Fórnargjöfin í nafni réttlætisins

Fórnargjöfin í nafni réttlætisins

Guðspjall: Jóh . 6. 1-15 Lexia: 5. Mós. 8 2-3 Pistill: 2. Kor . 9. 6-11

Við höfum hlýtt á guðspjallið þar sem greint er frá því þegar Jesús mettaði fimm þúsund manns með fimm byggbrauðum og tveimur fiskum. Hver átti þetta brauð og hver átti þessa fiska? Þetta hófst allt með söguhetjunni, litlum dreng sem gaf Jesú allt sem hann átti í fórum sínum á þeirri stundu.

Allt þetta fólk var þarna samankomið, fimm þúsund menn og sennilega annað eins af konum og börnum. Þegar Jesú var litið yfir allan þennan mannfjölda þá segir hann við lærisveininn Filippus til að reyna hann en hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gjöra: “Hvað eigum að gjöra? Hvernig eigum við að fæða allan þennan mannfjölda? Filippus segir auðvitað það sem lá beinast við að segja á þessari stundu: “Þú verður að kaupa mat handa þessu fólki” Svo bætti hann við: “Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, hvernig ætlar þú að fara að þessu. Þess má geta að einn denar voru venjuleg daglaun landbúnaðarverkamanns. Lærsveinninn Andrés fékk aðra snjalla hugmynd. Hann ákvað að spyrja mannfjöldann hvort einhver ætti mat sem hann gæti gefið?

Þögn sló á mannfjöldann og fólkið leit á hvort annað. Margir hljóta að hafa átt eitthvað af mat en allir þögðu, sennilega af ótta við að missa brauðbitann eða fiskbitann sem þeir áttu þó og höfðu meðferðis.

Í mannfjöldanum leyndist lítill drengur sem horfði opin mynntur stórum augum á Jesú. Sultardropar virtust leka úr nefi hans. Hann sló skyndilega létt á vasa sína inn undir kyrtli sínum og hrópaði: “Já, herra, ég á mat” Úr pússi sínu dró hann fimm byggbrauð og tvo mjög litla fiska sem hann hafði veitt fyrr um daginn. Það hlakkaði í mannfjöldanum en Jesú var ekki hlátur í huga. Hann tók byggbrauðin og litlu fiskana og bauð mannfjöldanum að fá sér sæti. Hláturrokurnar bárust um víðan völl meðan fólkið var að setjast niður. Litil drengurinn stóð eftir sem áður og starði undrunaraugum á brauðin og fiskana sem hann hafði gefið Jesú. Jesús gaf lærisveinunum fæðuna og bauð þeim að brjóta brauðið og fiskana og færa mannfjöldanum. Lærisveinarnir spurðu. Hvað eigum við til skiptanna? Jesús sagði: “Byrjið bara að skipta þessu á milli mannfjöldans”. Þeir gerðu eins og Jesú bað og deildu matnum út til mannfjöldans. Það tók þá drjúgan tíma og alltaf var eitthvað til til skiptanna. Það var raunar svo mikið til að enda þótt mannfjöldinn væri orðinn mettur þá hafði hann enn eitthvað í höndum sér. Matarleyfunum var síðan safnað saman að boði Jesú og fylltu þær tólf körfur. Hann hlýtur að hafa gefið litla drengnum það sem gekk af matnum. Því að þetta var jú brauðið hans og fiskarnir.

Mannfjöldinn lofaði Jesú fyrir þetta kraftaverk og vildi gera hann að konungi. Ég held að Jesús hafi lofað þennan litla dreng sem hafði gefið allt sem hann átti. Honum bæri því konungstignin fremur en sér. Því að þeir sem gefa munu ekki búa við skort heldur nægtir.

Þegar þú ert beðin/ n um að gefa eitthvað sem þú heldur að þú getir ekki gefið hugsaðu þá til sögu þessa litla drengs sem gaf allt sem hann átti og fékk í staðinn ríkuleg laun til baka.

Bygg var ódýrasta korn er í brauð var notað. Það bendir því til að drengurinn hafi verið af fátæku fólki og þessi skammtur dagsnestið hans. En því gefur hann Jesú þessa dýrmætu eign sína? Hvað er dýrmætara svöngum manni en matur?

Ef til vill hefði Jesús ekki unnið kraftaverkið ef þessi fórnargjöf hefði ekki komið fram. Atvikið vekur hjá okkur spurningu. Hverju fórnum við? Gjafmildi telst til hinna mestu dyggða sé gjöfin gefin með gleði. Postulinn Páll talar um þetta í pistli dagsins er hann segir: “Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks”

Litli drengurinn veitti sinn skerf í þágu guðsríkisins og Guð blessaði að sönnu ríkulega þessa gjöf. Ég hef stundum spurt mig að því hvernig við sem söfnuður getum veitt okkar skerf til guðsríkisins? Fyrir skömmu vakti athygli mína að sóknarnefnd Grensás safnaðar í Reykjavík ákvað í haust að taka upp samskot eða fórn í hverri messu. Mæltist þetta vel fyrir. Fórnin sem söfnuðurinn innti af hendi rann síðan til fyrirfram ákveðinna málaflokka. Samskot í desember mánuði runnu til Hjálparstarfs kirkjunnar, samskot á kristniboðsdaginn runnu til Kristniboðssambandsins, samskot á Biblíudaginn rann til hins Íslenska Biblíufélags. Þetta er nokkuð sem við ættum að hugleiða hvort við ættum ekki að taka upp í ríkari mæli en áður vegna þess að ég treysti orðum postulans sem segir að Guð elski glaðan gjafara. Guð launar þeim ekki síður sem gefur af skorti sínum en þeim sem gefur af nægtum sínum.

Nú um helgina var tekið í notkun heimili fyrir langveik börn í Kópavogi sem gefið var nafnið Rjóður. Á föstudaginn hlustaði ég á viðtal í útvarpinu við Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar þar sem hann lýsti því hvernig hann hefði fyrir hönd fyrirtækisins boðist til þess á fundi hjá heilbrigðisráðherra að ýta þessu heimili úr vör ef ráðuneytið sæi um að manna það. Þessu var tekið fagnandi og draumur langveikra barna og foreldra þeirra varð að veruleika. Fleiri stöndug fyrirtæki í landinu ættu að taka þetta sér til fyrirmyndar og stuðla með framlagi sínu að því að draumar fleiri einstaklinga og félagasamtaka geti orðið að veruleika. Slík fórnarlund felur í sér blessun fyrir þá sem gefa og þá sem þiggja.

Að baki allra þessara gjafa býr vakandi kærleiksríkur hugur þess Guðs sem lýkur upp hendi sinni og seður allt sem lifir, - sem ber umhyggju fyrir andlegum og líkamlegum þörfum fólks. Hvers erindrekar viljum við vera í þessum heimi? Okkar sjálfra eða Guðs? Guð þarf á okkur að halda í þessum heimi. Hann vill nota hendur okkar og fætur til að seðja þá sem hungrar og þyrstir ettir réttlæti svo dæmi sé tekið. Megi Guð gefa að réttlætið nái fram að ganga í þessu þjóðfélagi nútímans þar sem lítilmagninn á stundum undir högg að sækja. Amen.