Í föruneyti Jesú

Í föruneyti Jesú

Bækur Biblíunnar sýna okkur mannlegar persónur – mikla leiðtoga sem oft höfðu oft mikla galla. Það er meðal annars munurinn á frásögum Biblíunnar og Facebook. Þar er ekki bara besta hliðin til sýnis heldur líka sú sem við vildum kannski frekar fela.

Hátt fjall klifið, hetja ljómar, frá himni rödd – hinir skelfast, skilja ekkert. Um síðir allt augljóst.

Þetta gæti verið efni í fantasíusögu. Þá þætti okkur ekkert af þessu undarlegt. Í slíkri sögu væri allt þetta undarlega alveg sjálfsagt. Og þetta litla föruneyti sem klífur fjallið alveg í takti við allt annað. En við erum ekki að lesa Hringadróttinssögu eða Harry Potter horfa á star wars. Og táknmálið, sem kannski virðist framandi, hefur skýringar – og merking þess á erindi við okkur hér og nú, svo undarlegt sem það kann að virðast. --

Hann tók þá með sér. Þessa þrjá sem hann treysti best. Þeir klifu fjallið saman. Þrír þeirra voru óvissir um til hvers væri farið. Þeir fylgdu leiðtoganum. Uppi á fjallinu gerðist eitthvað sem hafði mikil áhrif, umbreytandi áhrif. Þegar þeir fóru niður voru þeir ekki samir. --

Fjöllin eru oft staður átaka og opinberunar. Móses fór upp á fjall til að tala við Guð. Kom niður með boðorðin. Á Karmelfjalli mætti Elía spámaður fjögurhundruð og fimmtíu spámönnum Baal og sannaði þar mátt Guðs. --

Kaflinn sem ég las hér áðan frá altarinu var úr Markúsarguðspjalli. Þar er ekki sagt hvað þeir voru að tala um við Jesú, Elía og Móses. En í Lúkasarguðspjalli segir um sama atburð: “Þeir ræddu um brottför hans sem hann skyldi fullna í Jerúsalem.” Í Jerúsalem yrði verkið fullunnið.

Sagan um ummyndunina á fjallinu stendur ekki stök, hún er ekki í tómarúmi. Ef við skoðum hana í samhengi guðspjallsins sjáum við að í kaflanum á undan henni talar Jesús einmitt um að hann eigi eftir að þjást, verða líflátinn, rísa upp. Hann segir það með berum orðum og Pétur, Pétur sem var stundum svolítið fljótfær, dregur hann til hliðar og ávítar hann. Svona tala menn ekki, Jesú. Það gengur allt vel núna. En Jesú hlustar ekki á Pétur, heldur segir blátt áfram að það að fylgja honum muni verða erfitt, en erfiðleikarnir séu þess virði. Því hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en fyrirgjöra sál sinni. --

Pétur vill ekki horfast í augu við það sem er í vændum. En Móse og Elía vita hvað framundan er. Mig langar til að segja að þeir hafi stappað í Jesú stálinu, minnt hann á til hvers hann var kallaður.

Það sem bíður Jesú þegar hann kemur niður af fjallinu verður erfitt, framundan eru átök – það er annað fjall sem heitir Golgata - dauði sem öllu breytir, líf sem kviknar – umbreyting, ummyndun.

Ekkert verður eins og áður var. Í stað dauða, líf. Í stað vonleysis – von.

-- Lærisveinarnir hljóta að hafa verið eins og steinrunnir þarna uppi á fjallinu. Klæði Jesú urðu svo fannhvít að engin bleikir á jörðu gat svo skínandi gert. Skemmtileg praktísk sýn þarna – eins og fatahreinsunin hafi komist í textann. En það ljómaði af honum.

Þeir sjá Jesú ummyndast . Á grísku er talað um metamorfósis. Það þýðir ekki að menn breytist í eitthvað annað en þeir eru heldur frekar að þeirra eigið eðli verði sýnilegt. Þegar fræið umbreytist í moldu og upp vext blóm, þá er það metamorfósis. Þegar marglitt fiðrildið skríður úr brúnni púpu og breiðir út vængina þá er það metamorfósis. Þegar Jesús ummyndast sjá lærisveinarnir hver hann er í raun og veru.

Það er ítrekað í textanum að lærisveinarnir urðu skefldir. Það er skiljanlegt. Eitthvað gerist sem er yfirnáttúrulegt. Eðlileg viðbrögð við slíku er ótti. En svo er eins og Pétur átti sig. Elía og Móse höfðu sérstaka stöðu í huga Gyðinga og það að þeir birtust hlaut að þýða að Guðs ríki væri í nánd. Gyðingar biðu einmitt eftir því. Hvar var betra að bíða eftir því en einmitt á fjallinu þar sem fyrirheitið virtist vera að rætast. “Gerum tjaldbúðir hér – dveljum hér” --

Tifinningar skipta máli. Bæði í sögum og í lífinu. Hvernig við sjáum og túlkum og tileinkum okkur það sem við lesum eða heyrum markast af því hvernig okkur líður þá stund.

Þegar við lesum eða hlustum á sögur, eða horfum á leikrit eða mynd, þá ræðst áhugi okkar yfirleitt af því hvort við náum að samsama okkur með persónunum. Snerta þær okkur á einhvern hátt, skiljum við þær?

Ég leik þess vegna oft þann leik í predikun að spyrja með hverjum við getum samsamað okkur í Guðspjallinu. Hver erum við? Getum við samsamað okkur með lýsandi verum? Kannski ekki. En með manninum Móse, sem leiddi Ísraelslýð út úr Egyptalandi. Leiðtoganum sem treysti sér ekki til að tala við Faraó og varð að fá Aron bróður sinn í það hlutverk. Leiðtoganum sem sífellt glímdi við óþekkan lýð, sem kvartaði og kveinaði og kenndi honum allt sem aflaga fór, Leiðtoganum sem upplifði sig örugglega oft sem milli steins og sleggju. Könnumst við við eitthvað slíkar tilifnningar?

Hvernig er með Elía? Spámanninn mikla sem sagði kóngum og drottningum til syndanna og drap falsspámennina, en varð svo dauðhræddur um líf sitt og flúði og faldi sig, bað Guð að leyfa sér nú að deyja, hann væri búinn að fá nóg. Það getur tekið á að fylgja köllun sinni, Elía er dæmi um það. Þekkjum við þá tilfinningu að berjast fyrir einhverju en finnast við uppskera vantrú, vanþakklæti, eða of miklar kröfur?

Getum við samsamað okkur með Jesú? Hann var kraftaverkamaðurinn, læknirinn og predikarinn sem hafði æsta aðdáendur en líka aðra sem gagnrýndu hann og unnu gegn honum. Hvar sem hann fór var hann krafinn um lækningu, visku, kraftaverk. Og hvar sem hann fór mætti honum líka gagnrýni og efi. Við sjáum í guðspjallinu hvernig hann leitaði í einveru til að hvíla sig, en var eltur af því að fólkið gat ekki fengið nóg og allir vildu gera hann að sínum. Vildu þvinga hann í hlutverk sem var ekki hans.

Hefur þig einhvern tíman dreymt um að komast í skjól fyrir öllu því og öllum þeim sem þurfa á þér að halda eða þeim sem sífellt gagnrýna þig og vinna gegn þér? Þá áttu kannski eitthvað sameiginlegt með Jesú þegar hann klífur fjallið.

Eða erum við eins og lærisveinarnir? Stundum óviss hvert leiðin liggur, stundum hrædd. Erum við eins og Pétur, trausti Pétur, fljótfæri Pétur, séði Pétur, sem sagðist aldrei myndi bregðast en afneitaði þó meistara sínum nóttina sem hann var svikinn. Hefurðu einhvern tíman brugðist? Verið fljótfær? Þrátt fyrir góðan vilja? Pétur sem Jesús sagði við: Ver hirðir sauða minna. --

Bækur Biblíunnar sýna okkur mannlegar persónur – mikla leiðtoga sem oft höfðu oft mikla galla. Það er meðal annars munurinn á frásögum Biblíunnar og Facebook. Þar er ekki bara besta hliðin til sýnis heldur líka sú sem við vildum kannski frekar fela.

Og við höfum öll þá hlið. Ég er alls ekki að segja að við þurfum endilega að skrifa um hana eða játa opinberlega, en það getur verið gott að minna sig á það að partur af því að vera manneskja er að stundum ljómum við og leiðum og stundum bregðumst við og felum okkur.

Kirkjan er ekki fésbók. Kirkjan er mannlegt samfélag um andlegan boðskap. Og einmitt af því að hún er mannlegt samfélag eru allir velkomnir þangað, með sýna kosti og galla. Með gleði sína og von, ást og hamingju, vonbrigði og sorg, reiði. Velkomin – til að vera og taka þátt í samfélaginu. Við komum þangað eins og við erum. Og við þurfum ekki að þykjast. Við getum slegið upp tjaldbúðum, slakað á, verið í návist Drottins og í návist hvers annars. --

Þegar við viljum lýsa því sem ekki fellur að okkar sýnilega veruleika grípum við til sagna og mynda. Þess vegna eru stórar sögur fullar af táknum. Fjöll, föruneyti, barátta, hetjur sem lýsir af, dauði og upprisa – allt eru þetta þemu sem við þekkjum úr mörgum sögum og í því samhengi má benda á fjölda greina sem hafa verið skrifaðar um trúarleg tákn í ýmsum skáldsögum og kvikmyndum.

Guðspjallssögurnar eru líka fullar af myndmáli og táknum. Lýsandi klæði, rödd af himni – þetta undirstrikar hið guðlega í Jesú. Móse og Elía undirstrika að nýjir tímar eru í nánd.

Jesús, sem klífur fjallið, mætir þar staðfestingu á því hver hann er og hvert hlutverk hans er. Hann fer niður betur undirbúin undir það sem býður hans.

-- Föruneyti Jesú fór upp á fjallið og það breytti lífi þeirra. Þeir fóru upp með Jesú, þeir fóru niður með Drottni. Pétur skrifar um þetta mörgum árum seinna þegar hann segir:

Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga.

Ég er ekki í vafa um að sá Pétur sem predikaði Jesú krossfestan og upprisinn sá atburðina á fjallinu í allt öðru ljósi en sá Pétur sem vildi byggja þar tjaldbúðir. Hann skildi það sem hafði gerst í ljósi þess sem á eftir kom. Og líkt og atburðirnir gáfu Jesú kraft til að halda áfram þá hefur þessi minning gefið Pétri kraft til að horfast í augu við sitt eigið hlutverk í lífinu. --

Við erum í föruneyti Jesú. Við komum saman í kirkjunni og mætum honum. Við komum eins og við erum, með allan okkar farangur og óskir og skoðanir og mætum Kristi upprisnum. Við heyrum lesið og sagt frá og það á að gefa okkur kraft til að skoða hver við erum í raun og veru, hvert er eðli okkar og hlutverk. Skoðaðu sjálfan þig út frá textanum. Hvert er þitt sanna eðli? Hvernig ætlar þú að takast á við erfiðleika og hverjir eru í föruneyti þínu?

Nú er siðbótarár; 500 ár frá því að Marteinn Lúther negldi 95 greinar á kirkjuhurðina í Wittenberg sem talið er marka upphaf Lútersku siðbótarinnar. Eitt af því sem er miðlægt í Lútherskri hugsun er náðin. Náð Guðs og fyrirgefning. Það eru ekki verkin sem réttlæta okkur heldur Guð. Við, sem erum ófullkomin, erum fullkomin af því að Kristur samsamar sig með okkur. Og nákvæmlega þar erum við kölluð til að vera samstarfsmenn Guðs í lífinu.

Hvað þýðir það? Það þýðir að við erum kölluð til að leggja okkar af mörkum í baráttunni á stóra vígvellinum, vinna gegna mannhatri, rasisma, kvenfyrirlitningu. Hlúa að þeim sem eru hjálpar þurfi, sem eiga undir högg að sækja. Kölluð til að vernda náttúruna og vinna gegn því sem eyðileggur sköpunina –til að takast daglega á við okkur sjálf og leggja því góða lið í okkar.

Þessi sérstaki texti um ummyndunina á fjallinu, býður okkur að slást í lið með föruneyti Jesú, upp á fjallið, á hverjum degi, sjá hans innsta eðli og meta í því ljósi líf okkar, orð og gerðir. Lífið er fjallganga. Þá er gott að vera í föruneyti Jesú.