Að lofa Guð í lífsins raunum

Að lofa Guð í lífsins raunum

Og við fögnum með þeim, mæðrunum, sem hvor á sinn hátt fengu guðlegt fyrirheit um fæðingu sonar. Hanna hafði beðið lengi eftir því að verða barnshafandi og varð loks að ósk sinni eftir að hafa úthellt hjarta sínu fyrir Drottni í musterinu í Síló. María átti hins vegar á ýmsu öðru von en barni, nýtrúlofuð manneskjan, kornung að aldri og hafði ekki karlmanns kennt.

Í dag er hátíðisdagur, Kristshátíð, hvítur dagur í kirkjunni. Við fögnum gleðifregn Gabríels, tíðindunum um boðun Maríu, fréttunum um komu Krists.

Fögnuðurinn er stef lofsöngva kvennanna tveggja, Hönnu og Maríu, með þúsund ára bili. Þær fagna fyrir sitt leyti tilvist frumburða sinna, Samúels og Jesú; Samúel þá orðinn þriggja ára og heimilisfastur í musterinu, en Jesús enn í kviði móður.

Og við fögnum með þeim, mæðrunum, sem hvor á sinn hátt fengu guðlegt fyrirheit um fæðingu sonar. Hanna hafði beðið lengi eftir því að verða barnshafandi og varð loks að ósk sinni eftir að hafa úthellt hjarta sínu fyrir Drottni í musterinu í Síló. María átti hins vegar á ýmsu öðru von en barni, nýtrúlofuð manneskjan, kornung að aldri og hafði ekki karlmanns kennt.

En frammi fyrir undrinu, kraftaverki nýs lífs, urðu þær báðar að lofa Drottin, þakka Guði forsjón hans. María gengst undir vandasamt hlutverk sitt af auðsveipni, þó það hafi nærri því kostað hana mannsefnið og þar með mannorðið. Og Hanna, sem gaf Guði aftur barnið sitt langþráða með því að færa það til þjónustu í musterinu, fagnar þó heilum huga og syngur af gleði.

Hið sérstæða móðurhlutverk Við erum á okkar tímum hálf feimin við að tala um móðurhlutverkið án þess að minnast á hlutverk föðurins, og helst höfum við hvort tveggja í sama orðinu og tölum um foreldrahlutverk. Vissulega er samstaða foreldranna í uppeldinu börnunum rík nauðsyn. Og líklega gegnum við nútímakonur of mörgum hlutverkum í hversdeginum til að geta leyft okkur að leggja áherslu á móðurhlutverkið öðrum framar. En á þessum degi, degi boðunar Maríu, getum við samt ekki annað en fundið mikilvægi þessa hlutverks framar öðrum sem lífið lætur í té.

Reyndar var frumburður Maríu ekkert venjulegt barn. Því má ekki gleyma. Hann er sonur Guðs, Jesús Kristur, Guð með oss. Og María vissi það frá því áður en hann kom í hennar líf. En þó hafa tilfinningar hennar áreiðanlega verið með svipuðum hætti og annarra kvenna í hennar sporum í gegnum árþúsundin; konunnar sem verður barnshafandi án þess að ætla sér það, konunnar sem á yfir höfði sér samfélagslega útskúfun vegna þungunar sinnar, konunnar sem ekki veit hvernig greiða má úr þeirri flækju sem óvænt koma barns oft á tímum veldur.

Samt sprettur gleðin fram, gleðin yfir nýju lífi, fögnuðurinn yfir því sem í vændum er. Og María lofar Guð, miklar Drottin með ástsælasta lofsöng allra tíma, Magnificat:

Önd mín miklar Drottin, og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. Lk 1. 46-48

Hún finnur, þrátt fyrir aðstæðurnar, já í þessum erfiðu kringumstæðum miðjum, takmarkalaust traust á Guði og sannfæringu um að allt muni þetta samverka til góðs, að í aðstæðum hennar muni fyrirheit Guðs til fólksins rætast. Þess vegna er María frá Nasaret fyrirmynd trúaðra, ímynd kirkjunnar. Þess vegna segjum við hana sæla, því hún var móðir Guðs og gafst honum í auðmýkt.

Að vera móðir Guðs Það hlutverk var þó ekki án þrautar. Um fæðingu frelsarans vitum við fátt annað en að allt fór vel þarna hjá þeim Jósef einum saman í fjárhúsinu. Hinar andlegu þrautir sem móðurhlutverkið færði Maríu þekkjum við hins vegar. Sverð nísti sál hennar, svo sem öldungurinn Símeon sagði fyrir um (Lk 2.35), bæði þegar Jesús týndist þeim tólf ára, þegar hann vísaði móður sinni og bræðrum frá sér í önnum starfanna (Mt 12.46-50) og ekki síst á þjáningargöngunni, vegi krossins, via dolorosa.

Með því að gangast undir þetta sérstaka móðurhlutverk gekkst María undir sársauka Guðs. Hún bar son hans undir belti og harm hans við hjarta sér, harm Guðs yfir vondri veröld, líkt og spámenn Gamla testamentisins sem gengust undir kvöl og pínu til að sýna fólkinu sársauka Guðs.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Hinn kristni boðskapur staðnæmist aldrei í sársaukanum. Hann horfist vissulega í augu við kvölina, harm lífsins, þjáninguna sem birtist manneskjunni í svo mörgum myndum. En hann fer lengra með því að að hann ber okkur þá lausnarfregn að sársauki okkar komi Guði við, að Guð sjálfur þjáist með okkur. Og þannig ber kristin trú okkur inn í kærleika Guðs, inn í fyrirheit Drottins um lausn og endurnýjun veruleikans:

Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birist í Kristi Jesú Drottni vorum Rm 8.38-39.

Að sinna andlegum þörfum Síðustu mánuði hefur mikil umræða verið í þjóðfélaginu um vanrækt börn á stofnunum hins opinbera fyrir 30-40 árum. Í Blaði dagsins í gær (24.3.07) er viðtal við landskunnan leikstjóra, Viðar Eggertsson. Hann segir frá fyrstu æviárum sínum, hvernig móðir hans, fátæk verksmiðjukona, stóð uppi ein með tvö smábörn og neyddist til að láta þau frá sér á vöggustofu þar sem þau dvöldust í tvö og hálft ár.

Á vöggustofunni háttaði þannig til að börnin voru sárasjaldan tekin upp, komu vart út undir bert loft og höfðu engin leikföng eða liti. Svelt á snertingu og örvun á líkama og sál – með örfáum undantekningum umhyggjusamra gæslukvenna sem ekki þoldu að horfa upp á tilfinningalegt hungur barnanna - voru þau systkinin ótalandi og snertifælin. Einu skiptin sem þau sáu móður sína skildi glerrúða þau að. Engin snerting, engin tjáskipti. Þvílík sorg móður, þvílkur harmur að engum orðum verður að komið.

Það þarf heldur ekki að fara um það mörgum orðum hvaða áhrif slík meðferð hefur á þroska barna á fyrstu æviárum. Í dag vitum við að mikilvægasta þroskaverkefni frumbernskunnar er að læra að treysta því að þörfum sé sinnt. Þar eru líkamlegu þarfirnar auðvitað mikilvægar, að fá hreina bleyju, nægan svefn og hæfilega hreyfingu, auk matar og drykkjar.

Hitt er alveg jafn mikilvægt, að fá svalað þorstanum fyrir samskipti, snertingu, augnsamband og samtal, bókstaflega að vera “virtur viðlits”. Margar rannsóknir benda meira að segja til þess að uppfylling hinna tilfinningalegu og félagslegu þarfa sé jafnvel enn mikilvægari en hinna líkamlegu.

Þetta gildir ekki síst um fyrstu þrjú æviárin. Ef til vill var vitneskjan um mikilvægi hinna sálrænu tengsla ekki almenn hérlendis fyrir þetta 40-50 árum en hún var þó til staðar. Fyrir um 3000 árum, á dögum Hönnu frá Rama, virðist meira að segja hafa verið vitað hve miklu máli fyrstu árin skipta fyrir tengslamyndun barnsins.

Að minnsta kosti vissi Hanna það og var kyrr heima uns hún hafði vanið Samúel litla af brjósti. Líklega voru það um 2-3 ár samkvæmt venju þess tíma. Þá var hún tilbúin að fara með hann í musterið til að efna heit sitt við Drottinn: “Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um. Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður” (1S 1.27-28). Og síðan fór Hanna árlega í musterið og færði syni sínum lítinn möttul að gjöf, tákn móðurumhyggjunnar á líkama og sál. “En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni” (1S 2.21).

Við móðurkné í föðurhúsum Þegar allt er með felldu er það er í föðurhúsum, við móðurkné, sem lagður er mikilvægasti grunnurinn að gifturíku lífi. Það eru foreldrarnir, móðirin og faðirinn, sem eru okkur fyrsta mynd Guðs. Það eru þau sem ljá guðsmyndinni líf og lit með því að sinna þörfum okkar á líkama, sál og anda.

Við megum vita að þegar þetta bregst þá á Guð samt til ráð handa börnum sínum. “Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér” (Sl 27.10). Hann er þess umkominn að seðja hungrið, mæta skortinum, finna kærleikanum farveg inn í kalið hjarta. Guð þekkir sársaukann yfir ástleysinu, hann sem sendi son sinn inn í snauðan heim til að sýna ást - og uppskar dauða. En dauðinn átti ekki síðasta orðið. Það er lífið sem á síðasta orðið í þeirri ævibók okkar og veraldar sem Guð er höfundur að, lífið fyrir Krist, með Kristi og í Kristi.

Þess vegna getum við tekið undir með þeim miklu mæðrum, Hönnu frá Rama og Maríu frá Nasaret, samglaðst þeim í ómi kynslóðanna, fagnað yfir kærleika Guðs sem umlykur bölið eins og perlan steinninn og býr til úr því dýrgrip:

Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp. Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð... Fyrir eigin mátt sigrar enginn. 1S 2.1-2, 9

Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega. Lk 1.54-55

Guð stendur við orð sín, tekur okkur að sér. Af lífi Maríu frá Nasaret fæddist kærleiksorð Guðs inn í ástvana heim. Guð sagði – og það varð: “Og orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum” (Jh 1.14).

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.