Kynlífið og hvíldardagurinn

Kynlífið og hvíldardagurinn

Þessi litla saga er lýsandi dæmi um það hvernig blind bókstafstrú getur leitt menn í öngstræti. Hún sýnir hvað gerist þegar trúaðir menn verða svo uppteknir af forminu að þeir gleyma innihaldinu og tilgangnum með boðun trúarinnar. Menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum.

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki? Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé? Þeir gátu engu svarað þessu. Lúk 14.1-6

I.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ spurði Jesús. Án efa finnst okkur þessi spurning í hæsta máta undarleg. Má ekki lækna fólk á hvaða degi sem er? Tilfellið er að á dögum Jesú voru menn svolítið í vafa um það hvort mætti lækna fólk á hvíldardegi. Og það var vegna þess að í Gamla testamentinu stendur það alveg skýrum stöfum að maðurinn skuli vinna sex daga en hvílast þann sjöunda. “Halda skaltu hvíldardaginn heilagan”; þannig hljóðar eitt af Boðorðunum tíu, og farísearnir, sem voru flokkur heittrúarmanna á dögum Jesú, er vildu fara í einu og öllu eftir lögum Móse, voru inni á því að allar stéttir landsins skyldu hvílast og leggja niður störf sjöunda daginn, - læknar þar með taldir. Læknisverk hlytu því að vera brot á hvíldardagsboðorðinu, - eða hvað? Jesús sáir nefnilega efasemdum í huga faríseanna þegar hann spyr hvort ekki megi á hvíldardegi draga asna upp úr brunni eða skurði, sem hann hefur fallið í! En margir farísear voru einmitt á því að slíkt mætti. En fyrst það mátti hjálpa asnanum upp úr skurðinum af hverju mátti þá ekki hjálpa manninum til að komast upp úr sínum veikindum? Þar eð farísearnir gátu ekki svarað þessu þá þögðu þeir.

Þessi litla saga er lýsandi dæmi um það hvernig blind bókstafstrú getur leitt menn í öngstræti. Hún sýnir hvað gerist þegar trúaðir menn verða svo uppteknir af forminu að þeir gleyma innihaldinu og tilgangnum með boðun trúarinnar. Menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum.

II.

Vitið þið að kirkjan er enn að glíma við þetta vandamál um form og innihald. Þetta er heitasta málið í kirkjunni í dag. Nema hvað við erum ekki að deila um hvíldardaginn heldur ástina og kynlífið.

Jesús sagði að hvíldardagurinn væri mannsins vegna, settur upp honum til heilla. Það er engum manni hollt að vinna alla sjö daga vikunnar. Það er nauðsynlegt að taka sér frí, alla vega einn dag í viku til að hvílast og vera með fjölskyldunni og til að geta tilbeðið Guð og auðgað anda sinn og innri mann. Öll boðorð Gamla testamentisins voru sett fram til tryggja velferð manneskjunnar hér í heimi. Það er tilgangurinn og fram hjá því innihaldi skyldi enginn líta.

Ástin og kynlífið eiga að vera manneskjunni til heilla. Veita henni unað, lífsfyllingu og tilfinngu fyrir því að vera elskuð og dýrmæt, vera mikils virði. Utan um þetta hafa verið sett margvísleg form. Á dögum Gamla testamentisins var áherlsan á frjósemina og mikilvægi þess að eignast sem flesta afkomendur. Þess vegna var fjölkvæni hjónabandsform þess tíma. Ef þú varst karlmaður og bróðir þinn dó áður en hann hafði náð því að barna konu sína þá bar þér skylda til að geta konunni barn og vekja þannig bróður þínum niðja. Mágskyldan er heilög samkvæmt orðum Mósebóka. Allt kynlíf sem ekki leiddi til frjósemi og barnsfæðinga var fordæmt og gilti einu hvort um var að ræða sjálfsfróun eða mök fólks af sama kyni. Hvort tveggja var fordæmt með sömu orðum.

Á dögum Jesú var komið annað form á hjúskapinn. Fjölkvæni var þá aflagt en hjónaband karls og konu orðið sá rammi, þar sem fólk skyldi njóta ásta og unaðar. Og þannig hefur það lengstum verið eða allt fram á 20. öldina þegar frjálsræði, kynlífsbylting og hippakúltúr tóku að móta viðhorf fólks á Vesturlöndum.

III.

Það er annars ótrúlegt hvað fólk getur verið fastheldið á formin. Fram á miðja seinustu öld var ætlast til þess að öll börn skrifuðu með hægri hendinni. Það mátti ekki skrifa með þeirri vinstri. Örvhent börn voru neydd til að skrifa með þeirri hægri þó svo að þeim væri frá náttúrunnar hendi miklu tamara og eðlilegra að nota sína vinstri hönd og hefðu meiri hreyfifærni í þeirri hönd. Nei, það skyldi vera sú hægri!

Eða munið þið eftir þegar síða hárið kom, bítlahárið? Það voru nú ekki ófá skiptin, sem sagt var við mig í foreldrahúsum: “Ég vona að þú farir ekki að safna síðu hári, Maggi minn, það væri hræðilegt!” Um tíu ára aldur var þetta farið að valda mér miklum heilabrotum. Af hverju mátti ekki hafa sítt hár? Var Jesús ekki sýndur á öllum myndum með sítt hár og skegg! Halló, halló! Og hvað með Brynjólf Gíslason biskup í Skálholti og önnur stórmenni fyrri alda; þeir voru allir með sítt hippahár og skegg. Er það útlitið sem skiptir öllu máli, formið, hársíddin, húðliturinn, þjóðernið eða er það innrætið, sem ræður því hvort maðurinn er góður og göfugur?

Páll postuli segir í pistli sínum til Galatamanna: “Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð öll eitt í Kristi Jesú.” Þessi texti var notaður í skírnarritúali fornkirkjunnar. Við skírnina urðu menn meðlimir í kirkju Krists. Og það sem einkenndi kirkjuna í upphafi og stuðlaði að útbreiðslu hennar í Rómarveldi var það að kirkjan var opin öllum og þar var ekki gerður mannamunur. Konur voru velkomnar inn í kirkjuna til jafns við karla, útlendingar ekkert síður en heimamenn og þrælar voru álitnir jafn mikil Guðs börn og hinir frjálsu og ríku. Í fornkirkjunni voru það ekki formin, sem giltu, heldur innrætið, trúin, vonin, kærleikurinn. Spurningin var einungis hvort þú tryðir á Guð, sem opinberast hefði í Jesú Kristi.

Að þrællinn og frjálsi maðurinn séu eitt í trúnni á Krist, þeir séu bræður og systur í Kristi; slíkur trúarlærdómur hlaut um síðir að leiða til þess að þrælahald yrði afnumið. Manngildi fram yfir húðlit eða þjóðerni! Sönn mennska felst ekki í einhverjum formum heldur innræti þínu. Sönn mennska birtist í því að þú getur auðsýnt náunga þínum kærleika.

IV.

Ef við teljum rangt að mismuna fólki á grundvelli þess hvort það er rétthent eða örvhent, sköllótt eða hært, hvítt eða svart, Íslendingur eða útlendingur, hvað þá með kynhneigðina. Er það að vera hómosexúal eða heterosexúal formið, sem öllu ræður? Er loksins komin kategoría, form, mælistika, sem hægt er að flokka með í meiri og minni menn, alvöru fólk og hinsegin fólk?

Ég veit hvað stendur í Móselögum. En ættum við ekki í þessu, sem öðru að spyrja um tilgang og innhald! Af hverju er bannað í Móselögum að borða skelfisk og hræætur? Af því að Ísrelsmenn höfðu slæma reynslu af slíkur áti. Skynsemi þeirra, reynsla og viska hafði kennt þeim það. Hefðu Ísraelsmenn hins vegar átt heima hér við Ísafjarðardjúpið og kynnst þeirri góðu rækju, sem hér má stundum veiða, þá hefði þessi regla orðið önnur. Guð gaf okkur skynsemi til að greina trén frá skóginum. Við ættum að nota hana í þessu máli sem öðrum.

Syndin birtist alltaf í fráfalli frá Guði og einnig í því að við gerum náunganum mein, við rænum náungann mennsku hans og gleði. Við vitum öll hvernig syndin birtist og holdgerist í kynlífinu. Þar kemur hún fram í öllum viðbjóðnum, barnakláminu, öllu því sem niðurlægir manneskjuna og sviptir hana reisn sinni og mennsku. Syndin og illskan birtast í mansalinu og framhjáhaldinu og ótrúnaðinum, sem heldur uppi eftirspurninni.

Ástir tveggja einstaklinga eru bara allt annar hlutur. Þar ríkir virðing, gagnkvæmur trúnaður, umhyggja og yndi. Hin líkamlegu form breyta engu þar um. Og hvernig fólk tjáir ást sína í hjónaherberginu er auðvitað einkamál hvers og eins.

V.

„Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Er leyfilegt að blessa samkynhneigð hjón? Svarið er já! Já, biskup Íslands hefur gefið prestum leyfi til að blessa samkynhneigð hjón. Formsins vegna heitir það að sú blessun sé á sælugæslusviði hvers og eins. Guðs orð þekkir hins vegar engin slík svið. “Allt sem þú gerir í leynum, mun opinbert verða”, segir í Biblíunni. Að skilningi Biblíunnar er öllu okkar lífi lifað frammi fyrir Guði. Og ef þú blessar einhvern hlut eða gjörð, lest Guðs orð og biður því blessunar þá ertu að helga það og vígja. Guðfræðilega séð er enginn munur á blessun og vígslu. Það er sama innihaldið.

„Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“

Megi kærleiksríkur Guð gefa okkur styrk og þor til þess.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.