Hljóð

Hljóð

Finnbogi Pétursson fjallar í mörgum verka sinna um þessar tvær hliðar hljóðs og á þessari sýningu sjáum við þrjú dæmi um slíka nálgun.
Mynd
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
29. nóvember 2020

Það er alkunna að orð geta haft margs konar merkingu. Sjálfur þekki ég þó ekki nema eitt dæmi þar sem orð getur vísað með viðlíka hætti til andstæðna. Þar á ég við orðið „hljóð“. Að gefa hljóð, er að þegja. Að gefa frá sér hljóð er að tala eða skapa með öðrum hætti einhvern hávaða. Að hljóðna er að þagna, að hljóða er að æpa. Með þessu móti er hljóð samheiti yfir það sem gerist þegast þegar eyrun nema bylgjuhreyfingar í loftinu og allt til þess er þau greina ekki neitt.

Finnbogi Pétursson

Finnbogi Pétursson fjallar í mörgum verka sinna um þessar tvær hliðar hljóðs og á þessari sýningu sjáum við þrjú dæmi um slíka nálgun. 

Í einu verki sýnir hann snældur sem geyma upptökur af útvarpsefni frá 9. áratugnum en lög kváðu á um að slíkt efni skyldi varðveitt. Það gefur auga leið að vonlaust er að halda öllu því til haga sem sent er út á öldum ljósvakans enda gáfust menn að endingu upp á framtakinu. Og hér eru þessi kefli orðin að hálfgerðri steypu eftir áratuga vist í lokaðri geymslu. Takist að lokka aftur fram kliðinn sem segullinn hafði fangað, þá verður hann aðeins leikinn einu sinni. Eftir það er bandið ónýtt. Hljóðið er varðveitt eins og steingervingur í formi síns tíma.

Verkinu Miðja (Centre) lýsir Finnbogi svo að hann sótti steina úr fjörunni undir Snæfellsjökli, þangað sem leiðin liggur að miðju jarðar. Hann segir: „Yfirskriftin vísar í jörðina og kjarnann, þar sem allt mótast í upphafi og verður til. Deiglan, blóðrás jarðarinnar vellur uppá yfirborðið, storknar og verður að bergi sem brotnar upp og fellur að hluta í sjó fram. Aldan sverfur gróft bergið og mótar ávala hnullunga sem verða að steinvölum og síðar sandi sem berst með loftstraumum í formi ryks sem oftar en ekki endar ofan í okkur og gengur í samband við blóðrásina.Hljóðnemi í miðju steinsins sendir út í nánasta umhverfi verksins, þögnina úr miðju jarðarinnar, kjarnans, þar sem allt verður til.“

Loks er það verkið Gildrur (Traps) sem samanstendur af tveimur misstórum kössum sem eru opnir í annan endann. Kassarnir hanga samsíða í pörum á vegg með u.þ.b. sentimeter bili. Holrými kassanna eru misstór og svara því mismunandi tíðni úr umhverfinu. Þá tíðni hefur Finnbogi mælt og hann segir: „Hugmyndin er að kassarnir verða einskonar felustaðir fyrir ákveðin tínisvið í umhverfinu og núlla þar af leiðandi þessar tíðnir úr umhverfinu. Þeir búa til huglægar þagnir á þessum tínisviðum.“

Hljóð og sannleikur

Hljóð er allt um kring og það skipar auðvitað stóran sess í Biblíunni. Heimurinn verður merkingarbær þegar hugtök verða til og fólk getur talað um umhverfi sitt. Um leið boða ýmsir höfundar bóka Biblíunnar að manneskjan þurfi tóm til íhugunar þar sem þögnin fær sitt svigrúm. „Gott er bíða hljóður eftir hjálp Drottins,“ segir í Harmljóðunum.

Þekktust er þó líklega þögn Jesú þegar hann stóð frammi fyrir Pílatusi og sá spurði: „hvað er sannleikur?“ Því svaraði Jesús aldrei, mörgum til gremju og öðrum til heilabrota. Svo kann þó að vera að þar hafi Jesús einmitt ráðið kollgátuna við spurningunni stóru. Býr sannleikurinn kannski í þögninni?