Kirkjan er ekki sölubúð

Kirkjan er ekki sölubúð

Kirkjan okkar er heilagt hús. Það er vígt og er sérstaklega frátekið til helgrar þjónustu. Það er margt sem við myndum aldrei líða að fram færi í kirkjunni. Þar myndum við t.d. ekki halda Þorrablót, heldur ekki almenna dansleiki og því síður að í kirkjunni yrði sett upp sölubúð þar sem naut, sauðir og dúfur væru til sölu.

Kirkjan okkar er heilagt hús. Það er vígt og er sérstaklega frátekið til helgrar þjónustu. Það er margt sem við myndum aldrei líða að fram færi í kirkjunni. Þar myndum við t.d. ekki halda Þorrablót, heldur ekki almenna dansleiki og því síður að í kirkjunni yrði sett upp sölubúð þar sem naut, sauðir og dúfur væru til sölu. Okkur finnst fráleitt að tala svona af því að það er svo fjarri þeim viðhorfum sem við höfum til kirkjunnar og þess sem þar fer fram. Ekki vegna þess að þorrablót geti ekki verið hinar bestu samkomur eins og almennir dansleikir eða markaðstorg sem býður til sölu margs konar varning. En allt hefur sinn stað, tilgang og sína stund. Það er oft gott að spyrja sjálfan sig: “Hvað er mér heilagur staður og hvað helgar slíkan stað”?

Í guðspjallinu sem ég las héðan frá altarinu segir frá Jesú sem kemur í musterið í Jerúsalem og sér að þar var búið að koma upp líflegu markaðstorgi. Minnumst að musterið er helgasti staður Gyðinga. Páskar voru skammt undan, stærsta hátíð þeirra, sem minnast brottfararinnar úr herleiðingunni í Egyptalandi forðum. Þá er miklu fórnað af sauðum og nautum og eru heilagir gripir til slíkra verka. En Jesú mislíkaði hvernig búið var að vanhelga heilagan stað, steypti niður peningum víslaranna, hratt borðum þeirra og rak þá út úr helgidóminum um leið og hann hrópaði: “Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð”.

Þessi aðgerð Jesú hefur án efa ekki verið til vinsælda fallin hjá mörgum. Sumir hafa misst dýrmætan spón úr aski sínu og án efa hefur það verið hin besta skemmtan og tilbreyting að rölta um á slíku markaðstorgi, sýna sig og sjá aðra og gera jafnvel reyfarakaup. En Jesús hagaði orði og verki ekki í ljósi vænlegra vinsælda eða lét tækifærishyggju almannaróms ráða gjörðum sínum, heldur var samkvæmur heilögu orði eins og vilji Guðs boðar og er Guði samboðið.

Þannig viljum við leitast við að umgangast kirkjuna okkar, af virðingu , þakklæti og lotningu. Þar fara fram athafnir í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda, athafnir sem eru Guði til dýrðar og okkur til blessunar. Og fyrir miðju í hverri kirkju stendur altarið, táknrænt fyrir samfélagið með Guði, og skírnarfontur og predikunarstóll hvor til sinnar handar. Þetta er þrenningin sem helgar þennan stað, því við þessa þrenningu tengjast sakramenntin og náðarmeðulin órjúfanlegum böndum.

Börnin eru borin til skírnar. Í skírninni felst fyrirbæn og blessun, helgun og að svara boði Jesú Krists. Jesús sagði við lærisveina sína: “Farið og skírið og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður”.Fermingin er samofin skírninni, staðfesting hennar og byggir á trúfræðslu. Þannig er skírnin grundvöllur samfélagsins með Guði, sem er lifandi krikja. Þá er kirkjan ekki aðeins hús, heldur samfélag fólks sem á sér heilaga kjölfestu, trúna á Guð, skapara himins og jarðar, sem Jesús Kristur hefur opinberað í orði sínu og verkum, dauða og upprisu. Og fyrirheit trúarinnar er eilíft líf sem barnið er helgað í skírninni. Samfélagið um trúna á sér samastað í kirkjunni.

Fótboltalið nær ekki árangri nema það æfi vel og reglulega saman. Það gildir um uppskeru í öllum íþróttum og um flest sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Þjálfun og reynsla, æfing og endurtekning skiptir svo miklu máli um færni til verka og árangur af störfum. Það gildir líka um trúarlífið. Trúin byggist svo mikið á rækt og íhugun, þekkingu og samfélagi. Börnum er mikið gefið af aðstandendum sínum að með þeim sé reglulega beðið. Bænin þroskar, víkkar sjóndeildarhring, stykir virðingu fyrir samferðafólki og elur með börnunum sjálfsvirðingu og lotningu gagnvart heilögu gildismati. Og bænin er ekki síður göfug aðferð til þess að glæða einbeitingu og styrkja sjálfstraustið. En umfram allt er bænin samfélag með Guði, einlægt samtal sem byggir á trausti og trúnaði. Eins og fótboltamaðurinn getur verið einn og sér snillingur með boltann, þá verður hann að vera í liði sem nær saman til þess að ná árangri. Það gildir um kirkjuna. Hún er samfélag um rækt í gefandi trú. Þessi kirkja er umvafin lifandi menningu sem fram kemur m.a. í listrænni sköpun hvort sem birtist í sönglífinu, siðum og hefðum, eða öðrum listrænum formum sem glæða starf og útlit í kirkjunnií skapandi lífi. Og þar viljum við að allt sé gjört af fremsta megni, vel og af metnaði.

En trúin beinir líka hugsun og sjónum að dýpstu spurningum um mannsins líf, tilveru og tilgang. Trúnni er svo umhugað um heill og velferð mannlífsins. Allt sem Jesús Kristur sagði og gjörði var í þágu farsældar. Trúin þráir blómlegt og fagurt mannlíf. Hún stríðir við að varpa ljósi á sannverðug lífsgæði. Beinir sjónum að því að njóta og gefa, þiggja og upplifa. Dæmisagan um manninn og hestinn sem settir voru innan hárra múra þar sem allt mátti finna sem hugur girntist, er mér ofarlega í huga. Hesturinn naut lífsins innan múranna sáttur við sjálfan sig, en maðurinn varð gjörsamlega friðlaus og hugsaði fyrst og fremst um það eitt að komast yfir múrinn til að sjá hvað væri hinu megin. Þannig er maðurinn skapaður til að skapa, halda ferðinni áfram, takast á við framtíð sína og deila kjörum sínum í blíðu og stríðu með samferðafólki. Og þar er það friður og kærleikur sem mörgum úrslitum ræður um heill og velferð.

Ég hef fundið það stundum í samskiptum mínum við unglingana, að það sem er erfitt hljóti að vera leiðinlegt, það sem er tímafrekt eigi að forðast, að nýtt hljóti að vera betra en gamalt og að magn sé eftirsóknarverðugra en gæði. Ekki þarf að undra það þó að slík viðhorf komi fram í hugsun unglinganna þegar gildismatið í þjólífinu er orðið gegnumsýrt af þannig boðskap. Þess vegna er svo mikilvægt, að börnin og unglingarnir eigi innra með sér staðfestu sem byggir á reynslu, kjölfestu sem hvílir á virðingu. Að þau eigi sér heilaga viðmiðun sem hafi takmörk, sem ekki verða brotin. Ekki aðeins börn og unglingar, heldur allir menn. Að kærleiksríkur Guð, skapari himins og jarðar, sé lifandi veruleiki í lífi og störfum og yfir hann, vilja hans og orð, verður ekki gengið. Að trúin skapi umjörð í hugsun og hjarta sem virðir heilög takmörk. Maðurinn og lífið hans er heilagt af því að það er sköpun Guðs, er sjálft musteri Guðs. Og við erum hendur hans á jörðinni, send til að vinna verkin hans samfélaginu til heilla og farsældar.

Í lokaorðum guðspjallsins, sem ég las frá altarinu, líkti Jesús líkama sínum við musteri, kirkjuna. Þannig á kirkjan, samfélag fólksins í trúnni að vera eins og Jesús Kristur í orði og verki. Ekki bara einstaka sinnum á sunnudögum, heldur alla daga, í dagsins önn, hvar sem unnið er lífinu til farsældar. En samastaður okkar í kirkjuhúsinu þegar við komum saman til helgrar þjónustu er þá til að styrkjast í trúnni, þakka og þiggja í bæn og lofgjörð og uppfræðast af heilögu orði. Og við biðjum fyrir þeim sem fjarstaddir eru, líka fyrir þeim sem við þekkjum ekki.

Kirkjan er heilagt hús. Hér gilda óskrifaðar reglur, sem gerðar eru kröfur um að séu virtar. Það gildir um lífið allt og að þar séu til staðar heilög viðmið. Og þegar grannt er skoðað þá eiga þær umgengisreglur kjölfestu og uppsprettu að rekja til kristinnar trúar. Þess vegna er svo mikilvægt að ræktin við trúna megi eflast og blómgast., að hún megi eiga helgan stað í huga og hjarta þjóðar. Í Jesú nafni Amen.