Friður á foldu

Friður á foldu

Sagt er að fyrsta þroskaverkefni hverrar manneskju sem fæðist sé að finna sig örugga. Nátengt öryggisþörfinni er þráin eftir friði. Við þráum frið í heiminum, frið á milli þjóða, frið innan þjóðfélaga, frið í fjölskyldum okkar og – það sem kannski er dýpsta þrá okkar allra, grunnur sjálfrar lífshamingjunnar – frið í sál og sinni.

Hvað ætli við eigum sameiginlegt með formæðrum okkar og forfeðrum langt aftur í tímann? Hvað er það sem við öll þörfnumst í lífinu, óháð aldri, búsetu og tímaskeiði? 

 

Það er auðvitað svo margt. Okkur dettur kannski fyrst í hug þörfin fyrir að hafa eitthvað að borða, vatn til að drekka, baða okkur upp úr og þvo þvottinn okkar, já, og föt og húsaskjól, auðvitað. Þessi atriði og fleiri tilheyra grunnþörfum manneskjunnar, ásamt því að sofa og hvílast, njóta umhyggju og athygli, öryggis og virðingar. Ef eitthvað af þessu vantar kemur óttinn gjarna sterkur inn og rænir okkur tækifærum til persónulegs þroska sem meðal annars felst í umburðarlyndi, sköpunargleði og sjálfstæði.

 

Óvissan er einna verst

 

Óvissa um eigin hag og fólksins okkar - eins og við segjum stundum og skilgreinum á mismunandi hátt - er eitt af því sem veldur okkur kvíða, jafnvel ótta. Nærtækt dæmi eru vinir okkar í Grindavík; á fjórða þúsund manns sem hefur þurft að finna sér nýjan samastað, nýtt heimili og óvíst hvenær lífið fellur í fyrra horf, þó eldgos sé nú ólíklegra einmitt þar sem bærinn stendur. 

 

Náttúruna ráðum við lítið við, í raun ekkert, þó við bisumst við að búa til varnargarða og vissulega hafi gefið góða raun að sprauta ísköldum sjó á glóðheitt hraunið í Vestmanneyjum fyrir fimmtíu árum. Náttúran er söm við sig, óútreiknanleg, okkar sameiginlegi óvissuþáttur sem enginn fær ráðið við. Öðru máli gegnir um stríð – ófrið af manna völdum, sem geysað hefur um allar aldir einhvers staðar í heiminum, ömurlegasta dæmi um lægð mennskunnar og ofbeldishneigð í eigin þágu, sama hver á í hlut. 

 

Þau þráðu líka frið

 

Eitt er það sem telja má líklegt að formæður okkar og forfeður þráðu eins og við, ekki bara þau sem við getum rakið okkur til á Íslendingabók heldur öll þau sem á undan gengu aftur í árdaga. Það er friður. Sagt er að fyrsta þroskaverkefni hverrar manneskju sem fæðist sé að finna sig örugga. Nátengt öryggisþörfinni er þráin eftir friði. Við þráum frið í heiminum, frið á milli þjóða, frið innan þjóðfélaga, frið í fjölskyldum okkar og – það sem kannski er dýpsta þrá okkar allra, grunnur sjálfrar lífshamingjunnar – frið í sál og sinni. Um það biðjum við og tökum undir ákall kynslóðanna í sálminum þekkta: 

 

Kynslóðir koma,

kynslóðir fara

allar sömu ævigöng.

Gleymist þó aldrei

eilífa lagið

við pílagrímsins gleðisöng.

 

Fjárhirðum fluttu

fyrst þann söng Guðs englar,

unaðssöng er aldrei þver:

Friður á foldu,

fagna þú, maður,

frelsari heimsins fæddur er.

 

Hörmungar friðleysis

 

Á aðventunni horfum við fram til þessa fagnaðarboðskapar englanna á jólanótt, gleðitíðindanna um frið á jörðu. Á þessari aðventu er eftirvæntingin blandin sorg þegar við horfum til Landsins helga þar sem er allt annað en friðsamlegt umhorfs. Friðurinn er okkar helgasta þrá og því finnum við til þegar hann er rofinn. 

 

Alls kyns ástæður liggja að baki þessum átökum. Um þær verður ekki fjallað hér enda eiga þær allar grunn í efnishyggju og skorti á andlegri sýn, þeirri tilhneigingu mannsins til að breyta rangt og hugsa aðeins um eigin hag og því ekki óhjákvæmilegar eins og náttúruhamfarir. Kærleiksleysið, sem við öll því miður þekkjum að einhverju marki úr eigin lífi, er það sem í raun er orsök hvers kyns ófriðar og átaka. 

 

Mildi og meðaumkvun

 

Í fyrri lestri dagsins, hjá Jesaja spámanni, 42. kafla,  heyrum við um hinn útvalda þjón Guðs, sem ólíkt ráðamönnum þessa heims, færir þjóðunum réttlæti í mildi og meðaumkvun. Við kristið fólk lesum Jesú Krist inn í þennan forna hebreska texta þar sem við trúum því að spádómar Gamla testamentisins segir fyrir um komu frelsarans sem fæddist í Bethlehem. Jesús Kristur flytur nærveru Guðs inn í heiminn, nærveru Guðs í anda og kærleika, nærveru Guðs sem hefur ekki hátt, kemur ekki með látum heldur í hógværð og lítillæti. 

 

Jesús Kristur er ekki stríðsherra, ekki konungur átaka og ófriðar, heldur undraráðgjafi og friðarhöfðingi. Jesús er ekki leiðtogi hinna hæfustu, svo vitnað sé í kenningu Darwins um „the survival of the fittest“, ekki aflið sem gerir hin ríku ríkari og hin voldugu voldugri, heldur hinn mildi leiðtogi þjónustunnar sem brýtur ekki í sundur það sem er brákað og slekkur ekki ljóstýruna sem er við það að lognast út af: 

 

    Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.

 

Viðkvæmi veruleikinn

 

Ég veit ekki með ykkur, en þessi orð spámannsins tala beint inn í mitt hjarta og þann viðkvæma veruleika sem við flest eða kannski öll finnum til undan, mismikið þó. Við þekkjum öll þá tegund af hetjudýrkun sem einkennir okkar samtíð sem hampar þeim sem virðist ganga vel í öllu, þeim ungu, fallegu og duglegu. 


Samanburðurinn við yfirborðskennda fullkomleikadýrkunina er okkur sjaldnast í vil. Oft erum við brákuð og beygð, og ljóstýran okkar í lágmarki. Þvílíkur léttir að þurfa ekki að standast fullkomleikaprófið til að lifa af heldur mega dvelja í nærveru kærleika Guðs sem „breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt og umber allt“, kærleikanum sem fellur aldrei úr gildi. 

 

Hvaða ríki?

 

„Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs!“ hrópaði fólkið forðum þegar Jesús kom inn í Jerúsalem, ríðandi á ösnufola, tákni auðmýktar og lítillætis (Mark 11.1-11). Má vera að þetta hróp komi illa við okkur núna, eins og margir aðrir ritningarstaðir og jafnvel sálmar sem vísa til Ísrael og Gyðinga. Ef til vill sá fólkið sem þetta hrópaði fyrir sér veraldlegt ríki arftaka Davíðs konungs sem sannarlega var stríðsherra, fremur en friðarhöfðingi. 

 

Við lesum þessa texta hins vegar ekki sem yfirlýsingu um yfirráð afkomenda Hebrea, sem eitt sinn voru umreikandi Aramear svo sem minnt er á í fimmtu Mósebók (5Mós 26.5). Við sjáum í hrópi fólksins sem hyllti Jesú forðum – en framseldi hann skömmu síðar til aftöku – andleg sannindi, ekki veraldleg, spádóm um ríki kærleikans sem engan enda tekur. 

 

Það ríki, ríki Guðs sem er „réttlæti, friður og föguður í heilögum anda“ (Róm 14.17) er þegar komið. Friðarríki Guðs er andlegur veruleiki sem við öll getum átt hlutdeild í. Okkur kann að lengja eftir því að það raungerist í því sem við köllum veruleika. Sannarlega óskum við þess að orðin úr Davíðssálmi 85 verði sýnilegri í heiminum. Þau tala inn í líf okkar andlegan veruleika og styrk sem gefur okkur von og gleði í hjarta, sama hvernig allt veltist: 

 

Ég vil hlýða á það sem Drottinn Guð talar.

Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna                

og til þeirra er snúa hjarta sínu til hans. [
Hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann
svo að dýrð hans megi búa í landi voru.
Elska og trúfesti mætast,
réttlæti og friður kyssast.
Trúfesti sprettur úr jörðinni
og réttlæti horfir niður af himni.
Þá gefur Drottinn gæði
og landið afurðir.
Réttlæti fer fyrir honum
og friður fylgir skrefum hans.


Prédikun flutt í Grensáskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu 2023.