Pálmi, Starri og mannlífið

Pálmi, Starri og mannlífið

Mörgum hættir til að gera Jesú Krist að framlengingu á eigin sjálfi og vilja skikka hann í embætti eigin sendiherra, túlka hann í samræmi við eigin gildi, hugsjónir og viðmið. Á föstunni er tími skoðunar sjálfsins. Pálmi og jafnvel starri eru ljómandi hvatar í sálarvinnu.

sigurpeningur RómverjaAlla helga daga berum við í upphafi messu kross inn í Neskirkju. Krossberi fer fyrir helgigöngu og heldur krossinum hátt á loft. Við rísum úr sætum – ekki til að fagna kórnum, messuhópnum, prestum eða skírnarþegum og aðstandendum eins og í dag - heldur til að minna okkur á, að Jesús Kristur kemur í hús sitt, er í húsi sínu. Krossinn er tákn um Jesúnánd – krossburður er tákn um að Jesús Kristur kemur til safnaðar síns.

Og á pálmasunnudegi berum við líka í kirkju pálmagreinar og minnumst innreiðar Jesú í Jerúsalem. Pálmar voru lagðir á veginn þar sem hann fór um. Honum var fagnað sem hetju. Enginn var þó stríðsfákurinn eins og konungi hefði sómt, heldur reið Jesús ösnufola. Biblíufróðir rifjuðu þá upp hin fornu spádómsorð úr Sakaríabók, sem er reyndar lexía pálmasunnudags:

“Sjá konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.” (Sak. 9.9)
Til eru margar kímnisögur af því þegar börn fara á mis við einhver stórmerki í kirkjunni. Í einni útgáfunni var lítil stúlka, sem var veik heima á pálmasunnudegi þegar fjölskylda hennar kom úr messu með pálmagreinar. Af hverju eruð þið með þessar greinar spurði hún. Af því Jesús kom á asna og allir veifuðu greinum. Telpunni varð svo mikið um að hún fór að gráta yfir þessum fréttum og stundi upp: “Af hverju gerist allt þegar ég er lasinn!”

Pólitískir skuggar og vonir Fólkið veifaði pálmagreinum, sem voru tákn og sómdu höfðingjakomu. Við þekkjum framhald innreiðarsögu guðspjallanna, sem var engin veraldleg sigurganga. Og pálmaveifan verður að skiljast í samhengi. Lengi hafði þjóð Gyðinga beðið lausnara, sem gæti hrakið burt hervald. Lengi hafði hans verið beðið, sem nefndur var í spádómsbókum Gyðinga. Jesús reið ösnufola inn í samfélag vona, en ekki aðeins himneskra heldur líka menningarlegra, hernaðarlegra.

Herseta er hörmuleg og Gyðingar þráðu sjálfstæði. Eins og dæmi sanna, úr fortíð og nútíð er hersetin þjóð ávallt gróðrarstía ofbeldis, spillingar og hugillsku. Flétta slíkra vona elur gjarnan af sér ofbeldi og verður múll margra, sem dregnir eru til blóðvangs og hryllings. Vonarljósin eru góð en í skugganum nærast myrkravöldin.

Meðan Jesús boðaði friðarboðskap voru aðrir í hermangi eða skipulögðu skæruhernað í Palestínu. Líf, písl og lífgun Jesú á sér baksvið í pólískum átökum samtíðar. Og alla fyrstu öld hins kristna tímatals kraumaði uppreisnarviljinn, sem endaði síðan í skelfilegri og vonlausri baráttu Gyðinga um fjórum áratugum eftir atburði kyrruviku. Uppreisn Gyðinga var þá brotin á bak aftur með svo algeru móti að Gyðingar dreifðumst um allt hið rómverska ríki - raunar allan heim – og áttu ekki afturkvæmt úr dreifingunni fyrr en nær tvö þúsund árum síðar, á síðustu öld með stofnun Ísraelsríkis.

Píslarsögur og peningur Píslarsaga Jesú er hörmuleg en saga Gyðinga líka. Og við megum alveg leyfa okkur að heyra þessar píslarsögur í “stereó” og sjá þær í fléttutvennu.

Júdea sigruð! Rómverskur peningur 70 ktÉg sá einu sinni mynd af rómverskum peningi, sem er táknrænn fyrir harmsögu Gyðinga. Rómverjar slógu mynt strax (árið 70 skv. kristnu tímatali) eftir að Gyðingauppreisnin hafði verið barin niður. Á peningnum stendur “Judea capta” - hertekin Júdea eða sigruð Júdea. Á peningnum er mynd af pálma, sem var táknmynd Palestínu. Pálmar voru einkennistré og allt svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs var kallað Pálmaland – Fönikía. Þetta var Palm Beach þeirra Rómverja!

Á rómverska pálmapeningnum var öðrum megin við tréð mynd af syrgjandi konu í hnipri. Hinum megin var mynd af stórum og ábúðarmiklum hermanni, sem gætti konunnar. Konan var tákn Gyðingaþjóðar, sem var ekki aðeins hersetin heldur í keng. Hermaðurinn var fulltrúi þess valds, sem líður ekki uppreisn. Mynd Vesapasianusar keisara var á hinni hliðinni. Pálmapeningurinn tákn um algert gjaldþrot hinnar gyðinglegu uppreisnarstefnu, sem aðeins ól hörmungar en enga von, ótta en ekki gleði.

Táknmál pálmans

Pálmasunnudagur. Við veifum pálmum eins og fólkið forðum. Skoðaðu pálmann í höndum þér. Haltu honum upp. Gyðingar mátu mikils táknmál pálmagreinarinnar, sem er eins og hryggjarsúla manns og blöðin eins og rifin sem standa út frá hryggnum.

Síðan var pálminn þeim líka táknmynd um himinsókn. Þeir eru háir, ná tíu metra hæð, og bera ávexti til unaðar og fæðu fólks. Já þeir voru boðberar um trúariðkun góðs manns, táknmynd um það líf, sem Guð vill að menn lifi í heimi. Greinarnar sem fólkið veifaði voru ekki tilfallandi hríslur heldur valdar vegna túlkunar og tákngildis. En hópurinn veifaði greinunum á röngum forsendum. Jesús var ekki uppreisnarseggur. Í messuhópsumræðunni í vikunni orðaði Guðrún Júlíusdóttir það vel, að Jesús hefði ekki komið með hernað í huga, heldur hefði þvert á móti komið til að brjóta ægivald óttans, losa fólk við hræðslu, gefa okkur frið og gleði.

En hvaða pálma viljum við veifa á þessum degi? Hvaða Jesúmynd hefur þú í huga? Og hvaða Jesú viltu trúa á? Fólkið með pálmagreinarnar í höndum vænti herkonungs. Það varpaði eigin hugmyndum og þrá yfir á Jesú og vildi að hann uppfyllti sínar vonir. Þegar hann varð ekki við þeim skv. þeirra skilyrðum voru þessir pálmamenn tilbúnir að æpa hann til dauða nokkrum dögum síðar. Hver er mynd Jesú? Varpar þú þinni eigin mynd yfir á hann?

Hvað segir Guð? Líf okkar er ekki bara skilyrt og niðurnjörvað, heldur eigum við raunverulegt val í flestum stóru málunum. Við ákveðum sjálf hvernig við trúum. Fermingarnar eru byrjaðar. Yfir níutíu prósent áttundu bekkinga á Íslandi eru fermd og prestarnir spyrja með fullri alvöru: “Vilt þú leitast við af fremsta megni að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins? Fermingarbörnin svara en spurningin varðar okkur líka. Við svörum líka henni á hverjum degi með margvíslegu móti. Viljum við opna líf okkar gagnvart sendiboða himinsins eða viljum gera Jesú að einhverju öðru?

Framlenging á eigin sjálfi Flestum hættir til að gera Jesú Krist að framlengingu á eigin sjálfi og skipa hann að eigin sendiherra, að túlka hann í samræmi við eigin gildi, hugsjónir og viðmið. Allir hafa tilhneigingu til að varpa eigin draumum á tilveru sína, samferðafólk og fjölskyldu og vilja að allt gangi upp samkvæmt eigin skilningi. Þeir stórtækustu vilja að eigin skilningur ráði öllu þjóðfélaginu og þegar verst lætur allri heimsbyggðinni. Þegar lítið gengur að fá framgengt eigin prógrammi eða pólitík með góðu verða menn oft ofbeldismenn til að koma á eigin hugmyndum um tilveruna og þá með illu. Það er ekki leið trúarinnar. Trúmaðurinn gengur ekki neinna annarra erinda en Guðs. Þegar við fögnum Jesú á pálmasunnudegi hættir okkur til að fagna eigin draumi en köllun okkar er að fagna Guðselskunni. Á pálmasunnudegi ættum við að leggja niður okkar eigin pálma, okkar eigin drauma, blekkingar, tálsýnir og opna augun fyrir hvað Guð er að segja okkur.

Drengir skírðir Í upphafi messunnar voru Guðjón og Starri skírði. Þegar Kristján og Berglind, foreldrar Starra, komu í vikunni til að undirbúa skírnina, sögðu þau mér að þegar þau hefðu verið að ræða heiti drengsins hefðu þau “gúglað” orðið starri. Þá hefði meðal annars komið upp frásögn af starra sem gerði sér dælt við krossinn á Neskirkju. Sagan varð innlegg í skírnarundirbúning drengsins. Ég kannaðist við frásögn um þennan kirkjustarra því hún rataði inn á heimasíðuna mína á sínum tíma.

Starri krossbúi Fyrir tveimur árum var óvenjumikilli fuglaumferð í kringum krossinn. Krummar og stundum veiðibjöllur hvíla sig oft á krossstallinum eða krossinum, en þetta vor flugu starrar fram og aftur og alltaf til og frá krossinum. Þegar sólin skein og fuglarnir flugu fyrir altarisgluggann fór skuggi þeirra yfir krossinn og vegginn hér inni í kirkjunni. Brátt var bara einn fugl á ferð og mér ljóst var hvað hafði gerst. Starrafjölskylda hafði fundið leið inn í krossinn og hafði þar gert sér hreiður! Þar varð líf, þar komu ungar úr eggjum, þáðu fæðu frá umhyggjusömum og iðnum foreldrum, stækkuðu og hafa nú haldið út í heiminn.

Starrinn er heillandi fugl, hann hermir vel eftir, talar við mann og hefur gaman af skrítnum hljóðum. Svo er starrinn líka í krosssókn sinni ljómandi trúarleg fyrirmynd og því góður guðfræðingur! En kirkjan og trúin eiga sér líka upphaf í krossi og upprisu. Eilífa lífið, trúarlífið, getur ekki orðið nema Guð skapi lífsmöguleika. Líf ungra starra varð til í krossi og þaðan gátu þeir svo farið í krafti Guðs góða anda. Þannig er líf hins kristna manns einnig. Leiðin hefst við krossinn, lífið rís upp úr gröf og er síðan baðað andanum. Vissulega kom flögraði veiðibjallan í leit að ungunum, krummi var líka á ferð, hætturnar steðja að okkur í lífinu með svipuðum hætti. Guðjón og Starri voru var ausnir vatni og blessaði mega þeir njóta krossvatnsins. Á þeim hrín ekkert illt þegar dýpst er skoðað ef þeir hvíla í traustinu til Guðs.

Krossað vatn og lífið Pálmasunnudagur, pálmar réttir til himins, teikn um vöxt. Starrar eignuðust líf í krossi, sem beinir kirkju og sjónum til himins. Veifum okkar pálmum, fellum hin röngu tré eigin blekkinga og hlustum á lífsboðskap hins friðflytjandi lausnara. Í morgun var heilmikil fuglaumferð í kringum krossinn. Þegar nánar var að gáð sá ég að þetta var hópur af störrum. Kannski þeir sem áttu sér hreiður í krossi á sínum tíma. Kannski leita þeir til baka á upphafsslóðir. Og þannig þarf það að vera með börnin, skírnardrengina báða, okkur öll, við þurfum að leita til baka til kirkjunnar, inn í trúna, í faðm Guðs. Svo fara litlu drengirnir og fjölskyldur þeirra heim með pálmagreinar. Við förum heim með okkar pálma, Jesús fer með okkur alla leið.

Amen.

Prédikun í Neskirkju pálmasunnudegi, 16. mars 2008.

Lexía: Sak 9.9-10. Fagna mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem. Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola. Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum verður eytt. Hann mun boða þjóðunum frið og ríki hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Pistill: Fil 2.5-11 Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu

Guðspjall: Jóh 12.1-16 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“ Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Konungur þinn kemur og ríður ösnufola. Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.