Hlutverk biskups Íslands

Hlutverk biskups Íslands

Erindi flutt á fundi um biskupsembættið sem haldinn var í Breiðholtskirkju miðvikudagskvöldið 15. nóvember 2023, í aðdraganda komandi biskupskosninga. Fundarstjóri og skipuleggjandi fundarins var prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, séra Bryndís Malla Elídóttir.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
15. nóvember 2023

Fundarstjóri, ágætu tilheyrendur. 

Ég tók að mér að fjalla hér um hin ólíku hlutverk biskups Íslands. Það mun ég að mestu gera út frá reynslu minni sem biskupsritari, en ég starfaði sem slíkur með frú Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi, í níu ár, eins og sumum ykkar er kannski kunnugt.

Hægt væri að fjalla um hlutverk biskups út frá ýmsum lögum, starfsreglum og erindisbréfum, en reynslan verður sem sagt útgangspunktur minn, hér, í þessum orðum, þótt ég telji nú að orð mín séu nú einnig að mestu grundvölluð á þeim heimildum öllum.

Ég mun hér á eftir tæpa á eftirfarandi atriðum og spurningum: 

-          500 kennitölur og andlegt samfélag

-          Sameiningartákn - um hvað?

-          Erum við eyland?

-          Flokkadrættir og samkeppni eða vinátta og virðing

-          Sálmabókin, ha! Kemur hún biskupi við?

-          Handbókin, er hún ekki úrelt?

-          Kenningin

-          Tilsjón og fræðsla, vísitasíur

-          Fyrirsjáanleiki og frumkvæðisskylda

-          Nokkrar spurningar til ykkar

-          Nokkrar spurningar til verðandi biskupskandídata

500 kennitölur

Fyrst þetta:

Hvað er þjóðkirkjan?

Ótal svör eru til við þeirri spurningu.

Þjóðkirkjan er fólkið í landinu.

Þjóðkirkjan eru þeir meðlimir sem skráðir eru í þjóðkirkjuna.

Þjóðkirkjan er andleg hreyfing fólks sem trúir á Jesú Krist.

Þjóðkirkjan er eitt af trú- og lífsskoðunarfélögunum í landinu, en þau telja fleiri tugi. Og þó, þjóðkirkjan er kannski bara alls ekki eitt af þeim félögum, því um þau félög gilda sér lög og um þjóðkirkjuna gildi önnur sér lög. Þjóðkirkjan er í því samhengi með sérstöðu og ber skyldur gagnvart samfélaginu, skyldur sem önnur trú- og lífsskoðunarfélög bera ekki.

Þjóðkirkjan er safn smáfyrirtækja, sókna, kirkjugarða, og annarra þjónustueininga, en þau smáfyrirtæki eru um 500 talsins, ef ég þekki rétt.

Kennitölurnar sem teljast innan þjóðkirkjunnar eru því um 500 talsins, ef við nálgumst það þannig. 500 smáfyrirtæki, þar sem leikmenn bera að mestu starfið uppi í sjálfboðinni þjónustu.

Hvar kemur biskup inn í þessa mynd?

En hvar kemur biskup Íslands inn í þessa mynd?

Biskup Íslands er leiðtogi og ákveðið sameiningartákn allra þessara eininga. En sameiningartákn, um hvað? Og sameiningartákn fyrir hverja?

Sameiningartákn fyrir þjóðkirkjuna alla, hina andlegu hreyfingu fólk sem trúir á Jesú Krist. Meira segja þeirra sem tilheyra öðrum lútherskum kirkjum, en biskup Íslands vígir til dæmis til þjónustu presta fríkirknanna og óháða safnaðarins. Biskup Íslands er því meira en bara biskup þjóðkirkjufólks. Svo má kannski segja að biskup Íslands, sé einnig ákveðinn leiðtogi, andlegur leiðtogi annarra og allra hinna kristnu safnaðanna. Þannig hafa margir af hinum kristnu söfnuðum nálgast biskup Íslands. Þeir söfnuðir hafa væntingar til biskups, til biskups er horft og hlustað á það sem hann segir – ja svona stundum alla vegna. Ekki bara þegar eitthvað kemur upp á, heldur einnig þegar um er að ræða einhver samfélagsleg, trúarleg atriði. Þá er horft til þess sem biskup segir og gerir. Dæmi um slíkt á undanförnum árum er framganga frú Agnesar varðandi fólk á flótta, einnig er varðar ógnir náttúrunnar, þá er horft til biskups um hvort biskup sé ekki örugglega að biðja fyrir samfélaginu og hvetja okkur hvert og eitt að gera slíkt hið sama.

Í hinum nýju lögum um þjóðkirkjuna er talað um biskup Íslands. Það er ekki talað um biskup þjóðkirkjunnar, eða biskup kirkjuþings, eða biskup prestanna, eða biskup safnaðanna. Enn er litið til leiðtogans í þjóðkirkjunni sem aðila sem hafi ennþá með allt Ísland, að gera.

Ákvæði er í stjórnarskránni um þjóðkirkjuna og um hana gilda síðan sér lög, eins og áður segir. Þess vegna eru virk og dýrmæt tengsl milli ríkis og kirkju, þ.e.a.s. sem birtast til dæmis við þingsetningu og á stórhátíðum, þar sem alþingi kemur saman til helgistundar í Dómkirkjunni í Reykjavík og er biskup þar í meginhlutverki. Þjóðkirkjan er í því samhengi einfaldlega með það hlutverk að biðja sérstaklega fyrir alþingi og stjórnvöldum. Slíkar bænir finnum við einnig í handbókinni.

Kirkjuþingið reynir svo að fóta sig í hinu aukna hlutverki sínu, sem æðsta valdastofnun þjóðkirkjunnar, við að setja starfsreglur sem eiga að vera grundvallaðar á lögum alþingis og stjórnarskrárákvæðinu. Á kirkjuþing er fólk kosið með lýðræðislegum hætti. Þótt lýðræðið þar að baki, sé nú býsna rýrt, að mínu mati, og kannski frjálslega farið með mikilvægt mannréttinda hugtak. En það er önnur saga og kannski efni í annan fyrirlestur og annan fund.

En þar er biskup Íslands með málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

En sameiningartákn, um hvað? Um hvað er biskup Íslands sameiningartákn?

Jú, biskup Íslands er sameiningartákn um trú á Jesú Krist, upprisinn, frelsara okkar og Drottinn.

Biskupsþjónustan byggir á orðum Biblíunnar, þar sem fjallað er um þá eiginleika sem prýða skal þá sem sinna biskupsþjónustu. Einnig hafa venjur og siðir mótast í 2000 ár, sem biskup á hverjum tíma gengur inn í og tekur síðan þátt í að móta og þróa.  

Biskup Íslands er andlegur leiðtogi, í þeim skilningi, að hann skal biðja fyrir þjóðinni og tryggja fyrirbæn, öllum mönnum til handa. Hann skal þannig leiða samfélagið í bæn, sérstaklega þegar mest á reynir, tala af huggun til hinna sorgmæddu, tala af hugrekki til hinna vonlitlu, tala af mildi þar sem harkan ríkir, vera með framgöngu sinni, lífi og orðum, vitnisburður um hinn góða boðskap, fagnaðarerindið.

Við erum eyland, en þó ekki eyland

Við búum hér á eyju í Norður-Atlandshafi, og erum í þeim skilningi eyland. En varðandi sjálfsskilning okkar og þjónustu þá erum við ekki eyland. Við eigum í samskiptum og tengslum við nágrannakirkjur og ræktum þau samskipti á grundvelli sögunnar og einnig ákveðinna hefða og siða.

Alþjóðasamskipti eru kirkjunni mikilvæg. Biskup Íslands fer með alþjóðasamskiptin. En af hverju? Af hverju fer biskup Íslands með alþjóðasamskiptin fyrir hönd þjóðkirkjunnar? Jú, af því þau byggjast á kirkjuskilningi, þau byggjast á guðfræðilegu samtali, þau byggjast á guðfræði. Á vettvangi biskups Íslands þarf því að vera kapasítet, þekking og reynsla til að sinna slíku.

Staðan sem er uppi núna á vettvangi yfirstjórnar þjóðkirkjunnar, hin skipulagslega óreiða, sem ég leyfi mér að kalla, er með þeim hætti að við erum nánast að segja okkur úr lögum við okkar helstu systkini í trúnni. Kannski getum við látið okkur það í léttu rúmi liggja, sagt að það skipti ekki máli, við erum jú eyland. En í þessu samhengi, erum við ekki eyland. Við erum stofnmeðlimir í Lútherska heimssambandinu, Alkirkjuráðinu og Kirknaráði Evrópu. Við tilheyrum samfélagi kirkna sem hafa samþykkt Porvoo samkomulagið og fleira slíkt mætti nefna. Þetta samhengi allt og samstarf stuðlar að friði og vináttu, skilningi og því að við biðjum hvert fyrir öðru, lítum á trúsystkini okkar einmitt sem systkini.

Svona sem dæmi um það þegar þessi samskipti súrna, þá hefur rússneska rétttrúnaðarkirkjan einangrað sig undanfarna tvo áratugi, einangrað sig frá alþjóðasamstarfinu. Hætt að mæta á fundi, hætt að láta sig varða um aðra en sjálfa sig, jafnvel tekið nágrannakirkjur sínar af sínum bænalistum. (Vissuð þið að rússneska rétttrúnaðarkirkjan tók úkraínsku rétttrúnaðarkirkjuna út af sínum bænalistum fyrir um 20 árum síðan). Við sjáum hver staðan þar er í dag. Ætli þetta geti haft áhrif?

Innanlands: Við leiðum samstarf trú- og lífsskoðunarfélaga

Ef við horfum okkur nær, þ.e.a.s. til okkar íslenska samfélags þá hefur biskup Íslands stuðlað að virðingu og vináttu milli hinna ólíku kirkjudeilda, en einnig milli hinna ólíku trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Þjóðkirkjan, með forystu biskups Íslands, hefur leitt samstarf og samtal trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu. Leitt samstarf og samtal þar sem virðing ríkir, fyrir ólíkum hefðum, trúarbrögðum, siðum og venjum. Þar sem vinátta hefur verið ræktuð og skilningur. Sameiginlegar bænastundir hafa verið haldnar, sameiginlegir fræðslufundir hafa verið haldnir með þátttöku margra.

Þar hafa ákveðnir einstaklingar innan prestastéttar og fræðasamfélagsins, í umboði biskups, lyft grettistaki á undanförnum árum til að stuðla að skilningi og virðingu. Þar er um að ræða samstarfsnefnd kristinna trúfélaga, annars vegar og samráðsvettvang trú- og lífsskoðunarfélaga, hins vegar.

Þessir hópar voru settir á fót af frumkvæði biskups Íslands, á sínum tíma, og hefur verið viðhaldið af frumkvæði biskups Íslands og þeirra einstöku presta og fræðimanna sem hafa verið þar í fararbroddi, bæði sem hluta af sínu starfi, en einnig sumir í sjálfboðnu starfi, til lengri eða skemmri tíma, fyrir hönd þjóðkirkjunnar – og auðvitað í góðu samstarfi við leiðtoga annarra kirkjudeilda og trúar- og lífsskoðunarfélaga. Að biðja fyrir hvert öðru og sýna hvert öðru skilning og virðingu, er dýrmætt fyrir samfélagið allt. Hér er um að ræða mikilvægt frumkvæði af hálfu biskups Íslands, sem er öðrum síðan til eftirbreytni. Þarna hefur biskup Íslands dregið úr flokkadráttum og samkeppni og stuðlað að vináttu og virðingu.

Sá sem sinnir biskupsþjónustu er í forystu

Sá einstaklingur sem sinnir þjónustu biskups Íslands hefur ákveðna frumkvæðisskyldu, að mínu mati, gagnvart kirkjunni og í raun þjóðinni allri.

Hvað vill biskup setja á oddinn? Biskup hefur nefnilega haft starfsfólk með sér til að hrinda verkefnum í framkvæmd. Sem forstöðumaður Biskupsstofu hefur biskup því tækifæri á að hreyfa við ákveðnum málum, koma hlutum á dagskrá og koma ýmsu í framkvæmd. Hugmyndin um skírnarskóg, þátttaka í Arctic Circle, samstarf við samtökin 78, og þannig mætti áfram telja eru dæmi frá síðustu árum.

Væntingarnar í samfélaginu eru miklar. Það er svolítið eins og samfélagið líti á biskup Íslands sem samnefnara eða skotspón, málpípu eða ábyrgðaraðila. Í það minnsta þann aðila sem hægt er að leita til þegar málefni kristni og kirkju eru á dagskrá. Væntingar fjölmiðla og almennings eru miklar til biskups Íslands. Þegar leita á álits á einhverju sem fram fer, þá vilja fjölmiðlar og almenningur vita hver afstaða biskups Íslands er. Kirkjuþing, eða forseti kirkjuþings eða einhverjir aðrir, eru í því samhengi miklu minni spámenn, og kannski bara alls ekki spámenn, þótt þeir brokki nú stundum fram á umræðuvöllinn, og yfirleitt í góðri trú.

Norðmenn reyndu þetta fyrir áratugum, þ.e.a.s. að reyna að færa forystuhlutverkið innan kirkjunnar úr höndum biskups presis, sem það heitir í Noregi, yfir til leikmanna. Það gerðu þeir með því að fela leikmanni forystu í kirkjuráði, leikmaður varð forseti kirkjuráðs. Þá var sem sagt leikmaður orðinn svona æðsti Dúddi í kirkjunni. Reynslan sýndi að margir meinbugir voru á þeim ráðahag og vandræði sem sköpuðust. Því áfram var samt leitað til biskups. Fáir höfðu áhuga á því hvað leikmaðurinn, forseti kirkjuráðs, hafði að segja um hin kirkjulegu málefni, þó hann ætti að vera æðstur, efstur í pýramídanum, valdamestur. Til dæmis þegar páfinn kom í heimsókn til Noregs, þá veltu þeir lengi vöngum yfir því hver ætti að taka á móti páfanum, biskup presis eða forseti kirkjuráðs. Mikill höfuðverkur. En það var leyst, eins og allt í Noregi, með endalausum díalóg.

En það birtist í þessu, að mínu mati, það grunnatriði sem kirkjan byggir á, hún er bæna- og trúarsamfélag. Leikmaðurinn í forsæti kirkjuráðs, getur vitanlega einnig beðið bænir og útlagt ritninguna, eins og allir menn, en biskup er kannski meira valinn í það hlutverk og hefur kannski meiri forsendur til þess sem guðfræðingur, í stað lögfræðingsins í forsæti kirkjuráðs. En hvorutveggja er að sjálfsögðu mikilvægt.

Fulltrúar erlendra ríkja

Aðeins fleiri orð um stöðu biskups í samfélaginu. Það er mjög algengt að fulltrúar erlendra ríkja, sendiherrar, komi á fund biskups, þegar þeir koma fyrst til landsins. Eins erlendir fulltrúar annarra trúarbragða.

Hvers vegna?

Jú, biskup er fulltrúi kristins siðar, fulltrúi íslenskrar kristni og menningar. Það er ákveðinn virðingarvottur við samfélagið allt, að fulltrúar erlendra ríkja skuli byggja slíkar brýr til kirkjunnar í landinu, sýna slíkt frumkvæði. Þeir aðilar finna að þau tengsl efla félagsauðinn og geta verið þeim sjálfum og fulltrúum þeirra, mikilvæg. Þar er það aftur fyrirbænin, vináttan og samfélagið, sem verið er að rækta.

Grunnhlutverk biskups Íslands snýst um tvennt

Svo ég reyni hér að koma mér að kjarna málsins þá má segja að meginhlutverk biskups Íslands gagnvart starfi kirkjunnar í landinu megi fanga í tveimur orðum: Fræðsla og tilsjón.

Biskup Íslands er í stöðugu fræðslustarfi og hann er með stöðuga tilsjón. Þessum verkefnum báðum sinnir biskup best með því að sækja söfnuði landsins heim. Grunnskylda biskups Íslands er að vísitera.

Biskup sinnir á þeim ferðum sínum ákveðinni eftirlitsskyldu. Er allt eins og best verður á kosið í kirkjunum og sóknunum? Vantar eitthvað til að starfið og þjónustan blómstri? Getur biskup lagt eitthvað til, svo starfið gangi betur? Þar er stundum um að ræða námskeið, fræðslu og fleira í þeim dúr. Stundum kemur biskup færandi hendi með bæklinga um hin ýmsu mál, fræðslubók fyrir kirkjuverði, upplýsingarit um skírnina, eða hvað annað, sem eflir og gæti verið gagnlegt. Svo ef eitthvað má betur fara, presturinn er alltaf fullur eða tilkynnir opinberlega að hann sé hættur að trúa á Guð, eða hvað það annað sem við manneskjurnar getum glímt við, þá reynir biskup að finna lausn og leið. Eins gætir biskup að kirkjulýsingu og eignaskrá, en í því er fólgið ákveðið eftirlit og aðhald.

Í vísitasíunum á biskup gjarnan uppbyggilegar samræður, góðar helgistundir og guðsþjónustur, fundi með sóknarnefndum, hann heimsækir skóla og vinnustaði, hittir fólk og samfélag og stuðlar með framgöngu sinni að eflingu trúar og kirkju. Biskup tekur þátt í messum og guðsþjónustum í hverri kirkju, prédikar gjarnan og blessar ávallt söfnuðina. Sækir gamla fólkið heim, sérþjónustu og fangelsi, svo dæmi séu tekin. Þið sjáið hve geysilega yfirsýn biskup hefur tækifæri til að öðlast í gegnum öll þessi dýrmætu samskipti og tengsl við alla söfnuði landsins og einingar kirkjunnar. Þau tengsl efla síðan biskup í sínu forystu hlutverki.

Prófastarnir eru sem útréttur armur biskups í héraði og yfirleitt nánustu trúnaðarmenn biskups, er varðar kirkjustarfið í hverju prófastsdæmi. Og stundum hefur verið sagt að biskup sé prestur prestanna, eða hirðir hirðanna. Enda beitir biskup sér fyrir því að prestar fái notið handleiðslu og endurmenntunar, svo dæmi sé tekið.

Forystuhlutverk biskups birtist jafnframt í því að hann er í forsæti í Hinu íslenska Biblíufélagi. Félagið ber ábyrgð á því að Biblían komi út á íslensku.

Einnig er biskup Íslands í forsæti í kirkjugarðaráði, þótt framkvæmdina láti hann gjarnan öðrum í té, en ávallt þó í góðum tengslum og samstarfi. Biskup Íslands er verndari Hjálparstarfs kirkjunnar. Biskup Íslands ber síðan ábyrgð á starfsþjálfun djákna og guðfræðinema og eru samningar í gildi um samstarf biskups Íslands og Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ.

En hvað með sálmabókina?

En hvað með sálmabókina? Kemur hún biskupi við?

Ný sálmabók kom út á liðnu ári. Mikið þrekvirki, frábært verk í alla staði, að mínu mati. Sálmabókanefnd var starfrækt af frumkvæmi biskups. Sálmabókin stuðlar að einingu safnaðanna, einingu um trúna, áhersluatriði, hverjum við tilheyrum. Þar má finna sálma sem einnig eru í sálmabókum Norðurlanda. Í gegnum sálmabókina getum við séð það samhengi sem þjóðkirkjan býr við hérlendis og erlendis, samhengi trúarinnar. Orðalag, trúarstef og fleira. Hvar liggja þræðirnir og tengslin? Við getum séð allt slíkt í sálmabókinni. Hin nýja sálmabók er einnig vitnisburður um framþróun og nýsköpun, þar sem orðfæri og áherslur trúarinnar eru að breytast í takt við samfélagið, eða kannski bara í samræmi við innblástur heilags anda.

En hvað með handbókina?

Handbók presta er annað dæmi um verkfæri sem sameinar kirkjuna. Þar má finna orðfærið sem við eigum að nota í helgihaldinu, hvernig við eigum að bera okkur að, hvar við stöndum, sitjum, syngjum, tölum. Hún er auðvitað orðin úrelt að mörgu leiti, og því þurfum við áþreifanlega nýja handbók. En handbókin stuðlar að einingu kirkjunnar. Biskup beitir sér fyrir útgáfu á handbókinni og er handbókarnefnd starfrækt í umboði biskups. Handbókin er eitt af þeim tækjum sem biskup hefur til að stuðla að einingu. 

Búningurinn og klæðin

Eins er það með búninginn sem við klæðumst, hempuna eða ölbuna, stólur og hökla. Þarna sést í hvaða liði við erum, ef svo má segja. Biskup skal fylgja því eftir að eining kirkjunnar birtist einmitt að þessu leiti einnig, þ.e.a.s. við erum klædd á ákveðinn máta, sem stuðlar að einingu og heild. Einhverjar einka-undanþágur í þeim efnum þarf að bera undir biskup Íslands og eru að mínu mati varasamar og sérstakar – það þarf að rökstyðja slíkar tilraunir og beiðnir um einka-undanþágur, en það er biskups að taka afstöðu til þeirra.  

En um þetta og margt annað fjalla samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar, og má segja að þær samþykktir grundvalli ákveðna einingu, sem biskup Íslands ber síðan ábyrgð á að hlúa að og sinna. Samþykktirnar um innri málefnin er gríðarlega dýrmætt plagg og veitir okkur stuðning í þjónustunni.

Í nafni þjóðkirkjunnar birtist kenningargrundvöllurinn. Þjóðkirkjan okkar er evangelísk lútersk, eins og þjóðkirkjur Norðurlanda og eins og fríkirkjurnar. Varðandi kenninguna og þær játningar sem kirkjustarfið okkar byggir á þá sagði einn gamall prestur eitt sinn við mig: Kirkjan okkar íslenska er afskaplega lítið lútersk. Hún á meira sameiginlegt með þjóðtrú og álfum, heldur en einhverjum þýskum múnk sem hét Marteinn og lifði á 16. öld.

Mér fannst þetta skemmtilegt viðhorf hjá prestinum sem þjónað hafði í áratugi. Ég veit ekki hvort ég tek að fullu undir þetta, en skil þó hvað hann átti við.

En hver er það sem skilgreinir kenninguna?

Hvernig birtist kenningin?

Hún birtist til dæmis í handbókinni, sálmabókinni, helgihaldinu og framgöngunni allir. Hún birtist í þeim játningum sem grundvalla starfið. En allt það er vitanlega grundvallað á boðskap Biblíunnar og orðum. Evangelísk lúthersk kirkja leggur áherslu á útleggingu orðsins. Verkefni okkar er að heimfæra textana, skilja þá og útskýra í samræmi við viðfangsefni samfélagsins í dag. 

Um það fjallar til dæmis tilsjónin, sem er á ábyrgð biskups Íslands. Biskup Íslands ber, samkvæmt lögum og starfsreglum, ábyrgð á einingu kirkjunnar.

Það er ekki lítið verk.

Kenningarnefnd

Um kenninguna hefur verið starfrækt sérstök nefnd um kenningarleg málefni. Þar er biskup Íslands einnig í forsæti, en í nefndinni starfa einnig sérfræðingar frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, auk fulltrúa PÍ og vígslubiskupa. Kenningarnefndin tekur fyrir ýmis málefni sem snúa að kenningu kirkjunnar.

Þótt ég nefni hér kenningarnefnd og ýmis hlutverk biskups, þá er í þessum orðum ekki um að ræða tæmandi lista yfir allar þær nefndir og störf sem biskup Íslands sinnir og veitir forystu. Tíminn er of skammur til að fara allt of ítarlega í það allt.

Ég vil hér í lokin tæpa á tveimur atriðum sem ég tel mikilvæg í starfsemi biskups Íslands, áður en ég leyfi mér síðan að varpa fram nokkrum spurningum. Þessi tvö atriði hef ég aðeins tæpt á, en vil ég lyfta þeim upp í lokin, vegna þess hve mikilvæg ég tel þau vera.

Fyrirsjáanleiki

Fyrirsjáanleiki, er eitt af hlutverkum biskups og skyldum, vil ég meina. Tvennt vil ég nefna í því sambandi, annars vegar fyrirsjáanleika inná við og hins vegar útá við.

Fyrirsjáanleiki útá við, er til dæmis það að biskup hlýtur að leggja áherslu á þau atriði sem 2000 ára saga kirkjunnar ber með sér, kærleika, mildi, upprisu, virðingu og hvað annað. Biskup hlýtur að hvetja söfnuði, sóknarnefndir og presta til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fjölga skírnum. Skíra börn og fræða. Biskup skal sinna þeim grunnskyldum, halda því á lofti sem grundvallar kirkjuna og framgang hennar. Það er ákveðinn fyrirsjáanleiki fólginn í því. Þegar biskup vísiterar, þá er það auðvitað þetta sem biskup hlýtur að tala um og biðja fyrir, hvernig við inklúderum betur þá sem utan standa, hvernig birtist kærleikur Guðs í heiminum, hvernig eigum við betur að boða fagnaðarerindið, hvernig útleggjum við boðskapinn svo almenningur skilji og sláist í för með Jesú á lífsveginum.

Fyrirsjáanleikinn inná við, felst síðan í því að allt sem biskup gerir varðandi innra starfið skal vera fyrirsjáanlegt. Til dæmis að farið sé eftir starfsreglum, að mál séu unnin á ákveðinn máta, eftir einhverjum ferlum. Vont er þegar trúnaðarmenn biskup út á akrinum fá það á tilfinninguna að hentistefna sé leiðin, að eitt sé gert í dag og annað á morgun. Svo dæmi sé tekið, hvers vegna að hafa starfsreglur um ráðningar í prestsstörf þegar sjaldan er farið eftir þeim, við ráðningar í prestsstörf? Ég þekki vitanlega að auðvitað eru undantekningar á öllum reglum, en vont er ef undantekningin er orðin aðal reglan.

Fyrirsjáanleiki er því eitt af verkefnum biskups, að mínu mati, því með auknum fyrirsjáanleika eykst öryggið, einingin og samstaðan í kirkjunni og samfélaginu.

Frumkvæðisskylda

Biskup hefur síðan ákveðna frumkvæðisskyldu.

Biskup hefur nefnilega þá stöðu að geta sett mál á dagskrá, þ.e.a.s. lagt upp meginlínurnar, eins og ég hef aðeins komið inn á.

Eigum við að reyna að fjölga í þjóðkirkjunni? Eigum við að fjölga skírnum? Eigum við að planta trjám og fjalla um loftslagsvána? Eigum við að setja mannréttindi á dagskrá, svona almennt? Eigum við að leggja áherslu á boðun, bæn og/eða þjónustu? Hvers konar þjónustu? Hvar ætlar þjóðkirkjan að marka sér stöðu til framtíðar? Í hvaða átt eigum við að róa?

Biskup er eins og formaður á bát, kannski gömlum tíæring, segir til um stefnuna og heldur um stýrið, það er þetta sem við ætlum að gera og svo telur hann í, og allir róa síðan í takt.

Nýleg dæmi um slíkt frumkvæði eru eftirfarandi:

-          Núverandi biskup opnaði athvarf fyrir heimilislausar konur, í samstarfi við yfirstjórn kirkjunnar og Hjálparstarf kirkjunnar.

-          Núverandi biskup kom af stað söfnun fyrir línuhraðli, í samstarfi við marga, á sínum tíma. Nokkrum mánuðum síðar keypti Landspítalinn línuhraðalinn.

-          Núverandi biskup hefur sett fólk á flótta enn meira á oddinn og söfnuðir og prestar fylgt eftir.

-          Núverandi biskup setti skírnarskógana af stað og margir hafa plantað trjám í tilefni af barnaskírn. Falleg skírnarbók hefur verið gerð af þessu tilefni og gefin út af Skálholtsútgáfunni-Kirkjuhúsinu.

-          Núverandi biskup tók upp samstarf við samtökin 78, þar sem meðal annars var reynt að gera upp atvik fortíðarinnar og horft til framtíðar.

-          Núverandi biskup hefur beitt sér í umhverfismálum, bæði innanlands og á heimsvísu.

Og þannig mætti áfram telja.

Biskup Íslands hefur því tækifæri til að vera í forystu í þjóðkirkjunni og samfélaginu, forystu í því að koma boðskap fagnaðarerindisins á framfæri. Hann sinnir tilsjón og fræðslu, og er kannski sá aðili sem hefur hvað besta tækifærið á að vera í góðum og dýrmætum tengslum við alla söfnuði landsins og félög innan kirkjunnar, einnig íslenska söfnuði kirkjunnar erlendis, önnur trú- og lífsskoðunarfélög, kirkjur heimsins og trúarleiðtoga. Öll þau tengsl og samskipti efla síðan biskup í hlutverki sínu á vettvangi kirkju og samfélags.

Spurningar

Þá langar mig hér í lokin á þessum orðum mínum að varpa fram nokkrum spurningum. Ég hugsa þær spurningar bara inn í okkar samtal, ég hef ekki í hyggju að svara þeim sjálfur. Þær gætu síðan vakið ennþá betri spurningar hjá ykkur, sem við ættum kannski frekar að ræða um.

Fyrst spurningar til þeirra sem hafa kosningarrétt til biskupskjörs:

-          Hvaða eiginleikum þarf nýr biskup að búa yfir, að þínu mati?

-          Hvað þarft þú að vita um frambjóðendurna, þá sem hljóta og taka tilnefningum, sem verða þessir þrír sem kosið verður um, til að þú getir gert upp hug þinn, milli frambjóðendanna?

Svo spurningar til þeirra sem hyggjast taka tilnefningum og bjóða sig fram til biskups Íslands:

-          Hvað munt þú leggja áherslu á í þinni biskupsþjónustu?

-          Hvernig munt þú stuðla að friði í yfirstjórn þjóðkirkjunnar?

-          Telur þú að mannauðsmálin eigi að vera á borði biskups? Þ.e.a.s. eiga prestar að vera áfram í ráðningarsambandi við biskup Íslands?

-          Hvar sérðu fyrir þér að skrifstofa biskups Íslands og yfirstjórnarinnar verði til framtíðar?

-          Hvað munt þú leggja mesta áherslu á, fyrsta árið þitt í biskupsþjónustunni?

Ég tel mikilvægt að við vörpum fram spurningum, ræðum saman, veltum vöngum, tölum saman, tölum um það sem skiptir máli.  

Takk fyrir mig. 


Erindi flutt á fundi um biskupsembættið sem haldinn var í Breiðholtskirkju miðvikudagskvöldið 15. nóvember 2023, í aðdraganda komandi biskupskosninga. Fundarstjóri og skipuleggjandi fundarins var prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, séra Bryndís Malla Elídóttir.