Ásjóna þjáningarinnar

Ásjóna þjáningarinnar

Veislunni er lokið lærisveinarnir horfnir á braut sem sátu til borðs með meistara sínum kvöldið sem nú er liðið. Við stöndum í morgunsvalanum frammi fyrir krossi Krists. Fram undan er dagurinn sem markaði spor í sögu manneskjunnar hér á jörðu.

Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú.

Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.

"Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið."

Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.

Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.

Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.

Pílatus svaraði: Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.

Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.

Þeir sögðu því hver við annan: Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann. Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn.Þetta gjörðu hermennirnir.

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena.

Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: Kona, nú er hann sonur þinn.

Síðan sagði hann við lærisveininn: Nú er hún móðir þín. Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: Mig þyrstir.

Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum.

Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: Það er fullkomnað. Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. Jóh. 19. 16-30

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Veislunni er lokið lærisveinarnir horfnir á braut sem sátu til borðs með meistara sínum kvöldið sem nú er liðið. Við stöndum í morgunsvalanum frammi fyrir krossi Krists. Fram undan er dagurinn sem markaði spor í sögu manneskjunnar hér á jörðu.

Á þessum degi er hægt að segja margt um mannvonskuna. Svo gengdarlaust glottir hún framan í okkur Trúlega gætum við þó farið í gegnum mannskynssöguna og sögu okkar í dag og fundið margar hliðstæður.

Illskan er söm við sig og við horfum í gegnum linsur ljósmyndaranna á hörmungar heimsins, ofan í fjöldagrafir þar sem börn, konur og karlar hvíla og virðingaleysið gerir þau skjóllaus fyrir ágengum andlitum. Þau eiga það eitt sammerkt að vera í hópi þeirra sem eru í vegi fyrir þeim sem hrópa á völd. Það var Kristur líka. Sagan endurtekur sig.

Það væri hægt að tala út í eitt um mannvonskuna og óréttlæti heimsin, kvölina sem felst í því að vera útskúfað, eiga engin réttindi, týna lífi sínu. Við höfum heyrt mörg orð síðustu daga um illskun, rétt eins og við séum að finna hana upp, margt dregið fram í dagsljósið sem þolir það illa. Hér verður engum kennt um því sökin liggur víða og boðskapur fyrirgefningarinnar er ekki að einblína á misgjörð og við manneskjurnar og vafasöm afrek okkar aðeins aukanúmer á þessum degi. Synd okkar og afbrot er ekki ekki í miðpunktinum heldur fyrirgefningin og á henni þurfum við svo sannarlega að halda.

Þjáningin er ekki inntak þessa dags því hún er ekki einkaeign kristninnar heldur fær hún sérstaka merkingu á þessum degi. Þjáningin ein og sér er merkingarlaus en þegar við horfum á hana í ljósi krossins þá fær hún skyndilega nýja ásjónu. Við berjumst gegn henni en í ljósi kærleika Krists verður hún tækifæri kærleikans. Þegar þjáningin fær andlit verður hún áminning þegar við getum talað um hana í þvölu andlitit Jesúmyndanna eða stríðshrjáðra barna á sjónvarpsskemri.

Síðustu mánuði hefur þjáningin fengið mörg andlit í fjarlægum löndum þar sem stríð geisa. Við höfum séð kvölina raungerast í illa förnum líkömum fólks. Ég minnist þess að hafa séð það sama gerast fyrir u.þ.b. 10 árum þegar stríðshörmungar fyrrum Júgóslavíu fengu andlit í þjáðu andliti og máttavana líkama lítillar stúlku. Heimspressan birti myndir af henni og rakti hræðilega sögu hennar. Allt í einu var staldrað við því andlit lítillar stúlka komst inn fyrir skelina og hún var m.a.s. flutt á sjúkrabörum til Bretlands. Fólki sveið þjáning hennar. Saklaust barn leið án þess að eiga það skilið og það gerði vonskuna raunverulega, næstum snertanlega.

Sagan endurtekur sig og við gleymum, Tortímingin fær alltaf sitt rými og fólk heldur áfram að þjást. Þetta segir okkur aðeins eitt að ófullkomnar manneskjur búa ekki til fullkominn heim. Við þurfum á fyrirgefningu að halda, sátt við Guð, náungann, lífið.

Mörg þjáningin er án andlits og stundum erum við völd að þjángum án þess að vita það því þurfum við á fyrirgefningunni að halda.

Þessvegna er staða okkar hér undir krossinum með móður Jesú og lærisveinunum. Þessi atburður er tímalaus og aftur og aftur erum við dregin á þennan stað. Ekki nauðug heldur af því við finnum að við þurfum á því að halda. Krossinn er okkur tákn um fyrirgefningu og von en ekki kvalatæki.

Helgisögn ein segir af engli sem gengur fram á konu sem ber poka á öxlunum. Engillinn spyr hvað hana hvað hún beri í pokanum. Áhyggjur mínar segir hún. Leyfðu mér að sjá segir engillin og rekur nefið ofan í pokann. Þegar pokinn var opnaður var hann tómur. Konan varða afar hissa og sagði að hún hefði tvær miklar og stórar áhyggjur. Ein var af gærdeginum sem hún sá í svip að nú var liðinn, önnur var af morgundeginum sem var ekki kominn. Engillinn sagði henni það að þyrfti engan poka undir þetta og konan hélt áfram ferð sinni. Það sem var í gær er farið og það sem verður á morgunn er óráðið.

Þetta er afl fyrirgefningarinnar, það er ekki morgundagurinn eða dagurinn í gær. Sáttin er í dag og hægt er að ganga inn í framtíðina. Án byrða fortíðarinnar og kvíðans. Byrðarnar leggjum við af okkur fyrir framan opinn faðm krossins.

Þess vegna er krossin okkur fyrir hugskotssjónum á þessum degi. Það var ekki sátt en nú er hún komin á ..Við þurfum að læra af fortíðinni, sjá kvöl liðinna tíma en aldrei án þess að halda fast í von og fyrirgefningu. Atburðir verða ekki aftur teknir en fyrirgefningin er þetta knýjandi orð krossins.

Í krafti endurlausnarinnar göngum við í okkur sjálf og mætum Kristi. Allt hið óuppgerða verður fyrirgefið en þó í ljósi þess að við gleymum ekki heldur að við náum einhverskonar sátt við Guð, náungann, okkur sjálf, um það sem ekki verður aftur tekið.

Um endurlausnina, fyrirgefninguna, sáttina voru eftirfarandi orð voru samþykkt í samráði kirkna í Afríku. Kirkjum sem árum saman horfðu upp á þjáningu, útskúfun, og fordóma í garð fólksins síns.

"Okkar verkefni er að vinna að því að tjá og kom á einhvern hátt til leiðar endurlausn Guðs hér og nú. Við eigum ekki að bíða eftir einhverju fjarlægu himnaríki þegar öll vandamálin hafa verið leyst..Það sem Kristur gerði það hefur hann gert nú þegar. Við getum tekið við verki hans eða vísað á bug. Við getum falið okkur eða reynt að lifa í samhljóm við verk Guðs en við getum ekki tortímt því að það er verk eilífs Guðs."

Þess vegna drögum við okkur í skjól krossins af því við vitum að framar verkum mannanna þá stendur verk Guðs um eilífð. Angist og kvöl sögunnar heldur áfram að vera til og illskan mun eiga sér stað. Því þurfum við skjól í opnum faðmi krossins ásamt systrum og bræðrum. Við þörfnumst staðarins, þangað sem við berum byrðar okkar og skiljum þær eftir. Við þurfum að koma að krossinum og skynja að baki hans birtuna sem leikur um upprisuna þar sem vonin býr.

Um eilífð þurfum við skjól við krossinn þar sem við heyrum orð frelsarans. "Það er fullkomnað"

Dýrð sé Guði föður og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.