Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“En Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim sem týndur er þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var. Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.
Eða kona sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að ég hef fundið drökmuna sem ég týndi. Þannig segi ég yður að englar Guðs munu gleðjast yfir einum syndara sem bætir ráð sitt.“ Lúkas 15.1-10
Frá því segir, að einn af hinum íslensku kirkjuhöfðingjum fyrri alda léti setja svohljóðandi áletrun á legstein sinn: “Jesu Christi peccator”, en það er latína og merkir “syndari Jesú Krists”. Annað var ekki ritað á steininn, hvorki aldur né æviþráður. Einungis þessi óbrotnu orð: “Syndari Jesú Krists”.
Síðari ritningarlestur þessa Drottinsdags, sem er 3. sunnudagur eftir Þrenningarhátíð hefur m.a. að geyma eftirfarandi orð Páls postula úr Efesusbréfinu:
Svo mikil var elska Guðs til okkar að þótt við værum dauð vegna misgjörða okkar endurlífgaði hann okkur með Kristi - af náð eruð þið hólpin orðin - og reisti okkur upp með Kristi Jesú og bjó okkur stað hjá honum í himinhæðum.
Hún er sérkennileg sjálfsmyndin finnst okkur efalaust mörgum nútímamanninum, sem þeir draga upp, hinn forni íslenski kirkjuleiðtogi og Páll postuli. Báðir kynna sig sem “syndara”. “Ég er syndari” segir annar. “Við erum dauð vegna misgjörða okkar” mælir hinn. Syndarvitund er sameiginleg kristnum mönnum, en orðið synd merkir sundrung. Sá sem hefur heyrt orð Jesú í Fjallræðunni: “Verið þér því fullkomnir, eins og yðar himneski faðir er fullkominn” þekkir vanmátt sinn þaðan í frá, vanmátt sinn og sekt sína andspænis vilja Guðs. Ég verð aldrei fullkominn og þú ekki heldur, hlustandi minn góður. Andspænis þessu háleita markmiði erum við mislukkaðir, báðir tveir. Fjölmörg ummæli Jesú, í Fjallræðunni og víðar, sýna okkur, ef við vissum það ekki fyrir, að af eigin dáðum erum við syndarar og annað ekki, ófærir með öllu um að uppfylla siðferðiskröfur Krists, lúta lögmáli hans, hlýða boðum hans og fyrirmælum.
Þessi skilgreining á manneðlinu, að maðurinn sé syndari, er vissulega neikvæð og margir eiga erfitt með að horfast í augu vil sjálfa sig í dag, ganga í sjálfa sig og viðurkenna þessu einföldu staðreynd:
Ég er syndari. Ég er ekki réttlátur, ekki fullkominn – langt frá því meira að segja.
En hvort sem ég viðurkenni hana eða ekki þá lýsir þessi skilgreining því í hverju mér er áfátt, hvað ég megna ekki að gera eða að vera.
Spurningin er: Er hún nothæf til að gera grein fyrir manninum, þessi skilgreining, sem aðeins talar um, hvað maðurinn getur ekki gert? Vantar ekki eitthvað jákvætt í skilgreininguna, eigi hún að koma að haldi sem mannlýsing?
Það er rétt, að hér er einungis bent á skuggahlið mannsins, bakhliðinni. Spurningin er og verður, hvort sú hlið ein dugi til að lýsa mér eða þér: Hvað er ég annað en syndari og mislukkaður maður? Hvað ert þú umfram það að vera óréttlátur, óguðlegur?
Svarið höfum við reyndar þegar heyrt: Hinn forni íslenski kirkjuhöfðingi sagðist vera “syndari Jesú Krists”. Postulinn segir: “Af náð eruð þið hólpin orðin”. Hvað merkir hún þá þessi undarlega yfirlýsing, syndari Jesú Krists? Postulinn svarar því:
Svo mikil var elska Guðs til okkar að þótt við værum dauð vegna misgjörða okkar endurlífgaði hann okkur með Kristi .
Eða með öðrum orðum. Jesús Kristur kom í heiminn til að endurlífga okkur synduga menn, til að frelsa okkur undan synd og myrkri.
Maður sem lýsir því yfir, að hann sé syndari, segir aðeins hálfa sögu. Syndari Jesú Krists, - þar er sagan öll sögð, hin jákvæðu sögulok ekki síður en hið neikvæða upphaf.
Í þeirri viku sem nú er hafin fer fram prestastefna Íslensku Þjóðkirkjunnar en slík stefna hefur verið haldin hér á landi um aldir. Um leið mun prestafélag Íslands fagna níutíu ára afmæli sínu. Íslenzka þjóðkirkjan er hluti hinnar evangelisk- lúthersku heimskirkju, en hún hefur frá upphafi teflt fram þeim mannskilningi, sem ég rakti hér fyrr. Marteinn Lúther sem kirkjudeildin er kennd við, orðaði stöðuna á þá leið, að maðurinn sé í senn og í jafn miklum mæli syndugur og réttlátur eða “réttlættur” eins og það fyrr og síðar var orðað, réttlættur af trú fyrir hinn krossfesta og upprisna frelsara heimsins.
Samkvæmt þessum skilningi Lúters hef ég ekki gert neitt til að réttlæta sjálfan mig. En Kristur hefur frelsað mig, keypt mig lausan undan synd og dauða, gefið mér sitt réttlæti sem varir um alla eilífð. Jesús skýrir þetta vel í dæmisögunum tveimur sem Guðspjall dagsins geymir. Þar segir hann annarsvegar frá sauðnum sem týndist og hinnsvegar frá týndu drökmunni, en ein drakma var mikið fé á dögum jesú. Góði hirðirinn leitar uppi týnda sauðinn til að bjarga honum undan úlfum og ræningjum. Og konan sem á drökmuna sem týnist leitar um allt húsið þangað til hún finnur hana aftur. Þannig er Guð góður hirðir sem leggur allt í sölurnar fyrir týnda sauðinn. Og Guð er kona sem leitar að hinum týnda fjársjóði og hættir ekki fyrr en hann er fundinn. Þá er líka slegið upp veislu og kallað á vini til að samgleðjast.
Við sem heyrum dæmisöguna erum aftur á móti sauðurinn og drakmann. Við týnumst svo oft frá Guði og okkur sjálfum, týnum sjálfum okkur á lífsins leið og megnum ekkert án Guðs. Þetta eru einföld sannindi sem við öll þekkjum ef við horfum af einlægni í eigin barm. Hver hefur ekki upplifað einhverntíman á æfinni hvað það er að vera bjargarrlaus, einmana, yfirgefinn og svikinn af sjálfum sér og öðrum eða að vera í tilvistarkreppu? Það hef ég oft gert og þú án efa líka hlustandi góður.
En þá er það Guð sem hefur frumkvæðið.
Guð gefst ekki upp. Guð leitar að okkur, þangað til hann finnur okkur, okkur sem vorum týnd. Og þá er slegið til veislu, fagnaðar, til að gleðjast yfir hinum týnda sem er fundinn. Hvert og eitt skiptum við þannig óendanlega miklu máli í augum Guðs. Þetta undirstrikar Jesús aftur og aftur í dæmisögum sínum. Allt stefnir að hinu sama. Af náð Guðs erum við hólpin, án eigin verðleika, eins og týndi sauðurinn og týnda drakmann sem sjálf geta ekkert lagt að mörkum til að finnast. Og þetta er hinn mikli gleðiboðskapur kristinnar trúar.
En þá vaknar spurningin, hvað svo? Hvað eigum við að gera þegar Jesús hefur leitað okkur uppi, frelsað okkur, fundið okkur? Svarið við þeirri spurningu er meðal annars að finna í lokaerindi 43. Passíusálms þar sem sálmaskáldið talar beint við Jesú:
“Hjálpa þú mér, svo hjartað mitt hugsi jafnan um dæmi þitt og haldist hér í heimi nú / við hreina samvizku og rétta trú”
Ég á sem sagt alltaf að hugsa um hvernig frelsarinn leitaði mig uppi og fann mig, leysti mig undan synd og dauða. Ég á að þakka þennan kærleika sem hann hefur sýnt mér. Og ég á að bera ávöxt samboðinn frelsunininn, sýna þakklætið í verki með góðum verkum mínum.
Þannig erum við kristnir menn kallaðir til góðra verka sem einstaklingar og kirkja, en kirkjan er samfélag þeirra sem Jesús hefur fundið og frelsað. Við eigum að leita uppi týnda og þjáða og hjálpa þeim eins og Kristur hjálpaði okkur. Og kirkjan á umfram allt að vera farvegur kærleikans, réttlætisins og manngæskunnar – farvegur góðra verka og skjöldur ljóssins gegn máttum myrkranna í heiminum.
Það var vegna þessa sem kirkjan var í fararbroddi hér á landi í skólamálum, félagsmálum og hverskonar framfaramálum á 19. og 20. öld eins og hún hafði reyndar verið frá upphafi byggðar í landinu. Og vegna þessa hlutverks láta kristnir menn sig um víða veröld varða hag einstaklingsins, hina kúguðu, fátæku og umkomulausu og berjast gegn óréttinum í sérhverri mynd. Hjálparstarf kirkjunnar er lýsandi dæmi um það.
Þess vegna voru það mikil gleðitíðindi þegar samstaða varð um það á Alþingi nýverið að halda inni í grunnskóla og leikskólalögum ákvæðu um að kennsla skuli byggja á kristinni menningararfleifð í skólum landsins. Því það er menningararfleið hinna góðu verka, sem aftur eru grundvöllur þess samfélags velferðar, réttlætis og lýðræðis sem við byggjum í dag. Traustari grunn er vart hægt að hugsa sér börnum og unglingum til handa.
En öll þau góðu verk sem kristin menningararfleifð vitnar um ávinna kristnum manni og kirkjunni, hvorki eitt né neitt. Þau eru þakklætisverk og annað ekki, vitna um þakklæti þess manns sem var týndur og er fundinn, sem var dauður en Jesús kallaði til lífsins á ný.
Ég læt þetta verða lokaorðin hér í dag. Leggjum allt okkar ráð í hendur miskunnsömum frelsara okkar, Drottni Jesú Kristi, með gleði og fögnuði í hjarta. Megi hann nú sem fyrr frelsa okkur undan ógnum myrkranna og gefa okkur þann frið, sem ekkert fær haggað.