Ráðsmenn Guðs

Ráðsmenn Guðs

Velkomin öll á Hólahátíð. Eins og við heyrðum áðan fjallar guðspjall þessa 9. s.e.tr. um ráðsmennsku. Drottinn er að tala við lærisveina sína um hinstu tíma. Hann er að tala um skyldurnar, sem mönnum eru lagðar á herðar, sem ráðsmenn Guðs hér á jörðu, þar til hann kallar þá til reikningsskila. Um þann dag veit enginn. Þess vegna ríður á því að menn haldi vöku sinni, séu við öllu búnir, láti ljós sitt loga.

Drottinn mælti: Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst, að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns kom á þeim degi, er hann væntir ekki, á þeirri stundu, er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.

Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg. En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð. (Lúk 12.42-48)

Velkomin öll á Hólahátíð.

Eins og við heyrðum áðan fjallar guðspjall þessa 9. s.e.tr. um ráðsmennsku.

Drottinn er að tala við lærisveina sína um hinstu tíma. Hann er að tala um skyldurnar, sem mönnum eru lagðar á herðar, sem ráðsmenn Guðs hér á jörðu, þar til hann kallar þá til reikningsskila. Um þann dag veit enginn. Þess vegna ríður á því að menn haldi vöku sinni, séu við öllu búnir, láti ljós sitt loga.

Kristur talar um trúmennsku og hyggindi í þessu sambandi. Hann segir að hver sem reynist trúr og hygginn í ráðasmennsku sinni verði í fyllingu tímans settur yfir mikið. Hinsvegar muni hver sá er sofnar á verðinum, reynist hylskinn og sukksamur hljóta makleg málagjöld.

Og af gefnu tilefni segir Kristur við postulana, að mest sé auðvitað ábyrgð þess sem þekkir vilja húsbónda síns. Hinum sé fremur hægt að fyrirgefa sem þekkir hann ekki. “Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn,” segir hann, “og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.”

Þessi boðskapur á vel við Hólahátíð.

* * *

Hólastaður hefur verið tengdur ráðsmennsku lærisveina Krists frá fyrstu tíð. Hér hafa þeir löngum setið sem settir hafa verið ráðsmenn yfir kirkju hans í þessum landsfjórðungi. Ekki er heldur örgrannt um, að þeir sömu menn hafi farið með ráðsmennsku í víðara samhengi en nú til dags er ætlað kirkjunnar þjónum. Hólabiskupar voru á miðöldum valdsmenn á veraldarvísu ekki síður en í andlegum efnum. Hér stóð höfuðstaður Norðurlands um aldir. Hér voru örlög manna ráðin. Til Hóla lágu allar leiðir. Hingað var líka oftast gott að koma. Hér áttu þurfamenn vísa tvo málsverði á dag á tímum Guðmundar góða og oft endranær. Hér áttu menn skjól og þess vegna sóttu menn og sækja heim að Hólum.

En Hólahátíð er ekki haldin til að minnast fornrar frægðar fyrst og fremst. Hún hefur verið haldin í meira en 60 ár í þeim tilgangi að styrkja þá ráðsmennsku sem staðurinn er hlutgervingur fyrir. Hún á að vera andleg vakningarhátíð. Hólastaður hefur verið íslenskri kristni og um leið íslenskri þjóð uppsprettulind margs þess dýrmætasta sem henni hefur hlotnast. Héðan kom fyrsta biblían á móðurmálinu, fyrsta ljóðasafnið, messusöngsbókin sem notuð var um aldir. Hér voru Passíusálmarnir prentaðir, Vídalínspostilla og fjöldi annarra bóka og rita til andlegrar uppbyggingar, menntunar og fróðleiks. Hér stóð mennta- og háskóli Norðlendinga í 700 ár. Allt þetta ber vitni um góða ráðsmennsku. Og sá vitnisburður hlýtur að knýja menn til dáða. Nafnið Hólar eitt sér ætti að vekja með mönnum löngun til þess að láta til sín taka á þessum vettvangi.

Það er einmitt hlutverk Hólahátíðar að vekja með mönnum dáð og dug, að þeir megi reynast árvökulir og góðir ráðsmenn. Og það á við á öllum sviðum mannlífsins. Andleg og veraldleg velferð þarf að haldast í hendur. Engin mannleg umsvif eru Guði óviðkomandi.

Öll sköpunin heyrir honum til. Þess vegna sitja ráðsmenn hans ekki bara á biskupsstofu í Reykjavík, í Skálholti og á Hólum. Þeir sitja líka á Bessastöðum og í stjórnarráðinu. Þeir sitja á sérhverju byggðu bóli. Enginn er undanþeginn þeirri ábyrgð að vera ráðsmaður Guðs.

Það liggur því í hlutarins eðli, að þegar boðað er til samkomu af því tagi sem Hólahátíð er, þá er mikilvægt að kalla til ráðsmenn af sem fjölbreytilegustum sviðum samfélagsins til að heyra af verkum þeirra og áætlunum. Með því móti einu getur mynd samfélagsins orðið heil ef við tökum öll höndum saman um að axla þá ábyrgð sem okkur er lögð á herðar sem ráðsmenn Guðs.

* * *

Eins og við heyrðum á guðspjallinu er ábyrgð okkar Íslendinga mikil, því við þekkjum vilja húsbóndans. Í þúsund ár hefur orð hans verið á tungu landsins barna. Það hefur fest rætur í hugum þeirra. Og jafnvel þó menn sniðgangi það, þá hafa snillingar máls og tóna tilreitt það með þeim hætti að það er þjóðareign og lætur engan ósnortinn, hvort heldur hann vill eða vill ekki.

Við þekkjum öll boðorðin sem eru grundvöllur löggjafar íslenska lýðveldisins. Við kunnum flest kærleiksboðið mikla sem felur það í sér að við berum hvers annars byrðar, séum sáttfús, heiðarleg í samskiptum hvert við annað og mætum illu með góðu. Við könnumst við varnaðarorðin gegn sýndarmennsku, ágirnd, spillingu, hræsni og dómhörku. Við kunnum öll bænarorð hinnar Drottinlegu bænar. Við vitum því hvers af okkur er krafist og hvað okkur er fyrir bestu. Og við megum ekki láta eins og það komi okkur ekki við.

En í því liggur einmitt vandi okkar tíma, að menn setja ekki alltaf hlutina í rétt samhengi. Átta sig ekki á því að þeir lifa ekki bara sjálfum sér, að allt sem þeir gera kemur öðrum við á einn eða annan hátt. Að það er meira í lífspottinum, ef svo má að orði komast, en dagurinn í dag. Og það sem mestu varðar, að þræðir tilverunnar liggja allir saman í eitt, í hönd Guðs. Guðs kærleikans. Þess Guðs sem Jesús Kristur birtir og boðar. Og þó sá Guð virðist af guðspjallinu að dæma vera nokkuð strangur húsbóndi, þá ættum við að þekkja hann nógu vel til þess að vita, að hann elskar börnin sín og vill þeim ekkert nema gott. Það sýndi Kristur okkur og það getum við reynt með því að fela líf okkar honum. En sérhvert gott foreldri agar börn sín og fær þeim verkefni til uppbyggingar og þroska.

Ef fólk gæti almennt litið tilveruna þessum augum, þá mundi margur vandinn leysast. Þá fengi líf margra tilgang sem það hefur ekki í dag. Þá myndi fólk sýna lífi sínu og annarra meiri virðingu en það annars gerir. Þá yrði samábyrgðin ríkari, samhygðin og samheldnin meiri, viljinn til að deila kjörum hvert með öðru áþreifanlegri. Því hvaða kristinn maður getur horft á bróður sinn vera þurfandi án þess að koma honum til hjálpar?

Hér reynir á trúmennsku og hyggindi ráðsmanna Guðs.

Í því eigum við öll hlut að máli. Við erum ráðin til að gefa hjúum húsbóndans skammtinn á réttum tíma, eins og segir í guðspjallinu.

Við eigum því verk að vinna, sem þolir enga bið.

Og þar sem okkur er mikið gefið, þá verður mikils af okkur krafist.

Með það í huga skulum við halda héðan burt af Hólastað út á akurinn sem bíður verkfúsra handa.

Jón A. Baldvinsson er vígslubiskup Hólastiftis. Flutt á Hólahátíð, 9. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 17. ágúst 2003.