Það sem í gær var á morgun er í dag

Það sem í gær var á morgun er í dag

Í eilífðinni er tími og rúm ekki til, hjá honum sem var og er og verður. Það sem blasir við er að annað hvort erum við með Guði, í öruggu skjóli vináttu hans, hér og nú og um eilífð - eða ekki. Ég veit hvað ég vil – veist þú það?

Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“

En Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.

Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“ Lúk 15.1-10

Það sem í gær var á morgun er í dag. Þessi gullvæga setning varð til í svari við undrun dóttur minnar fjögurra ára: Kemur hún í dag, mamma, en þú sagðir að hún kæmi á morgun? Já, blómið mitt, það sagði ég í gær, en nú er morgundagurinn kominn. Í dag er það sem í gær var á morgun.

Einnig þetta líður hjá

Það sem í gær var á morgun er í dag. Tíminn flýgur og við berumst með vængjum hans, spyrnum stundum við fótum í reiðilegri uppgjöf, viljum ekki að vindur tímans feyki okkur áfram. Stundum er okkur þveröfugt farið í vonlausri baráttu við verkefni sem við óskum þess að væru afstaðin fyrir löngu.

Einnig þetta líður hjá, er sagt meðal tólfsporafólks. Einnig þetta líður hjá. Það er gott að vita þegar erfiðleikar steðja að og lítið verður við gert. Verst að þannig skuli líka hamingjustundunum farið, stundunum sem við viljum halda í. Við vitum þó að hvorttveggja kemur aftur, sorg og gleði eru endurtekin stef í lífi mannsins, hlátur og grátur, skin og skúrir.

Gleymskunnar haf

Er lífið þá aðeins ein hringrás gærdaga og morgundaga og élja sem birtir upp um síðir? Sömu stefin, ár út og ár inn? Kannski, kannski ekki. Það veltur á viðbrögðum okkar og vilja til nýrrar hugsunar, hvort við höfum opið hjarta gagnvart þeirri gæsku Guðs sem vill leiða okkur til afturhvarfs (Róm 2.4) – og þar með umbreytingar.

Hver er slíkur Guð sem þú, sem fyrirgefur misgjörðir og sýknar af syndum þá sem eftir eru af arfleifð þinni? Reiði Guðs varir ekki að eilífu því að hann hefur unun af að sýna mildi. Og enn sýnir hann oss miskunnsemi, hann fótumtreður sök vora. Já, þú varpar öllum syndum vorum í djúp hafsins. Míka 7. 18-19

Guð varpar öllum syndum vorum í djúp hafsins. Þetta er máttug mynd, mynd endurnýjunar, umbreytingar, mynd hins nýja upphafs. Einhvern tíma heyrði ég sagt og gleymi ekki: Guð varpar öllum syndum okkar í gleymskunnar haf - og í því hafi er bannað að fiska. Í gleymskunnar hafi er bannað að fiska.

Okkur hættir til að fara á veiðar í gumsi gærdagsins og vilja drösla því með okkur inn í morgundaginn. Samviskubitið yfir liðnum mistökum, sársaukinn vegna þess óréttar sem aðrir hafa beitt okkur, eftirsjáin eftir einhverju sem var en verður ekki framar... Allt er þetta byrði á deginum í dag og óhollt nesti inn í morgundaginn.

Nýtt upphaf

Það veit Guð og þess vegna vill hann létta því öllu af okkur. Hann gefur nýtt upphaf, nýjan dag í dag þar sem sekt gærdagsins er farin og áhyggjur morgundagsins utan seilingar.

Þær myndir sem Jesús dregur upp í dæmisögum dagsins eru skýrar og græðandi: Guð lætur sé annt um þig og mig, sérstaklega ef við erum týnd á einhvern veg. Hann segir þetta í samhengi við gagnrýni sem hann varð fyrir frá því fólki sem hafði allt sitt á þurru, fræðimönnum og faríseum.

Við – eins og þessir góðu menn – erum oft dálítið fljót að dæma og lítum jafnvel niður á aðra, dæmum fólk í hóp tollheimtumanna og bersyndugra. En ég verð að segja fyrir mig að því lengur sem ég stend í stól sem þessum (og þá á ég við árin sem líða, ekki mínúturnar!) og prédika fyrir öðrum, því betur finn ég fyrir mínum eigin takmörkunum og algjörri þörf fyrir Guð. Ég er þessi týndi sauður sem Guð hefur lagt allt í sölurnar fyrir, gefið sitt eigið hjarta svo mitt mætti verða heilt.

Að gefa úr sér hjartað

Þetta með hjartað er annars ágæt líking. Hugsum okkur að hjartfólginn vinur okkar eða einhver úr okkar nánustu fjölskyldu væri dauðvona vegna hjartasjúkdóms. Myndum við vera reiðubúin að gefa honum eða henni hjarta okkar til lífgjafar, þó það kostaði okkur lífið?

Nú er þetta ekki valkostur, ekki í boði, læknisfræðilega séð, að taka líf til að gefa líf. En þetta gerði Guð. Hann gaf líf sitt, okkur til lífs, gaf okkur hjartað úr brjóstinu, blóðið úr æðunum, lagði líf sitt í sölunar fyrir okkur. Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf (Jóh 3.16).

Týnd, glötuð, lögð í rúst

Orðið að glatast, er sama orð á grískunni í Jóh 3.16 og notað er í guðspjalli dagsins, Lúk 15, um að týnast, απολλυμι. Það þýðir að farast eða jafnvel deyja, vera eyðilagður, lagður í rúst, og svo auðvitað glataður eða týndur, en líka að mistakast hrapalega eða vera algjörlega miður sín.

Við þekkjum sjálfsagt öll þá líðan sem býr að baki þessari grísku sögn. Eitthvað það gerðist í gær sem hefur þau áhrif á líðan okkar í dag að okkur finnst sem við munum ekki horfst í augu við morgundaginn.

Dýpri veruleiki

En þarna býr einnig dýpri veruleiki að baki. Dæmisagan sem er framhald þessara tveggja um týnda sauðinn og týnda peninginn, dæmisagan um týnda soninn, undirstrikar að glötun mannsins er sjálfvalin. Guð vill ekki dauða nokkurs manns, en vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum (1Tím 2.4). Það er ekki Guð sem týnir okkur. Það erum við sem týnumst sjálfum okkur – og Guði, eyðileggjum okkur sjálf og jafnvel líf annarra í leiðinni og uppskerum ömurlega líðan.

Það er vondur staður að vera á. Líf í fyrirdæmingu er glatað líf – og hefur áhrif inn í eilífðina. Það er reyndar eitt af því sem er ekkert vinsælt að tala um í kirkjunni, að líf okkar hér og nú eða kannski réttara sagt lífsafstaða okkar í dag hafi áhrif á líf okkar um framtíð. Himinn og helvíti eru sagðar úreltar staðsetningar og hið eina sem gildi sé dagurinn í dag.

Vissulega ber okkur að leggja áherslu á daginn í dag eins og hér er gert í þessari prédikun. Hin frægu orð Jesú í Fjallræðunni eru alltaf þörf áminning: Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning (Matt 6.34). Þetta er mikil lífsspeki og ber að fylgja – bæði vegna þess að dagurinn í dag er gulls ígildi og ekki síður vegna þess að dagurinn í dag hefur áhrif inn í eilífðina.

Í öruggu skjóli

Stóra spurningin er: Treystum við Guði fyrir lífi okkar? Treystum við honum fyrir deginum í dag – og hverjum degi okkar upp frá því, hér á jörð og handan hennar? Himinn og helvíti eru sjálfsagt ekki staðir eins og Akureyri og Ástralía. Í eilífðinni er tími og rúm ekki til, hjá honum sem var og er og verður. Það sem blasir við er að annað hvort erum við með Guði, í öruggu skjóli vináttu hans, hér og nú og um eilífð - eða ekki. Ég veit hvað ég vil – veist þú það?

Guð hefur varpað öllum syndum okkar í djúp hafsins. Öllum, ekki bara sumum. Verum með í þeim veruleika þar sem við eigum nýtt upphaf, endurnýjunartíma. Lífið er ekki bara eilíf hringrás gleði og sorgar, kvíða og tilhlökkunar, gærdaga og morgundaga. Lífið er þessi dagur í fylgd með góða hirðinum, stundum hönd í hönd við hann sem gefur nýtt hjarta, stundum í fangi hans þegar erfiðleika steðja að.

Bæn fræðimannsins Reinholds Niebuhr segir allt sem segja þarf:

Guð, gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli. Að lifa einn dag í einu, njóta hvers andartaks fyrir sig, viðurkenna mótlæti sem friðarveg, með því að taka syndugum heimi eins og hann er, eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg ef ég gef mig undir vilja þinn svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur. Amen.