Undarleg vika

Undarleg vika

Fyrir tveimur til þremur öldum ku sú stefna hafa fengið nokkurn hljómgrunn innan kristninnar að fjarlægja bæri krosstáknið úr kirkjum. Menn sögðu að þegar krossinn væri horfinn þá myndu kirkjurnar fyllast og menntamennirnir ganga á undan. Ýmsum þótti krossinn minna um of á dauðann allt eins og lífið, á ljótleikann allt eins og fegurðina, og því voru margir ekkert hrifnir að honum. Íslendingar eignuðust kirkjur mótaðar þessari stefnu, eins og margar aðrar þjóðir.

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.

Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.

Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:

Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?

Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.

Þá sagði Jesús: Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.

Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.

Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu:

Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!

Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:

Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.

Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann. Jh.12.1-16

Víst ertu Jesús kóngur klár, kóngur dýrðar um eilíf ár, kóngur englanna, kóngur vor, kóngur almættis tignarstór.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Fyrir tveimur til þremur öldum ku sú stefna hafa fengið nokkurn hljómgrunn innan kristninnar að fjarlægja bæri krosstáknið úr kirkjum. Menn sögðu að þegar krossinn væri horfinn þá myndu kirkjurnar fyllast og menntamennirnir ganga á undan. Ýmsum þótti krossinn minna um of á dauðann allt eins og lífið, á ljótleikann allt eins og fegurðina, og því voru margir ekkert hrifnir að honum. Íslendingar eignuðust kirkjur mótaðar þessari stefnu, eins og margar aðrar þjóðir. Í stað krossins á stafni var gjarnan settur vindhani, jafnvel með fangamarki danska konungsins. Eitthvað vildu menn jú hafa. En kirkjurnar fylltust ekki með því að taka krossinn niður og setja vindhana í staðinn - og sumir töldu jafnvel að þar hefði fækkað.

Hún er um margt undarleg þessi vika sem nú er hafin, kyrravika, - síðasta vikan fyrir páskahátíðina - svo þrungin andstæðum en um leið eru mestur leyndardómar fagnaðarerindisins fram reiddir.

Hósíanna, hrópaði fólkið er Jesús reið inn í borgina helgu, blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Mikil eftirvænting bjó með þeim - að þeir atburðir voru að rætast sem Guð hafði gefið fyrirheit um fyrir munn spámanna - að Messías var á leið til borgarinnar til að sigra - konungurinn sem leysa skyldi lýð Guðs.

Fáum dögum síðar var hrópað af lýðnum í sömu borg: Krossfestu, krossfestu - þegar varnarmenn hefða og valda beittu áhrifum sínum.

Þeir eru þrungnir andstæðum næstu dagar, og saman endurspegla þeir hina mestu gleði og eftirvæntingu allt eins og hin mestu vonbrigði og sorg; þ.e. öll litbrigði mannlegs lífs, sem við fáum að reyna, enda er boðskpur daganna okkur ætlaður.

Þetta skynjum við ef við gefum okkur stund til að ganga með Kristi mót páskum - já með honum - Það var Kristur sjálfur sem gekk í gegnum það allt - Guðs sonur - sem hélt því ekki fyrir sig að vera í Guðs mynd, heldur lægði hann sjálfan sig, varð mönnum líkur,se m einn af okkur - en hlýðinn allt til dauðans á krossi. OG fyrir því hefur Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni og á jörðu.

Þessi orð postulans minna á þann mikilvæga boðskap kyrruviku og páska sem verður stöðugt að fá að hljóma - varpa ljósi á mikilvægi og gildi krossins. Jesús var ekki aðeins góður maður, eins og margir vilja sjá hann - fínn strákur sem gerði alveg ljómandi hluti á stundum og sagði einnig margt spaklegt. Ýmsir vilja slást í för hans á þessum forsendum - og það er án efa í lagi - en nær því miður afar skammt á gönguferðinni - því þegar kemur að hinum djúpu spurningum um tilgang lífs og lausn þarf miklu meira til en yfirborðslegar íhuganir og almenn orð um eitthvað óljóst. Lífið er ekki svona einfalt, né átök kærleikans og dauðans valds sem við sjáum svo víða í kringum okkur og við erum þátttakendur í. Þar erum við leidd að krossinum - já þegar á reynir í þessari veröld og við verðum að glíma við spurningar sem skekja grundvöll lífsins og tilveruna.

Jesús Kristur var miklu meira en góður strákur og sá boðskapur Guðs sem felst í lífi hans og starfi, dauða og upprisu snertir líf okkar gjörvallt, lífsgrundvöll, lífssýn og vonir bæði til þessa lífs og þess er verður. Kristin kirkja trúir því og treystir að Jesús er Orð Guðs sem varð hold á jörðu og býr með oss - eins og við syngjum um jólin. Kristur er í miðju fagnaðarerindis Guðs til mannkyns á öllum öldum, einstök tjáning elsku Guðs til þessa heims - og krossinn minnir þetta, minnir á faðm Guðs og kærleikskraft sem sigraði dauðans vald.

Þetta er mörgum erfiður boðskapur - sennilega okkur öllum að einhverju leyti,- þorum að viðurkennum það - harla torskilinn um margt - stöðug glíma - eins og hann hefur verið kristnum mönnum allt frá dögum postulanna - mikill leyndardómur.

Og enn glímum við - sem nú erum kölluð til göngu inn í kyrruviku og mót atburðum bænadaga og inn í hátíð páskanna og mætum þar stærstu stefjum lífsins. Og margir spyrja sig að því hvort að þeir vilji eða þori að slást í för með Kristi þessa leið - fylkja sér undir merki krossins.

Nú sem stundum fyrr er spurt hvort krossinn og hans djúpi boðskapur sé ekki of torræður og erfiður fyrir nútímafólk, svo að margir veigri sér við því að fylkja sér undir hann - og því sé best að taka hann niður, sleppa honum úr kristnum boðskap, því þá muni fleiri slást í förina.

Þannig munum við getað sleppt að muna eftir hinum erfiða og langa föstudegi í komandi viku, þar sem að við stöndum andspænis dauðanum, en einbeitt okkur að því að halda mikla hátíð á páskadag, fagnaðardaginn - eins og sennilega all stór hluti þjóðarinnar virðist gera hvort eð er.

Enn aðrir spyrja hvort að kristnin eigi ekki að sýna öðrum trúarbrögðum það umburðarlyndi að taka niður þetta sérstaka kristna tákn - til að auðvelda að við getum gengið saman sem bræður og systur um þessa jörð, fólk af öllum trúarbrögðum og menningarhefðum. Er þetta ekki leiðin til þess?

Guð er sannarlega ekki séreign kristinna manna - eins og Jesús boðaði svo klárt og skýrt.

Það þurfa kristnir menn sannarlega að minna sig á reglulega eins og fólk annarra trúarbragða. Virðing, umburðarlyndi og samtal milli trúarbragða og ólíkra lífsskoðana eru afar mikilvæg eins og við skiljum ekki síst eftir atburði síðasta hausts, til að standa vörð um frið í heiminum og efla réttlæti, og standa gegn ofstopa og bókstafstrúarmönnum sem reyna stöðugt að æsa lýðinn til að hrópa krossfestu, krossfestu til að geta sjálfir halda eigin völdum og til að varðveita eigin hagsmuni.

Og hér verðum við vesturlandaþjóðir að líta í eigin barm. Það hefur ekki bara verið hrópað í öðrum löndum austur frá, hósíanna einn daginn og krossfestu hinn, þegar verja átti eigin hagsmuni eða kröfuna um séreign á Guði:

'Saga innri átaka og ofsókna gagnvart fólki af annarri trú ætti að gera okkur fullljóst að við höfum drepið, bæði hvert annað og aðra gagngert til að verja séreignarkröfuna um Guð.' Þetta segir próf Joseph Hough forseti Union guðfræðiháskólans í New York við okkur vesturlandabúa í grein sem vísað var í á vef kirkjunnar, kirkjan.is, Og hann bætir við: 'Það er kaldhæðni örlaganna að við brjótum iðulega gegn því sem Kristur boðar þegar við leggjum áherslu á þessa séreignarkröfu'

Guð er sannarlega ekki séreign kristinna manna - og því ætlum við líka að þora að segja að menn geta dýrkað Guð með margvíslegu móti. Og á pálmasunnudag erum við einmitt hvað helst minnt á að öllum mönnum er boðið til göngunnar með Kristi, og þeirra er vænst. Þar hljótum við að koma ólík til fara, stór sem smá, fólk að austan og vestan, sunnan og norðan, frá öllum heimshornum, með misstóra pinkla af siðum sem við höfum numið og alist upp við. Og saman syngur þessi stóri skari Guði lof á margvíslegum tungum og laggerðum ólíkra menningarheima.

En virðing, umburðarlyndi og samtal við önnur trúarbrögð og menningarsamfélög merkir ekki sama og stefnuleysi, heldur byggist slíkt þvert á móti á því að við íhugum hvar við stöndum, á hverju við viljum byggja, hvað lífsgildi við teljum mikilvæg og viljum hafa í heiðri - Og þeim skoðunum viljum við miðla í samtali og í daglegu lífi og þjónustu við systkini okkar hvar sem er í veröldinni, þjónustu sem við innum af hendi í trausti þess að hið æðsta og mesta afl þessa lífs sé fólgið í valdi Guðs, því lífsafli sem skapar og endurleysir, sem sigrar dauðans vald, hrekur á braut myrkur ofbeldis og ranglætis, kúgunar og eigingirni, en megnar að skapa frið og réttlæti og opinberar sannleikann. Þessum Guði, þessu lífi hans er sérhver skírður maður helgaður og einmitt með tákni hins heilaga kross, tákni elsku Guðs og upprisunnar.

Krossinn vísar okkur kristnum mönnum veg á göngu okkar um lifið í gleði sem sorg, sem og í samtali og þjónustu, því hann minnir á gjörvallan boðskap Guðs til allra manna eins og hann birtist í starfi Krists og orðum, í lífi og dauða sem hefur gildi fyrir alla menn. Krossinn bendir á boðskap sem stendur stöðugur, eins og Guð er stöðugur frá eilífð til eilífðar, og sem hægt er að reiða sig á hvernig sem vindar blása en snýst ekki stöðugt eftir því hvernig stefnur og tískubylgjur leika um mannlífið.

Orð krossins kallar okkur fylgdar við Krist, fylgdar við þann konung sem hefur opinberað okkur þann Guð sem elskar þennan heim, og veitir okkur óverðskuldað hlut í dýrð sinni af náð og kærleika.

Já blessaður er sá sem kemur í nafni Drottins.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Flutt í útvarpsmessu í Langholtskirkju á pálmasunnudag 2002. Lexía Sak. 9.9-10. Pistill Fil. 2.5-11 Guðspjall Jh.12.1-16.