Að létta bróður böl

Að létta bróður böl

Kristur gekk inn í kjör Mörtu og Maríu er þær misstu bróður sinn. Þannig sýnir hann miskunnsemi og kærleika Guðs til okkar mannanna. Guð starfar allt til þessa. Kristnum körlum og konum ber því að sýna bróður og systur umhyggju, stuðning og kærleika. Þjóðkirkjan vill styðja hælisleitendur og fólk á flótta. í Breiðholtskirkju er að myndast alþjóðlegur söfnuður þar sem margir eru flóttamenn og hælisleitendur. Djákni var nýlega vígður til að þjóna í alþjóðlega söfnuðinum og Breiðholtssókn.

16. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, útvarpsguðsþjónusta, Hallgrímsmessa, 6.10.2019

Sr. Magnús Björn Björnsson, sóknarprestur, Breiðholtssókn.

Að létta bróður böl

Guðspjall dagsins er aðdragandi að einu mesta kraftaverki Jesú er hann reisti Lasarus upp frá dauðum. Kallaði hann út úr gröfinni, þó liðnir væru fjórir dagar, frá því hann var jarðaður. Jesús á samtal við Mörtu, systur þeirra Maríu og Lasarusar, sem þá var dáinn. Ekki virðist nein ásökun í orðum hennar, þó svo Jesús hafi ekki komið um leið og þær sendu honum boð. Hún veit ekki hvað Jesús ætlar að gera, en hún treystir honum, því hún trúir á hann.

Jesús kemur til þeirra systra af því honum þykir vænt um þær og hann ber mikla umhyggju fyrir þeim. En hann er einnig kominn, vegna þess að Guð ætlar honum að sýna fram á vald sitt yfir dauðanum. Játning Mörtu: Þú er Kristur, Guðs sonur, staðfestir einmitt það. Jesús sýnir okkur tvennt. Hann sýnir okkur óumræðilegan kærleika sinn og umhyggju gagnvart hinum syrgjandi, en um leið alveldi sitt og mátt, gagnvart dauðanum, sem engu hlýfir og enginn fær undan komist.

Með því að reisa Lasarus upp frá dauðum staðfestir Jesús orð sín: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.“

Guð ákvað að koma til okkar mannanna í syni sínum Jesú Kristi. Í honum sýndi hann heiminum kærleika sinn og miskunnsemi. Jesús snerti við útskúfuðum einstaklingum, jafnvel hópi fólks, læknaði þá og gaf þeim nýja von, t.d. þegar hann læknaði tíu holdsveika í einu. Í brúðkaupinu í Kana tók Jesús þátt í gleðinni og hamingjunni og mætti þörfum brúðhjónanna er niðurlæging blasti við, vegna þess að það vantaði drykkjarföng. Í guðspjalli dagsins sjáum við hvernig Jesús mætir hinum sorgmæddu vinum sínum, þeim Mörtu og Maríu. Hann gengur inn í bróðurmissinn og grætur með þeim. Hann er hjá þeim í sorg þeirra og söknuði. Þannig sýnir hann, hvernig Guð er nærri í sorginni og missinum með huggun sína og frið. En það er umfram annað píslarganga hans og dauði á krossinum, sem gerir það að verkum, að kristnir menn treysta því og upplifa, að Guð er nærri, jafnvel í erfiðustu og sársaukafyllstu kringumstæðum. Guð er kærleikur. Hann er eilíf ást.

Þessi vitneskja gerir það að verkum, að elskan til náungans, færir okkur til þeirra sem eiga um sárt að binda eða eru í erfiðleikum. Það að Kristur samsamaði sig hinum sjúku, sorgmæddu og klæðalausu, knýr hinn kristna til að þjóna í kærleika. Í þeim sjáum við Krist sjálfan.

Guð elskar sköpun sína og er stöðugt að verki í henni. Það kallar okkur kristna menn til góðra verka á öllum sviðum lífsins. Verk okkar eru eins og dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, orti svo fallega um, aðeins þakkargjörð fyrir allt sem þegið hefur verið úr hendi Guðs.

Þú, Drottinn, átt það allt,
sem öðlumst vér á jörð.
Hver gjöf og fórn, sem færum vér,
er fátæk þakkargjörð.

Vor eign og allt vort lán
þér einum heyrir til.
Þótt gætum vér það gefið allt,
vér gerðum engin skil.

Jesús gaf okkur dæmisöguna um miskunnsama Samverjann, sem er fyrirmynd kristinna manna í framkomu við þá sem liggja sárir á vegi lífsins. Það fer ekki á milli mála, að við eigum að rétta bróður og systur hjálparhönd og hýsa þá sem ekki eiga skjól.

Ferð til Genfar

Um síðast liðna helgi var ég ásamt Hólabiskupi og fimm prestum, sem allir koma að málefnum flóttafólks, í kynnisferð. Fórum við til Genfar að kynna okkur og fræðast um málefni fólks á flótta. Heimsóttum við aðalstöðvar Lútherska heimssambandsins og Alkirkjuráðsins, sem eru þar. Því má ekki gleyma að báðar þessar stofnanir urðu til eftir síðari heimsstyrjöldina þegar 50 milljónir kvenna, karla og barna voru heimilislausar eða á flótta og að jafna sig eftir hildarleik stríðsins. Þá var Evrópa í rústum og stórum fátækari en í dag. Einnig sóttum við heim söfnuði, sem láta sig málefni flóttafólks varða. Við mynduðum góð tengsl, sem hjálpa okkur að skilja hvernig við getum sinnt betur hlutverki okkar og mætt betur vanda þessa hóps og þeirri viðkvæmu stöðu sem hann er í. Það var afar fróðlegt og gagnlegt.

Kirkjur heimsins láta sig varða þær 70 milljónir sem eru heimilislausar og á vergangi í dag. ACT alliance, kirkjulegu hjálparsamtökin, sem Þjóðkirkjan og Hjálparstarf kirkjunnar eru hluti af, sinntu meira en 2,3 milljónum flóttamanna á síðast liðnu ári.  

Kirkjan er að sinna trúarlegum og félagslegum þörfum, en hún er einnig að sinna daglegum þörfum skjólstæðinga sinna gegnum hjálparstarf sitt, og spyr þá ekki um þjóðerni, kyn eða afstöðu í trúarefnum. Það er mikilvægt að koma þeim til hjálpar, sem eiga í erfiðleikum. Það á ekki síst við um þau sem leita skjóls hér á Íslandi, hvort sem þau fá áfram dvalarleyfi eða ekki. Staða hælisleitenda og fólks á flótta er veik og það þarf stuðning og hjálp. Þjóðkirkjan vill leggja sín lóð á vogarskálar með þeim, sem láta sig málefni flóttafólks og hælisleitenda varða.

Hér svíða hjartasár,
hér sveltur fátækt barn,
og vonarsnauður villist einn
um veglaust eyðihjarn.

Fólk á flótta í Breiðholtskirkju

Í störfum mínum sem prestur í Breiðholtskirkju, hef eg kynnst fjölda fólks sem hefur verið á flótta frá heimalandi sínu. Ástæður flóttans eru margvíslegar, en eitt er þessu fólki sameiginlegt, og það er löngunin til að eignast friðsælt líf, líf án ótta eða óöryggis. Öðru hef ég tekið eftir, og það er eftirsjá eftir heimalandinu. Eitt sinn sagði við mig hælisleitandi, er við ókum fram hjá grónum hlíðum Elliðaárdalsins: „Svona er heima.” Svo lýsti hann hlíðum og ásum og ánni sem liðaðist um dalinn hans. Greinilegt var hve hann saknaði heimahaganna.

Margir sækja um hæli hér á landi, og mörgum hefur verið vísað úr landi. Það er alltaf jafn sárt að sjá á eftir einstaklingi, sem hefur þráð það eitt að fá dvalarleyfi og eignast líf á nýjum stað, sérstaklega ef þú hefur náð að kynnast viðkomandi. Flestum er vísað aftur á þann stað, sem þau komu til, er þau komu inn í Evrópu. Oftast er það Ítalía eða Grikkland. Þar er þeim komið fyrir í húsnæði eða búðum fyrir hælisleitendur. Það er því miður sorglegt, að mörg þeirra lenda á götunni og eiga fáa að, sem liðsinna þeim. Við vonumst til þess að þau tengsl sem við mynduðum í ferðinni megi nýtast okkur í framtíðinni.

En fátt er jafn gefandi og að upplifa gleði og þakklæti viðkomandi einstaklinga, sem fá dvalarleyfi hér á landi. Þau eignast sannarlega nýtt líf og nýja von. Þau fá tækifæri til að verða á ný nýtir þjóðfélagsþegnar, sem þrá það eitt að lifa friðsælu lífi og skila sínu til samfélagsins. 

Í Breiðholtskirkju og fleiri kirkjum hefur þjóðkirkjan stutt fjölda hælisleitenda og flóttamanna, sem eru kristnir eða hafa tekið kristna trú. Hér í kirkjunni er söfnuður að vaxa úr grasi, alþjóðlegi söfnuðurinn í Breiðholtskirkju. Hann er undir traustri forystu prests innflytjenda. Söfnuðurinn er samsettur af fólki úr ólíkum áttum. Margir koma úr annarrri menningu og eru með ólíkan bakgrunn og Íslendingar. En það er bæði gefandi og fræðandi að eiga samskipti við þetta ágæta fólk. Barnafólki er að fjölga, og fátt er yndislegra en að heyra hlátrasköll og hjal barna í kirkjunni.

Það er ávalt ánægjulegt innan þjóðkirkjunnar, ef söfnuður fær nýjan starfsmann, en nú finst okkur einstök gleði á ferðum. Sá ánægjulegi atburður gerðist hér í kirkjunni fyrir þrem vikum síðan, að djákni var vígður til starfa hér í Breiðholtskirkju. Djáknar sinna sérstaklega kærleiksþjónustu í kirkjunni. Þjónusta djáknans okkar verður í barna og öldrunarstarfi í Breiðholtsókn, en einnig í barnastarfi í alþjóðlega söfnuðinum hér í Breiðholtskirkju. Það er sérstakt gleðiefni.

Að létta bróður böl
og bæta raunir hans,
að seðja, gleðja, græða mein
sé gleði kristins manns.

Miskunn Guðs í syni sínum Jesú Kristi er grundvöllur kærleiksverka kristinna manna. Við erum kölluð til þess að þjóna náunganum í kærleika.

Sigur Guðs í upprisu Jesú Krists er staðfesting þess að allt er í hendi Guðs. Líf og dauði eru á hans valdi. Í trúnni á hann getum við óttalaust horft til framtíðar í trausti til kærleika hans til okkar, og tekist á við þau verkefni sem lífið færir okkur.

Vér trúum á þitt orð,
þótt efi myrkvi jörð,
að miskunn við hinn minnsta sé
þér, mannsins sonur, gjörð.

(Sálmur 374, How - Sigurbjörn Einarsson)

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.