Úr öskunni í eldinn - nokkrar athugasemdir að loknu kirkjuþingi

Úr öskunni í eldinn - nokkrar athugasemdir að loknu kirkjuþingi

Á þeirri þinglotu kirkjuþings sem lauk 15. nóv. voru samþykktar breytingar á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta. Löggjafarnefnd kirkjuþings hafði sett fram tillögur að breytingum á starfsreglunum sem ætlað var að taka af öll tvímæli um tiltekin ákvæði reglnanna sem og um túlkun á vissum aðstæðum sem upp kunna að koma í kjöri, svo […]
fullname - andlitsmynd Jón Ásgeir Sigurvinsson
03. desember 2017

Á þeirri þinglotu kirkjuþings sem lauk 15. nóv. voru samþykktar breytingar á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta. Löggjafarnefnd kirkjuþings hafði sett fram tillögur að breytingum á starfsreglunum sem ætlað var að taka af öll tvímæli um tiltekin ákvæði reglnanna sem og um túlkun á vissum aðstæðum sem upp kunna að koma í kjöri, svo sem þeim er kjörnefndarmenn skila auðu atkvæði. Í upphaflegum breytingartillögum nefndarinnar var kveðið á um að sá umsækjandi teldist „hafa hlotið kosningu í prestsembætti sem hlýtur meiri hluta gildra atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu á kjörnefndarfundi.“ Var því jafnframt bætt inn í starfsreglurnar í upphaflegum tillögum löggjafarnefndar að „[a]tkvæði skal meta ógilt ef kjörseðill er auður“ í samræmi við almenna kjörvenju, sbr. 100. gr. laga um kosningar til Alþingis. Má gera því skóna að löggjafarnefnd hafi þótt nauðsynlegt að hnykkja á þessu atriði í ljósi nýlegs tilviks þar sem embættismenn biskups töldu autt atkvæði til gildra atkvæða með afdrifaríkum afleiðingum. Í lokatillögunum sem kirkjuþing samþykkti, að teknu tilliti til breytingartillagna biskups, hafði þó hinu skýra ákvæði um meiri hluta gildra atkvæða því miður verið breytt á þann veg að ekki verður annað séð en að framkvæmd vals og veitingar prestsembættis verði ómöguleg á grundvelli núgildandi starfsreglna. Ástæða þess er innri mótsögn í reglunum sem gerir það að verkum að eitt ákvæði ógildir annað, sem aftur mun líklega leiða til kærumála á hendur biskupi.

Í samþykktri lokatillögu löggjafarnefndar segir undir lið e: „Sá umsækjandi telst hafa hlotið kosningu í prestsembætti sem hlýtur meiri hluta gildra atkvæða, miðað við fullskipaða kjörnefnd, í leynilegri atkvæðagreiðslu á kjörnefndarfundi. Atkvæði skal meta ógilt ef kjörseðill er auður.“ Ekki þarf löglærðan mann til að sjá að hér getur að líta tvö ákvæði sem eru í mótsögn hvort við annað og að sé annað ákvæðið virkjað nemi það hitt ákvæðið úr gildi. Annars vegar er viðmið þess hlutfalls gildra atkvæða sem duga skulu til lögmæts kjörs fastbundið við „fullskipaða kjörnefnd“. Hins vegar er kveðið á um að autt atkvæði sé ógilt. Hið fyrra ákvæði krefst þeirrar forsendu að öll atkvæði, miðað við fullskipaða kjörnefnd, séu ávallt gild. Þar með er ekki gert ráð fyrir auðum atkvæðum enda eru slík atkvæði ávallt dregin frá heildartölu greiddra atkvæða og hafa ekki áhrif á hlutfallsreikning niðurstaðna kjörs. Í samræmi við 11. mgr. 1. greinar starfsreglnanna skal m.a.s. miða við fullskipaða kjörnefnd þótt aðeins 2/3 hlutar nefndarmanna séu mættir á kjörfundinn. Þar með öðlast ekki aðeins mögulegir auðir seðlar vægi heldur einnig hugsanleg atkvæði þeirra kjörnefndarmanna sem ekki eru mættir á fundinn, þ.e.a.s.: „ímynduð“ atkvæði fjarverandi kjörnefndarmanna fengju vægi í hlutfallsútreikningi kjörsins líkt og væru þau gild. Er þetta í hrópandi andstæðu við það að auð atkvæði teljist ógild sem og við almenna kjörvenju, enda telst manneskja á kjörskrá ekki hafa neytt kosningaréttar síns ef hún tekur ekki þátt í kjöri.

Tökum dæmi um áhrif starfsreglnanna: Nú mæta 10 kjörmenn af 15 til kjörfundar. Skv. starfsreglunum telst umsækjandi ekki réttkjörinn nema hann fái 8 atkvæði, þ.e. meiri hluta miðað við fullskipaða kjörnefnd, eða 80% gildra atkvæða, nokkuð sem er líklega einsdæmi í kosningum, hér á landi sem annars staðar. Væru tvö atkvæði af 10 auð myndi það leiða til þess að aðeins átta atkvæði væru raunverulega gild, sem aftur leiddi til þess að umsækjandi þyrfti 100% gildra atkvæða til þess að teljast réttkjörinn! Gefum okkur nú að þrjú atkvæði falli auð, einn umsækjandi af fjórum fái sjö atkvæði, aðrir ekkert. Samkvæmt reglunum hefur umsækjandinn með atkvæðin sjö ekki fengið meirihluta „miðað við fullskipaða kjörnefnd“ og því skal kjósa aftur á milli tveggja efstu. En nú vandast málið, það eru engir tveir efstir og því ekki hægt að kjósa á milli þeirra og þar með er ákvörðun um skipun undir biskupi komin skv. starfsreglunum. Jafnvel þótt menn vildu bjarga sér úr klípunni og vilja miða við fullskipaða nefnd en láta auð atkvæði dragast frá heildartölu hennar, þannig að í ofangreindu dæmi myndu tveir auðir seðlar leiða til þess að miðað yrði við 13 atkvæði, myndu framangreindar ógöngur geta komið upp og innri mótsögn reglnanna vera til staðar eftir sem áður. Vart þarf að fjölyrða frekar um galla starfsreglnanna.

Í ljósi ofangreinds er sýnt að kirkjuþing þarf að breyta eins fljótt og auðið er nýjum starfsreglum um val og veitingu prestsembætta. Jafnframt er ljóst að kirkjuþingi er ekki stætt á því að falla frá þeirri meginreglu íslenskra laga að auð atkvæði teljist ógild. Þar af leiðandi á kirkjuþing einskis annars úrkosti en að falla frá því dæmalausa ákvæði að meiri hluti atkvæða skuli „miðast við fullskipaða kjörnefnd“ í stað meiri hluta þeirra gildu atkvæða sem greidd eru á kjörfundinum eins og upphaflegar tillögur löggjafarnefndar kváðu á um, enda má ljóst vera að biskupi sé tæpast kleift að auglýsa embætti til umsóknar að óbreyttu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. nóvember sl.