Fasta: að iðrast í sekk og ösku

Fasta: að iðrast í sekk og ösku

Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn. En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við. (Lk. 22. 24-32)

Það er komin fasta og tími til að iðrast í sekk og ösku. Ekki beint tískuorð það, iðrun og fasta. Þó er fasta ekki óalgeng í nútímamenningu en gengur þá undir öðru nafni „megrunarkúr“. Ég kom í bakarí á föstudegi, takið eftir á föstudegi fyrir bolludag, þá voru bollurnar komnar, fyrsti í bollu, sem sagt fjórir bolludagar, svo kom sprengidagur, þannig að það ískraði í ístrunni svo þanin var hún, áður en fastan gekk í garð. En nú er fastan byrjuð. Rjóma- og kjötkveðjuhátíðir að baki. Tími til kominn að iðrast í sekk og ösku.

Sú var tíðin að menn föstuðu eins og heitið á föstudeginum ber með sér, slepptu til dæmis kjöti, átu fisk í staðinn, eða slepptu máltíðum. Og askan var notuð í raun og veru sem tákn um að menn vildu ganga í sig, hugsa sinn gang, leggja eitthvað á sig í andlegu tilliti. Ég man eftir að notaðir voru öskupokar á öskudegi, siður sem einhverjir hafa verið að reyna að endurvekja, en minnir okkur á iðrunina, eins og nafnið á deginum, upphafsdegi föstunnar. Á öskudegi var gert krossmark á enni með ösku við helgihaldið til að marka upphaf föstunnar.

1.

En hvað er fasta? Hún er meira en megrunarkúr. Við neitum okkur um eitthvað til þess að geta betur helgað okkur Guði. Þess vegna krossmark eins og þegar við vorum helguð Guði í skírninni og eins og þegar við kveðjum ástvini og helgum þá Guði. Krossinn er iðrunartákn, margslungið, samofið menningu okkar. Móðirin signir barnið sitt með bæn um blessun Guðs og hún signir yfir sjúkrabeð sonar síns.

Fastan er meira en megrunarkúr. Hún er einnig andlegt æfingarprógramm, þrautreynt í gegnum aldirnar.

Ég hef svo sem ekki mikla reynslu af matarföstum (eins og á mér má sjá) en þó hef ég reynt fullkomna föstu í einn sólahring og föstudeginum langa. Auðvitað sleppir maður ekki vökvanum. Og eins og Lúther kenndi ef maður verður skrýtinn í hausnum er betra að fara varlega. Líkami okkar er merkilegt fyrirbæri sem þarf að hlusta á í mörgu tilliti. Að fasta er að virða líkama sinn og að sinna honum. Það er eins með matarföstu eins og hvíld. Við getum ekki án hennar verið. Sú menning sem varðveitti þessa siði og venjur hafði næmari tilfinningu fyrir líkamanum að mínu mati en sú keyrsla og hraði, óhóf og nautnasýki, sem viðgengst í nútímanum, svo að megrunarkúrar eru kynntir eins og hjálpræðisleiðir út úr vítahring. En andlegar æfingar eru ekki hjálpræðisleið heldur heilsubót andlega talað og þar með líkamlega.

Þegar maður tekur sér það fyrir hendur að bæta sig, breyta breytni sinni til betri vegar í einhverju reynist það ekki eins auðvelt og virðist við fyrstu sýn. Það er eitthvað andóf í okkur vel flestum held ég að megi fullyrða þegar kemur að því að bæta sig, skrýtið, en þannig var það þegar ég fastaði, þá varð ég svangur, maður varð að lægja hungrið, þegar það var liðið hjá, komu hugrenningar út og suður, svo það reyndist erfitt að einbeita sér að Guði og bæninni. Og bænin endaði gjarnan í einu ákalli: Guð hjálpaðu mér! Og þá er maður kominn í hinar eiginlegu föstustellingar.

En allt er þetta frekar létt og auðvelt þangað til að við komum að stóra siðferðisvandanum, raunverulegri föstu, þegar maður bindur sig við meðbróður sinn og systur, lætur þarfir þeirra og bænir verða sér leiðarljós, biður fyrir þeim, þjónar þeim og hjálpar. Jesús leiðrétti alla villuráfandi föstu sem snérist um hégóma og eigingirnd í öllum sínum skrýtnu myndum og beindi mönnum að því að treysta Guði og elska náunga sinn. Og það er það sem við eigum að gera nú þegar meðbræður okkar og systur þjást víða um heim af óáran og styrjöldum. Verkefnin eru svo stór og óyfirstíganleg að því er virðist en það á að vera okkur því kröftugri köllun Guðs til alvöru föstu.

2.

Í guðspjallinu erum við minnt á sögu Péturs postula sem er merkileg lærdóms- og trúarlífssaga. Frásagan er með þeim hætti að hann hlýtur sjálfur að vera upphafsmaður hennar annað hefði ekki verið við hæfi að hann leiðtogi safnaðarins hefði verið lýst með þessum hætti nema af sjálfum sér. Hann dæmir sig sjálfur. Hann varð að læra lexíu, það var hans fasta, að “auðmýkja sig undir Guðs voldugu hönd” eins og hann skrifar í bréfi sínu.

Afneitun Péturs eftir Carravagio Afneitun Péturs eftir Carravagio

Hallgrímur Pétursson okkar útleggur iðrun Péturs með andlegri innsýn. Iðrun hefur nefnilega með samband okkar við Guð að gera, við erum að fást við samviskuna. Og þá þegar hún er nefnd eigum við það til að fara í hnút. Líklega er það vegna þess að samviska okkar er oft í hnút eða hún sýnir okkur að við erum hnýtt inn í sjálf okkur, eigingirni okkar og sjálfshyggju. En lexían sem Pétur varð að læra er stefnir okkur í þveröfuga átt. Jesús vill rétta úr okkur en það er ekki á okkar vald heldur er það þegar við viðurkennum stöðu okkar gagnavart Guði og áköllum hann: Guð hjálpaðu mér! Þá lærist okkur þessi lexía.

Hátt galar haninn hér í hvers manns geði, drýgðar þá syndir sér, sem Pétur skeði.

Sárlega samviskan sekan áklagar, innvortis auman mann angrar og nagar.

Þetta er önnur hlið iðrunarinnar þegar við áræðum að horfast í augu við okkur sjálf og sjá hvernig við erum í raun. Pétur vildi gjarnan drottna, stjórna og leiða, en varð að læra það að Guð agar, þannig að hismið kemur í ljós, og við sjáum hlutina eins og þeir eru. Samviskan er það verkfæri sem Guð hefur gefið okkur til þess. Auðvitað getur þetta verið óþægilegt að viðurkenna að maður hafi eitthvað óhreint í pokahorninu, ekki verður það auðveldara þegar Guð bendir okkur á eitthvað sem er orðið hluti af persónu okkar eins og raunin var með Pétur, en hann viðurkenndi stöðu sína gagnvart Guði, en ekki fyrr en eftir sára reynslu. Og Hallgrímur segir svo frá af andlegu innsæi sínu:

Ekki er í sjálfs vald sett, sem nokkrir meina, yfirbót, iðrun rétt og trúin hreina.

Hendi þig hrösun bráð sem helgan Pétur, undir guðs áttu náð, hvort iðrast getur.

Ó, Jesú, að mér snú ásjónu þinni. Sjá þú mig særðan nú á sálu minni.

Og það er hin hlið iðrunarinnar og sú sem skiptir meiru, það sem reisir okkur við, lyftir okkur upp, gefur trú og styrk, þegar við horfumst í augu við Jesú sjálfan, sjáum hann, skiljum að það er hann sem sigrar freistinguna í okkur, það er hann sem gengið hefur á undan, biður fyrir okkur að trú okkar þrjóti ekki. Og þegar við höfum gengið þessa leið, er hismið farið og það sem stendur eftir er að styrkja systur og bræður þegar við erum snúin við frá því sem er innantómt. Þetta er iðrun sem leiðir okkur til lífsins, kærleikans, náunga okkar.

3.

Þessi reynslusaga Péturs hefur fengið trúarlegt tákn í vindhananum, sem snýst fyrir hverjum vindi, stundum er hann hafður á kirkjum til að minna á þessa reynslusögu leiðtoga frumsafnaðarins. Og maður getur ekki annað en brosað en um leið er þessi saga tvíeggjað sverð sem snýr að okkur sjálfum. Við lærum að brosa að okkur sjálfum, vegna þess að við höfum lært sjálfsrýni, sjálfsprófun föstunnar. Að iðrast í sekk og ösku er til einskís ef hún leiðir okkur ekki til Drottins Guðs sem einn getur sigrað, það er að auðmýkja sig undir Guðs voldugu hönd. Guð gefi okkur náð til þess.

Dýrð sé Guð. Amen