Sóknir hafa dregið saman í viðhaldi og þjónustu

Sóknir hafa dregið saman í viðhaldi og þjónustu

Af því má ráða að ekkert er til skiptanna til þess að greiða niður langtímaskuldir upp á 2.2 milljarða króna.
fullname - andlitsmynd Einar Karl Haraldsson
16. nóvember 2017

Það er venjan að skoða rekstrar- og efnahagsreikning saman en velja ekki bara út tölur sem henta eins og gert er í Fréttablaðinu 16. nóv. á bls. 6, þar sem fjallað er um hagnað kirkjusókna. Þegar þessar tvær hliðar eru skoðaðar saman í yfirliti Ríkisendurskoðunar fyrir 2016 sést, að hundrað milljón króna vantar á að samandreginn tekjuafgangur 234 sókna hrökkvi fyrir skammtímaskuldum. Af því má ráða að ekkert er til skiptanna til þess að greiða niður langtímaskuldir upp á 2.2 milljarða króna. Þá er ekki í reikningunum sýndur dulinn vandi sem felst í því að söfnuðir landsins sinna aðeins um 40% af áætlaðri viðhaldsþörf bygginga. Þar er á ferðinni framtíðarvandi þar sem uppsöfnuð viðhaldsþörf er metin á um tvo milljarða króna miðað við síðastliðið ár. Gengið hefur verið svo nærri rekstri flestra safnaða að tekjur þeirra nægja engan veginn lengur til að veita þá þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum og starfsreglum kirkjuþings.

Sjálfstæðismál

Sóknargjaldamálið er sjálfstæðismál ekki síður en spurning um aura. Að frumkvæði stjórnvalda árið 1987 létu söfnuðir af hendi sjálfstæð gjöld sem runnið höfðu til kirkjustarfs og viðhalds kirkjubygginga frá því um ellefu hundruð og fengu þess í stað hlutdeild í tekjuskatti. Sérstaklega var tekið fram við setningu laganna að eingöngu væri um að ræða tæknilega breytingu og trúfélög héldu áfram sjálfstæðum tekjustofni. Í sjö ár samfellt hefur Alþingi vikið til hliðar lögbundnum útreikningi með bráðabirgðaákvæði og þar með gert 7 milljarða kr. af sóknargjöldum trú- og lífskoðunarfélaga upptæka í ríkissjóð án þess að lækka tekjuskatt sem því nemur á móti. Þessi inngrip til langframa og án tilefnis vegna sérstaks neyðarástands í fjárhag ríkisins ganga gegn markmiðum laganna. Þeim var ætlað að tryggja sjálfstæði og fyrirsjáanleika í rekstri trúfélaga.

Viðurkennt hefur verið í skýrslum þriggja innanríkisráðherra að sóknargjöld hafi verið skert um 25% umfram það sem flestar ríkisstofnanir máttu þola eftir bankahrunið og hremmingar í efnahagsmálum 2008. Spurning er hvort gætt hafi verið meðalhófs í niðurskurði á sóknargjöldum af hálfu stjórnvalda. Sérstaka athygli vekur í því sambandi að í apríl á þessu ári voru samþykkt lokafjárlög fyrir árið 2015 þar sem 6 milljarða króna skuldir ríkisstofnana frá hruni voru felldar niður. Viðskiptaráð hefur haldið því fram að þarna hafi ríkisstofnanir fengið verðlaun fyrir framúrkeyrslu, en líta má svo á að með þessu hafi ríkisvaldið viðurkennt að of langt hafi verið gengið í aðhaldi miðað við lögbundin hlutverk stofnananna.

Heildarendurskoðun?

Árin 2013 og 2014 hófst á vegum þáverandi innanríkisráðherra framkvæmd áætlunar um að rétta við sóknargjöldin á fjórum árum. Miðað við fjárlög 2014 var þörf á hækkun til að jafna út umframskerðingu talin vera samtals að fjárhæð 663 m.kr. Á ríkisstjórnarfundi 5. september 2014 fékk innanríkisráðherra heimild til þess að gera samkomulag um að umframskerðing sóknargjalda yrði jöfnuð út á fjórum árum.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016 var áætlun um að rétta við sóknargjöldin stöðvuð og þess krafist af hálfu þáverandi innanríkisráðherra að fram færi heildarendurskoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju, þar með talið á sóknargjöldum. Þjóðkirkjan skipaði þegar í stað viðræðunefnd og af hálfu stjórnvalda var sett til verksins nefnd þriggja ráðuneytisstjóra. Ekkert bólar á niðurstöðu þótt meirihluti fjárlaganefndar hafi lagt áherslu á það síðastliðið vor að heildarendurskoðunin lægi fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2018.

Væri lokuð

Hallgrímskirkja er engan vegin dæmigerð fyrir sóknir landsins. Hefði hún aðeins sóknargjöld að reiða sig á væri búið að loka henni. Með turnviðgerð á sl. áratug safnaðist 550 milljón króna skuld og nú standa yfir stórfelldar steypuviðgerðir á út- og innveggjum sem kosta munu hundruð milljóna áður en yfir lýkur. Straumur ferðamanna í turninn hefur gert Hallgrímssöfnuði kleift að standa undir viðgerðum, viðhalda öflugu tónlistar- og listastarfi og nýta tekjuafgang til niðurgreiðslu skulda. Sóknargjöldin hrökkva ekki fyrir hefðbundnu safnaðarstarfi.

Einar Karl Haraldson, kirkjuþingsmaður og gjaldkeri Hallgrímssafnaðar