Spurt í þrígang

Spurt í þrígang

Kristur felur Símoni Pétri að leiða hjörð sína og þar spyr hann lykilspurningarinnar – á hverju hann byggir forystu sína. Svo þýðingarmikil er spurningin að hann endurtekur hana í þrígang. Og svo sígild er spurningin að hún opinberar okkur eðli þeirra þeirrar forystu sem er við lýði á hverjum tíma. Hvar slær hjarta leiðtogans? Enn spyrjum við okkur þeirrar spurningar. Setur hann sjálfan sig í öndvegi, er það hégóminn sem ræður, valdafíknin, bónusarnir? Illa fer fyrir því samfélagi sem á sér slíkan hirði.

Vandi er að greina það hvað veldur vinsældum tiltekins listaverks. Nægja ekki fagmannleg tök höfundar. Stundum er eins og einhverjar huldar taugar tengi okkur við hugarsmíð, samspil hins raunsæja og þess sem er dulúðlegt eða ljóðrænt.

 

23. Davíðssálmur

 

Ljóð þetta höfum við vafalítið flest lesið. Listamenn vísa til þess í tónlist, í bókmenntum, myndlist, leikritum og kvikmyndum. Textinn hefur sérstöðu í samhengi hinna miklu bókmennta Biblíunnar.

 

Í honum kallast á huggun og traust, annars vegar og svo hins vegar vitundin um það að líf okkar getur verið undir skuggum mótlætis og ógna. Hér er bæði talað um dimman dal og svo óvinina, féndurna sem grafa undan tilveru okkar og öryggi. Sá veruleiki mætir trúuðu fólki rétt eins og hverjum öðrum.  

 

Yfirlýsingar

 

Hann hefst á yfirlýsingu þar sem hinn óþekkti höfundur líkir Drottni við hirði. Það gefur sálminum enn nýja vídd. Jú, því hirðir er leiðtogi og Biblíuna getum við lesið sem mikla og litríka hugleiðingu um forystu og listina að leiða hópa fólks frá einum stað til annars.

 

Og höfundurinn fylgir þessari staðhæfingu eftir og segir: „Mig mun ekkert bresta“. Hér kann einhver að spyrja hvað átt sé við. Ef Drottinn er í þessu hlutverki, fer þá ekkert úrskeiðis í lífinu? Engin sorg og ekkert böl? Sú er auðvitað fjarri því raunin. Þegar lengra er lesið talar skáldið um þær raunir sem það getur ratað í. Og sú hugsun að það muni ekkert bresta fær aðra merkingu.

 

Það er einmitt á erfiðum tímum sem mest reynir á framtíðarsýn, aðgerðir, hvatningu og ákall um breytingar. Þörfin er mest fyrir leiðsögn þegar hópar fálma í myrkrinu eða mæta féndum sínum. Þar kemur hirðirinn til sögunnar.

Misjafnir forystusauðir

 

Boðskapur hins kunna sálms er á þá leið að hverri manneskju er nauðsynlegt að lifa samkvæmt köllun og tilgangi sem gerir lífið þess virði að því sé lifað.

 

En hvað er það á sem einkennir góðan hirði? Þar skortir ekki lýsingarnar í því forysturiti sem Biblían er. Við finnum þar dæmi um afleita hirða, sem senda hjörðina í ógöngur og svo einnig hina sem reynast bjargvættir á stundum erfiðleika. Hvað skilur þar á milli?

 

Jesús spyr Símon Pétur, lærisvein sinn hvort hann elski sig ,,meira en þessir“, eins og þar stendur í íslensku Biblíuþýðingunni.

 

Samstarfskona mín Steinunn Arnþrúður fjallaði um þennan texta í ávarpi núna í vikunni og benti á að orðalagið sé tvírætt og megi túlka á ólíka vegu. Merkingin sé fremur á þá leið hvort lærisveinninn elski Jesú „meira en þetta“. Þar er vísað til alls þess sem kann að draga hug Péturs frá köllun sinni og tengir hann öðrum þáttum en þeim sem honum var ætlað að sinna. Já, hvað skiptir þennan lærisvein máli, þennan framtíðarleiðtoga sem síðar fék lyklavöldin í hendur sínar? Við erum jú að tala um sjálfan Lykla-Pétur.

 

Hvað einkennir góða leiðtoga?

 

Hér er ekki spurt um útgeislun, raddstyrk, sannfæringu eða persónutöfra. Það er kærleikurinn sem öllu breytir. Hversu annt er hirðinum um það samfélag sem hann leiðir?

 

Sjálfsagt þekkjum við flest, dæmi um afburða fólk sem er í hirðishlutverki en einhvern veginn fer allt á versta veg.

 

Mögulega lætur það sér í léttu rúmi liggja sinn eigin hag og einnig hag hópsins sem það á að leiða. Leiðtogum er hætt við því að brenna út, missa neistann, hverfa niður í tóm athafna- og aðgerðarleysis og allt drabbast niður í kringum þá. Stjórnleysi ríkir og upp úr þeim jarðvegi vex ýmislegt misjafnt þar sem jafnvel ofbeldi þrífst og ójöfnuður.

 

Eins geymir sagan mörg dæmi um hirða sem báru enga ást til  hópsins en voru drifnir áfram af óseðjandi þorsta til þess að stjórna og láta fólk kenna á valdi sínu og yfirráðum. Slíkir hirðar hafa litið svo á að hlutverk þeirra sem þeir leiða sé væri að þjóna sér. Sú leiðsögn getur stefnt heilu þjóðunum í miklar ógöngur.

 

Svo ættum við að kannast við þau sem ala að sönnu önn fyrir samfélaginu sem þau leiða, en setja því skýr mörk, leyfa engum að vaxa lengra og hærra en nemur hæð þeirra sjálfra. Hinir föðurlegu leiðtogar eru víða og við þekkjum þá af því að í kringum þá ríkir röð og regla. En um leið og fólkið sem þeir leiða áfram, vill sjálft láta til sín taka og komast til forystu, bregðast þeir ókvæða við og hindra vöxt þess og framgang. Eigingirnin, er þar yfirsterkari umhyggjunni.

 

Spurt í þrígang

 

Þessir textar fjalla einmitt um hina biblíulega hirðissýn. Þar sem ástin á Guði er yfirsterkari hverju því sem við sjálf sönkum að okkur. Þar kemur aftur fram hugarþelið sem skiptir að endingu sköpum um það hvers eðlis leiðtoginn er.

 

Lykilorðið í því sambandi er sjálfur kærleikurinn, það sem guðspjöllin setja í öndvegi í samskiptum mannsins við Guð og gagnvart umgengninni hvert við annað.

 

Hið kristna hirðishlutverk grundvallast á þessum þætti. Þar setur leiðtoginn sjálfan sig skör neðar því samfélagi sem hann leiðir. Hann er í hlutverki þjónsins og leggur jafnvel líf sitt í sölurnar fyrir fólkið, eins og Kristur átti eftir að gera. Hinn góði hirðir birtir okkur mynd af leiðtoga sem lítur svo á að hann eigi að vinna að framgangi þeirra sem með honum standa. Þegar einstaklingar vaxa honum upp yfir höfuð, er það ekki ógn, ekki til marks um að forystan hafði brugðist - heldur þvert á móti - staðfesting á því að hirðirinn hefur unnið sitt verk. Markmiðið er móta sjálfstæða einstaklinga, farsæla, heilbrigða, gagnrýna og sjálfa líklega til þess að verða góðir hirðar yfir þeim hópi sem þeir leiða.


Kristur felur Símoni Pétri að leiða hjörð sína og þar spyr hann lykilspurningarinnar – á hverju hann byggir forystu sína. Svo þýðingarmikil er spurningin að hann endurtekur hana í þrígang. Og svo sígild er spurningin að hún opinberar okkur eðli þeirra þeirrar forystu sem er við lýði á hverjum tíma. Hvar slær hjarta leiðtogans? Enn spyrjum við okkur þeirrar spurningar. Setur hann sjálfan sig í öndvegi, er það hégóminn sem ræður, valdafíknin, bónusarnir? Illa fer fyrir því samfélagi sem á sér slíkan hirði.

 

Hvað skýrir vinsældir listaverks?

 

Er það ekki þegar það snertir við einhverri taug í hjarta viðtakandans, kemur við það sem skiptir raunverulega máli og fær fólk til að skoða líf sitt og umhverfi með öðrum hætti?

 

Drottinn er minn hirðir“. Þessum orðum má hvísla hlýlega í eyru þeirra sem leggja við hlustir. Þau eru í senn huggun og hvatning. Í huga hins trúaða er Drottinn sá leiðtogi sem vert er að fylgja og þar finnum við jafnframt fyrirmyndina að allri forystu.

 

Þar mætum við umhyggjunni, lönguninni til að reisa upp og efla, kærleikanum sem leiðir okkur út úr dimmum dal og býr okkur borð frammi fyrir óvinum okkar. Hinn góði hirðir leiðir ekki hjörðina inn í sláturhúsin. Margir aðrir eiga sér þau markmið. Hinn góði hirðir þjónar hjörðinni, leiðir hana á rétta vegu og það er mikil blessun að ganga í gegnum lífið með slíka leiðsögn.