Við erum ábyrg gagnvart jörðinni, hafinu og andrúmsloftinu

Við erum ábyrg gagnvart jörðinni, hafinu og andrúmsloftinu

Við megum til með að vera ábyrg gagnvart jörðinni, hafinu og andrúmsloftinu, til að umhverfið sé hreint og geti verið umgjörð um lífið og lífsforsendur ókominna kynslóða.

Hafnarfjarðarkirkju

Bæn

Gefðu, að móðurmálið mitt,
minn Jesús, þess ég beiði,
frá allri villu klárt og kvitt,
krossins orð þitt út breiði
um landið hér,
til heiðurs þér,
helst mun það blessun valda,
meðan þín náð
lætur vort láð
lýði og byggðum halda.
Hallgrímur Pétursson

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Inngangur

Mér þykir einkar ánægjulegt að koma hingað í dag í Hafnarfjarðarkirkju ásamt þremur færeyskum sóknarprestum. Í maímánuði fyrir rúmum tveimur árum, 2016, komu nær allir þjónandi prestar í Færeyjum með mér í kynnisferð hingað til Íslands. Þá nutum við mikillar gestrisni Kjalarnessprófastsdæmis og Hafnarfjarðarkirkju, prófasts, sóknarprests og kirkjuþjóna. Þökk fyrir það frændur okkar hér í Hafnarfirði.

Nú í all mörg ár hefur verið myndað traust og gefandi samband á milli færeysku og íslensku þjóðkirknanna. Séra Gunnþór Ingason, fyrrverandi sóknarprestur ykkar, sem nú starfar á Biskupsstofu í Reykjavík, hefur verið þar fremstur í flokki. Honum við hlið hafa verið margir sem lagt hafa sitt að mörkum, einkum séra Þórhildur Ólafs, prófastur, séra Kristján Valur Ingólfsson, biskup, fyrrverandi Skálholtsbiskup, sem nú þjónar við altari kirkjunnar ásamt sóknarpresti, að ógleymdri Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands.

Samskiptin við séra Jón Helga Þórarinsson, sóknarprest, lofa góðu. Við fundum vel til þess í andblænum hér og tóni að okkur væri fagnað. Þökk fyrir það séra Jón Helgi og þökk samstarfsfólki þínu hér í kirkju. Og þökk kirkjufólk hér á þessum góða degi.

Sjálfbært líf

Áskoranir lífsins eru jafnan meiri en sést og heyrist. Hræringar í barmi hafa áhrif á innihald þess og hversdagsgengi. Iðulega eru myndir og líkingar nýttar til lýsa hlýjum tilfinningum. Hið góða og fagra er dregið upp innilegum og ylríkum myndum til dæmis af hjarta. Hið illa og ljóta hefur aðra ásjónu t.d. af krepptum hnefa.

Það tíðkast í nútíma tölvusamskiptum að nota tákn til að lýsa áliti og viðhorfum. Þá er ekki þörf á mörgum orðum eða löngum texta. Táknið er ekki bara tákn, því að það vísar til ákveðins innhalds og merkingar. Í sjálfum sér eru táknmyndirnar takmarkaðar, en þýðing þeirra og tilvísun líkt og lífgar þær og gefur þeim þýðingu. Táknið er svipmynd innihalds og merkingar.

Alþekkt er að kenndir og tilfinningar hafa gildi fyrir lífið og segja mikið til um hvernig menn, hvernig við, högum okkur. Við gleðjumst og fögnum, þegar bjart er yfir hugarfari og skaplyndið er ljúft. Í öðrum tilvikum gengur ekki sem skyldi. Við erum þá þreytuleg, leið og niðurlút. Við syrgjum og grátum, þegar sorgin knýr dyra og tár væta hvarma.

Það er samhljómur á milli ytri aðstæðna okkar, líðanar og geðslags. Það gengur á ýmsu, hið innra og ytra hafa áhrif hvort á annað. Það sama á við í veraldlegum og andlegum málum.
Einnig trúin og trúargleðin mótast af ytri aðstæðum.„Þótt Guð sé Guð þótt veröld væri eigi, verður Guð þótt allt á jörðu deyi, svo sem segir í þekktum færeyskum sálmi, þá hafa ytri kjör jafnan mikil áhrif á okkur. Við finnum til þess að hinn trausti trúargrunnur er ekki alltaf óbifanlegur innra með okkur. Fyrir kemur að við lendum í neyð og vanda og finnum þá til bjargarleysis þrátt fyrir að við trúum á lífsins Guð, skapara, himins og jarðar

Kjörin og aðstæðurnar eru margs konar sem leiða okkur á fund við Jesú Krist.„Allar vegir liggja til Rómar’’, segir gamalt orðtak. Á líkan veg má segja að við getum leitað asjónu Guðs og blessunar í öllum hugsanlegum aðstæðum. Guð er eilífur og utan tíma og rúms en lætur samt finna sig í tímans heimi, á helgum stöðum en einnig mitt í hverdagslífi manna.

Að þessu sinni segir Guðspjallamaðurinn Jóhannes sögu um sjúkan dreng sem er sonur konungmanns í bænum Kapernaum. Alvarleg veikindi sonarins leiða föðurinn til Jesú, því að hann, sem er læknir hinna sjúku, lætur sig varða líf og farnað hvers og eins. Jesús er með nærveru sinni hjá okkur í tímans straumi, þótt hann sé eilífur allt frá upphafi.

Jesús hafði verið á ferð fyrir sunnan, en var kominn aftur norður til bæjarins Kana í Galeleu. En fyrr hefur guðspjallamaðurinn greint frá ferð Jesú til borgarinnar Jerúsalem á Páskahátíðinni, þar sem margir trúði á nafn hans, eða hver hann væri, þegar þeir sáu táknin sem hann gerði.

Það var líka í Kana, sem Jesús breytti vatni í vín, eftir að nýgift hjón höfðu verið í uppnámi vegna þess að veisluvínið þraut. Frásögninni af vínundrinu lýkur á þessum orðum: „Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galeleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.’’ (2,11)

Tákn er svo að skilja meira en það að vatn breytist í vín. Að það gerist er opinberun á þeim mætti, sem að baki táknmyndinni er og fremur undrið. Um er að ræða opinberun á dýrð Guðs.
Konungsmaðurinn hafði heyrt af því að Jesús væri kominn frá Júdeu fyrir sunnan til Galileu í norðrinu.

Frásögurnar góðu og lífgefandi höfðu borist honum, er greindu frá undrum og kraftaverkum. Og nú kemur hann í sinni sárustu neyð til Jesú. Sonur hans var það mikið veikur, að hann var dauðvona.
Kærleikur foreldra til barna sinna er jafnan takmarkalaus. Allt er reynt og gert til bjargar ef talið er að gagn verði að. Konungsmaðurinn bað Jesú að leggja leið sína til hans og koma heim til hans, lækna og gera drenginn frískan.
Í svari Jesú er sem sé að finna frávísun og jafnvel aðfinnslur:„Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.’’ Konungsmaðurinn lætur sér þó ekki bregða við svari Jesú. Hann heldur áfram að biðja um lausn og hjálp:„Drottinn. Kom þú áður en barnið mitt andast.’’

Og svo hljómuðu orðin sem öllu breyttu.„Far þú, sonur þinn lifir.’’ Eftirtektarvert er að Jesús notar hér sögnina að lifa og segir:„Hann lifir.’’ Konungsmaðurinn trúði Jesú og lagði af stað.
Á heimleiðinni hittir hann fyrir þjóna sína, sem færa honum þau fagnaðartíðindi að sonur hans sé á lifi. Og í samtalinu kemur fram að sonurinn hafi orðið heill um leið og Jesús hafði sagt þessi orð:„Far þú, sonur þinn lifir.’’

Frásögnin felur í sér undur og máttarverk sem unnið er úr fjarlægð með skapandi Orði eins og í árdaga á lífsins morgni. Verði ljós og það varð ljós. Sonur þinn er orðinn heill og varð heill heilsu.
Að sonurinn sé lífs, felur í sér meira en það að hann sé frískur. Að lifa er meira en að vera heill heilsu, því að hægt er að vera frískur en finna samt jafnframt fyrir ýmsu því sem þrengir að lífinu, bindur og fjötrar það. Orðið að lifa í munni Jesú, felur í sér þann lífskraft, sem vinnur á öllum ógnandi öflum dauðans.

Lífið sem um ræðir í Guðspjalli Jóhannesar býr yfir skapandi lífskrafti, líka í samtíðinni og á komanda tíð og í eilífðinni. Því að eilífa lífið er komið inn í tímans hverfula heim. Eilífa lífið er það, að þekkja hinn sanna Guð og þann sem hann sendi Jesú Krist [og að vera þekktur af honum].

Hið eilifa líf er mönnum gefið í trúnni á Jesú Krist, og máttur þess og hennar gefur þrek og kjark til að eignast hlut í virkni Guðs og endursköpun hans, sem hvetur til að farið sé vel með eigið líf. Hver kristinn maður á ekki að láta trú sína duga aðeins fyrir sjálfan sig. Hann á, og öll Kirka Krists hér í heimi, að fara vel með líf meðbræðra og systra og gæta einnig og ekki síður að velferð„móður jarðar.’’
Við megum því ekki leyfa okkur að óhreinka og spilla, skemma og eyða því lífi og lífríki, sem Guð hefur skapað og horfði til á morgni lífssköpunar sinnar.

Tvö fyrstu táknin sem sagt er frá í Guðspjalli Jóhannesar sýna og lýsa tvenns konar aðstæðum. Okkur er gefið líkt og að útvíkka skynjunina og sjá fram á veg í nýju samhengi. Að vatn fær breyst í vín felur í sér opinberun á dýrð Guðs og hefur það í för með sér að nafn hans sé lofuð.

Síðara táknið er fyrirheit Jesú um að ungur drengur er lá fyrir dauðanum muni lifa. Þetta tákn vísar út fyrir mörk og mæri. Það að drengurinn læknast bendir á lífið sjálft, sem Jesús gefur og felur í sér óforgengilegt líf.
Þetta tákn þjónar lífinu. Það upphefur lífið og vinnur til góðs og gagns. Allt hið góða er Guðs gjöf, og gjöf lífsins er að fá að lifa og gagnast lífinu og framgangi þess.

Við sem höfum í trúnni eignast hlut í eilífu lífi og lifum í kristinni trú bæði hversdagslega og á helgum stundum fáum það hlutverk að hlúa sem best að lífinu og stuðla að því að það fái þrifist og komist af. Við getum og eigum að koma fram fyrir Jesú Krist með alla erfiðleikana sem við glímum við og áskoranirnar er við okkur blasa, einnig þá ábyrgð og vanda sem okkur er falinn að vera ráðsmenn Guðs góðu sköpunar.

Þessa daganna er haldin mikilvæg ráðstefna um umhverfismál í Reykjavík, með sérstöku tilliti til umhverfisástandsins á Norður - Heimskautasvæðum. Það er á okkar ábyrgð núlifandi manna að sjá til þess að komandi kynslóðir fái notið sjálfbærrra og lífvænlegra kjara.

Seinna í dag mun ég sem Færeyjabiskup taka ásamt fjórum höfuðbiskupum Norðurlanda þátt í pallborðssamræðum á Hringborði Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, sem fer fram í Hörpu í Reyjavík. Hin alvarlegu og krefjandi umhverfismál eru þar til umræðu. – [Ég spyr mig.] Hvernig getur færeyska kirkjana brugðast við þessum áskorunum, sem krefjast þess að farið sé vel með sköpunarverkið?

Sjórinn er forsenda tilveru okkar Færeyinga svo að við verðum að gæta okkar og berjast fyrir því að hafið verði áfram hreint og líffræðilega sjálbært. Það sama á við um ykkur Íslendinga, sem um aldir hafið sótt sjó eins og við Færeyingar. Áþekk lífsskilyrði og kjör í Færeyjum og á Íslandi leiða til gagnkvæms skilnings og við njótum styrks og gleði hvers annars vegna traustsins og vináttunnar. Og kristin trú okkar hvetur til þess nú sem fyrr.
Við eigum að lifa í og starfa í skapandi krafti Guðs. Við getum þegið máttinn í verkum Jesú til heilla, kraft hans til lífs og endursköpunar.

Sem ráðsmenn eigum við vera vökul og aðgætin og láta í okkur heyrast til varnaðar og áminningar til að forða því að menn verði sjálfum sér verstir. Séu jarð- og hráefni sótt og unnin án fyrirhyggju og ekki gætt sem skyldi að fjölbreyttu lífi náttúrunnar eru framtíðarhorfur daprar og ógnvænlegar

Við megum til með að vera ábyrg gagnvart jörðinni, hafinu og andrúmsloftinu, til að umhverfið sé hreint og geti verið umgjörð um lífið og lífsforsendur ókominna kynslóða. Við verðum að stöðva óskynsamlega og háskalega lífshætti sem ógna lífinu og þrengja að kjörum þess. Við megum ekki menga hafið, eitra loftið með útblæstri eða nýta gæði jarðar fyrirhyggjulaust.
Sem verandi kristin eigum við að vera hvert öðru tákn um gæsku Guðs og sköpun. Og lofsyngja nafni Guðs, sem skapara himins og jarðar, og Jesú Krist sem hinn sanna grundvöll lífsins, vegna endursköpunar hans og sigrandi lífs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Postuleg blessun
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen

Þýð. séra Gunnþór Þ. Ingason