Uppfylling lögmálsins

Uppfylling lögmálsins

Allt frá því að ég var lítil stúlka hafa þrautir af ýmsu tagi heillað mig; krossgátur, talnaþrautir, spilaþrautir og púsluspil. Ég hafði gaman af því sem reyndi svolítið á og gerði kröfur til mín. Púsluspilið er eitt af því sem ég nýt þess enn að dunda mér við, mér finnst það skemmtileg afþreying. Það má reyndar ekki vera of stórt, en þó nógu stórt til að það reyni á að koma hverju stykki á réttan stað.

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.Mt. 5.17-19

Biðjum

Ó, Kristur, þína kirkju styð, þótt kuldi, og svefn oss loði við, og kenning þinni götu greið, um gjörvöll löndin hana breið.

Þitt heilagt orðið heims í nauð sé, Herra kær, vort daglegt brauð, oss leiðsögn holl um harmadal og himins inn í gleðisal.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Allt frá því að ég var lítil stúlka hafa þrautir af ýmsu tagi heillað mig; krossgátur, talnaþrautir, spilaþrautir og púsluspil. Ég hafði gaman af því sem reyndi svolítið á og gerði kröfur til mín. Púsluspilið er eitt af því sem ég nýt þess enn að dunda mér við, mér finnst það skemmtileg afþreying. Það má reyndar ekki vera of stórt, en þó nógu stórt til að það reyni á að koma hverju stykki á réttan stað. Það sem heillar mig við púsluspil er hvernig smá hlutar þess, óskýrir og ómyndaðir, öðlast hver og einn mikilvægi um leið og maður hefur fundið þeim stað, réttan stað. Stundum fara sumir þeirra í taugarnar á manni því þeir virðast hvergi eiga heima. En þeir sér sér sinn stað, þó við komum ekki auga á það í fyrstu. Einir og sér virðast þeir hafa litla sem enga merkingu, en saman mynda þeir heilstæða mynd.

Segja má að orð Krists í Biblíunni, orð Biblíunnar í heild sinni, séu eins og púsluspil; skemmtilegt púsluspil með alls kyns innihaldi sem gaman er að setja saman og fá svo á að líta þá heildstæðu mynd sem úr næst. Þó að hægt sé stundum að nýta sér Biblíuna sem uppflettirit, líta á eitt vers í einu og leyfa því að tala til sín, þá fáum við ekki fulla mynd af innihaldi hennar nema við leggjum okkur fram við að lesa meira. Og það er það áhugaverða við að vera lærisveinn Krists, því í raun verðum við aldrei fullnuma í kristnum fræðum - á hverjum degi getum við fundið eitthvað nýtt sem gerir okkur hugsi og fær okkur til að velta fyrir okkur leyndardómum lífs og dauða, gleði og sorgar - leyndardómum um tilvist okkar hér í heimi. Þetta er hið dýrmæta og sanna hlutverk Biblíunnar, að við sem kristnir einstaklingar opnum huga og hjarta fyrir boðskap hennar með því að setja saman brotin og fá heildstæða mynd af því sem Guð vill við okkur segja.

Við slíka rýni í Biblíuna þá rekumst við vissulega stundum á hluti sem koma við kaunin á okkur. Sumt viljum við ekki hafa þar, sumt viljum við ekki hlusta á - sumt segjum við vera orðið úrelt, sumt finnst okkur að hæfi ekki í nútíma heimi. En það breytir því ekki að samkvæmt því sem við játum sem kristið fólk þá eru orð Biblíunnar orð frá Guði sem okkur ber að taka mark á. Jesús sjálfur lenti í því að þurfa að taka afstöðu til trúarskilnings samlanda sinna og túlkun þeirra á ritningunni, eða lögmálinu. Lögmálið, eins og við þekkjum það, er það sem skráð er í hinar fimm Mósebækur og á hebresku er nefnt Tóra. Grunnur þess eru boðorðin tíu. Á tímum Jesú höfðu fræðimenn og farísear stúderað þessar bækur í þaula og samið viðbótargreinar til úskýringa og áréttingar, þá sérstaklega sem túlkun á boðorðunum tíu. Það útskýringarrit var kallað Mishna og síðar varð annað rit til sem við í dag þekkjum sem Talmúd.

Vandamálið sem samtímamenn Jesú stóðu frammi fyrir var að framfylgja öllum þeim reglum sem útskýringarritin sögðu til um. Reglurnar skiptu meira máli en innihaldið og við það glímdi Jesús. Sjálfur fékk hann ákúrur fyrir að brjóta reglurnar, lækna á hvíldardegi, tala gegn gildum samtíma síns. Því það sem skipti aðal máli fyrir honum og var megin innihald boðskapar hans, það var þjónustan við Guð og náungann. Farísearnir leyfðu reglum að verða aðalatriðið í trú sinni og gleymdu mannlegum þörfum og þrám. Reglurnar urðu mikilvægari en mannfólkið. Reglur hafa að gera með það sem við framkvæmum hið ytra, en boðskapurinn sem Jesús prédikaði snertir þá manneskju sem við eigum að keppast við að verða hið innra. Hann snýr að heiðarleika, sannindum og karakter hvers einstaklings.

Á þessu tekur Jesús í þeim hluta fjallræðu sinnar sem við heyrðum hér áðan í guðspjalli dagsins. Eins og áður sagði þá hafði hann fengið þá gagnrýni frá fræðimönnum og faríseum að hann bryti stöðugt gegn lögmálinu, orði Drottins. Hann hafði vakið hneykslun þeirra með því að tala opinskátt og að þeirra mati óvirðulega um samskipti Guðs og manna, og farið yfir strikið á mjög svo óforskammaðan hátt hvað varðar reglur innan samfélags gyðinga. Það var tími til kominn að hann svaraði fyrir sig. Hvers vegna var hann þarna? Hvers vegna sagði hann allt sem hann sagði, og hvað vakti eiginlega fyrir honum? Var hann kominn til að skemma og eyðileggja allt fyrir öðrum, og þar með gera lítið úr trú og trúarsiðum landa sinna?

Svar Jesú við gagnrýninni var þetta: "Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið og spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur til að gefa því fyllri merkingu. Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram." Það sem Jesús átti við var að hann var ekki kominn til að henda öllu gömlu fyrir róða, svona líkt og það skipti engu máli. Nei, hans hlutverk var að minna á að Guð gaf okkur lög og reglur okkur til góðs. Þeim er ætlað að standa vörð um velferð okkar og hamingju, ekki íþyngja og sliga. Og hann sem uppfylling lögmálsins er undirstaða þess, grundvöllurinn sem það stendur á, kærleikurinn.

Ef reglum fylgja aðeins boð og bönn sem snúa að hegðun okkar hið ytra þá missa þær marks, þá fer fólk að hlýða reglunum þeirra vegna en ekki sjálfra sín vegna, sem einmitt er ástæða þess að þær eru settar til að byrja með. Reglum innan kristinnar trúar er ætlað að breyta okkur mannfólkinu innan frá, hafa áhrif á hugsanagang okkar, skoðanir og hegðun. En þeim er ekki ætlað að múlbinda okkur, eða verða til þess að við notum þær gegn öðrum, til að dæma aðra. Fyrir sumu fólki er kristni ekkert nema reglur og það að hlýta reglunum. Stundum finnst mér að þau sem þannig lifa lífi sínu hafi gleymt því að sá sem er kristinn á einmitt að sýna kærleika, á að geta fyrirgefið, hann öfundar ekki, og er ekki fullur sjálfshroka. Sumt strangtrúað fólk er einmitt það sem hvað erfiðast á með að fyrirgefa og sýna öðrum þolgæði og virðingu, en hvað auðveldast með að dæma aðra. Kannski svolítið líkt faríseum og fræðimönnum. Er það þannig sem við viljum lifa sem kristnir einstaklingar? Er það það sem við viljum kenna börnum og unglingum um kristna trú?

* * *

Í dag munum við verða vitni að játningu ungs drengs sem játast mun Jesú Kristi. Hann stendur hér í sömu sporum og svo mörg önnur sem heyrt hafa boðskapinn um Jesú og eru tilbúin að gera hann að leiðtoga lífs síns. Fermingin er engin útskriftarathöfn í kristnum fræðum heldur einungis upphafið að því sambandi sem Guð vill eiga við játendur sína. Þau skilaboð sem við innan kirkjunnar hljótum að vilja koma til ungs fólks, og alls fólks, er að kristindómurinn stendur vissulega á grunni reglna og lögmála, en þeim er ætlað að vera leiðbeinandi og okkur til góðs, ekki íþyngjandi. Kristur kom í heiminn til að frelsa hann, ekki fjötra. Þegar við lesum boðskap hans og Biblíunnar í heild sinni, horfum á heildarmyndina í stað brota, þá komust við fljótt að því að undirstaða lögmálsins eru þau orð sem Jesús sagði í tvöfalda kærleiksboðorðinu: Elskaðu Guð og elskaðu náunga þinn. Og viti menn; á þessu eru boðorðin tíu byggð. Allt lögmálið og spámennirnir eru undir þessu boðorði. Þessi virðing fyrir manneskjunni í allri sinni mynd er enn fremur áréttuð í orðum Páls postula í pistli dagsins er hann segir: "Með því að trúa á Krist Jesú eruð þér öll Guðs börn ........ Hér er enginn Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð öll eitt í Kristi Jesú." Við erum öll undir sama lögmáli, og við höfum öll sama rétt sem kristnir einstaklingar. Það er okkar að láta orð Krists hafa áhrif á okkur til góðs, bæði okkar vegna en einnig annarra. Það er okkar að láta réttlæti hans yfir alla ganga, ekki bara útvalda, sem okkur þóknast, heldur allra. Það má vera að sum stykkin í púsluspilinu séu fallegri en önnur, en til þess að við fáum lokið myndinni þá verðum við að hafa þau öll með. Orð Guðs er lifandi og kröftugt. Jesús kom til að gefa því fyllri merkingu, hann er orðið, frelsandi og lífgefandi. Opnum allar gáttir innstu veru okkar fyrir honum og leyfum honum að hafa áhrif á líf okkar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

6. sunnudagur e. trinitatis Jes. 42.6-7 / Gal. 3.26-28 / Matt. 5.17-19