Kolfallin á talentuprófinu?

Kolfallin á talentuprófinu?

Sagan um talenturnar býður okkur skoða okkar eigið líf og þjóðlíf og spyrja þeirrar spurningar hvort við nýtum okkar jarðvistartíma vel. Og við skoðum líf okkar í kastljósi orðanna: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. Það er talentuprófið.

Við skulum biðja.

Vinnutími ævin er. Ár og síð á lífstíð minni. Drottinn minn, til dýrðar þér dyggilega gef ég vinni. Gef mín störf til góðs æ leiði, gef þau út þitt ríki breiði.

(sb 121)

Mega menn gera mistök? Er nauðsynlegt að refsa með því að reka menn úr starfi og vísa þeim út í ystu myrkur, þar sem er "grátur og gnístran tanna"? Það er eiginlega ekki hægt annað en vorkenna vesalings þjóninum í sögunni um talenturnar sem við heyrðum lesna frá altari áðan. Honum var afhentur fjársjóður – heil talenta – til að hafa umsjón með í fjarveru húsbóndans. Og hann var svo hræddur við húsbóndann að hann gróf talentuna í jörðu í stað þess að reyna að ávaxta hana.

Eða þannig skýrir hann söguna. Og þjóð sem hefur upplifað bankahrun tiltölulega nýlega hlýtur að skilja ótta við fjárfestingar og ávöxtunarkröfur. Það er ekki erfitt að hafa svolitla samúð með vesalingnum sem mislas svona stöðuna og lenti í vondum málum. Ætli við værum ekki fleiri sem í ótta okkar gætum kolfallið á talentuprófinu?

Hvernig væri þessi saga ef hún hefði gerst á Íslandi á 21. öld? Þremur mönnum falin ábyrgð í risafyrirtæki. Kannski lífeyrissjóði, kannski ríkisstofnun. Ég get alveg séð fyrir mér fyrirsagninar í blöðunum og athugsemndirnar í hinu alræmda kommentakerfi og félagsmiðlum: Enginn hagvöxtur hjá Jóni þjóni, stóð sig 100% ver en hinir. Og svo athugasemdirnar í kommentakerfunum: Hvusslags aumingja eru menn með í vinnu? Það ætti að reka allt þetta pakk! - og svo framvegis og svo framvegis. Það er reyndar líka möguleiki að litið verði á Jón þjón sem píslarvott fyrir að vera rekinn án þess að hafa gert nokkurn skapaðan hlut. Eða sem mann sem kom upp um vondan yfirmann og var rekinn þess vegna. Og þá myndu einhverjir skjóta inn athugasemdum um gráðuga eignamenn og ýmislegt verra - athugasemdir sem enginn myndi segja við umræddan en margir segja um hann. Netheimar eru einmitt svæði þar sem oft er grátur og gnístran tanna.

En hvað var það sem okkar manni, honum “Jóni þjóni” var falið að gera? Og hvernig klikkaði hann?

Sagan í guðspjalli dagsins fjallar í stuttu máli um ríkan mann sem fer til útlanda í langan tíma. Og hann felur þremur mönnum að sjá um eigur sínar á meðan. Og sá sem ég kallaði Jón var einn þeirra. Hann fékk pening og átti að ávaxta hann. Þetta var ekki lítil fjárhæð. Ein talenta var líklega um 6000 denarar, og denari var dagvinnulaun verkamanns. Hér er því um að ræða ca. 20 ára dagvinnulaun verkamanns - fyrir skatta. Sumir telja reyndar að þetta hafi verið ennþá hærri upphæð, 30 þúsund denarar eða 100 ára laun verkamanns. Það er að minnsta kosti ljós að þetta voru mikil fjárhagsleg verðmæti.

Aðrir þjónar fengu fleiri talentur til að sjá um, einn fékk tvær og annar fimm. Húsbóndinn greiddi hverjum eftir hæfni þeirra, segir í sögunni. Hinir höfðu greinilega þegar unnið vel fyrir húsbóndann og fengið nokkurn framgang í starfi.

Og svo segir sagan að þeir sem fengu tvær talentur og fimm talentur hafi ávaxtað þær svo að þær tvöfölduðust. En okkar maður gróf sína talentu í jörð. Að löngum tíma liðnum kom húsbóndinn aftur og spurði hvernig hefði gengið. Jú, tveir höfðu staðið sig vel en sá þriðji hafði ekkert gert. Hann hafði bara verið þarna á launum og haft það ágætt í öll þessi ár en ekki gert neitt. Og hann hafði afsakanir – hann var hræddur við reiði húsbóndans. En þær afsakanir hljóma svolítið holar þegar í ljós kemur að hann hefði amk geta sett peninginn í banka svo að hann ávaxtaðist eitthvað. Getur verið að það hafi bara verið of mikil freisting að hafa það náðugt á kostnað húsbóndans og gera ekkert? Eða var óttinn raunverulega of lamandi til að hann þyrði að gera nokkuð?

Það væri freistandi að afgreiða þessa sögu með því að hún hvetti okkur öll til að ávaxta peninga, en slík bókstafstúlkun væri hreinlega röng. Sagan er sett fram í samhengi í guðspjallinu.

Jesús er kominn til Jerúsalem og hann er að svara spurningum lærisveina sinna um himnaríki og hina hinstu tíma. Því svarar hann með þremur dæmisögum sem fjalla um biðtíma og einni sem fjallar um dóm.

Í fyrstu dæmisögunni sem minnir talsvert á söguna um talenturnar er fjallað um þjón sem á að gæta eigna húsbónda sem fer í burt. Þjónninn reynist ekki bara latur heldur beinlínis vondur, lemur undirmenn sína og hegðar sér illa. Honum er a sjálfsögðu varpað út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna. Í þeirri næstu bíða 10 meyjar þess að komast í brúðkaupsveislu. Fimm eru forsjálar og hafa næga olíu á lömpum sínum til að komast á leiðarenda, en fimm eru það ekki. Þær missa af gleðinni. Svo kemur sagan okkar og enn er fjallað um hlutverk sem menn hafa meðan beðið er.

Í öllum þessum sögum sjáum við sömu áherslu – það skiptir máli hvað gert er þann tíma sem menn hafa. Og það skiptir máli að sinna sínu hlutverki. Ef verk okkar eru dæmd að okkur gengnum þá skiptir máli hvernig við vinnum hér og nú, þann tíma sem okkur er skammtaður.

Hin hefðbundna túlkun dæmisögunnar snýr einmitt að því: Okkur ber að ávaxta það sem okkur er gefið – ávaxta hæfileika okkar. Enska orðið talents þýðir hæfileikar og á rætur sínar í þessari sögu. Það er dásamlegt þegar fólk ræktar hæfileika sína, eins og við sáum til dæmis í gær þegar hæfileikafólk sté á svið og söng fyrir okkur í forkeppni Eurovision. En sagan á ekki bara við þau sem hafa augljósa hæfileika á einhverju sviði, heldur til allra lærisveina Krists.

Hún minnir okkur öll á að nýta æfiskeiðið vel og nýta vel það sem okkur er gefið.

“Þá er betra þreyttur fara að sofa, nær vaxið hefur herrans pund, en heimsins stund, líði í leti og dofa”, orti presturinn og landbúnaðarfrömuðurinn Björn Halldórsson í Sauðlauksdal. Herrans pund, er hér orð yfir talenturnar, þann starfskraft og þá getu sem Drottinn gefur okkur.

Og þar getum við öll tekið þátt. Þessu er ekki bara beint til þeirra sem virðast hafa fullt af góðum, sýnilegum hæfileikum, heldur allra, því að öll getum við og munið að herrann í sögunni fól hverjum og einum eftir getu hans.

Ég kvaddi í vikunni mann sem féll frá á miðjum aldri eftir 30 ára veikindi. Veikindi hans ollu því að hann átti á margan hátt erfitt með að nýta sína miklu og augljósu hæfileika, en þegar hann hafði til þess kraft þá nýtti hann tímann til að biðja fyrir fólkinu sínu og fyrir þeim málefnum sem á honum brunnu. Hann ræktaði af alefli það sem hann gat í erfiðum aðstæðum. Ávaxtaði sitt pund – nýtti tímann öðrum til góðs.

Sagan um talenturnar er sett fram í samhengi við aðrar frásögur í guðspjallinu. Og lykilinn að því hvernig við ávöxtum talenturnar, nýtum æfiskeiðið, er að finna í frásögninni sem kemur í kjölfar sögunnar um talenturnar: Það er frásagan af dómsdegi, þar sem Jesús segir þessi frægu orð: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

En það er reyndar fleira sem sjá má í sögunni um talenturnar og þeirri staðreynd að maður hafði fjársjóð en gróf hann í jörð svo að enginn gat notið hans eða ávaxta hans í langan tíma. Jesús deilir nefnilega oft hart á leiðtoga þjóðar sinnar sem höfðu fengið til umsjónar þann fjársjóð sem orð Guðs og þekkingin á Guði var, spádómarnir um messías og hlutverk þjóðarinnar. En þeir grófu þennan fjársjóð í jörð og þekktu ekki sinn vitjunartíma.

Við sjáum að þessi saga miðlar boðskap til okkar um hlutverk okkar – um að nota tíma okkar og hæfileika vel. En getur verið að henni sé einnig beint að þjóðinni rétt eins og Ísraelsþjóð á sínum tíma? Höfum við sem þjóð falið fjársjóð okkar? Nú hýrnar ef til vill yfir einhverjum sem vilja benda á alla okkar útrás, til dæmis á menningar- og tæknisviði, þar sem augljósir hæfileikar ungra Íslendinga vekja athygli og aðdáun. Þessi kraftur og geta er vissulega mjög ánægjulegur þáttur í þjóðlífinu og við getum verið þakklát og stolt fyrir þessa glæsilega og hæfileikaríka fólk.

En textinn lýsir ekki þangað heldur ofan í þær holur þar sem við reynum að fela fjársjóð okkar sem þjóðar, allt sem Guð hefur gefið okkur – gjöful mið, fallega náttúru, góða menntun, aðstæður til að eiga gott samfélag. Og við erum aflögufær. Þorum við að leyfa öðrum að njóta þess líka? Þeim sem eru þurfandi? Koma ef til vill af stríðshrjáðum svæðum? Eru ríkisfangslaus? Eða viljum við loka okkur af? Þarna eru spurningar sem við ættum sífellt að hafa í huga og spyrja okkur af hreinskilni sem þjóð.

Sagan um talenturnar býður okkur skoða okkar eigið líf og þjóðlíf og spyrja þeirrar spurningar hvort við nýtum okkar jarðvistartíma vel. Og við skoðum líf okkar í kastljósi orðanna: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. Það er talentuprófið.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.