Íhugun ljóssins á kyndilmessu

Íhugun ljóssins á kyndilmessu

Þögnin er dásamleg, kvöldkyrrðin góð, hún skapar frið innra með manni. Ekki er verra að kertaljósin lýsa manni í rökkrinu í kirkjunni frá altarinu. Það er kyndilmessa, 2. febrúar. Við íhugun ljósið, myndirnar mörgu í huganum, ljósgeisla Guðs í faðmi gamals manns.
fullname - andlitsmynd Guðmundur Guðmundsson
02. febrúar 2014
Flokkar

Þögnin er dásamleg, kvöldkyrrðin góð, hún skapar frið innra með manni. Ekki er verra að kertaljósin lýsa manni í rökkrinu í kirkjunni frá altarinu. Það er kyndilmessa, 2. febrúar.

Fjörutíu dögum eftir fæðingu Jesú fór María í helgidóminn eftir hreinsunardagana samkvæmt lögmáli Móse. Þegar hún hafði uppfyllt skyldu sína að færa Guði frumburð sinn, mætir hún tveimur gamalmennum sem voru meira en minna á bæn í helgidóminum. Það voru þau Símeon og Anna Fanúelsdóttir.

Miðglugginn � kór Akureyrarkirkju Frægi miðglugginn í kór Akureyrarkirkju túlkar þennan atburð þar sem Símeon tekur Jesú í faðm sinni og blessar hann og flytur einn af lofsöngvunum sem við höfum í upphafi Lúkasarguðspjalls og er kenndur við hann, lofsöngur Símeons:

“Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins 28tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði”:

Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara eins og þú hefur heitið mér því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael. (v.29-32)

Símeon gladdist yfir því að hann náði að sjá hjálpræði Guðs áður en hann kvaddi, það sem hann hafði vonast eftir “í augsýn allra lýða, ljós til opinberunar”. Og þaðan kemur nafnið á þessum degi. Þetta er guðspjall dagsins.

Kyndilmessa er eins og guðspjall, dálítill misskilningur úr enskunni, "gospel" varð hjá okkur guðspjall í stað þess að vera gott spjall, evangelion, og "kindle" varð kyndill í stað þess að tala um kertamessu. Það eru sagnir til frá þessum degi að það hafi verið mikil ljósadýrð í kirkjunum til að undirstrika umhugsunina um ljósið okkar.

1. Íhugun ljóssins

Það er ljósið sem er kveikjan að íhugun kirkjunnar í gegnum aldirnar. Í elstu bók okkar Íslendinga Homelíubókinni frá um aldamótin 1200 er ræða um kyndilmessu eða hreinsunardag Maríu. Þetta er safn af hugvekjum. Þennan dag er dvalið við þennan texta um Símeon og Önnu. Þar segir og við skiljum málið þó gamalt sé: “Birti ástarlogi hjörtu (v)ór og brenni ljós góðra verka í höndum oss, svo að góð dæmi (v)ór lýsi innan musteri Guðs, það er kristinn lýð”. (bls.125-6).

Nú skulum við láta ljósið lýsa upp huga okkar, kirkjuna hér og kristnina alla. Mig langar til að leiða okkur í íhugun ljóssins í kvöld. Kirkjan hefur stundað íhugun í gegnum aldirnar hér á þessum stað í klaustri og kirkju, meðal reglufólks og almennings. Lúther vildi á sínum tíma halda í tíðargjörðina vegna þess að hann var bænarinnar maður. Hann sá Jesú sem ljósið eina, stjörnuna, sem birtir okkur Guð. Og Hallgrímur Pétursson lagði okkur Passíusálmana á hjarta og þjóðin söng þá af sál þó að söngurinn þótti ekki neitt sérstaklega fagur af rómantískum fagurkerum 19. aldar. Í Passíusálmunum er langt í frá bara pína og dauði, því undirtónninn er von og birta, eins og í Hómelíubókinni, eins og í þessu versi:

Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má, Guð míns ástar birtu bjarta bæði fæ ég að reyna og sjá...

Við skulum leiða hugan að ljósinu eilífa. Að í upphafi var ljós og út frá því er allt líf sprottið. Mannlífið er allt út frá þessu ljósi. Ljósið sem er líf mannanna. Með einhverjum hætti er Jesú þessi ljósgeisli Guðs sem Símeon hélt í höndum sér. Hann gladdist vegna þess að hann sá hjálpræði sitt í þessu barni.

Kertaljós flöktir á altari í helgidómi okkar, minnir á ljósið eilífa, vermir okkur að ytri hætti og innra með okkur. Við vitum svo sem ekki hvort er áhrifameira ljósið sjálft eða það sem það vísar á. Ljósið í lífinu er kærleikurinn sem við njótum, gefum og þiggjum, kærleikurinn, sem streymir um lífsins æðar allar. Það er lífið sem gefur lífsbaráttu okkar merkingu, þýðingu, kærleikurinn er ljósið í lífinu. Kærleikurinn er af geisla eilífðarinnar.

Skynsemin, sem kveikt er af ljósinu eilífa, skilur ekki, fær ekki fest þessa þanka í kerfi og rök, málefni hjartans eiga annars konar rök, ekki þýðingarminni, það sem við vonum og byggjum líf okkar á, það, sem við lifum fyrir.

2. Íhugun myndanna

Þegar við íhugum ljósið speglum við okkur í augum Guðs. Við sjáum okkur í augum hans um leið sjáum við okkur sjálf út frá öðru sjónarhorni. Af sjónarhóli Guðs. Við mátum okkur í hlutverki öldunganna í sögunni. Dáumst að barninu með augum gömlu konunnar, föðmum það með Símeon gamla. Sagan sú verður saga okkar af samskiptum okkar við Guð. Þess vegna er það orð Guðs. Ljós Símeons gamla verður ljós okkar. Eilíft ljós í augum barnsins. Birting á kærleika Guðs í mannheimi. Leiðarvísir til betra lífs, bjartara, vonarríkara.

Myndirnar mörgu í orðinu og lífsbarátta okkar renna saman. Ég fæ að horfast í augu við Guð sjálfan í lofsöng gamals manns. Von mín og von hans birtir upp huga minn. Ég sé að í grunni tilveru minnar er ekki innatómur ómur heldur Guð sem elskar, snertir mig, ég er hans, hann nefnir mig með nafni, vill vera Guð minn, láta mig vita að hann hugsar um mig, örsmáa veru í algeimi er honum ekki gleymd, hvert hár á höfði mínu þekkir hann. Ég tilbið hann.

Ég krýp með vitringunum og færi honum gjafir mínar, mig sjálfan, bið hann að taka við mér. Ég tek glímuna við freistingarnar til að standast í veröld sem andmælir Guði og því sem gott er. Ég er á fjalli bænarinnar þar sem allt verður svo gott og blessað, að ef ég mætti ráða færi ég aldrei þaðan. En skyndilega fer allt á hreyfingu og ský skyggir á sýn mína þar til Jesús einn birtist mér. Ljósið eilífa.

Svo líða myndirnar hjá og Jesús verður þar einn, geisli Guðs.

3. Íhugun kyrrðarinnar og friðarins

Þá þagna orðin og nærvera Guðs verður allt. Nálægð hans í orðalausu sambandi, eins og barn við brjóst móður sinnar, þegar það hefur fengið nægju sína. Hvíld eins og í djúpum svefni.

Ég er hér og Guð er hér. Það nægir mér.

Guð og ég. Ég ávarpa hann þú, Guð minn. Hann þekkir mig.

Við minnumst hans í sakramentinu, brauðinu og víninu, sem hann tók, blessaði, braut og gaf okkur. Til að minna okkur á þetta að hann er hér, hann hefur gefist mönnum, mannkyni öllu, í kærleika sínum, til að vera okkur ljós í lífinu, huggun og styrkur, von og lífsgleði.

Jesús er okkur eilíft ljós Guðs.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda.

Sjá á heimasíðu höfundar hér. Íhugun um gluggana í kór Akureyrarkirkju hér.