Predikun í Kolaportinu

Predikun í Kolaportinu

Enginn vissi að þessi kona hafði reynt mátt Guðs sem streymdi til drengsins en þannig er bænin oft – hún og árangur hennar er ekki forsíðufrétt.

Predikun í Kolaportinu á 17. sunnudegi eftir þrenningarhátíð. 30. september 2012.

Lúk 14.1-6.

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.

Hugsið ykkur hvað það hefur verið dásamlegt fyrir þennan veika mann að hitta Jesú og verða frískur. Fá nýtt líf án veikinda. Allir sem þjást þrá að losna við þjáningar og veikindi. Þessi þrá og löngun er innsta ósk allra sem líða og þjást, að fá nýja krafta og geta notið lífsins.

Fólk sem alltaf hefur verið frískt á erfitt að setja sig í spor þeirra sem líða og þjást og sýna oft lítinn skilning. En þegar það verður sjálft veikt skilur það betur hina. Það er eins og maður sjái ekki hvað lífið er dýrmætt fyrr en maður sér andstæðu þess.

Ég hef spurt mig af hverju Jesús geti ekki bara komið og verið hér eins og þegar hann var maður. Bara komið og lagað allt. - Kannski hafið þið líka hugsað þannig.- En þetta er bara ekki á þann hátt. En hverju lofaði Jesú þegar hann steig upp til himna? Hann sagði: Sjá ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar. (Matt.28.20).

Það er þetta loforð sem fær okkur sem erum kristin til að trúa að Jesús sé lifandi í dag og sé hér hjá okkur. Jesús talaði um heilagan anda sem kæmi til lærisveina sinna til að hugga þá og styrkja. Þannig trúi ég að þetta sé í dag. Heilagur andi er hjá okkur og huggar og styður, uppörvar og hvetur. Hann gefur okkur von þó erfiðleikar séu í lífi okkar. Hann sendir til okkar styrk í erfiðleikum og við megum biðja til hans og trúa á að hann sé með okkur þar til lífi okkar líkur hér á jörðinni.

Það var fyrir nokkru drengur sem var með alvarleg veikindi sem lá á Landspítalanum. Nýrun störfuðu ekki eins og þau áttu að gera. Það var mikið beðið fyrir honum og ein kona sem bað fannst sem að hún tæki utan um nýru hans og að máttur Guðs streymdi til drengsins. Nokkru síðar spurði hún hvernig honum liði og það voru góðar fréttir því hann var orðinn frískur. Enginn vissi að þessi kona hafði reynt mátt Guðs sem streymdi til drengsins en þannig er bænin oft – hún og árangur hennar er ekki forsíðufrétt.

Jesús leggur áherslu á lífið en í kringum hann er fólk sem leggur áherslu á allt annað. Því finnst að það eigi að fylgja reglum en því miður þá boða þær frekar dauða en líf. Jesú er sagt að gera ekki þetta og ekki hitt og hér er honum bannað að gera góðverk, lækna veikan mann því samkvæmt reglunum er ekki réttur dagur til að lækna. En Jesús er smart og spyr hvort viðstaddir mundu bjarga skepnu sem væri að drukkna þennan dag. Svarið liggur í augum uppi því allir sem vettlingi gætu valdið færu í að bjarga – það þolir ekki bið. En veika manninn átti hann ekki lækna. Það er margt sem hindrar okkur í að trúa á Jesú en það var líka á þeim tíma sem hann lifði hér.

Enn þann í dag takast lífið og dauðinn á. Í einu versi í Gamla testamentinu segir: „Veldu þá lífið.“ Ég vil velja lífið, kærleikann og miskunnsemina. Ég trúi því að við öll sem hér erum viljum velja lífið.

Það er eitt sem hefur vakið athygli mína þegar Jesús læknaði manninn og það er að hann snerti manninn. Í guðspjallinu segir að hann hafi tekið á honum. Hann hefur sem sagt snert hann fast og ákveðið. Það var því enginn vafi á að lækningarmátturinn kom frá Jesú.

Snerting er afar mikilvæg og við heilsum hvert öðru gjarna með snertingu, við tökumst í hendur og föðmum jafnvel hvert annað. Hér í lok guðsþjónustunnar viljum við bjóða snertingu sem felst í því að fá krossmark í lófann með olíu. Um leið segjum við „Drottinn blessi þig og varðveiti þig“. Við göngum á milli ykkar og þið sem viljið blessun á þennan hátt réttið fram höndina. Þessi blessun er einnig fyrirbæn sem fylgir okkur öllum út í daginn og nýja viku þegar við höldum heim á leið eftir ferð okkar í Kolaportið.

Amen.