Úti við mærin

Úti við mærin

Í guðspjalli dagsins leiðir Kristur okkur lærisveina sína, kirkju sína, að mörkum landsvæða – hvar menn hafa dregið línur sem aðskilja fólk, aðgreina. Þau mæri sem við erum stödd hjá að þessu sinni hafa um aldir markað skil á milli tveggja hópa. Annars vegar eru þeir sem hafa að eigin áliti og margra annarra verið taldir sérstakir fulltrúar Guðs hér á jörðu.

I

Í guðspjalli dagsins leiðir Kristur okkur lærisveina sína, kirkju sína, að mörkum landsvæða – hvar menn hafa dregið línur sem aðskilja fólk, aðgreina. Þau mæri sem við erum stödd hjá að þessu sinni hafa um aldir markað skil á milli tveggja hópa. Annars vegar eru þeir sem hafa að eigin áliti og margra annarra verið taldir sérstakir fulltrúar Guðs hér á jörðu, þar sem að þeir hafa fóstrað trúna á Drottin Guð með sérstökum hætti og teljast því þekkja vilja hans betur en aðrir. Hinum megin markanna búa hins vegar þeir sem njóta ekki meiri virðingar en svo að vera jafnvel líkt við hvolpa, og skulu gera sér að góðu brauðmolana sem falla af borðum húsbændanna.

Hún tilheyrir þeim síðarnefndu, konan, sem við heyrum hrópa eftir hjálp. Hún er ein af þeim sem ólust upp hinum megin landamæranna, við aðrar hefðir og siði en við erum vön – ein af þeim, eins og við segjum stundum, þegar við horfum á fólk aðeins sem hluta af hópi, en ekki manneskjur eða einstaklinga með ólíkar þarfir og þrár.

‘Sonur Davíðs, miskunna þú mér’ – hjálpa þú dóttur minni sem er sjúk. Hún hrópar hátt. En Jesús svarar engu.

Það er reyndar harla óvanalegt – því yfirleitt heyrir hann betur og skilur en við lærisveinarnir – sér dýpra hvað áhrærir um líðan og hjartalag samferðarfólks en augu okkar eða eyru geta numið.

En nú þegir hann. Hví? Við verðum enda óróleg. Allt í einu verða þessi hróp konunnar viðfangsefni sem við verðum að glíma við, lærisveinarnir. Og hvílík hróp. Hún ætlar greinilega ekki að láta undan. Okkur líður ekki vel. Hvað eigum við að taka til bragðs?

Bara að Jesús gæti nú svarað – annað hvort liðsinnt konunni eða þá rekið hana í burt, því þá gætum við haldið áfram för okkar í friði.

Hlustandi á hróp og þrautsegju konunnar kemur í hugann gamla sagan um Jakob þegar hann glímdi við Guð forðum – og gafst ekki upp, en hélt eins fast í hann og hann gat og sagði: ‘Ég sleppi þér ekki fyrr en þú blessar mig’ – og fékk ósk sína uppfyllta.

II

Við höfum við þessa messugjörð hlýtt á tvær gamlar frásögur úr helgum ritum. En þær eru einnig nýjar, því þær eru enn að gerast, því enn er glímt og hrópað – kallað eftir blessun, kallað eftir brauðinu sem seður. Myndirnar koma margar í hugann:

Blessaðu mig - hrópa börnin í nútímannum að örþreyttum önnum köfnum foreldrum sínum; þarfnast og þrá brauð ástar og aga og tíma foreldra sinna – ekki bara fáeina mola sem detta af borðum fyrir framan sjónvarpið, heldur stóran skammt af hinum andlega brauði kærleikans sem foreldrarnir geta gefið og eiga að gefa til að geta börnin dafni og þroskist sem kærleiksríkar manneskjur – Gefum börnunum tíma, segir í átaksverkefninu: Verndum bernskuna – okkur nauðsynleg hvatning og áminning.

Víða aum veröld hrópa þau sem vilja ekki aðeins vera sem hvolpar er þurfa að gera sér að góðu molana sem falla af borði húsbændanna, fyrirfólksins, fyrirtækjanna, stjórnvaldanna, og allra þeirra sem hafa komið sér fyrir við veisluborðið stóra, en vilja ekki fleiri þangað að. Hópurinn er stór, en í tilefni guðspjallsins skulum við hugsa til kvenna víða um heim en alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og réttlæti nú í vikunni minnti okkur á hve ógnarlangt er í land með að konur njóti sömu stöðu og réttar á við karla víða um veröld, og hve staða þeirra er víða skelfileg.

Ég sleppi þér ekki fyrr en þú blessar mig’ hrópa samkynhneigðir og ættingjar þeirra til trúfélaga og ríkisstjórna um allan heim um þessar mundir – amk þar sem þeir mega láta í sér heyra, sem er því miður alls ekki alls staðar. Þessir vilja ekki aðeins þiggja molana af borðinu stóra eins og þeir hafa löngum gert, og hlýtt um leið á fyrirlitningarorð og háðsglósur. Nei þau vilja vera fullgild í samfélaginu, ekki aðeins að hluta heldur að öllu leyti. Hinir kristnu samkynhneigðu og þeirra ættingjar hrópa sérstaklega til kirkjunnar um víða veröld um að mega þiggja þar blessun og vígslu, að sambúð þeirra, ást og fjölskyldulíf verði metin algörlega jöfn við sambúð og fjölskyldulíf karls og konu, og að þau megi kalla sig hjón sem hefur til þessa verið frátekið svæði sem þau hafa ekki komist til.

III

Hún vissi það konan að hún gat kallað til Jesú – þó kanversk væri, alin upp í öðrum sið – því hún átti þá trú sem játaði Jesú sem Messías, Krist, þann sem ber mér sér endurleysandi kraft kærleika Guðs, og sýnir hver Guð er, hvað Guð vill okkur í raun og sannleika. Hvílíkt fagnaðarerindi, hvílík lausn. Hún hafði mikið heyrt af honum látið – að hann opnaði dyr hvar áður hafði verið læst og lokað, reif niður múra sem útilokuðu, kallaði eftir nýrri túlkun á boðskap helgra rita. Henni var óhætt að koma fram eins og hún var og bera fram erindi sitt. Lærisveinarnir rifjuðu upp að rétt áður en þeir fóru í þessa för út á mærin hafði Jesús sett fram mjög harða ádeilu gagnvart faríseum og fræðimönnum og sakað þá um að láta mannasetningar skyggja á boðskap Guðs og vilja. Hann hafði vitnað í bók spámannsins Jesaja hvar segir: ‘Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma sem eru mannasetningar einar’

Já Jesús var óhræddur að opna nýjar dyr, rífa niður múra og kasta burt hefðum og viðhorfum sem skyggðu á vilja Guðs og útilokuðu marga að komast að náðarborðinu.

Vísvitandi fór hann með lærisveina sína út að mærunum sem aðgreint höfðu og útilokað í aldir, því þar vildi hann kenna þeim og kirkju sinni. Þau mörk sem við menn setjum á milli þess sem við álítum satt og ósatt, heilagt og vanheilagt, Guði þóknanlegt eða vanþóknanlegt, eru alls ekki ætíð í samræmi við vilja Guðs sjálfs, heldur geta allt eins verið mannasetningar sem hafa vaxið upp með margvíslegum lífsviðhorfum og menningu, en verið síðan stimplaðar sem heilagar og óbreytanlegar, og svo notaðar til að afmarka og einangra og útiloka.

Sjá til, mín sál að, siðvaninn síst megi villa huga þinn, forðastu honum að fylgja hér framar en Guðs orð leyfir þér. Góð minning enga gjörir stoð, gilda skal meira Drottins boð.

Þannig orti sr Hallgrímur í 22 passíusálmi og minnir kristna kirkju á hið stöðuga verkefni, að halda á lofti vilja Guðs framar en mannasetningum og venjum. Föstutíminn skal minna okkur á þetta hlutverk okkar sem einstaklinga og samfélags.

En hver er vilji Guðs? Hver eru þau svör sem kristin trú skal veita í hinum ýmsu málum þegar hrópað er: Miskunna þú mér Drottinn – ég sleppi þér ekki fyrr en þú blessar mig!

Guðspjall dagsins er innlegg í þá umræðu, en vitaskuld er alls ekki hægt að taka þennan texta, frekar en aðra slíka, og nota þá hugsunarlaust, sem væru þeir hið eina algilda svar við hinum mörgum viðfangsefnum samtímans. Til að reyna að komast að því hver skal vera afstaða kristinnar kirkju þá ástundum við guðfræði, samtal um trúna, lesum ritningarnar, hvar boðskapur Jesús Krists, líf og starf, dauði og upprisa er miðpunktur og það ljós sem við kristin kirkja lesum við önnur helg rit. En við köllum einnig á fróðleik og þekkingu ýmissa annarra fræðigreina sem t.d. upplýsa um merkingu orða eða þá menningu sem textarnir eru sprottnir úr.

En mikilvægt er að taka fram, og guðspjall dagsins minnir rækilega á, er að umræða um boðun og kenningu kristinnar kirkju er ekki og hefur aldrei verið einkamál þeirra sem fræðin iðkað í skólum, heldur er sú umræða opin öllum sem áhuga hafa. Kanverska konan opnaði og tók þátt í djúpri og merkilegri samræðu við Jesú um mikilvægt atriði kristinnar trúar og hafði meiri skilning og áhuga á því sem fram fór og Jesús var að vekja athygli á en lærisveinarnir, sem stóðu hjá heldur þegjandalegir og vissu lítið hvernig við átti að bregðast

IV

Kæri söfnuður. Við, kristin kirkja, lærisveinar Krists, erum á ferð með honum, og leið okkar liggur m.a. að mærunum sem menn hafa sett til að skilja að fólk og menningarheima. Og það er ekki fyrir tilviljun að leið okkar liggur þangað, heldur vegna þess að Kristur á erindi til þess fólks sem allra annarra. Þau eru elskuð Guðs börn og eiga að fá tækifæri til að taka móti og lifa í birtu þeirrar náðar sem Guð gefur, eiga að fá að ganga lífsveg sinn í því trausti að þau eru elskuð börn Guðs í lífi sem dauða.

Kristin kirkja ekki ‘kósýklúbbur’ hvar fólk getur bara setið í makindum og haft það huggulegt, lokað sig af með veggjum hefða og mannasetninga og látið sem hrópin í nóttinni komi þeim ekki við, því slíkt er ekki í samræmi við inntak og hlutverk kirkjunnar. Kirkjan er fylking á ferð, og skal vera opið samfélag þeirra sem leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, vilja ganga í fylgd hans og með honum, og vinna verk hans hér á jörðu.

Slík ganga er sannarlega um margt erfið, hvar álitamál og ágreiningsmál mörg koma upp, hvar við mætum fólki með margvíslegar þarfir og langanir sem hrópar og hjálp og blessun, og sem við vitum ekki ætíð hvernig skal liðsinna.

Eins óþægileg og hróp þeirra geta verið og jafnvel óþolandi til lengdar, er gott að þau þagni ekki fyrr en við er brugðist, því þau tjá neyð fólks eða þarfir, sem kristin kirkja á að svara eða mæta með boðskap Krists að leiðarljósi. Til þess hjálpi okkur Guð.

Frelsari heimsins, mitt hjarta er þitt, hugsun mín, vilji og allt sem er mitt, lofi og kunngjöri kærleika þinn, konungur, bróðir og lífgjafi minn. (Sb 711)