkar að fórna lífi og eignum sínum fyrir hana. Fórnin er mun fremur hluti af þjónustu okkar við náungann sem fellst í að ryðja lífinu leið, en ekki taka líf. Fórnin sem þjónusta við lífið felst í því að hlúa að lífinu í okkar daglegu störfum. Ástæða þess að við getum þetta er vegna þess að fórn Krists hefur gert alla aðra fórnarþjónustu óþarfa.

Í Jesú nafni Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Vísanir

(1) Hér er stuðst við Ingolf U. Dalfereth, Der auferweckte Gekreuzigte, Tübingen 1994, 287–292.

(2) Gerhard Fredrich, Die Verkündigung des Todes Jesu im Neuen Testament, Neukirchen–Vluyn 1982, 145–155.

(3) Friedrich Nietzsche, Der Antichrist 41, KSA 6, 214.

(4) Immanuel Kant, Die Religion innehalb der Grenzen der bloßen Vernunft, 2.útgf. í Kant Werke in zehn Bänden útgf. Wilhelm Weischedel 5.útg. Darmstadt 1983, 7 bindi, 726–727 (B 94–96). Ingolf U. Dalfereth, Der auferweckte Gekreuzigte, 288.

(5) Sbr Am 4.4, 5.21. Hos 4.4, 6.6. Jes 1.10. Mt 9.13.

(6) Tilvitnun fegin hjá Ingolf U. Dalfereth, Der auferweckte Gekreuzigte, Tübingen 1994, 289.

(7) Ingolf U. Dalfereth, Der auferweckte Gekreuzigte, Tübingen 1994, 290–291.