Paradísarmissir og paradísarheimt

Paradísarmissir og paradísarheimt

Það er eins og atburðarrás dæmisögnnar hafi verið stöðvuð. Andartökin sem eldri sonurinn vill ekki yrða á bróður sinn, verða að fjörutíu ára þögn. Við erum stödd einmitt á þeim stað í frásögninni af hinum íslensku bræðrum. Það er jú paradísarmissirinn sem myndar bakgrunn myndarinnar.

Fátt vekur upp sterkari tilfinningar, en þegar náin eining rofnar og vinátta breytist í hatur. Slíkt er þekkt minni í bókmenntum og frásögnum. Því nánari sem böndin eru, þeim mun meiri er harmurinn þegar þau rofna. Slitin bræðrabönd eru alþekkt stef í nútíð og fortíð. Þarf ekki að leita langt yfir skammt að dæmum um slíkt. Í upphafsköflum Biblíunnar segir frá Kaín og Abel, þeim kunnu bræðrum, og í framhaldi kemur lýsing ritningarinnar á fyrsta mannvíginu.

Bræður berjast Hið forna skáld er orti Völuspá hóf lýsingu sína á endalokum heimsins með orðunum, ,,Bræður munu berjast”. Þar er kveðið við sama tón. Slík rof kalla fram í okkur mynd af einhverju sem á að vera heilt og ekta, en er ófullkomið og brotið. Vígvellir í borgarastríðum eru blóðugir og deilur innan fjölskyldu geta verið langvarandi og sárar.

Ég fór á myndina Hrúta nú í vikunni. Lýsing leikstjórans og handritshöfundarins, Gríms Hákonarsonar á bræðrunum Gumma og Kidda er í þessum anda átakanleg, en í meðförum hans og frábærra leikara verður hún líka kómísk. Það er eitthvað svo grátbroslegt við þetta íslenska tilbrigði við bræðravígin. Í fjörutíu ár höfðu þeir ekki talast við, þótt þeir búi undir sömu hlíðinni, í sama dalnum, já og bara steinsnar hvor frá öðrum á tvíbýlinu. Grímur þessi, hafði áður sent frá sér kvikmynd um erjur tveggja klerka í Selfosskirkju, séð frá sjónarhorni annars þeirra. Sú mynd hét, Hreint hjarta, og fyrir þá sem ala önn fyrir kirkjunni var sú frásögn ekki síður átakanleg. Myndin, Hrútar fjallar á sinn hátt um menn með fallegt hjartalag. Þeir kjassa rollurnar sínar af alúð og ekki fer á milli mála hversu hlýjar tilfinningar berast í brjóstum þeirra. En kuldi ríkir þeirra á milli.

Allt verður þetta einhvern veginn Biblíulegt, í það minnsta í augum þess sem stendur sig að því að leita að tengingum þangað. Árin fjörutíu minna á tímann sem hin útvalda þjóð var í eyðimörkinni á leiðinni til fyrirheitna landsins. Og rétt eins og gyðingar í Gamla testamentinu, fékk hinn útvaldi hluti Bólstaðahlíðarstofnsins, sauðfjárins, lengri lífdaga. Hann átti að endurvekja það sem eitt sinn var. Fjarlægðin á milli þeirra bræðra og svo vírusinn ósýnilegi sem spillir kyninu góða, minnti guðfræðinginn á syndina eins og henni er lýst í Fyrstu Mósebók sem læddi sér inn í aldingarðinn. Þá um leið verður sagan eins og lýsing á útlegð mannsins frá hinu ákjósanlega ástandi. Fjörutíu ár, sem í hinu biblíulega samhengi merkir óratíma, já, lengi voru þeir sundraðir og allt var með öðrum hætti en vera bar.

Paradísarmissir

Sagan af Paradísarmissi og Paradísarheimt er sígilt þema í frásögnum. Í Hrútum var það einmitt þetta tvennt sem kallaði fram slíkar hugrenningar. Á ljósmynd sem bar fyrir augu áhorfandans mátti sjá hvernig bræðurnir voru eitt sinn nánir. Þeir sátu báðir á baki hests sem faðirinn teymdi undir þá. Nú var sú paradís horfin. Svo var það vitaskuld vírusinn sem setti allt úr skorðum í sveitinni. Þær hremmingar kröfðust blóðfórna. Slátra þurfti öllum búsmalanum, þar dugði ekkert minna til.

Sagan snýst um þetta tvennt í einfaldleika sínum. Hið mengaða blóð sauðfjárins og hið sundraða samband bræðranna. Áhorfandinn lifir sig inn í ferlið og óskar þess heitast þessar mínútur sem myndin varir, að hvort tveggja komist í eðlilegt horf. Paradísarmissir breytist í Paradísarheimt.

Dæmisaga Jesú hefst á þessum orðum: ,,Maður nokkur átti tvo sonu”. Þetta gefur tóninn fyrir það sem framundan er. Sjálfur segist leikstjórinn hafa haft þessa sögu til hliðsjónar myndinni. Bakgrunnssaga bræðranna sé á þá leið að annar þeirra hafi farið í burtu og sólundað fjármunum sínum, en hinn hafi verið eftir á bænum og sinnt þar störfum af samviskusemi. Svo sneri ævintýramaðurinn aftur, slyppur og snauður en sá ábyrgi tók loforð af móðurinni að leyfa honum að búa á bænum og yrkja jörðina. Já, tengingin þarna á milli er ekki langsótt.

Það er eins og atburðarrás dæmisögnnar hafi verið stöðvuð. Andartökin sem eldri sonurinn vill ekki yrða á bróður sinn, verða að fjörutíu ára þögn. Við erum stödd einmitt á þeim stað í frásögninni af hinum íslensku bræðrum. Það er jú paradísarmissirinn sem myndar bakgrunn myndarinnar.

Paradísarsögur

Dæmisaga Jesú er í flokki þriggja líkinga sem hann setur fram og allar fjalla allar um himnaríki. Í frásögn hans er paradísin einmitt þar sem eitthvað hefur komist í lag. Dýrmæti sem allir héldu að væru glötuð hafa uppgötvast að nýju. Vinátta sem var rofin er endurnýjuð. Þetta kallar hann fram í hjarta okkar mikinn létti, þegar við sættumst heilum sáttum, þegar við skynjum að tilveran er aftur komin í réttar skorður. Það er eins og allt fari aftur á réttan stað. Þetta er í raun öll hjálpræðissagan. Hún hefst á hinu fullkomna ástandi, hinu náttúrulega ástandi sem ríkir.

Og við geymum þá tilfinningu í brjósti okkar að allt geti sannarlega verið á sínum stað, að lífið geti verið eins og íslensk sumarnótt. Þar birtist röðullinn okkur á nóttlausri himinfestingunni í allri sinni friðsemd. Hann rétt tyllir sér á sjóndeildarhringinn áður en hann tekur að nýju að hækka á himnum. Þá sem aldrei fyrr finnum einhvern streng sem býr innra með okkur og spyrjum okkur um leið hvort sú taug sé ekki áfram sterk, eða hvort hún hafi rofnað í okkar eigin amstri, baráttu um lífsgæðin, átökum og sundrungu sem getur í einni andrá megnað allt það sem gott er og fagurt.

Fjarlægðin frá náttúrunni er sá paradísarmissir sem stendur okkur næst á okkar dögum. Hann vekur með okkur ótta og ugg. Við fögnum sigrum vísinda og mannsanda og við spyrjum okkur hvort ekki sé betra að vera uppi á 21. öldinni fremur en þeirri 18. þegar upplýsingin var í burðarliðnum. Já, er ekki lífið öruggara, viðburðarríkara og lengra nú en það var þá? Er þá nokkrum blöðum um það að fletta að við höfum raunverulega gengið veginn til góðs. En hvað ef við færum okkur lengra fram í tímann. Hvað með 22. öldina. Verður lífið líka betra þá en það hefur áður verið - erum við núna að klára gæðin og bíður mannsins verra hlutskipti eftir það?

Paradísarheimt

Himnaríki fjallar um þessa endurheimt, sem í dæmisögunni tekur eitt andartak en í bíómyndinni varir óratíma. Sagan um glataða soninn er þrátt fyrir allt, ekki harmsaga. Boðskapurinn er vissulega áminning en yfir öllu býr fyrirgefning og þetta heimboð sem okkur öllum stendur til boða. Komið aftur! Bætið ráð ykkar! Snúið til baka og hugleiðið það hvaðan þið eruð komin. Þá tekur Drottinn ykkur opnum örmum. Einu gildir hvaða álit heimurinn hefur á ykkur eða hvaða dóma umhverfið kann að fella. Armur Guðs er alltaf opinn. Paradísin fjallar um fyrirgefninguna.

Já, sagan býr yfir farsælum endi. Framtíðin reynist á endanum björt og fögur. Vendipunkturinn eins og greint er frá í guðspjallinu er þegar eldri bróðirinn „kom til sjálfs sín“. Hvað merkir það - að koma til sjálfs sín? Það eru umskiptin stóru þegar hið upprunalega og náttúrulega ástand kemst aftur á.

Himnaríki verður alltaf einhvers konar endurheimt. Þegar við finnum hina upprunalegu taug. Paradísarheimt, þar sem við komum aftur til okkar sjálfra - í þeirri vitund í brjósti okkar býr eitthvað svo gott og fagurt, rétt eins og þeim tekst að birta svo fallega í myndinni góðu. Vissulega er hún engin harmsaga heldur. Því sá sem getur elskað hrútinn sinn hlýtur á endanum að geta látið sér þykja vænt um bróður sinn.