Núvitundaríhugun, fimmti hluti: Hljóð og hugsanir

Núvitundaríhugun, fimmti hluti: Hljóð og hugsanir

Vitund okkar er vakandi, við sjáum og heyrum og skynjum það sem fram fer innra með okkur og í ytra umhverfinu. Við erum hér og nú. Allt má vera það sem það er, engu þarf að breyta einmitt núna. Við hvílum bara í því sem er, erum vitni að öllu þessu án þess að það raski ró okkar. Andardrátturinn, lífgjöf Guðs, er akkeri okkar, friður okkar.
Mynd

Núvitundarstund 5 í Grensáskirkju

Verum velkomin á fimmtu núvitundarstundina í beinu streymi á tímum samkomuhafta. Við höfum iðkað núvitundarhugleiðslu klukkan korter yfir sex til korter í sjö að kvöldi til í tvo vetur í kapellu Grensáskirkju en færðum stundina til hádegis frá og með 19. mars síðastliðnum. Á skírdag og sumardaginn fyrsta voru helgistundir sendar út í samræmi við tilefni þeirra daga en við stefnum að því að vera með núvitundarstreymi í hádeginu flesta fimmtudaga út maí, að uppstigningardegi undanskildum sem fær sína eigin nethelgistund. Í haust tökum við svo upp þráðinn aftur og verður það kynnt betur síðar.

Eins og áður byrjum við á því koma okkur þannig fyrir að sem fæst verði til að trufla okkur. Að vera vakandi í því sem er hér og nú krefst reyndar engra sérstakra aðstæðna en á meðan við erum að æfa okkur í að finna og skynja það sem er, auka meðvitund okkar gagnvart líkama, huga og tilfinningum, er gott að hafa næði. Smám saman vaknar vitund okkar til lifandi athygli gagnvart öllum skilningarvitum, við förum að heyra, sjá, finna ilm og bragð og snertingu af meiri næmni. Margt sem áður fór fram hjá okkur verður nú hluti af dýpri reynslu. En til þess þurfum við að æfa okkur, bæði með sameiginlegri iðkun eins og hér fer fram en líka í daglega lífinu, í þessu smáa, í hversdagsleikanum sem undur rólega fær á sig nýja liti, skýrari drætti. 

Í Filippíbréfinu segir (Fil 4.6-7):

Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Förum saman með einföldu játninguna okkar sem byggir á þessum friði Guðs í hjarta og huga, friði Guðs sem veitir frið við okkur sjálf, okkar innsta kjarna, og frið við allt sem er. Við tengjum orðin við andardráttinn, öndum að okkur um leið og við segjum eða hugsum Ég er og öndum frá okkur á orðunum Ég er hér.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér    

Við tökum eftir andardrættinum. Hvar finnum við mest fyrir önduninni? Er það við nasirnar? Brjóstkassann? Niður í kviði? Við leyfum athyglinni að dvelja þar án þess að breyta. Einbeitum okkur enn betur. Er andardrátturinn djúpur eða er hann grunnur? Öndum við hratt eða rólega? Við tökum bara eftir, dæmum ekki eða leitum útskýringa.

Í dag ætlum við að gera nokkuð óvenjulegt. Við ætlum að taka sérstaklega eftir hljóðunum í umhverfinu. Við útilokum ekki það sem er fyrir utan okkur heldur leyfum því að ná til okkar, fanga athyglina. Hlustum vel. Hvað heyrir þú? Kannski er barn að leika sér nálægt þér. Hlustaðu eftir hljóðunum án þess að útskýra þau eða dæma. Kannski ekur bíll framhjá. Kannski heyrir þú í sírenum. Hlustaðu. Kannski eru raddir frammi á gangi. Kannski er fugl að syngja fyrir utan gluggann þinn. Leyfðu þér að taka eftir því öllu. Þú ætlar ekki að breyta neinu, bara hlusta, veita athygli. Hafðu augun lokuð. Í dag er það heyrnin sem fær athyglina.

Nú skulum við færa athyglina aftur að andardrættinum. Hvað heyrir þú þegar þú andar? Heyrir þú þinn eiginn andardrátt? Ef til vill. Ekki búa til hljóð, bara veita athygli. Líkaminn er eins og lifandi hljóðnemi sem tekur á móti hljóðum sem titringi í loftinu. Hljóðin hafa mismunandi styrk, tón, tónhæð, mynstur og lengd. Finnum allt þetta í líkamanum.

Næst beinum við athyglinni að hugsunum okkar. Það er líka óvenjulegt. Í hugleiðslu reynum við einmitt oft að sleppa öllum hugsunum, leiða þær hjá okkur, leyfa þeim að fljóta hjá. Það gerum við líka núna að vissu leyti en tökum samt eftir þeim. Við tökum eftir hugsunum eins og hljóðunum áðan. Þær eru þarna, eins og titringur í loftinu sem líkaminn nemur. Við getum gefið þeim gaum án þess að fylgja þeim eftir, án þess að athyglin flæði með. Hugurinn hugsar, það er hans eðli. En við erum ekki hugur okkar, ekki frekar en við erum hljóðin þarna úti. Við erum ekki hugsanir okkar. Hljóð og hugsanir, þau bara eru þarna. Við þurfum ekkert að skilgreina og skýra, hvaðan þau koma eða hvað gerist næst. Leyfum hljóðum og hugsunum að vera það sem þau eru, án þess að dæma eða bregðast við.

Við horfum á hugsanirnar koma og fara eins og myndir á tjaldi. Við dýpkum þær ekki, tökum ekki við þeim, tökum bara eftir þeim. Við erum okkur meðvituð um tilvist hugsana okkar. Við erum vitni að þeim, án þess að láta þær hafa áhrif á okkur, án þess endilega að líka við þær eða mislíka það sem við erum vitni að. Við gætum misst okkur inn í hugsanir eða minningar. Það er allt í lagi. Það er frábært að við skulum taka eftir því. Þegar það gerist snúum við til baka að andardrættinum, sýnum okkur mildi, dæmum okkur ekki.

Á sama hátt tökum við eftir tilfinningum okkar, verðum vitni að því hvernig okkur líður, án þess að sökkva okkur niður í það. Vitund okkar er vakandi, við sjáum og heyrum og skynjum það sem fram fer innra með okkur og í ytra umhverfinu. Við erum hér og nú. Allt má vera það sem það er, engu þarf að breyta einmitt núna. Við hvílum bara í því sem er, erum vitni að öllu þessu án þess að það raski ró okkar. Andardrátturinn, lífgjöf Guðs, er akkeri okkar, friður okkar. Þar festum við athyglina, um leið og við verðum vitni að öllu hinu.

Ljúkum stundinni með játningunni góðu.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér                                                                                       

Þríeinn Guð, sem skynjar innstu hugsanir okkar og þekkir hugrenningar hjartans, Guð friðarins, veri með ykkur, blessi og varðveiti á þessari stundu og um ókomna tíð. Góðar stundir.