Núvitundaríhugun, áttundi hluti: Byrjum á byrjuninni

Núvitundaríhugun, áttundi hluti: Byrjum á byrjuninni

Hvert andartak er ný byrjun, hvert augnablik nýtt upphaf, allt er í sífellu nýtt, ekkert sem er núna hefur verið áður. Andartakið er í senn hverfult og eilíft, hverfur skjótt en á sér uppsprettu í eilífð Guðs sem lífsandann gefur.
Mynd

Núvitundaríhugun, áttundi hluti: Byrjum á byrjuninniVerum velkomin á áttundu og síðustu núvitundarstundina á kristnum grunni í Grensáskirkju á þessu vori. Við þökkum Ástu Haraldsdóttur kærlega fyrir orgelleikinn en hún hefur verið með okkur á þessum stundum trúfastlega allt frá miðjum mars. Við höfum dvalið saman í núinu, fundið hvernig lífsandi Guðs bærist innra með okkur í inn- og útöndun, skynjað nærveru Guðs sem ER, skoðað innri líðan, hjartað, hljóð og hugsanir. Við höfum æft okkur í að taka eftir án þess að dæma, kannað og skannað líkamann og nú sitjum við hér og þiggjum lífið að gjöf, þiggjum þetta andartak þrungið líf og náð og friði. 

Nú gáum við að því hvernig við sitjum, finnum iljar í gólfi og höfuð reist, jarðsamband með fótunum og himnasamband með höfðinu! Við gefum gaum að því hvar líkaminn snertir stólinn, læri, bak, finnum öryggið í því að geta setið kyrr og treyst því að stóllinn beri okkur uppi. Gáum að því hvernig hendurnar hvíla, ef til vill á lærum eða stólörmum, snúa lófar niður í hvíld eða upp eins og í bænastöðu? Við lokum augunum, það gefur meira næði frá umhverfinu og nú beinum við athyglinni að andardrættinum. Hvernig öndum við, grunnt eða djúpt, hratt eða hægt? Tökum bara eftir því án þess að breyta, fylgjum innönduninni frá því að hún birtist, ef til vill sem örlítið kul við nasavængina, niður hálsinn, finnum lungun fyllast og kviðinn þenjast út. Svo fylgjum við loftinu á útönduninni, neðan úr kvið, upp, upp, alveg út og nú er loftið hlýrra, mýkra ef til vill, enda búið að fara sína hringrás um líkama okkar. 

Til að tengja okkur enn betur við andartakið, það sem er núna, förum við með litlu játninguna okkar sem byggir á orðum Guðs í annarri Mósebók, þegar Móse spyr Guð að nafni við runnann sem logaði en brann þó ekki: „Ér er sá sem ég er,“ svaraði Guð, „ÉG ER.“ Sömu orð notar Jesús um sjálfan sig víða í guðspjöllunum, sérstaklega í Jóhannesarguðspjalli: „ÉG ER vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóh 14.6); „ÉG ER ljós heimsins,“ (Jóh 8.12), „Það ER ÉG, óttist eigi“ (Jóh 6.20); „Áður en Abraham fæddist ER ÉG (Jóh 9.58); „ÉG ER sá sem ég er“ (Jóh 8.28, 13.19). 

Við tengjum orðin andardrættinum, öndum hægt og meðvitað inn á meðan við hugsum eða eftir að við segjum ÉG ER og síðan hægt og meðvitað út á orðunum ÉG ER hér.

Ég er – ég er hér
Ég er – ég er hér
Ég er – ég er hér

Nú öndum við aftur á þann hátt sem okkur er eðlilegur, fylgjum andardrættinum inn í líkamann, finnum áhrif hans á allan líkama okkar og fylgjum honum út aftur, leyfum athyglinni að hvíla í þessu grundvallarformi lífsins sem rís og hnígur í stöðugri hringrás.

Jon Kabat-Zinn er í fararbroddi vísinda- og fræðafólks sem rannsakað hefur áhrif núvitundar á líðan fólks í nútímasamfélagi. Í einu myndbanda sinna leggur hann til níu meginstef núvitundar sem hollt er að tileinka sér. 

Það fyrsta er að við hættum að vera varðhundar vanans en verðum sem börnin, nálgumst lífið með opnum huga, heilbrigðri forvitni, á ferskan hátt (Beginners Mind). Hvert andartak er ný byrjun, hvert augnablik nýtt upphaf, allt er í sífellu nýtt, ekkert sem er núna hefur verið áður. Andartakið er í senn hverfult og eilíft, hverfur skjótt en á sér uppsprettu í eilífð Guðs sem lífsandann gefur. 

Í 12-spora starfinu erum við minnt á að byrja á byrjuninni (First things first) og hafa hugann opinn (Keep an open mind). Og Jesús minnir okkur á að vera sem börnin því þeirra er Guðs ríki (Mark 10.13-16). Í dag skulum við hafa þetta í huga, að taka á móti hverju sem mætir okkur með fersku viðmóti, eins og kæmi það til okkar í fyrsta sinn, sjá nýtt er orðið til (2Kor 5.17). 

Segið því skilið við alla vonsku og alla pretti, hræsni, öfund og allt baktal. Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ómenguðu mjólk til þess að þið af henni getið dafnað til hjálpræðis enda „hafið þið smakkað hvað Drottinn er góður“ (1Pét 2.1-3).

Og nú sitjum við hér, finnum og smökkum á nærveru Guðs sem fyllir okkur sjálfum sér, finnum andardráttinn eins og værum við að uppgötva hann í fyrsta sinn, skynjum líkamann og rýmið og hljóðin og hugsanirnar og tilfinningarnar eins og það allt sé okkur nýtt. Veitum eftirtekt öllu sem innra með okkur býr, sýnum því forvitni, mætum því með eftirvæntingu, sjá nýtt er orðið til. 

Svo komum við rólega til baka, hreyfum fætur og hendur, opnum augum, tökum inn það sem við sjáum, dveljum í því sem er. 

Ég er – ég er hér
Ég er – ég er hér
Ég er – ég er hér

Guð vaki yfir þér og þínum og gefi árstrauma gleði og friðar inn í hvert nýtt augnablik.

Góðar stundir. 


Jon Kabat-Zinn: 9 Attitudes 

https://www.youtube.com/watch?v=2n7FOBFMvXg