Innilifurnaríhugun 6: Eftirvænting

Innilifurnaríhugun 6: Eftirvænting

Við leyfum orðunum að síast inn, tökum við þeim með öllu sem í okkur býr, hver fruma líkamans, hvert skúmaskot sálarinnar, hvert andans andvarp þiggur þessi orð, að Jesús sem hefur allt í hendi sér er með okkur alla okkar daga.
Mynd

Innilifunaríhugun 6: Eftirvænting

Kyrrðarstund í Grensáskirkju 26. maí 2020: Uppstigning og heilagur andi

Verið velkomin á kyrrðarstund í Grensáskirkju. Frá páskum höfum við verið með Jesú og vinum hans í frásögnum guðspjallanna, mætt Jesú upprisnum, komið við hann, horft í augu hans, heyrt hann tala, tala til okkar, inn í okkar líf, orðin sín um frið og ást og ábyrgð. Við höfum fundið nærveru Guðs í Jesú upprisnum, jafnvel borðað málsverð sem Jesús útbjó handa okkur, grillaðan fisk og glóðað brauð. Þrátt fyrir allt hafa þessir dagar verið gleðidagar, eins og kirkjan hefur frá fornri tíð kallað tímabilið frá páskum til uppstigningardags og hvítasunnu.

Og nú er komið að lokum þessarar íhugunarsyrpu hér í Grensáskirkju. Síðar tekur önnur við. En nú ætlum við að dvelja að hætti Ignatíusar Loyola með Jesú og lærisveinunum á þeirra síðustu samfundum hér á jörð áður en Jesús steig upp til himna.

Við hefjum íhugunina með signingu og bjölluhljómi og förum síðan saman með Jesú-bænina.

Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda. Amen.

Drottinn Jesús Kristur - miskunna þú mér.
Drottinn Jesús Kristur - miskunna þú mér.
Drottinn Jesús Kristur - miskunna þú mér.

Við erum stödd í Galíleu, við fjallið sem Jesús hafði sagt Maríunum við gröfina á upprisudaginn að við skyldum fara til. Liðnir eru fjörutíu dagar og við höfum verið samvistum við Jesú flesta daga, drukkið hvert orð af vörum hans, orð og nærveru friðar og kærleika. Við bíðum með vinahópnum, það er eftirvænting í loftinu en líka vafi, hvað gerist næst? Og svo er Jesús þarna lifandi kominn og við finnum anda okkar fyllast lotningu, nú er eitthvað nýtt á ferð. Jesús er svo bjartur, það lýsir af honum, líklega eins og þegar hann var með Pétri og Jakobi og Jóhannesi á fjallinu forðum og ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Þeir höfðu ekkert talað um þetta fyrr en eftir upprisu Jesú og nú fáum við að sjá það sama og félagarnir á fjallinu: Birtu guðsríkisins sem ljómar af frelsara okkar.

Og nú kemur Jesús til okkar, talar við okkur og segir: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Ég er með ykkur alla daga, segir Jesús. Þvílíkt fyrirheit! Jesús er með mér alla daga, allt til enda veraldar. Við leyfum orðunum að síast inn, tökum við þeim með öllu sem í okkur býr, hver fruma líkamans, hvert skúmaskot sálarinnar, hvert andans andvarp þiggur þessi orð, að Jesús sem hefur allt í hendi sér er með okkur alla okkar daga.

Svo heldur Jesús áfram: „Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“ Þannig er Jesús með okkur, hann sendir okkur anda Guðs og biður okkur um að vera kyrr, bíða, þar til við íklæðumst kraftinum frá hæðum, þegar heilagur andi kemur yfir okkur.

Og nú hefur Jesús upp hendur sínar, tíminn stendur í stað, ekkert er til nema þetta augnablik í nálægð meistara okkar, Jesús lyftir höndum eins og í hlýju faðmlagi, hefur upp hendur sínar og blessar okkur. Við finnum kraft nálægðar Guðs, hendur Jesú eru farvegur friðarins, orðin af munni hans himnesk nærvera. Og nú gerist nokkuð sem ekkert okkar hefur órað fyrir: Á meðan Jesús er að blessa okkur tekst hann á loft og við sjáum hvernig hann er upp numinn til himins. Ský hylur hann sjónum okkar og við störum til himins á eftir honum þegar hann hverfur.

Og við vitum að hann stígur upp til að setjast til hægri handar Guði, að hann er núna við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Viðbrögð okkar við þessu undri sem við höfum nú fengið að verða vitni að eru þau sömu og hinna í hópnum, við föllum fram og tilbiðjum Jesú, snortin af þessari heilögu stund. Og allt í einu standa hjá okkur tveir menn í hvítum klæðum og þeir segja: „Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“

Við áttum okkur á því að allt er þetta hluti af ráðsályktun Guðs, Guðs sem á allt vald á himni og jörðu, Guðs sem er með okkur alla daga, allt til enda veraldar. Við gerum eins og Jesús hafði beðið okkur um, tökum saman föggur okkar og snúum aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Við minnumst þess sem Jesús sagði þegar hann neytti matar með okkur, að við skyldum ekki fara burt úr Jerúsalem heldur bíða eftir því sem faðirinn gaf fyrirheit um „og þér hafið heyrt mig tala um. Því að Jóhannes skírði með vatni en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.“ Við förum ásamt lærisveinahópnum í helgidóminn og eftirvæntingin eftir kraftinum frá hæðum er ljúf og gleðileg í lofgjörð til Guðs, kraftinum sem gefur okkur að bera Jesú vitni hver sem við erum og hvar sem við komum, já allt til endimarka jarðarinnar. Verið kyrr, segir Jesús, verið kyrr og þiggið kraftinn.  Verið kyrr og verðið farvegur friðar Guðs.                                                   

Friðarins andi, gef frið á jörð, frið milli þjóða, frið inn í samfélög, frið inn á heimilin, frið í hjarta mitt.

Allar bænir okkar, allt sem leitar á hugann og í hjartanu býr, felum við góðum Guði í bæninni sem Jesús kenndi okkur: Faðir vor...

Þríeinn Guð varðveiti þig og blessi. Í Jesú nafni, amen.

Sjá Matt 17.1-9 og 28.7, 16-20; Mark 16.14-20; Lúk 24.49-53; Post 1.1-11; Róm 8.31-39