Undanfarið hef ég verið að segja fermingarbörnum prestakallsins frá embættisklæðum prestsins og auk þess sýnt þeim þann ágæta klæðnað. Í fyrsta lagi hef ég bent þeim á það að orðið embætti er komið af orðinu ambátt, sem við vitum að er kvenkynsþræll. Þannig felur orðið embætti í sér þjónustu, en þar höfum við megininntak þess starfs, sem presturinn gegnir í söfnuðinum, það er þjónusta við Guð og við náungann. Presturinn er sérstaklega helgaður þeirri þjónustu þegar hann er vígður, helgaður til að leiða hana, en því má aldeilis ekki gleyma að öll erum við kölluð til slíkrar þjónustu, hún gefur þessu lífi okkar ríkan tilgang. Og eitt er það sem umrædd þjónusta þarf alls ekki á að halda og það er yfirborðsmennska og athyglissýki, slíkt drepur reyndar niður allt sem heitir þjónusta, í hvaða mynd sem hún nú birtist. Það var því mikið gaman að sjá svipinn á fermingarbörnunum þegar ég sagði þeim að klæðnaðurinn, sem klerkur skrýðist við helgihald, sé ekki til þess að draga fram persónu hans eða gera hann að einhverju leyti áberandi fyrirbrigði í helgiþjónustunni. Í svipbrigðum barnanna lá spurningin, nú en hvað þá? Og svarið er skýrt, hann er til þess að fela prestinn. Hann er til þess að fela persónu prestsins, þannig að áherslan liggi í því, sem Kristur sagði og gerði, en ekki það sem presturinn hefur fram að færa. Það er ekki aðalatriðið. Viðbrögð barnanna staðfesta á margan hátt þá staðreynd að umhverfi yfirborðsmennsku og athyglissýki mótar á lymskufullan hátt þekkingu okkar og viðhorf og fær okkur jafnvel til þess að gera ráð fyrir einu og öðru, sem er síðan alls ekki raunin. Fermingarbörnin í Laufásprestakalli eru skynsöm, hefur þess vegna verið mjög gaman að starfa með þeim í vetur, og eftir að ég var búinn að útskýra fyrir þeim merkingu þá, er býr að baki klæðunum góðu, þá féll svipurinn í fyrri farveg. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að endurspegla yfirborðsmennskuna, hið ljúfa líf viðskiptajöfra hefur verið áberandi undanfarin ár, þar sem glys og glans hefur mætt augum okkar og barnanna okkar á forsíðum blaðanna. Einn og einn fjölmiðlamaður lagði sig þó fram um að kafa aðeins dýpra í málin en margur annar, en slíkt þótti bara skrýtið og óþarft. Annars voru það helst fyrirsagnirnar, og eru að einhverju leyti enn, það sem skipti höfuðmáli, þær áttu að selja. Allt snérist þetta um að selja. Innihaldið því heldur rýrt og skilningur eftir því. Það er nefnilega þannig að þegar við fáum ekki að heyra eða lesa um það sem býr að baki verður tilveran að skrípaleik, yfirborðsmennskan býr til skrípaleik. Í því ljósi skiljum við betur kímnisöguna um manninn, sem á fullorðinsárum hélt í fyrsta sinn til kirkjunnar sinnar, hafði aldrei komið inn í slíkt samfélag áður og þegar hann sá prestinn ganga inn kirkjugólfið hrökk óvart upp úr honum, hvaða mennska mörgæs er nú þetta?
Embættisklæðnaðurinn vísar til þjónustunnar, þjónustunnar við lífið, hann vísar til krossins, sem sameinar dauða og líf og fær okkur til þess að sjá dauðann sem nýja fæðingu, fæðingu til ljóssins og lífsins eilífa. Og litirnir benda okkur á hvar við erum stödd í kirkjuárinu, fjólublár er litur föstunnar, litur iðrunar og yfirbótar, hvíti liturinn minnir okkur á að dauðinn hefur verið uppsvelgdur í sigur og er því hátíðarlitur kirkjunnar, svartur felur í sér sorg og þjáningu föstudagsins langa, rauður bendir á hinn brennandi og kærleiksríka anda, er kom yfir lærisveinanna á hinni fyrstu hvítasunnu og grænn er litur vaxtar og þroska, þar sem trúin skal gróa í hjörtum okkar og veita okkur vonarríkt líf. Hinn litríki klæðnaður þ.e.a.s. stólan, sem borin er um herðar, og hökullinn, sem er sem skikkja yfir, hafa píslar- og páskasöguna sér að baki. Stólan merkir ok Krists, hann bar krossinn á herðum sér upp á Golgatahæð, það gerði hann af fórnfúsum kærleika mannkyni til heilla og blessunar. Hökullinn á sér fyrirmynd í línklæðum Krists, sem hann var vafinn inn í þegar hann var lagður í gröf sína, það voru klæði næst líkama hans, að honum látnum, er ítrekar helgi hökulsins. Þess vegna er sá klæðnaður einkum notaður þegar sakramentum kirkjunnar er útdeilt, en sakramentin eru tvö í kirkjunni okkar, skírn og kvöldmáltíð. Auðmjúk og einlæg þjónusta, engin yfirborðsmennska. Það er ekki hægt að greina neitt fals við þjónustu Maríu, vinkonu Jesú, er hún smurði fætur hans og þerraði með hári sínu. Nardussmyrslin voru af dýrari gerðinni og ilmur þeirra átti að minna á þá djúpu virðingu, sem María bar fyrir vini sínum. Ilmurinn fylgdi Jesú í gegnum þjáninguna, upp á krossinn, þar sem líf Jesú var tekið, en gjöf Maríu var ekki frá honum tekin. Einlæg þjónusta, sem veitt er af djúpri virðingu, verður nefnilega seint frá fólki tekin, er hana þiggur. Þess vegna er María fyrirmynd og áminning fyrir þá víðtæku kærleiksþjónustu, sem kirkjunni er ætlað að bjóða upp á, það skal vera þjónusta, sem er þess eðlis að hún lifi ævinlega í hjörtum þeirra, sem hana þiggja. Þannig þarf að vanda til slíkrar þjónustu, virkja fleiri til að sinna henni, og örva samhug og samábyrgð. Kirkjan er samfélag, til þess að samfélag lifi og geti látið gott af sér leiða, þurfa meðlimir að láta sig líf þess og velferð varða. Kærleiksþjónustan gengur sömuleiðis út á það að láta sig málefni kirkjunnar varða og láta sig velferð annarra varða. Kristinn einstaklingur fylgir fordæmi Jesú Krists í kærleiksþjónustunni, hugsar til fótaþvottarins, bæði þess sem María sinnti forðum, að ég tali ekki um fótaþvottinn, sem Jesús sjálfur veitti lærisveinum sínum á hinum fyrsta skírdegi. Þar má segja að Jesú hafi sýnt í verki þau orð sín er hann segir: “Allt sem þér gerið einum minna minnstu bræðra, hafið þið gjört mér.” Og með þeim þvotti forðum veitti hann kærleiks og fórnarboðskap sínum dýpri og fyllri merkingu með eftirminnilegum hætti. Og koma Jesú til Jerúsalem á pálmasunnudegi minnir sömuleiðis á hina fórnfúsu kærleiksþjónustu Jesú, þar sem hann kemur ríðandi á asna síðasta spölin. Asni var venjulegast notaður sem burðardýr, vinnudýr, hann var til þjónustu reiðubúinn og með því að mæta á slíkri skepnu til borgarinnar, þar sem örlögin biðu, lagði Jesús áherslu á hina auðmjúku þjónustu, fremur en ef hann hefði riðið í hlaðið á hvítum hesti.
Pálmasunnudagur vitnar um kærleiksþjónustuna og eðli hennar, en dagurinn fær okkur jafnframt til að velta fyrir okkur annarri og ólíkri hlið, sem tengist breyskum hugsunum mannfjöldans, er veifaði pálmagreinum og fagnaði komu Jesú brosandi. Hósanna, sem þýðir beint, bjargaðu okkur núna!! Þar ályktuðu ýmsir sem svo að þarna væri kominn maður, sem myndi þjóna þeirra hagsmunum. Fólk sem sá fyrir sér breytingar á þjóðfélaginu, þar sem nærvera Jesú myndi styðja við og vinna með málstað þess. Þegar fólkið upplifði það að Jesús hafði ekki fullnægt sýn þess, þá snérist það gegn honum og hrópin breyttust úr “Hósanna” í “Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann”! Í þessu lá mikill misskilningur, sem kemur til þegar við notum nafn Drottins til þess að þjóna hagsmunum okkar, sýn okkar, hvort sem um er að ræða trúarlega, pólitíska eða félagslega. Jesús er ekki þannig hækja, hann er ekki eitthvað tæki, sem við getum gripið til þegar við þurfum að koma hugmyndum okkar áfram. Nei, við stýrum honum ekki né því sem hann hefur látið frá sér fara. Við erum í stöðu þiggjandans frammi fyrir Drottni, við tökum á móti og leyfum sýn hans og þjónustu að leiða okkur áfram, sem veitir mikilvægan ávöxt huglægrar sáningar. Í því ljósi verða viðhorfsbreytingar, breytt lífssýn til batnaðar, sem hvetur okkur í hinni svokölluðu kærleiksþjónustu og ýtir við þeirri ábyrgðartilfinningu, sem það er að tilheyra því samfélagi og kallað er kirkja. Stór hluti af þjónustunni og ábyrgðinni er að koma saman endrum og sinnum og fjalla um málefni safnaðar, bæði veraldleg og andleg. Aðalfundur er vettvangur, þar sem lagðar eru á borð til blessunar ársskýrslur um safnaðarstarfið, fjármál safnaðarins, kosið í sóknarnefnd o.fl. Nú verður haldinn slíkur fundur strax að lokinni þessari athöfn á Skógum. Fyrir utan skýrslurnar verður vakin athygli á sameiginlegri afmælishátíð Hálskirkju og Illugastaðakirkju þann 8. ágúst næstkomandi, en kirkjubyggingarnar eru báðar 150 ára gamlar á þessu ári. Við fögnum því og hrópum af gleði og eftirvæntingu eins og mannfjöldinn áður, þó pálmagreinar séu víst ekki eins auðsóttar hér á Fróni eins og fyrir botni Miðjarðarhafs. En hvað um það, öll eruð þið hjartanlega velkomin á umræddan fund á Skógum, þar sem kaffiveitingar munu ekki hvað síst framkalla bros. Við göngum nú inn í hina svokölluðu kyrruviku, dymbilviku, til móts við krossinn, til móts við þá eilífu von, sem Guð hefur gefið okkur í Jesú Kristi. Guð blessi ykkur á þeirri göngu og á allri lífsins göngu í Jesú nafni. Amen.