Frelsi og markalínur

Frelsi og markalínur

Frelsi manns, sem sér ekkert nema spegilmynd sjálfs sín, en horfist aldrei í augu við náunga sinn, endar í helsi. Ég er frjáls en frelsi mitt takmarkast við dyr náunga míns. Þar mætumst við og. . . .

Sl. 103.1-6 Lofa þú Drottin, sála mín Gal 2.20 Ég er krossfestur með Kristi Jóh 5.1-15 Tak rekkju þína

Hún er fögur birtan um þessar mundir eftir einstakt sumar. Hausrökkrið færist hljótt yfir landið eins og það hefur gert um þúsundir ára. Heimskautið hallar sér hægt frá sólu og skuggarnir lengjast. Þar sem ég sat heima í gærkvöldi og horfði á landsleik í fótbolta í sjónvarpinu varð mér hugsað til breytinganna sem orði hafa á Íslandi á liðnum áratugum. Úti fyrir rigndi og náttmyrkrið hafði hrakið daginn í felur. En á skjannabjörtum, flóðlýstum, Laugardalsvelli hlupu landsliðin og léku sér. Rafljósin og tæknin gera lífið auðveldar í þessu fagra en harðbýla landi. Þeir stóðu sig vel strákarnir og vantaði aðeins herslumuninn á að þeim tækist að leggja Spánverjana að velli. En jafnteflið gaf kærkomið stig í þessum skemmtilega bardaga þjóðanna þar sem menn reyna með sér í heilbrigðum leik.

Mér varð jafnframt hugsað til þess hvernig mannlífið leitar stöðugt í ritúal, helgisiði og siðvenjur. Áður en leikurinn hófst voru futtir þjóðsöngvar, fyrirmenn heilsuðu liðsmönnum, sem síðan heilsuðu hverjir öðrum og loks var skipst á minnjagripum. Lífið er ritúal. Lífið er rammað inn af helgisiðum. Siðir og venjur setja lífið í visst samhengi og skapa öryggi og frið. Á sama tíma og þetta er alkunna eru til þeir sem fjargviðrast út í trú og telja að trúarbrögð séu rót alls þess sem illt er en trúarbrögðin eru þekkt fyrir siðvenjur og ritúöl. Vissulega eru til menn sem vinna illvirki í nafni trúar og það á við um kristna menn sem aðra. Því miður eru mörg dæmi um slíkt. Hins vegar er ábatinn af heilbrigðri trú svo mikill að hann yfirgnæfir allt og gerir rök þeirra sem telja trúna hættulega álíka gáfuleg og rök þekktra harðstjóra á liðinni öld sem agnúuðust út í trú á sama tíma og þeir leiddu hörmungar yfir milljónir manna.

Við þörfnumst heilbrigðrar trúar. Maðurinn er skapaður til þess að trúa, til þess að eiga samfélag við skapara sinn. Og þegar hann lifir í samhljóm við innsta eðli sköpunarinnar, kærleikann, líður honum vel. Þá er hann heill.

Á BBC í morgun var sagt frá ungum múslimum í Birmingham á Englandi sem ratað hafa á glapstigu. Þeim hefur verið bjargað með því að fara með þá til Mekka þar sem þeir hafa heyrt hreilbrigðan boðskap um samhljóm alls lífs og sköpunar Guðs. Þeir hafa snúið heim heilir menn. Á hinn bóginn þekkjum við líka dæmi um það hvernig trúin er notuð sem afl til óvildar og illra verka. Þar veldur hver á heldur. Markalína ills og góðs liggur ekki á milli kristni og islam, Vesturlanda og hinna múslimsku landa. Hún liggur í gegnum hjarta mitt og þitt.

Að lifa í sátt við Guð og menn er köllun sérhverrar manneskju. Í lífinu eru margar markalínur. Ein liggur til að mynda milli þess að vera í jafnvægi annars vegar og ofurseldur firringu hins vegar. Firringin er víða. Við verðum vitni að henni í hverri viku þegar við heyrum fréttir af ástandinu í Miðbænum. Loksins er lögreglan farin að taka á vandanum af festu og einurð. Hún er farin að dæma leikinn í stað þess að láta hann fara sínu fram án dómara og línuvarða eins og hefur nánast verið plagsiður undanfarin ár. Við sem horfum á leikinn í Miðbænum trúum því að nú sé að vænta lausnar og lækningar á þessum erfiða sjúkdómi og firringunni sem hrjáir svo margt ungt fólk í þjóðfélaginu. Manneskjan þolir ekki taumlaust frelsi. Hún þarf sið og reglu til að henni líði vel. Lífsleikurinn getur ekki farið vel fram nema með dómara og línuvörðum. Vandi okkar þjóðar er ef til vill að mestu leyti fólginn í því að fólk virðir ekki lengur siði og venjur, hirðir ekki um það sem er heilagt og gerir þarfir sínar þar sem því sýnist. Þetta kemur meðal annars fram í viðleitni svonefndra listamanna til að tjá sig með því að hneyksla og ganga yfir siðferðileg mörk og sverta hið heilaga. Í liðinni viku fékk ég til að mynda boðskort á myndlistarsýningu. Á boðskortinu er mynd sem meiðir trúarkennd mína og gengur yfir mörk hins helga og háleita.

Frelsi manns, sem sér ekkert nema spegilmynd sjálfs sín, en horfist aldrei í augu við náunga sinn, endar í helsi. Ég er frjáls en frelsi mitt takmarkast við dyr náunga míns. Þar mætumst við og frelsið leitar jafnvægis. Hið sanna frelsi hefur endamörk og hliðarlínur. Takmarkalaust frelsi er ekki til því frelsi án marka leysist upp í óskapnað.

Viltu verða heill? spurði Jesús lama manninn. Hann var búinn að bíða í 38 ár eftir hjálp. Og svo kom hjálpin. Hún var fólgin í athygli og elsku hins hæsta. Sjúki maðurinn fann samhljóm við uppsprettu lífsins þarna við laugina þar þegar Jesús mælti til hans máttugum orðum og sagði honum beinlínis að rísa upp og taka rekkju sína. Og orðin hrifu. Hann reis upp.

Lexína úr Gamla testamentinu er lofsöngur manns sem risið hefur upp fyrir mátt trúarinnar. Trúin er stöðugt að reisa fólk upp. Ég sé trúna að verki daglega í lífi fólks, í sorg og gleði. Fólk tekur upp rekkju sína og gengur út til nýs lífs í Kristi. „Lofa þú Drottin sála mín“, segir sálmaskáldið (Sl. 103) og mælir til sálu sinnar á sama hátt og Hallgrímur er hann orti: „Upp, upp, mín sál“. Í sálmi hins gamla sáttmála mælir þakklát sál sem veit um og þekkir góðgerðir Guðs sem fyrirgefur misgjörðir, læknar mein, lesir úr fjötrum, náðar og miskunnar, mettar gæðum, gefur nýjan kraft og fremur réttlæti sitt og réttir hlut kúgaðra.

Skáldið veit að líf hans getur ekki blómstrað ef það er aðskilið frá Guði vegna rangrar breytni eða firringar. Hann er sér þess meðvitandi að Guð hefur rutt úr vegi stærstu hindruninni með því að fyrirgefa allar yfirsjónir og setur líf hans því á nýjan grundvöll. Hann veit sig vera í hendi Guðs sem bjargar frá öllum sem ógnar, líka frá dauðanum. Skáldið gerir sér grein fyrir því að tækifærin sem lífið býður upp á eru þau sömu og á sólskinsdögum bernskunnar. Hann dregur þær ályktanir af eigin reynslu að lífið felur ætíð í sér nýtt upphaf þegar Guð kemur inn í líf hans. Hver dagur er gjöf Guðs. Þetta er skilningur Gamla testamentisins á því sem Nýa testamentið kallar að fæðast á ný, endurfæðast og frelsast.

Viltu verða heill? spurði Jesús. Og hann spyr enn: Viltu verða heil, viltu verða heill? Heilsan er fólgin í því að taka rekkju sína og trúa á endurnýjandi kraft lífsins í Guði. „Sjálfur lifið ég ekki framar“, sagði postulinn, „heldur lifir Kristur í mér.“ Hinn gamli maður, syndin í lífi okkar, er krossfestur með Kristi. Við erum kölluð til að lifa upprisulífi, ekki liggjandi bjargarlaus í rekkjunni á laugarbarminum, heldur upprétt og uppreist fyrir kraft Guðs. Postulinn þekkti þessi sannindi og sagði: „Lífinu sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“

Allt byggir þetta á elsku Guðs. Og þegar við skynjum þessa elsku og þorum að treysta henni, þá gerist kraftaverkið í lífi okkar, þá rísum við upp til nýs lífs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.