Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.“ Og þeir atyrtu hana.En Jesús sagði: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt. Hún gerði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrir fram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“ Mrk 14.3-9
Á dögum Jesú væntu margir komu guðsríkis, sem yrði mjög svo jarðneskt ríki, já heimsveldi, þar sem þeir yrðu höfðingjar og hinir þjónar. Jesús mátti vel vera konungur þess. Þess vegna fagnar fólkið Jesú við innreiðina í Jerúsalem. Um þetta segir í guðspjallinu: „Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ (Jh 12.12–13). En þetta er sagt um Jesú, sem hafði í orði og verki opinberað hvað dómur, iðrun og fyrirgefning standa fyrir. Þetta eru hugtök sem er okkur jafnframandi og fólkinu sem fagnar Jesú.
Hugtök sem féllu í ónáð
Á Íslandi hafa t.d. hugtökin dómur og iðrun verið meira og minna bönnuð í allri trúarlegri umræðu. En nú eru aðrir tímar. Við Íslendingar reynum hvernig dómurinn hvílir yfir þjóðinni. Hann er ekki bundinn við afmarkaðan hóp, sem er hægt – þegar best lætur – að vorkenna úr fjarlægð. Nei, við erum öll undir sama dómi og okkur ber að borga. Við stöndum meira segja frammi fyrir þeirri staðreynd að það er ekki hægt – þrátt fyrir umdeilanlega framkomu – að gera Breta ábyrga fyrir ógöngum, því efnahagsbandlagið sagði með einni röddu. „Þið eruð sek.“ Framhjá þessu verður ekki komist. Dómurinn er fallinn og við lifum undir honum. Allt í einu fá hugtökin dómur, fyrirgefning og iðrun merkingu. Það rísa alls staðar upp iðrunarprédikarar líkt og Jóhannes skírari forðum og boða iðrun og yfirbót. Þeir kalla menn til ábyrgðar og sérstaklega þá sem létu fyrir fallið borga sér himinháar upphæðir fyrir að axla ábyrgð, sem enginn vill kannast við núna. Aðferðum, sem eru vel þekktar í íslensku samfélagi, eins og þöggun, að láta sem ekkert sé og stimpla andmælendur sem kverúlanta, er hafnað. Skaðinn er of stór og hann snertir alla. Þess vegna krefjast iðrunarprédikararnir – ekki bara á laugardögum, heldur alla daga – raunverulegrar iðrunar, yfirbótar og umfram allt ábyrgðar.
Að axla ábyrgð
Hugtakið fyrirgefning hefur líka verið tekið til róttækrar endurskoðunar. Menn segja beint út að það sé ekki hægt að krefjast fyrirgefningar og þess að fólk eigi að láta eins og ekkert sé, því við séum nú öll á sama báti. Í þessu samhengi leggja menn oft að jöfnu bankahrunið og náttúruhamfarir. Þessu er hafnað því annað er á ábyrgð manna en ekki hitt. Fólk neitar að meðtaka slíkan boðskap. Og ekki bætti úr skák þegar hann var fluttur af málpípum þeirra manna sem vildur sigla öruggir í lúxussnekkjum framhjá almenningi sem átti samkvæmt þeirra kokkabókum að ausa hripleka þjóðarskútuna. Einnig má nefna hve mjóróma sú sjálfumglaða gagnrýnirödd er orðin, sem hefur tönnlast á í ímyndaðri gagnrýni hve allt þetta dóms–, iðrunar– og fyrirgefningartal í kristninni sé hallærislegt. Það sé fólki ekki boðlegt. Við reynum núna dóminn og hve nauðsynleg en erfið iðrun er, að ekki sé minnst á hve dýrmætur en alvarlegur veruleiki fyrirgefningin er. Hugum nánar að þessu.
Tvær hliðar fyrirgefningar
Þegar fjallað er um fyrirgefninguna koma fram hugmyndir sem sumar hafa lítið að gera með fyrirgefningarboðskap Ritningarinnar. Þær eru jafnvel skrumskæling á honum. Algengt er að menn einskorði fyrirgefninguna við það að láta undan í deilum og átökum. Sú afstaða á vissulega stundum rétt á sér, en ekki þegar hún er notuð til að réttlæta það að fólk „vaði yfir aðra“ eins og það er orðað.
Sams konar misskilningur kemur fram þegar fullyrt er, að það að skilja einhvern sé það sama og vera viðkomandi sammála. Sannleikanum getur oft verið öfugt farið, að skilja einhvern getur leitt í ljós að maður sé ósammála og jafnvel andsnúinn viðmælanda sínum. Þegar svo er vaknar sú spurning hvort menn séu þá ekki komnir í andstöðu við orð Jesú í Matteusarguðspjalli þar sem segir: „Þá gekk Pétur til hans [Jesú] og spurði: Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum? Jesús svaraði: Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.“ (Matt 18.21-22). Þessi áhersla á vægi fyrirgefningarinnar vekur athygli, en spurningin er sú hvernig á að túlka hana. Vísbendingu um það má finna í Lúkasarguðspjalli þar sem Jesús segir á krossinum: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra“ (Lúk 23.34). Óhætt er að fullyrða að fyrirgefningarboðskapur Ritningarinnar komi skýrt fram í þessum orðum. Þó er nauðsynlegt að hafa í huga að Jesús segir þessi orð ekki við þá sem hæddu hann og ásökuðu eða þá sem dæmdu hann og krossfestu, heldur við Guð, föður sinn. Hann fyrirgefur andstæðingum sínum í bæn til föðurins. Jesús samþykkir því hvorki voðaverkin né dregur úr sekt þeirra sem þau unnu. Hann hrópar ekki orð fyrirgefningarinnar til andstæðinga sinna sem hvorki gátu né vildu taka við þeim, hann fyrirgefur þeim í hjarta sínu í bæn til Guðs. Af þessu sést að fyrirgefningin hefur tvær hliðar, eina sem snýr að þeim sem fyrirgefur og aðra sem snýr að þeim sem er fyrirgefið. Fyrra atriðið felur í sér að maðurinn verður að fyrirgefa í hjarta sínu þeim sem beitir hann órétti, svo að reiði og hatur setjist ekki þar að og éti hann upp að innan, ef svo má að orði komast. Síðara atriðið snýr að þeim sem er fyrirgefið. Í Ritningunni kemur fram að iðrun og fyrirgefning fara ætíð saman. Þar er lögð á það rík áhersla að maðurinn verði að gera sér grein fyrir því að hann þarfnast fyrirgefningar og að hann þarf að biðjast fyrirgefningar til að geta meðtekið hana. En þetta iðrunarferli getur reynst manninum erfitt.
Iðrun meira en að skipta um skoðun
En hvað er iðrun? Við vitum að hún er allt annað og meira en að skipta bara um skoðun eða smekk. Vissulega notum við í daglegu tali hugtakið oft til að túlka með, vissan söknuð. Það er að segja þegar við sjáum eftir að hafa gert eitthvað sem var rangt. En alla jafna tengjum við iðrunina við róttæka hugarfarsbreytingu og uppgjör mannsins við sjálfan sig.
Slík iðrun á sér langan aðdraganda. Þessu veldur að við greinum ekki alltaf strax að sú stefna sem við höfum valið var röng. Því alla jafna veljum rétta leið í byrjun. En einhvern veginn á leiðinni og oft án þess að við verðum þess vör, erum við komin út af henni og í lendum í hreinum ógöngum. Eftir talsverðan spöl verðum við loks að horfast í augu við afleiðingar gjörða okkar og viðurkenna mistökin. Slíkt kostar átök, erfiði og þjáningu. Iðrunin er því sár og við reynum þess vegna í lengstu lög að forðast hana. Hver viðurkennir og það fúslega, að hann hafi breytt rangt eða hafi stuðlað að óréttlæti! Þannig finnst mörgum auðveldara að forherðast en að iðrast. Enda þarf margsinnis að benda á villuna áður en við sjáum að okkur og snúum við.
En hér verðum við að gera greinarmun á iðrun og ásökunum. Það er ekki kristin iðrun að ásaka sig stöðugt eða játa í tíma og ótíma villu síns vegar. Og það er heldur ekki iðrunarboðskapur að benda stöðugt á veikleika eða villu annarra. Slíkt einstefnutal getur leitt menn inn í botnlausa angist og örvinglun, sem gerir engum gott.
Bara í þessu samhengi kennir iðrunarboðun Jóhannesar skírara okkur mikið. Hann segir: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ Himnaríki sem er ríki Guðs er í nánd. Í því verðum við menn loks eins og við eigum og viljum innst inni vera. Þannig bendir Jóhannes á óréttlætið um leið og hann sýnir okkur leið út úr vanda okkar, leiðina til réttlætisins. Sannur iðrunarboðskapur á því að vera uppbyggjandi, þá jafnt fyrir einstaklinga sem þjóðfélagið í heild.
Kallið frá Guði
Iðrun er í Ritningunni þess vegna ætíð skilin sem kall til mannsins um að snúa við. Hún er tilboð um nýtt líf. Hún inniheldur sáttartilboð: „Komið, allt er tilbúið“ segir Guð við okkur í Kristi, sem þýðir „komdu til mín, ég tek við þér eins og þú ert.“ Boðun iðrunar byggir á viðurkenningu Guðs á manninum sem barni sínu. Hún er því ákall Guðs til okkar, en ekki frávísun og ábending um að fara fyrst að gera þetta eða hitt og koma síðan og sjá hvað setur. Hún er kall til réttlætis Guðs, sem gerir fyrst réttlæti manna mögulegt.
Réttlátur er maðurinn samkvæmt Biblíunni, þegar hann er eins og hann á að vera. Því ástandi er m.a. lýst í paradísarfrásögunni. Þar er undirstrikað að maðurinn er skapaður til að eiga samfélag við Guð og náungann. Öll vera hans – þ.e.a.s. hugsun, orð og verk – eiga að endurspegla það: Farvegur sambands Guðs og manns er trúin og farvegur sambands mannsins við náunga sinn er kærleikurinn og verk mannsins sem eru leidd af trúnni. Þannig á maðurinn að vera farvegur lífs, ræktunar og uppbyggingar. Réttlæti, kærleikur og líf eru því samtvinnaður veruleiki samkvæmt Ritningunni.
Iðrun og trú
En er við lítum, með þetta í huga, yfir sögu mannsins hér í heimi, í kringum okkur og eigin barm þá blasir oft allt annar veruleiki við, sem við menn staðfastlega neitum að bera ábyrgð á. Í hjarta okkar býr um sig vantraust til sjálfra okkar, náungans og Guðs. Það gerir okkur blind á þarfir okkar og náungans og óttaslegin gagnvart Guði. Afleiðing þessa er röng guðs- og sjálfsmynd, sem kemur of oft fram í ábyrgðarleysi gagnvart okkur sjálfum og náunganum og vantrausti til Guðs. Þetta firringarástand sambandsleysins og vantrausts kallar Ritningin synd. Í Ritningunni er okkur sagt frá því að Jesús Kristur hafi tekið á sig afleiðingar þessarar stöðu eða axlað ábyrgð gjörða okkar frammi fyrir Guði og tekið á sig dóm Guðs yfir syndinni. Hann gengur svo að segja inn í okkar iðrunarferli og gengur leið þess á enda. Hver sá endi er minnumst við á föstudaginn langa. Þar er að finna dóminn, sem vikur öllum öðrum dómum til hliðar. En í honum ryður Jesús Kristur okkur leið til nýs lífs með Guði. Við meðtökum það með því að iðrast og gangast við því sem Guð gerir fyrir okkur í Kristi. Þess vegna fellst sönn iðrun í því að snúa sér til Guðs og það gerum í trúnni á Krist. Í henni eiga sér stað undarleg skipti. Í henni verður manninum ljóst að verkin, mistök eða veikleiki hans skilgreina ekki hver persóna hans er, heldur Guð. Hann segir að við menn séum börn hans.
Í trú og kærleika
Maðurinn lærir nú sjá sig með augum Guðs, sem veru sem þarfnast náðar og fyrirgefningar Guðs. Guðs sem tekur manninum eins og hann er, ekki eins og maðurinn vill vera, álítur að hann eigi að vera eða sé o.s.frv. Afleiðing þessa er sú að maðurinn getur nú metið sjálfan sig og verk sín á raunsæjan máta. Hann lætur þau ekki lengur skilgreina sig heldur Guð í Kristi. Þess vegna getur maðurinn gengist við verkum sínum og leitast við að virða þau eins og þau koma fyrir. Hann veit að þau eru brothætt eins og hann sjálfur. En þar sem Guð hefur játast manninum, getur maðurinn gengist við sjáfum sér og verkum sínum. Hann getur iðrast og axlað ábyrgð á verkum sínum. Líf í iðrun er að viðurkenna þessa stöðu. Það er Guð sem skilgreinir hver við erum en líka verk okkar. Hlutverk starfs okkar er að tryggja viðurværi þeirra sem okkur er trúað fyrir og að styðja við stoðir samfélagsins. Þ.e.a.s. Guð þráir trú okkar, en náunginn að við sinnum skyldum okkar af ábyrgð. Þannig á Kristur að vaxa í lífi okkar og blekkingar að minnka (Jh 3.30). Ef til vill gæti þessi skilningur hjálpað okkur við að takast á við þann dóm sem við erum undir og stuðlað að því að við sýnum ábyrgð. Við getum þá axlað ábyrgð, iðrast og lært að fyrirgefa eins og okkur er fyrirgefið af þeim sem segir um í guðspjallinu: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“