Kraftaverkin og boðun fagnaðarerindisins

Kraftaverkin og boðun fagnaðarerindisins

Kraftaverk fylgja ætíð boðun fagnaðarerindisins, þetta á sérstaklega við um boðun Jesú. Hann prédikar komu guðsríkisins í orði og verki og menn læknast bæði á sál og líkama. Lækningin er einmitt tákn um fyrirgefningu Guðs. En fjöldinn misskilur þetta tákn og tengir það ekki við boðun Jesú. Því fólkið er sólgið í tákn. Krafa þess er skýr. Það vill sjá undur og stórmerki, eða eins og það er kallað nú á dögum, það vill láta skemmta sér.

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.

Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.

Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.

Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?

En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.

Filippus svaraði honum: Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.

Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:

Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?

Jesús sagði: Látið fólkið setjast niður. Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.

Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.

Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.

Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.

Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.

Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs. Jh 6.1-15

Í þessari prédikun munum við fara yfir guðspjall dagsins, vers fyrir vers og íhuga það. Þar segir:

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páska (Jh 6.1–4).

Kraftaverk fylgja ætíð boðun fagnaðarerindisins, þetta á sérstaklega við um boðun Jesú. Hann prédikar komu guðsríkisins í orði og verki og menn læknast bæði á sál og líkama. Lækningin er einmitt tákn um fyrirgefningu Guðs. En fjöldinn misskilur þetta tákn og tengir það ekki við boðun Jesú. Því fólkið er sólgið í tákn. Krafa þess er skýr. Það vill sjá undur og stórmerki, eða eins og það er kallað nú á dögum, það vill láta skemmta sér. Það segir: „Mér leiðist skemmtu mér, gerðu eitthvað.“ Þetta er krafa sem við þekkjum vel. Á öllum tímum hefur fólk krafist brauðs og skemmtana, sá sem gat fullnægt því var að þeirra mati sannur leiðtogi. Þið kannist öll við Kólosseum eða hringleikahúsið í Róm. Þangað streymdi fólk til að stytta sér stundir og úti um allt Rómarveldi voru slík hús, einnig í Palestínu og eitt var meira að segja rétt hjá Nasaret.

Við megum ekki gera lítið úr þessari kröfu fólks um skemmtun. Það er út í hött að vera á móti því að fólk geri sér dagamun. Dæmisögur Jesú og fagnaðarerindið undirstrika það. „Verið glaðir“ er sagt ótal sinnum í ritningunni. En takið eftir, þar er lögð áhersla á að fólk geri sér sjálft dagamun. Og það er ekki það sama og að vera stöðugt þiggjandi. Slíku hafnar Jesús alfarið og segir:

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syngja (Mt 11.17).

Að heimta allt af öðrum leiðir af sér tóm sálarlífsins. Maðurinn verður sljór og skeytingarlaus með eina kröfu á vörunum sem ógjörningur er að uppfylla. Skemmtu mér!

Jesús flýr þessa táknsýki og heldur út í eyðimörkina með lærisveinum sínum. En fólkið er hungrað í undur sem hver túlkar eftir sínu höfði. Menn álíta að hér sé kominn nýr Móse eða spámaður sem koma á í lok tímanna. Ef til vill að hann sé Messías, hinn mikli veraldarkonungur, sem frelsa mun gyðinga undan öllu oki. Hann er sá sem mun gera gyðinga að herraþjóð heimsins. Og þeir munu lifa í eilífum fögnuði. Þetta eru hugrenningar þeirra sem fylgja Jesú út í eyðimörkina.

Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?“ En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra. Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?“ (Jh 6.5–9).

Jesús sest niður í fjallshlíðinni og sér fólkið koma. Hann þekkir það og óskir þess, en umfram allt þekkir hann raunverulegar þarfir þess. Fólkið þarfnast halds og festu í líf sitt, það þarfnast Guðs. Það þarfnast andlegrar fæðu.

Þegar við lítum yfir sögu mannsins og hugum að því hvernig maðurinn getur svo oft verið, og hve múgmennskan getur mótað háa sem lága, þá grípur mann vonleysi og örvænting. Hve mörg okkar hafa ekki viljað fara út í eyðimörkina með Jesú og lifa þar með honum í einfaldleika lífsins, eins og Filippus og Andrés, ég held að við höfum öll einhvern tíma á ævinni óskað þess að setjast að á eyðieyju til þess að búa þar í friði með sjálfum okkur. Þetta er skiljanlegt viðhorf sem við deilum með Filippusi; hann fylgir Jesú út í eyðimörkina til þess að vera einn með honum þar. Hann sér fólkið koma og getur ekki flúið það og álítur sig sjá hlutina eins og þeir koma fyrir. En hann sér einungis hina ytri þörf og kröfu líðandi stundar sem hann miklar fyrir sér og guggnar á. Hann sér fólkið og segir að matur fyrir 200 daglaun verkamanns nægi ekki handa svo mörgum. Erfiðleikarnir byrgja honum alla sýn og Andrés staðfestir dóm hans. Hvað eru tveir fiskar og fimm byggbrauð andspænis slíkum fjölda. Það er margt sameiginlegt með þeim og okkur. En alltaf er von — þótt veik sé — ef hún er bundin við Jesú.

Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu (Jh 6.10–11).

Jesús lætur fólkið setjast. Í Markúsarguðspjalli er þess getið að hann skipaði fólkinu í hópa. Þegar allir settust niður komst á ró, regla og kyrrð þrátt fyrir hinn mikla mannfjölda. Með þessu kom hann í veg fyrir að hinir frekari gætu troðið sér fram en hinir veikari og hæglátari yrðu út undan.

Kraftaverkinu er ekki lýst heldur einungis bent á staðreyndir þess. Hér ber að forðast tvennt ef takast á að túlka það rétt. Annars vegar að álíta að þegar menn hafi séð piltinn færa Jesú nestið sitt þá hafi allir dregið fram sitt nesti og deilt með öðrum. Slík túlkun fórnar kraftaverkinu á altari hugmyndasnauðrar og geldrar raunhyggju. Hins vegar að stara á brauðið en sjá ekki táknið, þ.e.a.s. skilja ekki merkingu þess sem átti sér stað. Jesús gerði þetta tákn samkvæmt Jóhannesi einungis einu sinni. Inntak þess er því ekki að Jesús sé hinni mikli matarhöfðingi og konungur magafyllinnar. En lýðurinn sér Jesú einungis sem mann magans og kraftaverkið eitt út af fyrir sig, en það er gjöf Guðs og skilst einungis í tengslum við orð hans. Einmitt fyrir orð Jesú greinum við kraftaverkið sem tákn Guðs er bendir okkur á þörf mannsins fyrir tvenns konar fæðu: Brauð og Orð Guðs. Brauðið gefur Guð okkur sem skapari alls og orð fyrirgefningarinnar gefur Guð okkur í Kristi, sem er endurlausnari alls.

Orð Jesú og kraftaverkið mynda því eina heild. Kraftaverk án fagnaðarerindisins er óskiljanlegt tákn. Í trúnni á Jesú Krists skynjum við að hið eiginlega kraftaverk er fyrirgefning og náð Guðs. Því náð Guðs í Kristi er óendanleg, en heimurinn endanlegur. Fyrirgefning Guðs umlykur allan veruleika mannsins en brauðið nær einungis til hinna tímanlegu þarfa. Neitum við orðinu og horfum bara á brauðið skiljum við ekki veruleikann í heild sinni. Látum við Jesú Krist aftur á móti lýsa upp veruleika okkar sjáum við að blessun Guðs mætir okkur daglega og reynslan kennir okkur þá að Guð breytir stöðugt tveimur fiskum og fimm brauðum í allsnægtir sem næra alla menn. Garðyrkjumenn þekkja til dæmis vel hversu dauð moldin er eftir veturinn. Ekkert virðist geta sprottið upp úr slíkri auðn. Úti í heimi standa ávaxtatrén nakin yfir veturinn og við lifum á uppskeru síðasta árs. En strax með vorinu brýst lífið fram, grasið grænkar og hin kalda mold verður uppspretta lífs. Úr litlu verður þannig mikið. Við Íslendingar hugsum aftur á móti í fiski. Hafið virðist endalaus vatnseyðimörk, en úr þessari vatnsauðn mokum við upp auðæfum okkar.

Hér gæti einhver sagt: Já, en þetta upplifum við daglega — en það að metta yfir 5000 manns á þennan hátt er andstætt heilbrigðri skynsemi. Það er kraftaverk en ekki hitt. Við svörum hér: Hvers sök er það að álíta eitt kraftaverk en ekki annað? Er það ekki kraftaverk að úr litlum hrognum verði torfur af fiski? Já, hvað veldur því að við sjáum það ekki, er það verkinu að kenna eða því að við greinum ekki blessun Guðs í heiminum? Er það sök Guðs að við kunnum ekki að þakka fyrir það sem okkur er gefið? Já, hver ert þú, maður, já, hver erum við? Hvað höfum við sem okkur er ekki gefið? Er líf okkar eigin tilverknaður? Eru persónulegir hæfileikar okkar eigið verk? Eru gáfurnar afrek okkar? Nei, allt þetta er okkur gefið! Af hverju þökkum við ekki fyrir í stað þess að kenna Guði um hvernig við misnotum gjafir hans? Við hvern er að sakast, Guð eða vantrú okkar? Er það ekki vantrúin sem gerir okkur svo blind að við sjáum ekkert nema það sem við viljum sjá?

Kristnir einstaklingar eiga að læra að nota augu sín og sjá kraftaverk eða undur Guðs í heiminum og það hvernig Guð breytir stöðugt bölvun í blessun. Þannig eigum við t.d. að þakka fyrir hina heilbrigðu á meðan við hjúkrum hinum sjúku. Í ljósi trúarinnar á Krist greinum við að stundarneyð sviptir Guð ekki valdi sínu. Fyrir þann sem líður er neyðin ávallt löng, en neyðin er aldrei máttugri en Guð. Hið sama á við um farsældina. Hana má heldur ekki alhæfa, en einmitt það vildi fólkið gera.

Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs (Jh 6.12–15).

Kristur hafnar því að við virðum ekki veruleikann eins og hann kemur fyrir. Hann yfirgefur þann sem vill gera hann að matarhöfðingja og þræli magafylli sinnar. Við eigum að lúta Kristi og virða undrið, læra að umgangast það sem okkur hefur verið gefið með virðingu. „Hlutirnir bjargast“ segjum við Íslendingar oft, en trúin bætir við: „Já, með hagsýni og nægjusemi.“ Hér mótmælum við hugmyndasnauðri raunhyggju sem bindur sig eingöngu við líðandi stund og sér aðeins hagvöxt eða kreppu, það gerum við í ljósi þess að Kristur safnaði leifunum saman og þær nægðu í margar máltíðir. Þannig eigum við að umgangast það sem Guð felur okkur og þakka fyrir það sem hann gefur, en einmitt þakklætið gerir kraftaverk, enda er það einn af ávöxtum trúarinnar.

Tökum nú inntak guðspjallsins saman. Við þörfnumst bæði brauðs fyrir magann og sálina. Okkar andlega brauð er Jesús Kristur, hann er brauð lífsins. Því það sem Kristur afrekaði nægir öllum heiminum. Það sem Jesús hefur sagt, gert eða liðið er þess eðlis að allir hafa not fyrir það ef þeir færa sér það í nyt. Þannig felur kenning Jesú í sér svo einfalda speki að hvert barn skilur hana og er nægilegt íhugunarefni fyrir hina mestu spekinga. En hún geymir einnig í sér huggun sem styrkir hinn sorgbitna. Loks opnar hún augu okkar fyrir þörfum náungans fyrir líkamlega og andlega fæðu. Fagnaðarerindið er því hin sanna fæða sálarinnar og hjálpar okkur að neyta hins daglega brauðs í þakklæti.

Megi Guð hjálpa okkur að njóta þeirrar andlegu og líkamlegu fæðu sem hann gefur okkur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Sigurjón Árni Eyjólfsson (sae@mmedia.is) er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Þessi prédikun var flutt á 4. sunnudegi í föstu 2004.