Var þetta þá kanski lífið?

Var þetta þá kanski lífið?

Og svo birtist það manni löngu síðar eins og andartak liðins sumars og við spyrjum okkur eins og skáldið – var þetta þá kanski lífið?

Ég hafði það á orði við fimm ára son minn einn morguninn í síðustu viku hvort hann myndi eftir því hvernig var umhorfs í vetur þegar við á sama tíma dags vorum á leið í leikskólann. Það tók hann tíma að rifja það upp þegar himinn var svartur, götur ísilagðar og naprir vindar léku um andlit.

Hluti af einhverju stærra Þótt vetur sé fjarri því laus við allan sjarma er enginn vafi á því að sumarið fer betur með okkur. Við vorum sammála um það við feðgar þar sem við gengum hina hefðbundnu leið í skólann hans að nú væri besti tími ársins. Ef árinu væri þjappað niður í eina viku þá væri hið íslenska sumar sjálf helgin – tíminn sem margir bíða eftir, á meðan hinir vikudagarnir renna sitt skeið.

Þetta er sumar stórra tíðinda og sviptinga. Sá sem hér stendur hefur leyft stemmningunni að hrífa sálartetrið. Ég hef eins og svo margir aðrir, tárast yfir þjóðsöngnum og gargað eins og Gummi Ben yfir kappleikjum, jafnvel flissað í þórðargleði yfir óförum hins goðumlíka Rónaldós.

Þessi þjóð okkar með öllum sínum ósköpum getur gefið okkur þá dýrmætu gjöf að minna okkur á að við erum hluti af einhverju því sem er stærra en við sjálf. Sú kennd er líklega ein af grunnþörfum mannsins og þegar við erum í essinu okkar, er það gjarnan þegar við erum umkringd góðu fólki. Og ekki bara fólki. Þegar við að sumarlagi hverfum inn í heim náttúrunnar, er ekki laust við að hughrifin komi að einhverju leyti úr sömu átt. Þar er öll sköpunin í blóma, jurtir, dýr og menn og við skynjum hinar sameiginlegu rætur. Hluti af einhverju sem er stærra en við sjálf.

Var þetta þá kanski lífið?

Aftur að hinu viðburðarríka sumri. Ofan á þetta höfum við nú valið okkur forseta, einstakling úr hópnum sem á að vera fremstur meðal jafningja, sameiningarhvati og samstöðutákn – ef marka má orð frambjóðenda sjálfra. Því öll erum við á sömu skútunni, velkjumst ýmist um í vetrarlægðum í ölduróti sviftinga og fáum jafnvel yfir okkur brotsjó. Svo koma tímar þar sem lífið leikur við okkur og við skynjum í kyrrð andartaksins hvað lífið er einstakt.

Sumarið umfaðmar þær kenndir. Í Heimsljósi Halldórs Laxness standa þessi angurværu orð:

Var þetta þá kanski lífið: að hafa elskað eitt sumar í æsku, og ekki gert sér það ljóst fyren það var liðið, nokkur sjóvot spor á gólfinu og sandur í sporunum, ángan af konu, mjúkar elskandi varir í rökkri sumarnæturinnar, sjófugl; og síðan ekki meir; liðið.

Var þetta þá kanski lífið – spyr skáldið. Og dregur fram leifturmynd af löngu liðnu sumri þar sem runnu saman í eitt lífsbaráttan og svo hið næma og hlýja samband þeirra sem unnast. Já, þar sem manneskjan er eitt með annarri manneskju. Skynjar þá ósýnilegu taug sem dregur okkur hvert að öðru og svo rennur það upp að þetta voru ekki gæði lífs eða tilbrigði við lífið. Þetta var lífið sjálft.

Svona getum við spurt okkur. Litið til baka til liðinna tíma og skyndilega lýkst það upp, já var þetta þá kannske lífið og ég veitti því enga athygli. Eða eins og okkur feðgum auðnaðist að gera sumarbjartan mánudagsmorgunn þegar við stölduðum við og sögðum já það er sannarlega sumar. Þá teyguðum við sumarið í okkur vitandi hversu skammvinn sæla það er og harmurinn sá að læra ekki að meta það fyrr en haustvindarnir taka að blása eða napur vetur er skollinn á.

Dómkirkjur okkar daga

Þessar hugsanir leika um okkur í textum þessa sumardags í kirkjunni. Hér er það andartakið sem öllu breytir og vitundin að vera viðbúinn þegar það rennur upp. Upptakturinn eru orð spámannsins sem fær sína köllun en um leið biðst hann undan því hann telur sig ekki verðugan. Ákall postulans til kristinna manna er á sama hátt brýning til þess að taka af skarið. Hann kallar okkur andlegan prestalýð og líkir okkur við steina í hleðslu.

,,Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar.” Hér höfðar hann til þessarar dýrmætu kenndar sem hamingjuleitendur vita að býr djúpt í sálu okkar. Þar sem við skynjum að við tilheyrum einhverju slíku samfélagi finnum við hvernig líf okkar öðlast meira gildi, verður auðugra, ríkulegra og við áttum okkur á því að við skilið eftir okkur spor sem lifa okkur sjálf.

Kirkjan er slíkt samfélag og rannsóknir sýna að fólk sem sækir sína kirkju er líklegra til að lifa lengur, tekur virkari þátt í hjálparstarfi og lifir á margan hátt dygðra lífi en markhóparnir. Það sýnir sig að hið öfluga sambland þess að lifa tilgangsríku lífi, njóta samvista við náungann – er ekki einvörðungu ánægjulegt, það snertir á innsta eðli mannsins mannsins.

Við erum fólk sem á að tengjast öðrum. Það er merkilegt að leiða hugann að því hversu næm sú kennd er. Og hversu auðvelt það er að mjólka þær fyrir þá sem vilja komast í álnir. Við þurfum að tengjast öðrum, fá viðbrögð við hugsunum okkar, áhuga annarra og sýna öðrum áhuga. Samfélagsmiðlar á netinu mæta þessari þörf æ meira eftir því sem minnkar samgangurinn augliti til auglitis. Þeir sem fara fyrir þessum miðlum hefur á skömmum tíma komist í flokk þeirra sem mestan auð og mest völd hafa í öllum heiminum. Dómkirkjur okkar tíma rísa ekki lengur í evrópskum höfuðborgum heldur í kísildal vestur í Kaliforníu. Fyrirtækin sem geta reist þessar hallir, þessi ótrúlegu mannvirki þar sem ekkert er til sparað eru þau sömu og standa fyrir samskiptum okkar á veraldarvefnum. En ekkert af því kemur í staðinn fyrir hið eðlilega og náttúrulega tengslanet sem allt of margir fara því miður á mis við.

Um leið getum við spurt okkur hvers vegna þessi þorsti birtist með þeim hætti að milljarðar manna tengjast á þennan vélræna hátt. Er þar eitthvert tóm sem fylla þarf inn í? Er ljósið sem upplýsing nútímans endurvarpar á heiminn að einhverju leyti að mæta einhverjum skorti sem við finnum svo áþreifanlega fyrir.

Þessi hugsun birtist okkur hvarvetna þar sem fólk hefur sest niður og hugleitt hin dýpstu gildi. Sá sem leitar þeirra á réttum stöðum finnur ótrúlegan styrk í öllum þeim aðstæðum sem mæta honum í tilverunni. Viktor Frankl, sálfræðingurinn og lærisveinn Freuds, sá er þurfti að þola grimma vist í útrýmingarúðum naziasta skynjaði þetta mitt í þrautum sínum. Hann orðaði það einhvern veginn á þann veg að sá sem áttaði sig á því til hvers lífið væri – gæti svo miklu betur tekist á við það hvernig lífið er.

Andartakið sem öllu breytir

Guðspjallið lýsir slíku andartaki. Þegar manneskjan er skyndilega kölluð fram til að sinna sínu hlutverki. Kristur gengur að mönnunum sem, eins og í vinjettunni sem Laxness dregur upp – streða við að afla lífsbjargar. Hafa þeir ekki skilið eftir sig sjóvot spor á gólfi með sandi í? Þarna fá þeir sína köllun. Hann stendur á ströndinni og hrópar til þeirra að nú eigi þeir að fylgja honum eftir í lífinu. Þeir verða hluti af samfélagi lærisveina sem fá að kynnast undursamlegum kraftaverkum og kærleika sem átti eftir að taka öllu öðru fram.

Ákall Krists til þeirra að þeir ættu að leggja á djúpið, veiða menn til samfélagsins er lýsandi fyrir kirkjuna. Hún er oft táknuð sem skip sem siglir um í öldurótinu. Djúpið táknar þar óreiðuna og hið óþekkta, getur allt eins merkt tilgangsleysið sem læsir klóm sínum í svo ótrúlega stóran hóp mannkyns á okkar dögum. Á þessum miðum sækir kirkjan fram með boðskap sinn og kærleiksverk.

Viðbrögð Péturs við þessu ákalli eru viðbrögð okkar allra. Hann fann fyrir vanmætti sínum þegar Jesús mætti honum. Hann hörfaði inn í skjól hversdags og skeytingarleysis. Og það sama gerum við. Það virðist vera í mannlegu eðli að hörfa undan þegar kallið kemur. Og svo birtist það manni löngu síðar eins og andartak liðins sumars og við spyrjum okkur eins og skáldið – var þetta þá kanski lífið?

Svörum þeirri spurningu ekki löngu síðar. Grípum andartakið sem okkur er gefið. Við eigum að vera vakandi fyrir því þegar við erum kölluð til ábyrgðar og rækja okkar hlutverk.