Þjóðkirkja grasrótarinnar

Þjóðkirkja grasrótarinnar

Við sem störfum í söfnuðunum upplifum þar grósku og frið og gleði - þó auðvitað þurfi alltaf að taka á málum þar eins og annarsstaðar í mannlegu samfélagi. En kirkja grósku og gleði, það er sú kirkja sem við þekkjum. Þannig að hinar daglegu deilur um þjóðkirkjuna í fjölmiðlum eru ekki í okkar nafni
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
22. nóvember 2017

Það líður vart sá dagur þessi misserin að ekki berist fréttir af deilum innan Þjóðkirkjunnar. Fyrir okkur sem störfum á hennar vegum í söfnuðunum er þetta bæði sorglegt og lýjandi - sérstaklega vegna þess að við könnumst ef til vill ekki við okkur í þessari deilukirkju.

Við sem störfum í söfnuðunum upplifum þar grósku og frið og gleði - þó auðvitað þurfi alltaf að taka á málum þar eins og annarsstaðar í mannlegu samfélagi.

En kirkja grósku og gleði, það er sú kirkja sem við þekkjum.

Þannig að hinar daglegu deilur um þjóðkirkjuna í fjölmiðlum eru ekki í okkar nafni. En auðvitað hafa þær áhrif á okkur eins og aðra sem elska kirkjuna.

Fyrir nokkrum árum setti ég fram hugmynd um allt öðruvísi þjóðkirkju en þá sem við upplifum í fréttamiðlunum. Þá reyndist nú enginn áhugi á þeirri pælingu - en ef til vill er kominn tími til að rifja hana upp á ný.

Ég kallaði þessa kirkjusýn Lífræna grasrótarþjóðkirkju.

Þjóðkirkju grasrótarinnar.

Og byggði þá sýn á 1.Kor.12 þar sem meðal annars stendur:“Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig“ - en annars mæli ég nú með lestri alls kaflanns á þessum undarlegu tímum.

Páll hafði hugmyndina um limina og líkamann frá Jesú. Um grasrót kirkjunnar. Grasrótarkirkjuna.

Umfram allt starfaði Jesús í grasrótinni. Hann var ekki embættismaður. Hann var ekki djákni. Hann var ekki prestur. Hann var ekki prófastur. Hann var ekki biskup. Hann sat ekki á Kirkjuþingi. Hann var ekki í Kirkjuráði.

Hann starfaði meðal fólksins og talaði máli fólksins. Hann taldi vellíðan fólksins meira virði en annað. Hann rak víxlarana og sölumennina úr musterinu og lýsti það bænahús.

Hugtakið kirkja þýðir samfélag, eða beint, þau sem eru kölluð saman í Jesú nafni - stytting úr ecclesia á grísku. Kirkja sem vill vera kirkja Jesú verður að starfa á sömu formerkjum og hann. Hún verður að vera grasrótarsamfélag - grasrótarkirkja, starfa með grasrótinni, með fólkinu og fyrir fólkið. Þar sem allir eru kallaður og hlustað er á alla. Allir limirnir á hinum eina líkama. Allar greinarnar á hinum eina vínvið svo notað sé annað dæmi frá Jesú.

Tala nú ekki um ef hún er Þjóðkirkja, kirkja þjóðarinnar eins og okkar kirkja er.

Þjóðkirkjan ætti því að vera þjóðkirkja grasrótarinnar umfram allt. Því kirkjan varð til mannsins vegna, en ekki maðurinn vegna kirkjunnar.

Slík grasrótarþjóðkirkja verður þá fyrst og fremst lifandi samfélag þegar andi Guðs fær að streyma í gegnum hana og lífga hana, gerir hana að lifandi heild, lifandi líkama, lifandi einingu þar sem hver og ein fruma og velferð hennar skiptir máli.

Þá verður hún „Lífræn grasrótarþjóðkirkja“ – Bioecclesia svo ég noti nú gríska hugtakið eins og Björk söngkona gerir á disknum Bíofílía – lífræn vinátta.

Bio þýðir lífræn en ecclesía kirkja. Þegar grasrótin er í öndvegi, en ekki stofnunin, verður kirkjan Lífræn grasrótarþjóðkirkja.

Hún verður lífræn grasrótarþjóðkirkja sem hefur frelsara sinn í æðakerfinu, opnar hina andlegu sýn, leggur af úrelt titlatog og embættismannatal en hlustar beint á hvern og einn lærisvein Jesú - köllum við þetta ekki lýðræði svon dags daglega?

Ekki nema von að enginn hafi nennt að hlusta á þetta hérna síðast þegar ég velti upp þessari hugmynd.

En…dropinn holar steininn, eða það segja þeir, ekki satt?