Ferðasagan

Ferðasagan

Þessi ferðasaga sem Biblían er lýsir ekki aðeins leiðangri hópa um framandi slóðir til fyrirheitinna landa. Hún greinir frá róttækum breytingum sem verða í huga fólks og þar með samskiptum og samfélagsgerð. Og sem slík þá býr hún okkur líka undir veigameiri umskipti sem verða í umhverfi okkar.

Konur eiga nokkuð undir högg að sækja meðal sögupersóna Biblíunnar. Þær eru í það minnsta mun færri körlunum. Glöggir lesendur ritningarinnar hafa reiknað það út að nafngreindar konur eru ekki nema 5,5 til 8% allra þeirra sem koma þar við sögu. Vissulega eru konurnar fleiri en höfundar hirða þá ekki um að nefna þær á nafn. Það er því ekki til að auka jafnréttið í hinni helgu bók.


Faðir Abraham

 

Feðraveldið einkenndi þau samfélög þaðan sem bækurnar urðu til og þarf ekki annað en að hugleiða það að við tölum ættferður Ísraels. Þeirra fremstur var sjálfur Abraham sem fjallað er um í lexíunni.


Allt á sér skýringar og í harðneskjulegu umhverfi þar sem barist var um takmörkuð lífsgæði hefur sú skipan orðið ofan á að karlkynið drottnaði. Væntanlega helgast það af meiri vöðvamassa frá náttúrunnar hendi og konur á þessum tíma eignuðust fjölda barna. Skærur voru tíðar og ófriður algengur. Þar með hafa þeir sterkustu í hverjum hópi öðlast völdin. Stigveldi samfélaga og þar með frásagnarmátinn hafa að sama skapi tekið mið af því.

 

Þessi forna frásögn sem við hlýddum hér á, lýsir upphafið mikilla atburða – ferðalagi sem söguhetjan er krafin um að halda í. Abraham á að yfirgefa öryggi heimahaga, ættar og fjölskyldu. Við tölum stundum um þægindasvið eða öryggisramma. Það átti nú við í þá tíð fyrir daga þjóðríkja og skipulags sem náði yfir alla þegna á tilteknu svæði. Utan þess svæðis þar sem ættin hafði komið sér fyrir voru einstaklingar réttlausir. Í raun var þetta hálfgerð útlegð því sá sem naut ekki verndar ættmenna á sínum heimavelli átti enin grið.


Hvar var Sara?


Sagan hefst á því svæði þar sem Abraham er talinn hafa búið á, þar sem nún er suðurhluti Íraks. Áfangastaðurinn var það sem afkomendur hans kölluðu síðar, fyrirheitna landið – Kanansland og enn síðar varð það að Ísrael.

 

Já, hvað hefur þessi texti með konur að gera?

 

Jú, því stóð ekki til að hann væri einn á ferð. Lot bróðursonurinn kom við sögu í lok frásagnarinnar en eiginkonunnar Söru er hvergi getið. Hennar þáttur í því sem var framundan, umgjörð heimilis var álitin svo sjálfsögð og sjálfgefin að nafn hennar er ekki nefnt í þessu samhengi.

 

Nafnleysi hennar kemur heim og saman við það sem framar er nefnt um stöðu kvenna í ritningunni almennt. Hún er í aukahlutverki allt til þess er hún eignast soninn Ísak á gamals aldri fyrir guðlegan tilverknað eins og segir í frásögninni. Nafnið Ísak helgast af því að þegar hún fékk að heyra að hún væri barnshafandi löngu komin af léttasta skeiðinu þá rak hún upp roknarhátur. Ísak þýðir einmitt „Ég hlæ“.


Ferðasagan Biblían

 

En þetta er fjarri því eina ferðalagið sem Biblían greinir frá og við getum jafnvel kallað hana ferðasögu. Hún lýsir þroska fólks, breytingum á högum, lengri og skemmri ferðir. Hún sver sig í ætt við ýmsar frásagnir sem gerast á vegum úti þar sem söguhetjur ganga í gegnum raunir og umskipti.

 

Og vitaskuld er tímarammi frásagnarinnar ógnarlangur. Flókið er að festa hendi á það á hvaða tíma sagan gerist. Rannsóknir sagnfræðinga og fornleifafræðinga hafa ekki getað fastsett ákveðið ártal. Textinn varð til á sjöttu öld fyrir Krist og þau sem þora að giska á – telja að við séum að tala um atburði sem urðu í kringum 2100 fyrir Krist. Ef sú er raunin þá skilja fleiri aldir atburðina í textum dagsins og eru á milli okkar og frásagna Nýja testamentisins.

 

Á þessum tíma urðu mikil umskipti og kristnir menn lesa ritninguna alla með það í huga hvernig Jesús frá Nazaret mótaði hugsun og hátterni fólks og breytti gangi sögunnar. Þessi ferðasaga sem Biblían er lýsir ekki aðeins leiðangri hópa um framandi slóðir til fyrirheitinna landa. Hún greinir frá róttækum breytingum sem verða í huga fólks og þar með samskiptum og samfélagsgerð. Og sem slík þá býr hún okkur líka undir veigameiri umskipti sem verða í umhverfi okkar. Við sem eigum okkur ritninguna að leiðarljósi erum í sífellu reiðubúin að endurskoða og endurmeta afstöðu okkar.


Nafngreindar konur

 

Í því ljósi verða textarnir úr Nýja testamentinu sem hér voru lesnir þeim mun merkilegri. Sú staðreynd að konur eru innan við tíundi hluti sögupersóna ritningarinnar helgast auðvitað að einhverju leyti af því að bróðurpartur Biblíunnar er hið gamla testamenti – ættfeðraveldið sjálft þar sem fólk mat náunga sinn út frá blóðtengslum og leit hornauga þau sem komu úr öðrum ættum.

 

En þá er líka áhugavert að hlýða á boðskap spámanna úr þessum eldri hluta Biblíunnar sem fluttu boðskap Guðs inn í þær aðstæður. Þeir töluðu í sífellu um aðkomufólkið sem ætti að taka opnum örmum. Þeir héldu fram þeim sjónarmiðum að prófsteinn á gæði hvers samfélags væri ekki yfirburðir þess gagnvart öðrum ættum, borgum og þjóðum, heldur umhyggjan fyrir fólkinu sem gæti ekki staðið á eigin fótum. Hugsið um ekkjuna og munaðarleysingjann segir í þeim textum.

 

Já, í pistlinum sjáum við að Páll nafngreinir leiðtoga kristinna manna. Þetta er athygliverð innsýn í hópana sem lögðu grunninn að því sem átt eftir að verða hin fjölmenna kirkja sem teygði sig út um alla veröld. Það er áhugavert að í þeim hópi eru konur. Þær eru ekki nafnlausar aukapersónur sem hafa fyrst hlutverk þegar þær geta stuðlað að viðgangi fjölskyldu, ættar eða þjóðar.

 

Þær eru gestgjafar sem opna heimili sitt fyrir hrjáðum hópi fólks sem þráir að heyra boðskap Krists. Þær eru hugrakkir gerendur sem bjóða hættum byrginn og halda á lofti kyndli fagnaðarerindis. Þær eru postular – orð sem er af sama stofni og íslenska orðið póstur – og merkir sendiboðar.


Hér er enginn karl né kona

 

Hér fáum við innsýn í kristinn mannskilning þar sem horft er til manneskjunnar sem einstaklings en ekki aðeins sem staks í tilteknum flokki. Kristnir menn vöktu athygli er þeir buðu þrælum og stéttleysingjum athvarf í helgidómum sínum. „Hér er enginn karl eða kona, gyðingur eða grikki, frjáls eða þræll“ segir Páll bréfi. Við erum öll eitt frammi fyrir Kristi.

 

Já, þetta er mikið ferðalag sem við fáum að kynnast og hér stöndum við enn á upphafsreit óvissuferðar sem krefur okkur um að endurskoða umhverfi okkar og forsendur. Þannig sjáum við hvernig samfélag okkar enn í dag er krafið um slíkt endurmat. Það lesum við í fréttum og í samtali í umhverfi okkar. Hópar fólks hafa þurft að fara í felur með kynhneigð sína og hafa þolað fordóma og jafnvel ofsóknir sökum eðlis síns og uppruna. Kristnir leiðtogar hafa í sumum tilvikum staðið í fararbroddi í þeirri réttindabaráttu. Við sjáum því miður líka dæmi þess að boðskapur Biblíunnar er nýttur til að renna stoðum undir óréttlætið og ofbeldið. Slíku þarf kristið fólk að andmæla.

 

Saga Biblíunnar er saga fólks á ferðalagi og þau eru aldrei ein á ferð. Þau ferðast um í hópum, í samfélagi þar sem einstaklingar koma fram með veikleika sína og takmörk en líka kosti og styrk. Í guðspjallinu sjáum við að Jesús hefur fjölda í kringum sig. Hann fór borg úr borg, þorp úr þorpi á sinni vegferð og með honum var hópur fólks þar á meðal konur sem mynduðu flokk lærisveina hans. Þær eru nafngreindar í knöppum texta Lúkasar og við sjáum oft í frásögnum af Jesú hversu mikil áhrif konur hafa á framgang hans og boðskapar hans.


Fyrstu prestarnir

 

Þýðingarmesta frásögnin í þeim efnum er vafalítið sjálft páskaguðspjallið þar sem konurnar eru fyrstar að gröfinni og fá það verkefni sem kristin kirkja hefur æ síðan leitast við að sinna – sem er að kunngjöra upprisuna frá dauðum. Það er mikið verkefni og sístætt. Þrátt fyrir að konur hafi löngum staðið til hliðar í helgidómum kristninnar birtist okkur í þeirri frásögn sú yfirlýsing að fyrstu prestar kirkjunnar voru í raun konur. Það er jú grunnhlutverk presta að boða upprisu Krists. Sú upprisa er í raun þverstæðan stóra sem fær okkur til að endurmeta og endurskoða allt það sem við höfum hingað til tekið sem gefnu. Hún er stærsta ferðalagið sem nokkur einstaklingur eða samfélag tekur á sig. Líf okkar og forsendur geta í einni andrá breyst og heiminn sjáum við með nýjum augum.

 

Það er einmitt erindi ferðasögunnar miklu sem ritningin er. Kristin kirkja beinir í þeim anda gagnrýnu ljósi, ekki aðeins á umhverfi sitt og samtíma heldur fyrst og fremst í eigin barm. Þangað horfir hún í sístæðri viðleitni til að bæta sig og efla og vera sönn og heiðarleg í boðun sinni á fagnaðarerindi Krists.