Að grafa holu

Að grafa holu

Hræðslan ekki góður förunautur á vegferð okkar í gegnum lífið. Þá gröfum við holur og ef við setjum ekki talenturnar í þær þá skríðum við sjálf þar ofan í og bíðum átekta.

Guðspjall dagsins er hálfgerð gildra. Það segir sögu og við verðum að bíða til enda hennar með að heyra lyktirnar.

Kristin trú og ríkidæmi

Á leiðinni gerum við okkur í hugarlund hver örlög sögupersónanna kunna að verða. Fjallað er um mikil verðmæti sem hljóta ólíka meðferð og áheyrandinn spyr sig, meðan á lestri stendur, hver skyldi nú hafa gert hið rétta: sá sem óttaðist herrann og gróf talenturnar í jörðu, eða spákaupmennirnir sem veðjuðu á viðskiptaleiðina og skiluðu fénu til baka með góðri ávöxtun? Og eins og allar góðar gildrufrásagnir þá kann sagan að særa réttlætiskenndina. Hvað var svona rangt við það að fyllst ugg gagnvart meistaranum sjálfum og gæta þess að ekkert fari forgörðum? Getur verið að hjálpræðið leynist innan bankageirans? Von að spurt sé.

Já, hugurinn leitar á gamalkunnar slóðir í litrófi kristninnar. Þar hefur sú skoðun átt ríkan hljómgrunn og gerir enn, að efnahagsleg velsæld sé mælikvarðinn á þá velþóknun Guðs.

Félagsfræðingurinn Max Weber færði rök fyrir því á sínum tíma, að þessi hugsun hefði haft mikil áhrif. Innan ákveðinna kirkjudeilda mótmælenda hefði fólk lagt að jöfnu, árangur í viðskiptum við það sem guðspjall þetta fjallar um – nefnilega aðganginn að himnaríki. Þetta sagði Weber vera mögulega eina af rótum kapítalismans. Fólk tók fyrir vikið að sanka að sér veraldarauði og lét á því bera. Upp úr þessu þróaðist sú hugsun að peningar hefðu nánast trúarlegt gildi. Við þekkjum þetta vafalítið úr umræðunni þegar fjármálaspekúlantar tala um markaðinn næstum eins og almáttuga veru. Hann stjórnar gangverki samfélagsins og hefur ráð okkar allra í hendi sér.

Kristnir hægrimenn Því verður ekki á móti mælt að fjöldi kristinna manna og skipar sér sess yst til hægri í pólitíkinni. Misrétti og ójöfn skipting veraldargæða valda litlu hugarangri þegar dreginn er fram spegill sem tengir saman ríkidæmi og sjálft himnaríki. Kann að vera að hún eigi sér guðlegar forsendur og þá ekki bara út frá hinum almáttuga markaði?

Það kom og á daginn í kosningunum vestanhafs í haust að stór hluti stuðningsmanna hins umdeilda Trumps kemur úr þessum röðum. Fjöldinn allur tók undir sjónarmið, sem að margra mati eru fullkomlega á skjön við kjarnaboðskap fagnaðarerindisins.

Jesús lýsti jú hlutverki sínu á þá leið að: blindir fái sýn, daufir heyri og fátækum sé boðað hjálpræðið. Og mælikvarðinn sem hann setti á líf þeirra sem lifa því lífi sem Guði er þóknanlegt orðaði hann á þessa leið: ,,Því að hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur og þér gáfuð mér að drekka, nakinn og þér klædduð mig.” Já, allt sem við gerum fyrir minnstu systkini okkar, það gerum við honum. Þessi orð hvetja okkur ekki til að maka eigin krók, heldur þvert á móti, beinast því að því hvernig við komum fram fram gagnvart náunga okkar sem mest þarf á okkur að halda.

Sigurvegari í rangtúlkun Sagan um talenturnar er vatn á myllu þeirra sem setja jafnaðarmerki á milli auðhyggju og kristinnar trúar, og þeir eru ófáir. Ég leyfi mér að halda því fram í því ljósi að sagan sú hreppi þar með þann vafasama heiður að vera með þeim frásögnum sem mest hafa orðið fyrir barðinu á rangtúlkun í Biblíunni. Er þá af ýmsu að taka.

Hún fjallar ekki um stýrivexti og bankainnistæður. Hún stendur þvert á móti í góðum hópi sagna guðspjallanna þar sem andstæðum í mannlegu eðli er teflt saman – nefnilega ótta og trú. Þetta er sagan um erkiíhaldið sem horfir í kringum sig og sér ógn í hverju horni. Þetta er frásögnin um manninn sem fékk fagnaðarerindið til ráðstöfunar, átti að halda með það út í heiminn og ávaxta það með orðum sínum og kærleiksverkum, en gróf það þess í stað í jörðu þar sem það kom að engum notum.

Gagnrýnin beinist að okkur Sagan fjallar jú um þjóna og þá beinast sjónir ekki að þeim sem standa utan hins kristna samfélags, heldur einmitt að okkur sem teljum okkur vera kristin. Aldrei verður Kristur jafn beinskeyttur í orðum sínum og einmitt þegar hann ávarpar hóp hinna trúuðu. Gildir þá einu, hvort það er í tilsvörum eða, eins og í þessu tilviki, í dæmisögum – hinir frómu og réttlátu fá mest að kenna á því. Þangað beinist beittasti broddur gagnrýni hans. Vandi fylgir vegsemd hverri, segir máltækið. Við sem höfum í höndunum fjársjóðinn stóra sem fagnaðarerindið að sönnu er, við þurfum að vanda okkur og gæta þess að fara rétt með.

Þessi hugsun var rík hjá afmælisbarni ársins, Lúther, sem fyrir 500 árum byrjaði andóf sitt gegn Páfakirkjunni. Hann segir á einum stað að ofsóknir Tyrkja gegn kristnum mönnum á Balkanskaga, þar sem þeir sóttu fram, sé hjómið eitt miðað við það hvernig kirkjuyfirvöld í Róm misbeittu valdi gagnvart þegnum sínum. Girndin eftir gulli og öðrum auði blindaði þau. Völdin höfðu tekið völdin og fyrir vikið var boðskapurinn spilltur.

Gegn því afturhaldi boðaði hann að hver og einn kristinn maður ætti að fá að lesa fagnaðarerindið milliliðalaust. Byltingin var hafin og ekki varð aftur snúið. Þarna sté þessi maður fram og var þó ekkert nýtt í orðum hans, því allar götur allt frá tímum spámanna hins gamla Ísraels höfðu leiðtogar risið upp og andmælt því þegar samfélagið var tekið að villast af leið.

Óttinn út um allt En heimurinn er samur við sig. Enn í dag er íhaldsemin ein ásjóna kristninnar. Óttinn við breytingar birtist okkur úr þeim ranni. Og þessar breytingar taka á sig margvíslega mynd. Við sjáum það ekki bara í landi hinna frjálsu heldur allt í kringum okkur, óttinn læsir klóm sínum í samfélög sem stóðu að maður hélt á traustum grunni umhyggju og kærleika til náungans. Menn líta til baka, og vilja hverfa aftur til glæstrar fortíðar, sem aldrei var nema í huga þeirra sjálfra. Í þeirri leit fara dýrmætustu verðmætin til spillis, kærleikurinn með okkar minnsta bróður og okkar minnstu systur. Þeirra sem leitast við að hefja búsetu á nýjum slóðum, hrakin á brott eftir átök og hamfarir á gömlum heimaslóðum. Þegar við snúum baki við þeim, þá er ekki mikið eftir af kærleiksboðskap Krists.

Á sama tíma er það ein helsta þraut nútímans, hversu mjög er búið að rjúfa tengslin á milli þeirrar tilveru sem við eigum og svo þess tilgangsríka lífs sem kristin trú boðar. Þar er manneskjan í hinu félagslega samhengi ætíð í hlutverki þess sem breytir. Hvert og eitt okkar er leiðtogi í eigin lífi og á að hafa áhrif til batnaðar fyrir náungann. Því er það sorglegt að þau öfl sem kenna sig við grasrót og félagshyggju skuli einatt berjast gegn kirkju og trú, þegar ljóst má vera að boðskapur Krists snýr einmitt að þeim sömu þáttum, þótt hann sé einatt rangtúlkaður.

Að vera talsmaður Krists er að horfast í augu við þjáningar heimsins og vinna að því að bæta hlut náunga okkar. Þar er enginn undanskilinn. Ekki auðmaður sem getur bætt hag svo margra, ekki sá sem nær vart endum saman, sem hefur samt burði til að hjálpa, ekki ungmenni á skólalóð sem getur komið í veg fyrir órétt og einelti. Það að vera kristinnar trúar er að finna sársauka annarra á eigin skinni. Að unna sér ekki hvíldar meðan heimurinn stynur undan græðginni og misskiptingunni.

Að grafa holu Hvað kemur í veg fyrir að við stígum fram? hvað vinnur gegn því að við réttum þeim hjálparhönd sem stendur halloka, þolir órétt? Er það ekki óttinn? Er það ekki sama kennd og kom í veg fyrir að ónýti þjónninn í dæmisögunni hélt af stað með talenturnar sínar og ávaxtaði þær?

Í guðspjallinu býr Jesús lærisveinana undir erfiða daga sem framundan eru. Og hann segir þeim að vera ekki eins og lati og ónýti þjónninn sem fylltist skelfingu og gróf fjársjóðinn niður í djúpri holu. Hræðslan ekki góður förunautur á vegferð okkar í gegnum lífið. Þá gröfum við holur og ef við setjum ekki talenturnar í þær þá skríðum við sjálf þar ofan í og bíðum átekta. Við þær aðstæður verður allt okkar starf að engu, alls óháð því hversu ríkulega við erum búin að talentum – já dæmisagan hefur haft þau áhrif að hæfileikar, eða gáfur, kallast á mörgum erlendum málum, talent.

Og þá stendur það eftir að talentur okkar vaxa og eflast þegar við deilum þeim með öðrum. Þegar við störfum eins og sannir lærisveinar Krists, upprétt og hugrökk, berjumst góðu baráttunni og vinnum áfram verk kærleikans.