Hvernig þjóðkirkjulög?

Hvernig þjóðkirkjulög?

Þess vegna er endurskoðun þjóðkirkjulaga mikilvægur prófsteinn á kirkjuna og ekki síst forystufólk hennar á kirkjuþingi og í kirkjulegum embættum. Nú glímir það við þennan vanda. Það kann að skýra spennuna sem Steindór lýsir í grein sinni.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
01. desember 2017

Steindór Haraldsson, formaður löggjafarnefndar kirkjuþings, gerði á dögunum ágæta grein fyrir forsendum þeirrar endurskoðnar á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkikjunnar nr. 78/1997 sem staðið hefur undangenginn áratug. Hann lýsti einnig þeim meginmarkmiðum sem nefndin hefur haft að leiðarljósi þannið að leitast sé við að „[…] styrkja stöðu kirkjuþings innan þjóðkirkjunnar, […]“ einkum hvað varðar „[…] yfirstjórn fjármála þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka.“ Þetta eru nokkuð skýr markmið.

Hvernig þjóðkirkju viljum við?
Eins og fram kemur í gein Steindórs gætir skiptra skoðana í þessu efni enda virðist endurskoðunin hafa ratað í vissar ógöngur. Vandinn sem við er að stríða felst þó ekki síður í að samkvæmt íslenskri hefð hefur verið gengið rösklega til verks í að leysa ýmis praktísk vandamál í stað þess að ræða grundvallarspurningar.

Áður en lagt er upp í þá vegferð að endurskoða lög um þjóðkirkjuna væri æskilegt að ákveða hvernig við teljum að þjóðkirkja eigi að vera í megindráttum á öndverðri 21. öld. Án þess er hætt við að tjaldað verði til fárra nátta og að ný endurskoðun hefjist innan skamms með svipum harmkvælum og nú ríkja. Þá yrði líka hjá því komist að umræðan fari út í það valdakarp sem Steindór lýsir í grein sinni.

Í slíkri umræðu þarf til dæmis að skýra hvert rétt sé að leita fyrirmynda. Alls er óvíst að best sé sækja hugmyndafræðina til Alþingis eins og Steindór bendir á að gert hafi verið við setningu núgildandi laga. Vera má að eðlilegra sé að líta til annarra kirkna og miða uppbyggingu íslensku þjóðkirkjunnar við þær. Eitt er þó mikilvægt: Sem mest lýðræði verður að ríkja í kirkjunni. Annars verður hún ekki þjóðkirkja. Þá verða valdmörk að vera skýr innan hennar. Annars ríkir þar ekki friður. Loks verða ábyrgð og hlutverk (frekar en völd eins og segir í grein Steindórs) að haldast í hendur. Annars verður stjórnsýslan ógagnsæ og óreiðukennd. — Þannig þjóðkirkju vill enginn.


Hver á að setja leikreglur um kirkjuráð?

Í núgildandi þjóðkirkjulögum er fjallað um kirkjuráð í heilum kafla sem nær yfir fjórar greinar (5. kafli, 24.–27. gr.). Í fyrstu greininni er kveðið á um að kirkjuráð fari með almennt framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar. Í þeirri næstu er kveðið á um skipan ráðsins en í 10. gr. laganna sem annars fjallar um biskupsembættið kemur fram að biskup sé forseti þess. Þá er grein um valdmörk ráðsins og loks önnur um ýmis hlutverk þess. Hér er með öðrum orðum um mjög nákvæm lagafyrirmæli að ræða sem kirkjan á vel að merkja að öllu leyti undir Alþingi og hefur aðeins tillögurétt um.

Í tillögu löggjafarnefndarinnar að nýjum þjóðkirkjulögum eru ákvæðin um kirkjuráð vissulega enn í 5. kafla en hann er þar aðeins ein grein (13. gr.) sem skiptist í tvær málsgreinar. Þar segir einfaldlega:
■Kirkjuráð fer með framkvæmdarvald í þeim málefnum þjóðkirkjunnar sem ekki heyra undir önnur stjórnvöld kirkjunnar. Kirkjuráð starfar í umboði kirkjuþings og ber ábyrgð gagnvart því.
□Kirkjuþing setur starfsreglur um skipan kirkjuráðs, kosningu til þess, stöðu og starfshætti ráðsins.
Ef frumvarp löggjafarnefndar verður að lögum kveða landslög einungis á um hvar í þjóðkirkjunni almennt framkvæmdavald skuli vera, þ.e. það framkvæmdavald sem ekki er í höndum annarra stjórnvalda kirkjunnar. Þar er einkum átt við biskup og kirkjuþing á sameiginlegum vettvangi kirkjunnar en sóknarnefndir heima í héruðum. Allt annað sem að kirkjuráði lýtur er á hinn bóginn í höndum þjóðkirkjunnar sjálfrar, þ.e. kirkjuþings sem er æðsta stjórn hennar.
Í tillögunni felst sem sé að þjóðkirkjan getur sjálf ráðið öllu um skipan og hlutverk (eða völd!) kirkjuráðs og þarf ekki að sækja breytingar í því efni til Alþingis. Þar er enda ekki að finna neina þekkingu í þessu efni sem kirkjuþing hefur ekki aðgang að. Á Alþingi ríkir líklega heldur enginn sérstakur áhugi né metnaður til að ráðskast með kirkjuráð þjóðkirkjunnar. Því er vandséð hvers vegna það eigi að hafa eins mikil völd í þessu efni og núgildandi þjóðkirkjulög veita því.
Að mati Steindórs Haraldssonar stendur styrinn í endurskoðunarstarfinu einkum um þessa bretingu. Ekki skal því mótmælt hér. Vandinn er þó að meira hefur verið tekist á um það sem ekki segir í greininni en það sem sagt er, þ.e. þá kerfisbreytingu sem greinin boðar.
Í starfsreglunum sem kveðið er á um í 1. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 13. gr. í tillögu löggjafarnefndarinnar á sem sé að fjalla um allt efnið í núgildandi lögum sem sleppt er í tillögunni. Þar væri mögulegt að festa núverandi valdsvið og skipan kirkjuráðs í sessi ef vilji stendur til þess. Því fyrirkomulagi væri einnig hægt að breyta nú eða síðar, í áföngum eða stórum skrefum, allt eftir því sem vilji kirkjuþings stendur til. Aðeins verður að gæta þess að festa og gagnsæi ríki í þessu efni og að kirkjuþing geti ekki hringlað með kirkjuráð frá einu þingi til annars! Um allt þetta verður að ræða við setningu starfsreglnanna og þar til þær liggja fyrir hlýtur núverandi skipan að haldast.
Breytingin sem nú er til umræðu er á hinn bóginn kerfisbreyting sem ber að fagna. 1. mgr. 13. gr. í tillögu löggjafarnefndar þróar þjóðkirkjuna áfram í átt að því sem vilji hefur lengi staðið til að hún yrði, þ.e. sjálfstætt trúfélag á evangelísk lútherskum grunni. Slík félög ráða sjálf uppbyggingu sinni, stjórn og starfsháttum en eiga þetta ekki undir veraldlegum löggjafarsamkomum. Slíkt fyrirkomulag er einfaldlega leifar af ríkiskirkjuskipaninni gömlu.
Að þora, vilja og geta
Nú er sem sé tækifæri til að hrinda í framkvæmd því markmiði sem slegið var föstum í 1. mgr. 1. gr. núgildandi þjóðkirkjulaga en náðist ekki með setningu þeirra, það er að kirkjan ráði málefnum sínum sjálf að svo miklu leyti sem ekki er nauðsynlegt að ríkisvaldið setji henni mörk. Á 21. öld ætti Alþingi einvörðungu að setja lög um stöðu þjóðkirkjunnar. Allt sem lýtur að stjórn hennar og starfsháttum ætti á hinn bóginn að vera í höndum hennar sjálfrar eins og venja er til með sjálftæð trúfélög.

Ef byggja ætti slík þjóðkirkjulög á tillögum nefndarinnar mundi þetta nægja:

Frumvarp til þjóðkirkjulaga.
I. kafli.
Skilgreining og aðild.
1.gr.
■Þjóðkirkjan á Íslandi er evangeliskt lúterskt trúfélag og ber réttindi og skyldur að lögum.
2.gr.
■Skilyrði aðildar að þjóðkirkjunni er skírn í nafni heilagrar þrenningar.
II. kafli.
Réttarstaða þjóðkirkjunnar.
3.gr.
■Þjóðkirkjan ræður skipulagi sínu, stofnunum, embættum og valdmörkum þeirra á milli innan lögmæltra marka.
□Þjóðkirkjunni ber að halda úti kirkjulegri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.
□Um stöðu þjóðkirkjunnar sem trúfélags fer samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar.
□Um inngöngu í og úrsögn úr þjóðkirkjunni fer skv. 8. og 9. gr. laga um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, eftir því sem við getur átt.
4.gr.
■Um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisins fer samkvæmt lögum og þeim samningum sem eru í gildi hverju sinni milli þjóðkirkjunnar og ríkisins, sbr. og 3. mgr. 3. gr.
□Samskipti þjóðkirkjunnar og ríkisstjórnar um málefni kirkjunnar skulu vera við þann ráðherra sem fer hverju sinni með málaflokk er varðar trúmál.
5.gr.
■Stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og almennar óskráðar reglur stjórnsýsluréttar gilda þegar kirkjuleg stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna samkvæmt lögum þessum. Upplýsingalög, nr. 140/2012, taka til starfsemi kirkjulegra stjórnvalda samkvæmt lögum þessum.
6. gr.
■Prestum, djáknum og öðrum starfsmönnum þjóðkirkjunnar er skylt að gæta trúnaðar og þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og leynt skulu fara.
□Trúnaðar- og þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
III. kafli.
Eignarréttur þjóðkirkjunnar og ríkisins. Fjármál þjóðkirkjunnar, launagreiðslur og réttarstaða starfsmanna.
7. gr.
■Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
□Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir sem prestssetrasjóður tók við yfirstjórn á frá ráðuneytinu 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá ráðuneytinu, svo og prestsbústaðir, hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. □Kirkjuþing setur nánari ákvæði um prestssetur og aðrar eignir í starfsreglur.
8.gr.
■Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlegt endurgjald á grundvelli samninga um kirkjueignir og prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum.
9.gr.
■Á grundvelli samkomulags milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar 10. janúar 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar og samnings sömu aðila 4. september 1998 um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar, skal íslenska ríkið standa skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupa,
138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsstofu.
□Fjölgi þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 skal ríkið greiða laun eins prests til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 lækkar tala starfandi presta í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
□Fjölgi prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., skal ríkið greiða laun eins starfsmanns á biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar tala starfsmanna á biskupsstofu um einn. Sama á við um frekari fækkun.
□Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um kjararáð, nr. 130/2016 eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, eftir því sem við getur átt.
10.gr.
■Þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem íslenska ríkinu er skylt að standa skil á launum skv. 27. gr. þessara laga, njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, svo og öðrum lögum er kveða á um réttarstöðu opinberra starfsmanna.
11.gr.
■Kirkjuráð fer með málefni Kristnisjóðs samkvæmt lögum um Kristnisjóð o.fl., nr. 35/1970, kirkjumálasjóðs, samkvæmt lögum um kirkjumálasjóð, nr. 138/1993 og Jöfnunarsjóð sókna, skv. II. kafla laga um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987.
□Kirkjuþing setur nánari ákvæði um framkvæmd þessa í starfsreglur.
IV. kafli.
Um starfsreglur, gildistöku, brottfall og breytingu laga.
12.gr.
■Kirkjuþingi er heimilt að setja starfsreglur um önnur málefni þjóðkirkjunnar en þau sem sérstaklega eru tilgreind í lögum þessum.
13.gr.
■Lög þessi öðlast gildi …
□Lög þessi skulu koma til endurskoðunar eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra.
14.gr.
■Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með áorðnum breytingum. Enn fremur falla úr gildi 1. og 2. gr. laga um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr. 36/1931, með áorðnum breytingum: Þá verður eftirfarandi breyting á lögum um kirkjumálasjóð nr. 138/1993, með síðari breytingum: Í stað „11,3%“ í 2. gr. laganna kemur 14,3%.

Að vísu væri freistandi að geta hér ýmissa álitaefna og hugsanlegra breytinga á einstökum ákvæðum en því skal sleppt í bili.
Á grundvelli laga sem væru álíka umfangsmikil og þessi mætti halda því fram að íslenska kirkja væri í senn þjóðkirkja og sjálfstætt trúfélag. En til þess þarf hún að þora, vilja og geta ráðið málum sínum sjálf. Þess vegna er endurskoðun þjóðkirkjulaga mikilvægur prófsteinn á kirkjuna og ekki síst forystufólk hennar á kirkjuþingi og í kirkjulegum embættum. Nú glímir það við þennan vanda. Það kann að skýra spennuna sem Steindór lýsir í grein sinni.