Móðirin jörð með sárin sín

Móðirin jörð með sárin sín

Sennilega er fátt sem sameinar fólk almennt, þvert á trúar- og lífsskoðun, eins og umhyggja fyrir umhverfinu. Því við erum hvert öðru háð og sannarlega skiptir það okkur öll gríðarlegu máli að umhverfið sé lífvænlegt.

Í dag, sunnudaginn 12. júní, er þess minnst með trúarlegum athöfnum af ýmsum toga að leiðtogar heimsins komust fyrir hálfu ári að samkomulagi í París um að takmarka hlýnun jarðar eins og kostur er, svokallað COP21 samkomulag. Kynningartexti vegna fundar sem haldinn var í Háskóla Íslands sl. miðvikudag lýsir þessu vel:

Samkomulagið er fyrsti marghliða samningurinn í loftslagsmálum sem gerður hefur verið á 21. öldinni og er hann mikilvægt skref í áttina að grænni og umhverfisvænni hagkerfum á alþjóðavísu.

Mikilvægt er að ríkin nýti sér þann meðbyr sem myndast hefur í kjölfar ráðstefnunnar í París til þess að fullgilda samninginn og grípa til nauðsynlegra aðgerða í átt að settum markmiðum. Við samningaborðið settu Evrópusambandið og Ísland sér það sameiginlega markmið að minnka losun gróðurhúsaloftegunda um 40% fyrir 2030.

Þess má geta að áætlað er að Alþingi fullgildi samninginn fyrir Íslands hönd í ágúst.

Trúin og loftslagsmálin En hvað koma loftslagsmálin trúnni við? Og hvað getum við gert, sem einstaklingar, fjölskyldur og hreyfingar fólks? Sennilega er fátt sem sameinar fólk almennt, þvert á trúar- og lífsskoðun, eins og umhyggja fyrir umhverfinu. Því við erum hvert öðru háð og sannarlega skiptir það okkur öll gríðarlegu máli að umhverfið sé lífvænlegt. Þar að auki skipar jörðin og náttúran mikilvægan sess í öllum þeim trúarbrögðum sem ég þekki til. Í sumum trúarbrögðum er litið á jörðina sem heilaga, talað um móður jörð. Í sálmi sem sr. Sigurbjörn Einarsson orti út frá sólarsöng Frans frá Assisi segir meðal annars (Sálmar 2013 nr. 840):

Móðirin jörð með sárin sín seður og gleður börnin þín, hallelúja, hallelúja. Þrátt fyrir mannsins blóðgu braut blessar þú hennar móðurskaut. Þökkum Drottins dásemd alla. Hallelúja, hallelúja, hallelúja.
Í kristinni trú tilbiðjum við þó ekki náttúruna eða jörðina en við lítum á hana sem gjöf Guðs sem okkur ber að umgangast af virðingu, annast og hlú að umhverfi, dýralífi og plöntum. Þess vegna getum við tekið undir með fólki af öðrum trúarbrögðum á degi sem þessum, heitið því að gera okkar til að varðveita jörðina og blessa hana. Trúarhreyfingar og kirkjusamfélög geta verið leiðandi afl í átt að öruggri og réttlátri framtíð í loftslagsmálum. Við getum sameinað styrk okkar, endurnýjað heiti okkar og undirstrikað kröfur okkar um réttlæti í loftslagsmálum, segir á heimasíðu um þá viðburði sem í dag fara fram um allan heim. Við tilheyrum hvert öðru – og umhverfinu En hvað getum við gert sem einstaklingar og fjölskyldur? Í fyrsta lagi skulum við hafa hugfast að framlag okkar hvers og eins skiptir máli. Það erum við minnt á í guðspjalli dagsins sem fjallar um hirðinn sem týnir einum sauð af eitt hundrað (Lúk 15.1-10). Hann lætur sér ekki fátt um finnast heldur fer út að leita að þessum eina. Þegar sauðurinn finnst upphefst mikil gleði. Sama á við um konuna sem á tíu peninga og týnir einum. Hún leitar vandlega þar til peningurinn finnst og kallar síðan saman vinkonur sínar og grannkonur til að samgleðjast sér. Þessar dæmisögur Jesú kenna okkur meðal annars að hvert og eitt okkar er dýrmætt og að við tilheyrum hvert öðru í því samhengi sem við lifum og hrærumst í.

Hvað getum við þá gert fyrir umhverfið dýrmæta? Við getum til dæmis slökkt ljósin þegar við förum út úr herbergi. Það getum við öll gert, börn og fullorðnir. Við getum líka sparað vatnið með því að skrúfa fyrir kranann á meðan við burstum tennurnar. Kannski finnst okkur það ekki skipta máli í landi þar sem nóg er til af vatni en í það minnsta sýnum við þannig samstöðu þeim sem þurfa að spara hvern dropa. Við fullorðna fólkið getum hugsað okkur um þegar við kaupum í matinn, hvort við getum keypt innlenda vöru frekar en vöru sem hefur verið flutt langan veg með miklum tilkostnaði fyrir umhverfið. Við getum líka reynt að takmarka umbúðir eins og hægt er og minnka notkun einkabílsins.

Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar Á kirkjuþingi unga fólksins sem haldið var á biskupsstofu nýlega voru umhverfismál ofarlega á dagskránni. Meðal annars var minnt á umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar (samþykkt á kirkjuþingi í nóvember 2009) og handbók um umhverfisstarf í söfnuðunum, Ljósaskrefið, sem hefur að geyma margar góðar hugmyndir og hver söfnuður getur skuldbundið sig til að fylgja.

Í umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar segir meðal annars að þjóðkirkjan vilji leggja sitt af mörkum með því að

1. boða hógværð og látleysi í lífsstíl og neyslu 2. uppörva einstaklinga og samfélag í því að auðsýna ábyrgð í umgengni sinni um jarðargæði 3. vinna gegn sóun og ofneyslu 4. leggja sig fram um að hlynna að lífi og náttúru 5. stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðargæða, nýtni, orkusparnaði og endurvinnslu.
Umhverfissóðar allra landa iðrist! Við heyrðum í ritningarlestrinum úr spádómsbók Míka að Guð varpi „öllum syndum vorum í djúp hafsins“ (Míka 7.18-19). Nú þegar eru hafdjúpin mörkuð af syndum mannsins með mengun og ofveiði en einnig það getur Guð fyrirgefið og gefið okkur hugvit og kjark til að snúa við vondri þróun. Guð fyrirgefur, Guð sýknar, Guð hefur unun af að sýna mildi. Og Guð fyrirgefur líka umhverfissóðum sem iðrast!

Höfum í huga að náð Guðs, Guðs gjöf, trúin, eflir okkur til dáða. Því þó góðu verkin okkar, hvort sem það er gagnvart hvert öðru eða náttúrunni, afli okkur engra verðlauna hjá Guði eru þau eðlileg afleiðing trúarinnar. Trúuð manneskja vill vera heil og sönn í allri umgengni, líka við jörðina sína. Já, „við erum smíð Guðs, sköpuð í Kristi Jesú til góðra verka sem hann hefur áður fyrirbúið til þess að við skyldum leggja stund á þau“ eins og segir í Efesusbréfinu (Ef 2.4-10). Hugsið ykkur; fyrir liggur fallegur vegur góðra verka sem við getum sinnt og orðið þannig til gagns og gleði Guði og lífinu sem Guð hefur gefið. Að gleðjast saman Þess vegna er full ástæða fyrir okkur að gleðjast saman, þrátt fyrir ótryggt ástand í umhverfismálum. Gleði okkar er vegna þess að Guð hefur fundið okkur. Eins og góður hirðir og umhirðusöm húsmóðir gætir Guð að okkur og eflir okkur til samstöðu og góðra verka. Við erum ekki glötuð. Við höfum ekki tapað. Við erum frjáls og tilheyrum vinningsliðinu á himni og á jörðu. Því lofum við Guð með Sigurbirni Einarssyni í útleggingu hans á sólarsöngnum:

Lof fyrir hverja hlýja sál, helgaða breytni, verk og mál hallelúja, hallelúja, alla sem láta ljósið þitt leiða viljann og hjartað sitt. Þökkum Drottins dásemd alla. Hallelúja, hallelúja, hallelúja.